17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Örstutt. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því hversu jákvæðar undirtektir eru hjá öllum hv. þm. við þetta frv. okkar. Það er greinilegt, að það er fullur vilji fyrir því að það nái fram að ganga og að konur, allar konur úti í atvinnulífinu, fái þriggja mánaða fæðingarorlof. En ég vil til þess að fyrirbyggja allan misskilning varðandi ummæli mín um fjármögnun byggingarsjóðs ríkisins annars vegar og fæðingarorlofs hins vegar í fyrri ræðu minni taka það fram og benda á varðandi fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, að það er vitað að lífeyrissjóðirnir munu fjármagna íbúðarbyggingar í stórauknum mæli í framtíðinni. Það er því svo til öruggt mál að það, sem Atvinnuleysistryggingasjóður hugsanlega þyrfti að inna af hendi vegna þess máls sem hér um ræðir, mun fullkomlega og miklu meira en það verða bætt upp með auknu fjármagni úr lífeyrissjóðum.