17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir stuðningi við þá skoðun að allar konur, sem ala barn, eigi að fá fæðingarorlof. Ég tel að þjóðin eigi að viðurkenna þennan rétt. En hins vegar stóð ég nú aðallega upp til þess að taka undir það sem síðasti ræðumaður flutti hér áðan, að mér virðist miklu eðlilegra að það mál fengi farveg í gegnum almannatryggingarnar heldur en atvinnuleysistryggingar. Að sumu leyti virðist mér líka, alveg eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að hæpið sé að þetta sé tekið í gegnum atvinnuleysistryggingar. Ég hygg að það sé rétt, sem hann sagði áðan, að þá þyrfti a. m. k. að breyta lögunum að nokkru og afla Atvinnuleysistryggingasjóði aukinna tekna. Veit ég og að slíks þarf líka með almannatryggingarnar, en þetta streymir nú út og inn gegnum ríkiskassann, eins og allir vita.

En það, sem ég ætlaði að minnast á hér líka, er annað í sambandi við þetta. Eins og við vitum fá konur, sem vinna hjá opinberum aðilum, eins og ríki og bæjarfélögum, þetta orlof, en aðrar að nokkru leyti og sumar alls ekki, þannig að það er mikið misrétti sem konur verða þarna fyrir. En jafnvel þó að þetta yrði samþ. eins og hér er gert ráð fyrir og sumar konur fengju fæðingarorlof gegnum ríki og bæ eða samninga sína þar, aðrar gegnum samninga við stéttarfélög að hluta og að hluta gegnum atvinnuleysistryggingar, þá finnst mér eiginlega fyrirkomulagið á þessu öllu ekki nógu skemmtilegt og tek því aftur undir það, að mér fyndist að þetta ætti að fá farveg gegnum almannatryggingar. Ég starfa við þannig stofnun þar sem einmitt konur vinna mikið, og ég hef þóst verða þess var að það ber nokkuð á einu, sem er konunum erfitt til þess að fá atvinnu, að menn eru að reyna að forðast að taka kannske í vinnukonur sem þeir eiga von á að muni ala barn innan tíðar eða á næstu tímum. En ef þetta væri allt saman fært í eina löggjöf gegnum eina stofnun og þjóðfélagið viðurkenndi í eitt skipti fyrir öll að hver kona, sem elur barn, eigi rétt á fæðingarorlofi, þá hygg ég að þessi vandi konunnar mundi hverfa, hvaða atvinnugrein sem væri, og það væri mikilsvert að mínum dómi.