21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Í grg. þess segir, að hér sé um að ræða meðalstóra virkjun eða um 30 mw. að afli. Nú er það svo að á Austurlandi eru margvíslegir möguleikar til raforkuframleiðslu bæði í smærri virkjunum en hér ræðir um og einnig í stórvirkjunum.

Ef við lítum fyrst á hvernig málum er háttað þar eystra nú um rafafl, þá eru þar 4 vatnsaflsstöðvar, þ.e. Grímsá með 3200 kw., Fjarðarsel 170 kw., Búðará í Reyðarfirði 240 kw. og Smyrlabjargaá með 1430 kw. Samtals eru því núv. vatnsaflsstöðvar á Austurlandi með 5040 kw. afl. Við bætist nú á næstunni Lagarfossvirkjun, en gert er ráð fyrir að þegar hún verður tekin í notkun á næsta ári verði afl hennar 7500 kw. eða allmiklu meira en allra stöðvanna, sem fyrir ern, til samans.

Vegna þess að marga fýsir að sjálfsögðu að vita hvernig mál standa um Lagarfossvirkjun, er rétt hér í upphafi máls að drepa nokkuð á það mál. Það var í febr. 1972, að Rafmagnsveitur ríkisins undirrituðu samning við Skodaexport í Tékkóslóvakíu varðandi kaup á vélum og búnaði til Laxárvirkjunar. Tækin skyldu afgreidd á 18–26 mánuðum frá undirskrift samnings. Þegar kom fram á árið 1974 var sýnt að óhæfilegur dráttur hafði orðið á smíði nokkurs hluta af tækjunum, sem átti að afgr. í aprílmánuði á þessu ári. Ýmsar leiðir voru reyndar til að fá aðila til að standa við gerða samninga og afhenda tækin á réttum tíma. M.a. var málið tekið upp á fundum hinnar íslensku viðskiptanefndar, sem fór til Tékkóslóvakíu í septembermánuði, á fundum í Prag og lögð á það sérstök áhersla af formanni n., að þessu yrði hraðað, og bent á það mikla tjón sem af gæti hlotist.

Þegar ekki virtust neinar horfur á því að úr rættist varð það að ráði, að ég sendi iðnrh. Tékkóslóvakíu skeyti hinn 3. okt. s.l. og benti honum á það alvarlega ástand, sem mundi skapast, og hið mikla tjón, sem yrði fyrir allan almenning og atvinnulíf á Austfjörðum, ef ekki yrði kippt í lag, eftir því sem unnt væri úr því sem komið væri, afhendingu þessara tækja. Eftir röskan mánuð eða 6. nóv. kom svarskeyti frá iðnrh. Tékkóslóvakíu þar sem hann kvaðst hafa beitt sér í þessu máli og fullvissar iðnrn. íslenska um það, að þau stjórntæki, sem koma áttu í aprílmánuði, yrðu tilbúin til afhendingar 15. des. n.k.

Ef þessi afgreiðsla stenst er gert ráð fyrir að hægt sé að setja vélar í orkuverinu við Lagarfoss í gang um miðjan febrúarmánuð og orkuvinnsla gæti þá hafist stuttu síðar. Um það, hvort þessar áætlanir standast get ég ekki fullyrt nú, en vonir standa þó til að svo geti orðið.

Með tilkomu Lagarfossvirkjunar bætast 7500 kw. við vatnsaflsstöðvarnar á Austurlandi og verða þær þá samtals um 12500 kw. eða 121/2 mw.

Ef litið er á þá möguleika, sem þarna eru fyrir hendi nú, og horfur, þá er rétt að benda á að aflþörfin á Austurlandi er nú þegar orðin nokkru meiri en þessar stöðvar framleiða, þegar Lagarfossvirkjun bætist við. Er gert ráð fyrir því að á næsta ári, 1975, sé aflþörfin um 14,9 mw., á árinu 1976 verður hún 17.3 mw., 1977 19.9 mw. o.s.frv. Er gert ráð fyrir því í orkuspám að aflþörfin aukist á næstu árum um 21/2–3 mw. á hverju ári.

Nú er því ástandið þannig á Austurlandi að framleiða þarf mikið af því rafmagni, sem þar er nauðsynlegt, með dísilstöðvum. Þær dísilstöðvar, sem nú eru þar, munu vera 29 að tölu, samtals með um 12.7 mw. afli. Kostnaður við þessa orkuöflun er auðvitað gífurlegur. Á s.l. ári var kostnaðurinn við framleiðslu vatnsaflsstöðvanna um 27 millj. kr., en framleiðsla dísilstöðvanna 88 millj., og framleiddu þó vatnsaflsstöðvarnar nokkru meira eða ef talið er í orku í gwst., þá var framleiðsla vatnsaflsstöðvanna 27 gwst. sem kostuðu um 27 millj. kr., en framleiðsla dísilstöðvanna 23 gwst. sem kostuðu um 88 millj. kr. Á þessu ári verður útkoman miklu lakari. Er gert ráð fyrir að kostnaður vatnsaflsstöðvanna við að framleiða 29 gwst. verði um 29 millj., en framleiðsla dísilstöðvanna 31 gwst., kosti hvorki meira né minna en 217 millj. Þó að orkuvinnslan verði svipuð í þessum tveim tegundum aflstöðva, er kostnaðurinn við dísilstöðvarnar um það bil sjöfaldur.

Þetta ástand er ákaflega alvarlegt, bæði afl og orkuskortur og svo þessi gífurlegi kostnaður við framleiðslu á raforku í dísilstöðvum. Sem dæmi til frekari skýringar má geta þess, að ef ekki verður komin ný vatnsaflsstöðu í notkun árið 1978 er gert ráð fyrir að dísilstöðvakostnaðurinn verði 210 millj., á árinu 1979 310 millj. og á árinu 1980 410 millj., sem sé aukist um 100 millj. á hverju ári, hins vegar um leið og ný virkjun kæmi í notkun, eins og t.d. virkjun í Bessastaðaá, þá mundi þetta ástand gerbreytast, þannig að framleiðslukostnaðurinn við raforkuna mundi falla um hundrað millj.

Þannig er í stórum dráttum ástand um orkuframleiðslu á Austfjörðum nú sem stendur. Til viðbótar má geta þess að fyrirætlanir eru um að auka við dísilaflið sem varastöðvar á vissum stöðum á Austurlandi nú í vetur.

Ef við virðum fyrir okkur þau markmið sem stefna ber að í þessum efnum, er ljóst að afla þarf hagkvæmrar raforku á Austurlandi til heimilisnota, til atvinnurekstrar, og er þar bæði að telja frystihús, loðnubræðslu, almennan iðnað, búrekstur, og auk þess þarf að framleiða rafmagn til húshitunar. Nú er húshitun sérstakt viðfangsefni sem þarf að glíma við hér hjá okkur íslendingum, því að öllum er ljóst að stefna ber að því sem allra fyrst að:para hið dýra erlenda eldsneyti, þar sem er fyrst og fremst olían. Á ýmsum stöðum landsins eru möguleikar á nýtingu jarðhita, möguleikar á því að koma upp hitaveitum, eins og eru þegar bæði í höfuðborginni og á allmörgum stöðum annars staðar einnig. Hefur löngum verið talið að tiltölulega litlir möguleikar væru á húshitun með jarðvarma á Austurlandi. Þó er ljóst að á sumum stöðum eystra er jarðhiti, og má þar nefna sem dæmi Selárdal í Vopnafirði, í Hrafnkelsdal eru margar laugar, í Jökuldal gegnt Selárdal eru volgar lindir. Við Jökulsá ofarlega er laug allheit og nokkuð vatnsmikil. Í Fellum er einnig jarðhiti og hafa farið fram bæði viðfangsmælingar og boranir í Urriðavatni og gert ráð fyrir heitu vatni á ákveðnum stöðum þar á þessu svæði. Hér hafa ekki enn farið fram nægilega gagngerar rannsóknir og boranir og þarf að gera ráðstafanir til þess að í það verði ráðist til fullrar hlítar sem allra fyrst.

Í þessu sambandi má einnig geta þess, þegar rætt er um orku, að vitað er að víða í Leginum er gas, en hins vegar hefur það ekki verið rannsakað til hlítar. Sumir hafa talið tæknilega erfiðleika á þeim rannsóknum og slíkri vinnslu vegna dýpis í Leginum, en í því sambandi er rétt að taka fram varðandi borun á djúpsævi að þar hefur allri tækni fleygt stórlega fram á hinum allra síðustu árum. Er þarna einnig orka sem þarf sem fyrst að rannsaka.

En eins og ástatt er nú og horfur, meðan rannsóknir leiða ekki frekar í ljós um jarðvarma, hefur verið gert ráð fyrir að fyrst og fremst yrði rafmagn notað til húshitunar á Austurlandi.

Þegar þetta allt er virt, þá er sýnt að nú á næstunni þarf stór og mikil átök í orkumálum Austurlands, og eins og ég gat um í upphafi máls míns er þar bæði um að ræða möguleika á tiltölulega smáum virkjunum, meðalstórum virkjunum og stórvirkjunum. Fyrir nokkrum árum kom fram sú hugmynd að gera stórvirkjun í Fljótsdal og hafa farið fram forrannsóknir í þeim efnum. Er gert ráð fyrir að með virkjun hinna miklu fallvatna megi fá stöðvar sem séu að afli jafnvel upp undir 1500—1600 mw., eða þrem til fjórum sinnum stærri en Búrfellsvirkjun og Sigölduvirkjun til samans. Er ljóst, að gera verður gangskör að því að hraða öllum nauðsynlegum rannsóknum og áætlanagerð í þessu efni. Varðandi þær rannsóknir, sem fram hafa farið á stórvirkjun í Fljótsdal, vantar enn mikið á að hægt sé að gera áætlanir, sem ákvörðunartaka geti á byggst. Það verður mjög kostnaðarsamt. En í það þýðir ekki að horfa og verður það eitt af verkefnum nú alveg á næstunni að afla nauðsynlegs fjár til þess að hægt verði að hraða sem verða má öllum slíkum undirbúningsrannsóknum.

Það er ljóst, að í sambandi við slíkar stórvirkjanir þarf einnig að athuga hugsanlegan kaupanda eða kaupendur að þeirri orku, sem yrði umfram ef í slíkt yrði ráðist, og er þar að sjálfsögðu um mikið mál að ræða. Í því sambandi skal ég taka það fram að að undanförnu hafa borist óskir um það frá ýmsum erlendum aðilum að rannsaka þessa möguleika, og má segja að undanfarin ár hafi ýmsir erlendir aðilar snúið sér til bæði viðræðunefndar um orkufrekan iðnað og iðnrn. eða Orkustofnunar og látið í ljós áhuga á að rannsaka íslensk fallvötn og þá alveg sérstaklega þá stórfelldu virkjunarmöguleika á Austurlandi. Hvorki núv. né fyrrv. ríkisstj. hafa gert neinar ákvarðanir eða samninga í þessu efni, en þetta mál er allt til rækilegrar athugunar hjá ríkisstj., og ég vil undirstrika að í þessar rannsóknir verður að ráðast hið fyrsta, skipuleggja þær sem allra best og afla til þeirra nægilegs fjár. Ég vil í þessu sambandi leggja sérstaka áherslu á að þegar fullur kraftur verður settur á þessar rannsóknir, þá er nauðsyn að það verði fyrst og fremst íslenskir aðilar, sérfræðingar, verkfræðifyrirtæki, ráðgjafaaðilar, sem hafi þessi mál með höndum.

Ég minntist á nokkrar smærri virkjanir, og er þess þá fyrst að geta, að Rafmagnsveitur ríkisins sáu fyrir nokkrum árum um Grímsárvirkjun og síðan virkjun Smyrlabjargaár og nú Lagarfossvirkjun. En fleiri virkjanir hafa verið nefndar eða fleiri möguleikar og er auðvitað ljóst, að hvort sem ráðist verður í meðalstóra virkjun eins og Bessastaðaárvirkjun eða stórvirkjanir eins og ég nefndi, helst hvort tveggja á næstunni, þá þarf jafnframt að huga að hinum smærri virkjunum, m.a. vegna þess að slíkar smærri virkjanir heima í héruðum skapa mikið öryggi. Það er, eins og reynslan sýnir, varhugavert fyrir heila landshluta að byggja eingöngu á einni stórvirkjun með löngum háspennulinum. Ef eitthvað bilar eða bregst er voðinn vís. Þá geta smærri virkjanir heima fyrir verið til bjargræðis og öryggis.

Meðal þeirra möguleika, sem ýmist hafa verið kannaðir nokkuð eða eru til skoðunar, er virkjun í Geithellnaá í Álftafirði, Fossá í Berufirði, Fjarðará í Seyðisfirði, Sandvatni og Hvammsá í Vopnafirði. Það eru raunar fleiri möguleikar, en rétt að nefna þessa sérstaklega nú.

Í sambandi víð Lagarfossvirkjun, sem nokkur dráttur hefur orðið á af þeim ástæðum sem ég greindi, er rétt að nefna hér einnig Smyrlabjargaá, vegna þess sem fyrir kom á s.l. vetri, að sú virkjun varð óvirk um hríð vegna frostakafla og vatnsskorts. Á s.l. sumri voru gerð allmikil stíflumannvirki í sambandi við þá virkjun. Þar var myndað nýtt uppistöðulón sem á að bæta verulega rekstraröryggi virkjunarinnar. Þessari mannvirkjagerð er fyrir nokkru lokið og nú er verið að safna vatni í nýja lónið. Þó vantar enn töluvert á, að vatn hafi safnast í það eins og þarf að vera, en talið er að nú skorti um 80 en á að lónið sé fullt. Hvort tekst að fylla lónið alveg nú á þessu hausti eða vetri skal ósagt látið, en hitt má fullyrða, að lónið kemur virkjuninni að gagni og eykur rekstraröryggi hennar til muna og þó einkum þegar frá líður, þegar nægur tími verður til þess að það fyllist að sumarlagi.

Þetta frv. fer fram á heimild til virkjunar Bessastaðaár í Fljótsdal og þar er gert ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu með allt að 32 mw. afli og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði árinnar til að tryggja rekstur virkjunarinnar, enn fremur að leggja þaðan aðalorkuveitu að Egilsstaðakauptúni til tengingar þar við veitukerfi Grímsárvirkjunar og Lagarfossvirkjunar. Ástæðurnar til þess, að þessi virkjunarmöguleiki hefur sérstaklega verið kannaðar nú og frv. flutt, eru þær, að talið er að slík virkjun gæti tekið fyrr til starfa heldur en stórvirkjun eða hluti slíkrar stórvirkjunar sem ég var að ræða um. Aðstaðan til virkjunar í innanverðum Fljótsdal er að mörgu leyti ákjósanleg. Í fyrsta lagi stafar það af því, að þar endar háslétta skyndilega í mjög bröttum hlíðum og skapast þar mjög mikið fall. 500–600 m fall. Og þó að Bessastaðaá sé vatnslítil, skapar hin mikla fallhæð mikla möguleika. En vegna þess að Bessastaðaá er ekki vatnsmikil og sérstaklega að það dregur mjög úr rennsli hennar á vissum árstímum, þá byggist slík virkjun fyrst og fremst á stóru uppistöðulóni. Til þess eru ágætir möguleikar í þessu sambandi, en Bessastaðaá kemur úr Bessastaðavötnum og fellur í Gilsárvötn. Þaðan rennur hún síðan fram á heiðarbrún og af heiðarbrúninni fellur áin niður í miklu falli niður í mjög djúpt en fremur stutt gljúfur og kemur fram úr því niður í Fljótsdal.

Í þeim frumáætlunum, sem gerðar hafa verið, er ráðgert að gera uppistöðulón eða vatnsmiðlun, og til þess talin mjög góð skilyrði í Hólmavatni og Garðavatni.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að þær vatnsvirkjanir, sem til eru, þ.e.a.s. Grímsárvirkjun og svo Lagarfossvirkjun, eru rennslisvirkjanir og er talin nauðsyn fyrir Austurland á stórri miðlun þegar næsta virkjun verður gerð. Mundi sú virkjun, sem hér ræðir um, fullnægja því skilyrði.

Varðandi undirbúning þessa máls er rétt að taka fram að um ýmis atriði er undirbúningi það langt komið að unnt væri að taka fullnaðarákvörðun um þessa virkjun. En svo er hins vegar ástatt um sum atriði, að frekari rannsóknar er talin þörf áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Það er talið af þeim, sem kunnugastir eru þessum málum, og er þar bæði um að ræða sérfræðinga, sem hafa undirbúið þetta mál. og enn fremur fulltrúa Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, að rannsóknir bendi til þess að þessi virkjun sé fjárhagslega hagkvæm, hins vegar þurfi ítarlegri vatnsmælingar og athuganir á vatnsrennsli áður en endanleg ákvörðunartaka ætti sér stað. Það er vegna þessa álits þeirra, sem kunnugastir eru, sem frv. gerir ekki ráð fyrir því að það sé endanlega ákveðið að ráðast í þessa virkjun, heldur heimilt. Hins vegar eru yfirgnæfandi líkur til þess að úr þessu mannvirki geti orðið. Þær athuganir, sem þegar hafa farið fram, veita sterkar líkur til þess.

Varðandi undirbúning málsins að öðru leyti vil ég taka það fram, að iðnrn. hefur þegar falið Rafmagnsveitum ríkisins að semja við ráðgjafarfyrirtækið Hönnun um áætlun, undirbúning og hönnun þessa mannvirkis. Þótti ekki ástæða til að bíða með þá ákvörðun eftir því að frv. hefði verið lögfest. Þótti nauðsynlegt að nota tímann eftir því sem unnt væri.

Það er rétt út af tímaáætlun að taka það fram að þeir, sem mest hafa kannað þetta mál, hafa ekki verið á einu máli um það, hvenær mætti vænta þess að virkjunin gæti tekið til starfa, og eru spár þeirra þannig að þeir bjartsýnustu telja, að í lok ársins 1978 ætti virkjunin að geta tekið til starfa, en aðrir telja að það verði ekki fyrr en í árslok 1979 eða á árinu 1980. Þeir, sem sóttu fund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í sept. s.l., munu minnast þess að sá verkfræðingur, yfirverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sem flutti þar mjög ítarlegt og fróðlegt erindi um málið, Sverrir Ólafsson, taldi vafasamt að virkjunin gæti komist í notkun fyrr en í fyrsta lagi um áramótin 1979–1980. Hins vegar hefur sá verkfræðingur, sem mjög hefur undirbúið þetta mál og kannað, Leifur Benediktsson, verið bjartsýnni og talið að möguleiki væri í árslok 1978, og í álitsgerð frá Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens er einnig látin í ljós sú skoðun að hugsanlegt sé að virkjunin gæti tekið til starfa í árslok 1978. Vegna þessarar óvissu og nokkurs misræmis í spám, sem ekki er kannske óvenjulegt, þótti ekki ástæða til að setja ártal inn í frv., en hins vegar lögð á það áhersla að sjálfsögðu, og það vil ég undirstrika hér, að öllum undirbúningi verði hraðað eins og frekast eru föng á.

Varðandi tímasetninguna vil ég taka það fram, að að því er stefnt að hægt sé að bjóða út verkið í ársbyrjun 1976. En í því sambandi þarf að fá í fjárl. fyrir næsta ár fjárveitingu til undirbúnings og er gert ráð fyrir á þessu stigi að þurfi að fá um 150 millj. til undirbúningsframkvæmda, vegagerðar, rannsókna, hönnunar o.s.frv. Við vonumst auðvitað til þess að þær rannsóknir, sem enn eru ógerðar, staðfesti að hér sé um hagkvæma virkjun að ræða, svo að áður en langt um liður verði hægt að taka endanlega ákvörðun og það takist að hraða svo öllum undirbúningi og framkvæmdum að þessi virkjun geti orðið tilbúin innan þriggja til fjögurra ára.

Stofnkostnaður þessarar virkjunar er nú ásamt aðalorkuveitu áætlaður um 2 milljarðar eða 2 000 millj. kr. og er gert ráð fyrir lántökuheimild sem því svarar í frv. Þegar athugað er afl og orkuframleiðsla þessarar væntanlegu virkjunar, kemur það í ljós, eins og greinir á bls. 2 í grg. með frv., að hér er um hagkvæma virkjun að ræða og stenst hún að því er framleiðslukostnað snertir fyllilega samanburð við aðrar hagkvæmar virkjanir hér á landi, þó að stærri séu.

Þessi fyrirhugaða virkjun mundi gera gegn að ýmsu leyti til viðbótar því að framleiða þá orku sem hér er um að ræða. Hún mundi einnig verða gagnleg fyrir Lagarfossvirkjun sem miðlun, en hún mundi einnig verða gagnleg í sambandi við stórvirkjun í Fljótsdal síðar. Ég vil í því sambandi bæði vísa til aths. við frv. á bls. 3, þar sem segir að gerð Bessastaðaárvirkjunar muni ekki á neinn hátt koma í veg fyrir stórvirkjun á staðnum, heldur muni hún að nokkru leyti geta orðið hluti af stórvirkjuninni. Um þetta atriði segir í þeirri álitsgerð frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem ég nefndi hér áðan, að líta megi á þessa virkjun sem fyrsta áfanga svonefndrar Fljótsdalsvirkjunar, sem er virkjun á sama falli með vatni úr Jökulsá í Fljótsdal, Bessastaðaá og upptakakvísl Kelduár. Síðar segir í þessari sömu álitsgerð að frumdrög hafi verið gerð í júlímánuði s.l. að endurskoðaðri áætlun um þá virkjun, þ.e.a.s. Fljótsdalsvirkjun, og ef virkjun Bessastaðaár verði komin áður megi gera ráð fyrir að kostnaður við stórvirkjunina lækki um 700–800 millj. kr. vegna mannvirkja, sem nýtast báðum virkjununum, og vegna minnkunar á uppsettu afli Fljótsdalsvirkjunar sem svarar Bessastaðaárvirkjun.

Í þessu sambandi vil ég einnig leyfa mér að vitna til orða Hauks Tómassonar jarðfræðings, sem flutt voru í ríkisútvarpinu s.l. föstudag. Hann segir: „Ég vil leggja áherslu á það, að virkjun Bessastaðaár getur flýtt mjög fyrir gerð stórvirkjunar þarna.“ Síðan bætir hann við, að til þess verði þá að nota tækifærið til að rannsaka bergið með því að hafa stöðvarhús neðanjarðar og gera aðkeyrslugöng, en slík göng mundu flýta gerð stærri virkjunar um 1–2 ár. Hér ber því flest að sama brunni, að gerð Bessastaðaárvirkjunar er ekki líkleg til þess að draga úr eða seinka hugmyndum um stórvirkjun í Fljótsdal, heldur gæti á marga lund stutt hana og orðið þar að gagni.

Í s.l. mánuði, eða 22. okt., var haldinn fundur á Skriðuklaustri um þetta mál að tilhlutan Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og var sá fundur haldinn með hreppsnefnd fljótsdæla og fleiri aðilum sem þar eiga hlut að máli. Á fundinn komu einnig Haukur Tómasson jarðfræðingur frá Orkustofnun og Leifur Benediktsson verkfræðingur frá Hönnun. Í frásögn um þennan fund segir svo:

„Í viðræðum við hreppsnefndarmenn og aðra kom fram, að þeir höfðu ekkert að athuga við áformin um virkjun Bessastaðaár. Á fundinum var rætt um það að hve miklu leyti beitarland á heiðinni færi undir vatn, og var ákveðið að fram færi rannsókn á því og taka það mál upp til umr. þegar álitsgerð lægi fyrir.“

Í sambandi við þetta vil ég taka fram, að langmestur hluti þess lands, sem þarna er um að ræða, er í ríkiseign.

Á s.l. vori voru samþykkt lög á Alþ. um virkjun Kröflu og er nú unnið að því máli og reynt að hraða því sem mest að Kröfluvirkjun geti tekið til starfa. Í því frv. var ákveðin heimild til þess að leggja háspennulinur til Austurlands. Varðandi það mál vil ég taka fram að sérstök nefnd, sem hefur með höndum athuganir á háspennulínum og línustæðum milli landsfjórðunga, hefur þetta mál um háspennulínur frá Kröflu til Austurlands sérstaklega til athugunar og er m.a. áformað, að nú á þessum vetri verði reist nokkur tilraunamöstur á leiðinni til frekari könnunar á staðháttum.

Í sambandi við Kröfluvirkjun er rétt að geta þess, að við erum mjög vanhaldnir, íslendingar, af nauðsynlegum tækjum eða gufuborum til þess að bora eftir jarðgufu til raforkuframleiðslu eða annarra nota. Þó að nokkrir smærri jarðborar séu hér til er aðeins til einn gufubor, sem keyptur var til landsins á árunum 1957–1958 og er sameign Reykjavíkurborgar og ríkisins. Þessi gufubor er nú í notkun að Reykjum í Mosfellssveit, einkum við það verkefni að undirbúa hitaveitu fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðahrepp. Gert hafði verið ráð fyrir því að sá bor boraði áfram á Reykjum næsta sumar. En vegna hinnar miklu þarfar á því að flýta virkjun Kröflu hefur nú náðst samkomulag um það, að ef ekki finnist önnur úrræði, þ.e.a.s. með öflun gufubors, þá verði þessi bor ríkisins og Reykjavíkurborgar sendur norður að Kröflu næsta vor og geti veríð þar að verki við að bora vinnsluholur a.m.k. 5 mánuði. Hins vegar er samhliða þessu unnið að því að fá gufubor til landsins. Nýjan bor er erfitt að fá vegna hins langa afgreiðslufrest, sem er væntanlega a.m.k. tvö ár eða jafnvel meira, en kannaðir hafa verið möguleikar og leitað tilboða í góða bora, sem eru eitthvað notaðir, og verður væntanlega alveg á næstunni gengið frá kaupum á notuðum gufubor, sem er þó að mati sérfræðinga í ágætu ástandi, og er gert ráð fyrir að slíkur gufubor kosti hingað kominn með aðflutningsgjöldum rúmar 400 millj. kr., en án aðflutningsgjalda um 280 millj. Ég get þessa hér í sambandi við Kröflu vegna þess að lögð hefur verið áhersla á að fá annan gufubor til viðbótar, sérstaklega með þá virkjun í huga, en virkjun Kröflu stendur einnig í sambandi við raforkumál Austurlands vegna fyrirætlana um að tengja Austurland við Kröfluvirkjun þegar þar að kemur.

Ég vil svo að lokum taka fram að það er gert ráð fyrir því í frv. að Rafmagnsveitur ríkisins reisi og reki þessa virkjun við Bessastaðaá, en í 4. gr. frv. segir, að óski sveitarfélög á Austurlandi að gerast eignaraðilar að virkjun Bessastaðaár og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu er ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd virkjunaraðilans. Þetta er í samræmi við þá stefnu að raforkumálin verði að verulegu leyti í höndum heimamanna þar sem þess er óskað. Um það mál verður rætt hér síðar í sambandi við skipulag rafmagnsmálanna. Ég vil einnig taka fram að ekki aðeins í sambandi við eignaraðildina verður haft samráð við austfirðinga eða fulltrúa þeirra, heldur við allan undirbúning þessa máls, eins og hefur verið nú að undanförnu. En því er ekki að neita að oft og tíðum hefur við gerð mannvirkja á Íslandi verið vanrækt um of að ráðgast við og hlusta á ábendingar og ráð heimamanna. Það hefur viljað brenna við að sérfræðingar hafa ráðið fullmiklu og hlustað of lítið á álit þeirra, sem voru heima fyrir og þaulkunnugir öllum staðháttum. Í sambandi við virkjun Bessastaðaár verður haft náið samráð við heimamenn og hlustað að sjálfsögðu með gaumgæfni á þær ábendingar sem þaðan koma samkv. reynslu góðra manna.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vil undirstrika það aftur, að þótt ekki hafi verið sett í frv. ákveðið ártal, vegna þess að mönnum finnst það misjafnlega viðkunnanlegt að lögfesta hvenær virkjun skuli verða tilbúin, þá vil ég taka það sérstaklega fram að öllum undirbúningi og framkvæmdum verður hraðað eins og frekast er kostur.

Ég legg svo til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.