17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vildi mjög gjarnan hefja mál mitt á því að taka undir þau orð, sem hv. síðasti ræðumaður viðhafði hér, að við værum ekki of mikið að metast um það hver ætti að borga, heldur hitt, að þetta ágæta mál hefði framgang, og það held ég að við séum út af fyrir sig öll sammála um. Það, sem ég gerði í minni ræðu, var að vekja athygli á því að ég teldi ekki að málið væri leyst með því fyrirkomulagi sem lagt væri til að haft yrði á fjármögnun þessa fæðingarorlofs skv. frv. Það var aðeins það, sem ég vildi vekja athygli á, og er sannfærður um að við getum það ekki, nema því aðeins þá að öðru verði breytt um leið.

Hér talaði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson um það, og raunar fleiri létu að því liggja, að það væri nær að greiðslur til kvenna í fæðingarorlofi færu fram á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs en að fé væri lánað til Byggingarsjóðs ríkisins eða annars slíks. Til þess að skipta á þessu tvennu þarf að breyta lögum — raunar ekki atvinnuleysistryggingasjóðs, það er í öðrum lögum að sjóðurinn er skyldugur til að kaupa þessi bréf. Það var það, sem ég var að benda á. Hér er ekki um val að ræða, heldur lagaskyldu. Og á sama hátt eru honum bundnir ýmsir aðrir verulega stórir baggar, því vildi ég vekja athygli á.

En ég vil engan veginn fara í neinar deilur um málið sjálft, því að ég vona að við séum öll hjartanlega sammála um að reyna að koma því áleiðis. Ég ætla ekki heldur að fara að deila um það hvaða upphæðir gæti verið hér um að ræða. Mér sýnist fljótt á litið að það, sem ég sagði áðan, muni nú standa, miðað við allar fæðingar. Ég ætla ekki að fara að eyða tímanum í að reikna í ræðustóli, það borgar sig ekki, en ég er þeirrar trúar að það eigi eftir að koma á daginn að hér sé um verulega miklar upphæðir að ræða. En sem sagt, það sem mér finnst vera aðalatriðið er að málið er ekki leyst með þessari till. þessa frv. Það verður, ef hún er samþ., að afla fjár til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða til framkvæmda sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur fjármagnað fram að þessu. Þetta held ég að liggi alveg fyrir, hvort sem það eru framkvæmdir einstaklinga, og á ég þar sérstaklega við það sem hv. þm. Pétur Sigurðsson hafði orð á, þetta hálfgerða gjafafé, sem farið hefur út úr sjóðnum í æðiríkum mæli til ýmissa staða á landinu, það eru svokölluð áhættulán, en sjóðurinn hefur heimild til eða er nú raunar gerð krafa um að hann láni, sem nemur 1/4 af vöxtum árlega. Úr slíkum lánum, sem eru miklu frekar styrkir en lán, mætti gjarnan draga, og þar erum við hjartanlega sammála. En hér er einnig um ákveðin lög að ræða, og við erum skyldugir skv. lögum að gera þetta. En það er atriði sem ég vildi mjög gjarnan að væri endurskoðað

Þá vil ég aðeins nefna það, gerði raunar áðan, að sjóðurinn lánar verulega til sveitarfélaganna, og ef kippt er að sér hendi á því sviði ætla ég að fullyrða að ein af fjórum stoðum, sem iðgjöldin byggjast á, er fallin. Það innheimtast ekki gjöld hjá sveitarfélögunum ef það yrði ákveðið að sjóðurinn lánaði sveitarfélögunum ekki neitt. Þá verður að endurskoða alla uppbyggingu iðgjalda sjóðsins. Ég hygg að nokkurn veginn það sama snúi að ríkissjóði, væri þó ánægður ef menn kæmu með sannanir fyrir öðru. (Gripið fram í: Nefndi ekki hv. ræðumaður að ríkissjóður hefði farið 100 millj. fram yfir?) Ja, það var aðeins í eitt sinn, en æðimiklu meira en þessar 100 millj. í þetta sinn, og eru þar ráðherrar bæði í vinstri og hægri stjórnum sekir um, eins og ég tók raunar fram áðan.

Að endingu vil ég aðeins segja það, að sjóðsstj. hefur lengst af litið svo á, stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, að henni bæri öðrum þræði ekki aðeins að sjá um að sjóðurinn væri fær um að greiða atvinnuleysisbætur, heldur að styrkja ýmiss konar atvinnuframkvæmdir sem mættu verða til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta hefur verið helsta leiðarljós stjórna Atvinnuleysistryggingasjóðs frá upphafi, og af þessum sökum hafa sjóðsstjórnir kannske gengið of langt, þ. e. a. s, að sjálft handbært fé sjóðsins hefur ævinlega verið ákaflega takmarkað, og það er t. d. núna ekki nema röskar 300 millj. kr., þannig að ef til verulegs vanda kæmi á atvinnusviðinu og atvinnuleysi yrði verulegt hér á landi, þá stendur sjóðurinn ákaflega illa að vígi. Þess vegna hefur það einmitt verið ákvörðun stjórnarinnar núna að það væri ekki frambærilegt neitt annað en að á þessu ári yrði handbært fé sjóðsins aukið verulega og mætti ekkert hindra það og gæti ekkert hindrað það, annað þá en verulegt atvinnuleysi og miklar bótagreiðslur.

En sem sagt, ég ætla aðeins að endingu að taka undir það, sem hér var sagt áðan og ég sagði raunar í minni fyrri ræðu, að við ættum að reyna að taka saman höndum um að finna leiðir til þess að það mál, sem hér er um rætt, fæðingarorlof, verði að veruleika nú á þessu þingi.