17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Ég vil þakka þann áhuga á þessu máli sem fram hefur komið í ræðum hv. þm. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig eigi að fjármagna mál eins og það sem við erum hér að ræða um, og ég vona að hugmyndir manna um það mótist fyrst og fremst af því að við sjáum mögulega lausn. Áður en ég vík að umr. um fjármögnun okkar till. vil ég víkja að því sem fram kom í ræðum tveggja hv. þm. um aðferðina við framlagningu þessa máls.

Á það var drepið að eðlilegra hefði þeim hv. þm. þótt að þetta mál hefði verið flutt sem brtt. við þáltill. um fæðingarorlof og fæðingarstyrk, sem var lögð fram fyrr í vetur, og jafnvel hefði það flýtt málinu að snúa sér að því að afgreiða það mál. Þetta gefur mér tilefni til þess að vekja athygli á því, sem ég tel illa farið og er of algengt utan þings, sem ég hélt að kæmi síður fyrir innan þings, að menn rugluðu saman næstum því þáltill. og lagafrv. Það er mikill munur á því, hvort maður leggur til að skora á ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á síðara þingi lagafrv., sem síðan er ekki tilgreint nánar hvernig skuli vera, og svo hinu, að leggja fram skýrt og greinilegt frv. til ákveðinnar breytingar á lögum. Það liggur í augum uppi, að það er fljótlegri og einfaldari leið að leggja lagafrv. fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Það er tæpast um það að ræða í raun og veru, að þessir tveir hv. þm. rugli saman þáltill. og lagafrv., heldur vil ég vekja athygli á því að hér er komið nálægt atriði sem mér finnst verða frumkvæðisrétt þm. til vinnu á Alþ. Við megum ekki venja okkur á það, ef ég má orða það svo, ef við ætlum okkur að koma fram máli, að setja þá einfaldlega fram till. um að ríkisstj. .skuli semja frv. Ef við erum ákveðin í því hvernig við óskum eftir að hafa hlutinn, þá eigum við að semja frv. sjálf og leggja það fram. Ríkisstj. hefur nóg að gera, eins og við vitum öll, og er fjarri því að hún hafi tök á því að leysa öll mál á skömmum tíma sem leysa þarf, þó að við förum ekki að velta þeim verkefnum yfir á hana að semja fyrir okkur lagafrv. sem hægt er að leggja fram í einföldu formi. Þar við bætist að það er alkunna að mál tefjist ár frá ári, þegar lagðar eru fram þáltill. þar sem mjög er óákveðið tilgreint hvað gert skuli. Þetta er vinsælt form til þess að minna á mál, að það þurfi að gera einhverjar breytingar og bragarbætur á ýmsum sviðum, enda er þáltill. sú, sem hér var nefnd og vissulega fjallaði um athyglisvert mál, ekki aðeins um þetta atriði, fæðingarorlof, heldur líka um allt annað atriði, fæðingarstyrk svokallaðan, sem á að greiða við allar fæðingar og gengur nú til að kosta sængurlegu kvenna. Það er allt annað mál og ætti alls ekki nauðsynlega heima í sama frv. og þetta.

Þetta var aðeins um aðferðina við framlagningu málsins og lítillega um vinnubrögð þm. Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að leggja áherslu á að mér finnst að við ættum ef við getum að beita okkur fremur fyrir frv. en þáltill. sem við vísum til embættismanna úti í bæ, þó að ég viti að sjálfsögðu að þeir vinni störf sín vel og séu vissulega til þess færir að undirbúa lagafrv. En þeir hafa ærin verkefni fyrir og okkur er ætlað að gera þetta,

Þá vil ég víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Ég vil fyrst nefna eina tölu sem ég tel að byggist á alröngum forsendum, og hann nefndi í ræðu sinni sem röksemd gegn akkur frv. Hv. þm. nefndi að rætt hefði verið um kostnaðartöluna 450 millj. í fyrra, ef greiða ætti fæðingarorlof eins og hér um ræðir. Ef við reiknum með að sú tala hafi gilt í fyrra eða við skulum segja fyrir meira en ári, þá virðist svo sem þar hafi verið reiknað með þessari lágmarksupphæð fæðingarorlofs til allra kvenna sem fæða börn alls staðar á landinu. Ég vek athygli á því að þetta frv. nær aðeins til kvenna í verkalýðsfélögunum. (Gripið fram í ) Já, nú er það svo að fæðingar á öllu landinu í fyrra og í ár eru hvort ár um sig 4 400–4 500 samkv. upplýsingum sem ég hef úr Tryggingastofnum ríkisins. Nú getum við giskað á það, og ég játa, að það eru algerar ágiskanir sem ég verð að fara með, því að ég hef því miður ekki getað fengið nákvæmar upplýsingar, hvernig sængurkonur hafa skipst í launastéttir, en við getum gert ráð fyrir því t. d. að helmingur þessara kvenna hafi unnið utan heimilis eða verið í fastlaunaðri vinnu, skulum við segja. Við vitum að fjöldinn allur af konum á þessum aldri vinnur hjá hinu opinbera. Það getur vel verið að þessi tala sé of rúm, að helmingur þessara kvenna á þessum aldri vinni utan heimills. Það er trúlegt, að þær séu færri. Ef við gerum ráð fyrir, að helmingur af þessum hópi komi úr verkalýðsfélögunum, þá gæti látið nærri sú tala sem ég nefndi í viðtali í þingsjártíma útvarpsins um daginn, að það gæti verið um að ræða 100 millj. kr. En það er líklegt að þessi áætlun mín sé líka of rúm því að í þeim störfum, sem hér um ræðir, eru svo margar konur sem eru komnar yfir barneignaaldur. Trúlegt er því að þarna sé um töluvert lægri upphæð að ræða. Ég mun vinna að því á meðan frv. er í n. að reyna að fá sem allra gleggstar upplýsingar um þetta atriði, en hingað til hefur mér ekki tekist að fá þær nákvæmar. Á það er einnig að líta, að það yrði að skapast nokkuð fastar reglur fyrir því hvernig slíkar greiðslur færu fram úr Atvinnuleysistryggingasjóði, ef þetta frv. yrði að lögum. Það er ekki ólíklegt að til þess kæmi að það yrði að miða við fastráðningar, þannig að þegar allt kemur til alls, þá er ekki þarna um risavaxnar upphæðir að ræða.

Þær upplýsingar, sem fram komu í ræðu hv. 7. þm. Reykv. um fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs og hans fjölbreytilegu verkefni, voru sannarlega umhugsunarverðar. Ég hafði vissulega hugleitt þessa hluti áður en til flutnings þessa frv. kom, og mér er ljóst, að það eru hinir ólíkustu baggar sem bæst hafa á herðar Atvinnuleysistryggingasjóðs á undanförnum ánum, vegna þess eins að voldugir aðilar hafa talið að þarna væri um sterkan sjóð að ræða sem gæti borið sitt af hverju sem gera þarf í okkar fjárvana þjóðfélagi.

Eins og hv. 7. þm. Reykv, sagði, þá hefur verið tilhneiging til þess að þær skuldbindingar, sem ríkið leggur sjóðnum á herðar, hafi verið fremur um of heldur en van og þær hafi jafnan farið fram yfir það sem búist hafði verið við eða rætt hafði verið um. Ég sé ekki betur en að ríkið yrði einfaldlega að hlíta því að lög sjóðgins kvæðu á um að ekki væri um að ræða umframfé ríkinu til ráðstöfunar úr sjóðnum vegna þess að sjóðnum væri skylt að standa undir fæðingarorlofi kvenna úr verkalýðsfélögunum.

Það eru nokkrar skyldur ekki alveg ólíkar þessu sem sjóðnum hafa verið lagðar á herðar, svo sem t. d. námskeið til starfsþjálfunar eða endurhæfingar. Það má segja, að fæðing barns og sá tími, sem fer í að jafna sig eftir barnsburð, er að sönnu ekkert námskeið. Nokkurs konar endurhæfing er þó sá tími sem fer í að jafna sig eftir barnsburð. Ef kona á að vinna með fullum afköstum, þá þýðir ekki annað en að taka þann tíma, sem nauðsynlegur er, til þess að jafna sig eftir barnsburð. Þar við bætist, að í þessu fælist almenn viðurkenning þjóðfélagsins á þeim frumrétti nýfæddra barna að njóta umhyggju móður sinnar fyrstu vikurnar sem þau eru til. Ég held sem sagt að þarna sé um að ræða verkefni, sem engan veginn er óeðlilegt að ætla Atvinnuleysistryggingasjóði sem tekur að sér auk þeirra verkefna, sem ég nefndi hér áðan, t. d. að kosta slíka endurhæfingu um tíma eða starfsþjálfun. Sjóðurinn tekur að sér líka ýmiss konar fjárfestingarlán og framlög til framkvæmda í sambandi við endurhæfingu að ógleymdu því sem lagt er til húsnæðislánakerfisins. Allt eru þetta vitanlega þörf verkefni. En fyrst og fremst verður sjóðurinn að nota tekjur sínar til hagsbóta fólkinu sem er í verkalýðsfélögunum. Það efast enginn um það, að ríkinu er fjár vant til ýmiss konar fjárfestingar, og það eru ýmiss konar fjárfestingarsjóðir í landinu. Það, að ríkið skorti fé til ýmiss konar fjárfestingar, má ekki bitna á þeim hópi kvenna, sem er svona settur, að hann er í verkalýðsfélögum og hefur ekki getað fengið forsvarsmenn sína til þess að koma því til leiðar, að þær nytu fæðingarorlofs eins og aðrar launakonur í þjóðfélaginu.

Ég freistast til þess í þessu sambandi að vekja athygli á því að konur mega sín lítils í íslensku verkalýðshreyfingunni. Það hefur verulega merkilegt starf verið unnið í nokkrum verkalýðsfélögum, og fyrir dugnað forustukvenna í verkakvennafélögum fékkst í fyrra þriggja vikna fæðingarorlof. Það er þó allt og sumt. Ef nú forustumenn í verkalýðsfélögum vilja bera hag þessara kvenna fyrir brjósti, þá beini ég því til þeirra að sinna nú því máli sem liggur fyrir Alþ. og er að mínu viti fyrsta raunhæfa till. til þess að koma þessu máli í höfn, Menn geta velt því endalaust fyrir sér, hvort það sé eðlilegra að fjármögnum þessa máls eigi heima í Tryggingastofnun ríkisins eða Atvinnuleysistryggingasjóði, á sama tíma og við vitum að tekjutrygging aldraðra er allt of lág, ýmiss konar lífeyrisbætur Tryggingastofnunar ríkisins þyrftu að vera miklu hærri og á ári hverju bera þm, fram fjöldann allan af frv. sem eru þannig úr garði gerð að það er engu líkara en að menn haldi að í Tryggingastofnun ríkisins sé endalaus uppspretta fjár. Þessa fjáruppsprettu er ekki að finna nema í fjárl. hvers árs.

Hv. 5. landsk, þm. sagði í ræðu sinni að fjármögnun fæðingarorlofs hjá Tryggingastofnun ríkisins mundi tryggja það að konur nytu fullra launa í 3 mánuði á meðan þær væru frá vinnu vegna barnsburðar. Ég spyr: Hvernig þá? Það er ekki hægt að tryggja það nema sýna fram á hvaða fé á að nota til þess. Það er rétt, eins og kom fram í máli hennar, að flestir þeir sjóðir Tryggingastofnunarinnar, sem þarna koma til greina og eru samsvarandi þeim sjóðum sem í öðrum löndum eru látnir standa undir fæðingarorlofi, t. d. sjóður sjúkratrygginga, — þessir sjóðir eru hér á landi fjármagnaðir næstum að öllu leyti af ríkinu. Eini sjóðurinn sem til greina kæmi, vegna þess hvernig hann er fjármagnaður, er slysatryggingasjóðum Tryggingastofnunar ríkisins. Hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til þess að mega njóta bóta úr slysatryggingasjóði Tryggingastofnunar ríkisins? Það er ekki aðeins þannig, eins og hv. 5. landsk. þm. sagði, að hann sé fjármagnaður til þess að tryggja atvinnuöryggi launþeganna almennt við vissar aðstæður. Þessar aðstæður eru aðeins slys sem verða á vinnustað eða á leið til eða frá vinnustað. Ég verð að segja eins og er, að ég kann ekki við að flytja till. um að fæðingarorlof sé greitt úr þeim sjóði. (Gripið fram í.) Það gilda mjög strangar reglur um slysatryggingasjóð, það þekki ég vel. Og það er ekki aðeins vegna þess að ég sé með nokkrum hætti svipað sett gagnvart Tryggingastofnun ríkisins og hv. 7. þm. Reykv. er gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég á sem sé sæti í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins, en hv. 7. þm. Reykv. í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því fremur er mér um þetta kunnugt sem þetta mál hefur oft verið rætt í tryggingaráði. Og það er engan flöt hægt að finna á því að greiða fæðingarorlof með þessum hætti úr almannatryggingum, til vissra stétta kvenna, nema það væri að vísu hægt að ákveða svo einfaldlega með lögum. En á meðan okkur vantar fé til þess að greiða nauðsynlegar bætur til þeirra bótaþega, sem þegar eiga bótarétt, þá sýnist mér ekki þarna vera um eðlilegt né framkvæmanlegt verkefni að ræða, því að þessar konur eru ekki starfandi hjá ríkinu, heldur hjá öðrum aðilum. Mér sýnist fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs vera miklu eðlilegri sem grundvöllur fyrir því að greiða mætti úr honum bætur til þessa verkefnis.

Annars finnst mér það alveg rétt, sem fram hefur komið í máli þm., bæði hv. 7. þm. Reykv., 5. landsk. og annarra þm. sem hér hafa talað, að við ættum ekki að láta deilur um það úr hvaða sjóðnum eigi að greiða fæðingarorlof, tefja þetta mál. Við skulum heldur horfast í augu við það, að nú höfum við fyrir augum framkvæmanlega leið til að koma þessu máli í höfn. Það hefur ekki tekist í gegnum kjarasamninga, það er búið að reyna það árum og áratugum saman. Svo vel trúi ég því, að forustumenn verkalýðsfélaga hljóti að hafa barist fyrir þessu máli, að ég er farin að álíta, að með þeirri aðferð sé málið allt að því vonlaust. Ég held, að eina framkvæmanlega leiðin sé að ákveða þetta með lögum. Í því sambandi vil ég benda á, að Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki tryggir með löggjöf öllum launakonum fæðingarorlof. Ekkert Norðurlandanna greiðir fæðingarorlof samkv. eða hefur í löggjöfinni sinni gert ráð fyrir fæðingarorlofi með launum í skemmri tíma en frv. það, sem hér er lagt fram. Ég vek athygli á því að það er enginn sómi, heldur blettur á okkar reglum að þessu leyti, að við tryggjum þessum konum í þessum stéttum ekki þennan rétt.

Enn vil ég bæta við að árið 1967 var gerð hjá Sameinuðu þjóðunum alþjóðleg samþykkt um afnám misréttis gagnvart konum. Hér á landi fullnægir okkar löggjöf, sem betur fer, ég má segja að öllu leyti þessari samþykkt, nema þessu. Þess vegna vil ég enda þessi orð mín með því að minna á að það að velta þessu máli fram og aftur fyrir sér eitt árið enn gerir það ekki líklegra til þess að verða framkvæmt nokkuð í náinni framtíð. Verði þetta frv. hins vegar samþ. er enginn sem segir að það fyrirkomulag þurfi endilega að standa um aldur og ævi. En það er þó búið að ákveða og viðurkenna að konum ber þessi réttur og að sjóður, sem fjármagnaður er af atvinnurekendum beint að 1/4 og óbeint í gegnum opinbera skatta og skyldur til sveitarfélaga og ríkis, verður skyldugur að taka þetta verkefni að sér, þó svo að það bitni á vissum fjárfestingarframkvæmdum í landinu sem verða einhvern veginn að fá fé og eiga aðgang að ýmsum öðrum sjóðum.