21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna sérstaklega framlagningu þessa máls, frv. til l. um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal. Með tilliti til þess að ekki er ýkjalangt síðan þessir virkjunarmöguleikar komu á dagskrá, vil ég lýsa yfir sérstakri ánægju yfir hve ríkisstj. og hæstv. iðnrh. hafa brugðist fljótt við í þessu máli og hafið af fullum krafti undirbúning þess. Það er ástæða til að geta þess, að það er fullt samkomulag, að því er ég best veit, um þetta mál meðal þeirra aðila, sem að því koma, og engar deilur hafa sprottið um það.

Með tilliti til þess, að vatnsaflsframleiðsla á á Austurlandi öllu er nú samtals 12.5 mw., og jafnframt með tilliti til þess að Bessastaðaárvirkjun mun að öllum líkindum framleiða allt að 32 mw., þá liggur það ljóst fyrir, að hér er um að ræða mikla framkvæmd á þessu sviði á Austurlandi, þar sem aukning á raforkuframleiðslu vatnsaflsstöðva mun aukast úr 12.5% upp í allt að 44.5 mw. Það er sýnilegt og hefur verið athugað gaumgæfilega að hér er um að ræða langsamlega fljótvirkustu lausnina sem er fullnægjandi um næstu framtíð fyrir Austurland. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem haldinn var í sept. í haust og hæstv. iðnrh. sótti, samþ. sérstaka samþykkt í þessu máli, þar sem skorað var á iðnrn. og Alþ. að sett yrðu lög um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal á komandi þingi og að undirbúningur og framkvæmd við virkjunina verði miðuð við að hún taki til starfa 1978.

Hæstv. iðnrh. gerði að umtalsefni möguleikana á því hvenær hugsanlegt væri að þessi virkjun gæti tekið til starfa. Þótt um það séu kannske eitthvað skiptar skoðanir, hvort það kynni að verða í árslok 1978 eða á árinu 1979, þá er samt sýnilegt að hér er um að ræða þá fljótustu lausn sem um er að tefla í þessum efnum á Austurlandi.

Skammt er að minnast mjög alvarlegs orkuskorts í Austfirðingafjórðungi. Í harðindakaflanum í fyrravetur í kringum áramótin skapaðist, eins og menn muna, mjög alvarlegt ástand á sumum svæðum eystra, eins og t.d. á Höfn í Hornafirði og í Austur-Skaftafellssýslu og víðar í sambandi við rafmagnsmálin. Virkjun Lagarfoss er nú komin á lokastig, eins og hér hefur verið upplýst. En það er ástæða til þess með tilliti til þeirrar seinkunnar, að hún geti tekið til starfa, að leggja áherslu á að aldrei verður nógsamlega vandað til allra samninga í sambandi við kaup á vélum og rækilegar rannsóknir gerðar á þeim viðskiptamöguleikum, sem fyrir hendi eru í því efni. Það verður að segjast að þær upplýsingar, sem hæstv. iðnrh. gaf hér áðan um kostnað við rafmagnsframleiðslu, annars vegar framleiðslu frá vatnsaflsstöðvum og hins vegar frá dísilstöðvum, eru allt að því hrollvekjandi. Það liggur fyrir að hægt er að framleiða sama rafmagn fyrir 29 millj. kr. með vatnsafli og fyrir 217 millj. kr. með dísilafli. Á Austurlandi hefur þurft að nýta dísilorku í vaxandi mæli. Þegar af þeim ástæðum er ákaflega þýðingarmikið að allt sé gert, sem unnt er, til þess að hraða byggingu þessa orkuverðs til þess að koma í veg fyrir síaukinn stórkostlegan kostnað vegna framleiðslu á rafmagni með dísilvélum.

Markmið stefnunnar í þessum efnum er að framleiða raforku til heimilisnotkunar, til atvinnurekstrar og til húsahitunar. Nú er það alveg ljóst að stór hluti markaðar á Austurlandi fyrir raforku er einmitt húsahitun í framtíðinni. Og framtíðin hlýtur að vera sú að helst allt húsnæði, ekki aðeins á Austurlandi, heldur einnig annars staðar á landinu þar sem ekki eru möguleikar til að hagnýta jarðvarma til upphitunar, verði hitað upp með raforku frá vatnsaflsstöðvum. Nú er það og ljóst, að á örfáum stöðum, aðallega á einum stað á Austurlandi, eru möguleikar á að hita upp þéttbýlisstaði með jarðvarma.

Með tilliti til þess er þörfin fyrir aukna raforkuframleiðslu á Austurlandi geysilega brýn, svo að austfirðingar fái notið raforkunnar til húsahitunar sem allra fyrst.

Húsahitunarmálin eru í raun og veru eitt af stórmálum þjóðarinnar, þegar það liggur fyrir að kostnaður við upphitun húsa annars vegar með olíu hins vegar með jarðvarma er a.m.k. þrefaldur, þegar menn þurfa að hita upp með olíunni. Það er auðvitað ljóst, ef ekkert verður að gert í framtíðinni, þá getur þessi staðreynd valdið verulegri röskun á byggð landsins, vegna þess að menn sækjast sjálfsagt eftir því að búa þar sem svona miklu ódýrara er að hita upp híbýli heldur en á hinum landssvæðunum. Þetta mál er í raun og veru orðið stórmál og verður að taka til mjög rækilegrar athugunar á næstu árum og jafna eins mikið og mögulegt er muninn á þessu tvennu. Engin leið sýnist vænlegri í þessum efnum en sú að tryggja næga raforku til þess að hita upp híbýlin. Einnig þarf eflaust að koma til jöfnunarverðlag á þessum vettvangi. Þannig er nú ástatt á Austurlandi að það er mjög takmörkunum háð að fá leyfi til þess að hita upp ný hús með rafmagni. Ég veit ekki betur en á sumum stöðum sé ekki mögulegt að fá slík leyfi.

Hæstv. iðnrh. minntist nokkuð á Austurlandsvirkjun í sinni framsöguræðu, þ.e.a.s. virkjun sem gæti orðið allt að 1600 mw. eða þrisvar til fjórum sinnum stærri en Sigöldu- og Búrfellsvirkjun til samans, og ræddi nokkuð um það mál almennt. Þetta er geysilega stórt mál, eins og gefur að skilja, og mjög margs að gæta í sambandi við allar hliðar þess. Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu hæstv. iðnrh. um að allar rannsóknir, sem varða þetta mál, verði í íslenskum höndum. Það er ákaflega þýðingarmikið, þar sem málið hefur ýmsar viðkvæmar hliðar sem krefjast gaumgæfilegrar athugunar. Ég tók einnig eftir því í hans ræðu, að hann lagði áherslu á það í sambandi við Bessastaðaárvirkjun, að höfð yrðu náin samráð við heimamenn um alla framkvæmd þess máls. Ég vil leggja áherslu á að allar rannsóknir, sem varða Austurlandsvirkjun, verði einnig gerðar í nánu samráði við heimamenn á Austurlandi.