21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Frv. það um ráðstafanir í efnahagsmálum, fjármálum o. fl., sem hér er nú til 2. umr., hefur verið til meðferðar hjá fjh.- og viðskn. um alllangan tíma. Mælt var fyrir frv. í hv. Nd. 21. mars s. l. og 24. mars var fyrsti fundur n. haldinn. N. hefur haldið allmarga fundi um þetta mál og hafa þeir allir verið sameiginlegir með fjh.- og viðskn. Ed.

Nefndirnar hafa á þessu tímabili haft samband við fjölmarga aðila sem veitt hafa upplýsingar. Nefni ég þar fulltrúa úr n. þeirri, er samdi frv., einkum þá Guðmund Magnússon prófessor og Þorstein Geirsson deildarstjóra í fjmrn., ráðuneytisstjórann í fjmrn., ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, hagsýslustjóra, seðlabankastjóra o. fl. Til fundar við n. hafa og komið með erindi sín fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Verslunarráðs Íslands. Samninganefnd Alþýðusambands Íslands sendi n. bréf, dags. 1. apríl s. l., þar sem mælst var til að því fjármagni, sem nýting V. kafla frv. mundi kosta ríkissjóð, yrði varið í sérstakan eða aukinn skattafslátt sem kæmi til útborgunar með sama hætti og barnabætur að vissum skilyrðum fullnægðum. Forseti Alþýðusambandsins kom á fund n. ásamt tveimur fulltrúum samninganefndar þann 7. apríl og gerðu þeir nm. frekari grein fyrir tilmælum sínum. Félag einstæðra foreldra sendi þm. till. til breyt. á frv. ásamt grg, og form. félagsins gerði form. fjh.- og viðskn. beggja d. frekari grein fyrir þeim till. Stjórn Stéttarsambands bænda sendi n. ályktun þess efnis að söluskattur verði felldur niður á kjöti og kjötvörum. Flugleiðir hf. sendu aths. vegna flugvallagjalds og hækkaðra lendingargjalda. Þeim aths. fylgdi skýrsla til stjórnar Flugleiða hf. um þessi atriði. Umsögn um flugvallagjald barst einnig frá Ferðamálaráði sem leggst gegn álagningu gjaldsins. Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Vitról hf. og Félag ísl. iðnrekenda gerðu aths. við ákvæði V. kafla frv. að því er varðaði XV. kafla tollskrárlaga, en lagt er til með brtt. að þau ákvæði verði felld úr frv. Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir að nokkrar brtt. yrðu teknar inn í III. kafla frv. og hefur að nokkru verið tekið tillit til þeirra óska.

Auk þess sem þessi erindi hafa að nokkru verið rædd á fundum n. hafa formenn n. beggja d. átt fjölmarga fundi með starfshópi þeim sem unnið hefur að athugun á skattalögum og tryggingabótum undanfarna mánuði. Hafa þessi erindi verið rædd ítarlega á þeim fundum svo og frv. sjálft. útreikningar á áhrifum þess verið yfirfarnir og gerðar ýmsar fleiri kannanir. Á grundvelli þessara athugana hafa mótast allmargar brtt., sem hafa verið kynntar n. beggja þd. á sameiginlegum fundum nú síðustu daga. Einnig hafa þær verið kynntar fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Verslunarráðs Íslands.

Nm. urðu ekki sammála um afgreiðslu þessara till. Meiri hl. n., fulltrúar stjórnarfl., leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem hann flytur á sérstöku þskj. en minni hl. skilar sérálitum og öðrum brtt.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. n. flytur á þskj. 478.

Við II. kafla frv. eru allmargar brtt.

1. brtt. er þess efnis að lagt er til að 6. gr. frv. falli niður. Gr. fjallar um hvernig fara skuli um frádrátt vegna ferðakostnaðar skattþegns til og frá vinnu. 1 C-lið 12. gr. gildandi skattal. segir að nánari ákvæði um þessi efni skuli sett í reglugerð. Slík reglugerðarákvæði hafa ekki verið sett, en eðlilegt verður að teljast að þessi ákvæði, sem í eðli sínu eru verklagsreglur, verði í reglugerð fremur en lögum.

2. brtt. fjallar um 9. gr. frv. Henni er breytt þannig, 9. gr., að skattaleg meðferð á meðlagi vegna barns, sem er á 17. aldursári, verði eins og gildir um meðlög vegna yngri barna, enda lýkur meðlagsskyldu foreldra ekki fyrr en barn er fullra 17 ára. Meðlagsgreiðsla til einstæðs foreldris telst ekki til tekna hjá því skv. þessari brtt. Einstæðir foreldrar verða að þessu leyti betur settir en aðrir skattþegnar er við meðlagsgreiðslum taka, en meðlagsgreiðslur þeirra, þ. e. a. s. þessara annarra, teljast að hálfu til tekna. Meðlag hefur til þessa ekki verið talið til tekna hjá einstæðu foreldri, en þess í stað hefur það einungis fengið hálfan hluta persónufrádráttar til tekjuskatts og hálfan hluta persónulækkunar til útsvars og hefur það því til tekjuskatts samsvarað skattlagningu hálfs meðlagsins. Með brtt. er komið verulega til móts við óskir Félags einstæðra foreldra á þann veg að meðlag móttekið af einstæðu foreldri teljist ekki til tekna hjá því, hvorki til tekjuskatts né útsvars. Auk þess gerir frv. ráð fyrir því að einstætt foreldri njóti sama persónuafsláttar og hjón en verði skattlagt skv. stiga einstaklinga.

Þriðja brtt. er við 10. gr. A-liður brtt. er við 3. tl. 1. málsgr. B-liðar. Brtt. er aðeins sú, að í stað orðanna „börn sín“ komi barn sitt. Breyt. veit aðeins að betra og réttara orðalagi.

2. málsgr. B-liðar breytist þannig að felld eru niður ákvæði þess efnis að skuldajafna megi eignarskatt gegn persónuafslætti. Nýting persónuafsláttar er fyrst og fremst ætluð til hjálpar tekjulágu fólki til þess að standa undir greiðslu útsvara. Sé þetta fólk það efnum búið að til eignarskattsgreiðslu komi þykir mega ætla að það hafi greiðslugetu til greiðslu eignarskatts án aðstoðar ríkissjóðs. Með þessari breyt. fellur og niður útborgun til lífeyrisþega, en tekjutrygging mun verða hækkuð um þá upphæð sem ella hefði komið til útborgunar. Lögum um það efni verður því breytt og jafnframt þarf að breyta skerðingarákvæðunum vegna þessa.

Í c-lið 3. brtt. er miðað við vergar tekjur til skatts í stað útsvarsskyldra tekna. Jafnframt eru frádrættir hækkaðir til að mæta mun vergra tekna til skatts og útsvarsskyldra tekna. Þessi breyt. er gerð vegna verulegrar vinnu sem ella yrði lögð á skattstofurnar. Hér er í reynd nm sömu fjárhæð að ræða, þ. e. mismun samtalstekna skv. 3. tl. skattframtals og frádráttar skv. 4. tl. skattframtals. Einu frávikin þar á milli, sem eitthvað kveður að, eru útsvarsfrelsi eigin húsaleigu. Til þess að jafna þau met er lagt til að mismunarfjárhæðin hækki um 60 000 kr. hjá einstaklingi og 75 000 kr. hjá hjónum, Þessi tilhögun ætti að spara mikla skriffinnsku og vinnuálag hjá skattstofunum.

Þá er það d-liður 3. brtt. Í fyrstu tveim málsl. 5. gr. B-liðar 10. gr. frv. var stigið spor í þá átt að leiðrétta það óréttlæti sem átt hefur sér stað á skattlagningu kvenna og karla sem búið hafa saman í óvígðri sambúð. Hafi annar hvor sambúðaraðilinn annast heimilishald og því verið án tekna hefur öll skattbyrðin af öflun tekna til heimilisins lent á herðum tekjuaflandi aðilans í sambúðinni án tillits til framfærslubyrðar hans vegna hins sambúðaraðilans og eingöngu notið hálfs hluta persónufrádráttar og skattafsláttar fyrir börn sem sambúðaraðilar hafa átt saman. Eigi er talið að gengið sé nægjanlega langt í sanngirnisátt með ákvæðum frv. og því lagt til að sambúðarfólk megi að eigin ósk fá sameiginlega skattlagningu. Í reynd þýðir þetta sömu meðferð þessara aðila og hjóna sem búa saman í vígðri sambúð, að undanteknu því að þessir aðilar njóta ekki ákvæðanna um frádrátt frá tekjum eiginkonu. Jafnframt eru í síðari hluta þessa stafliðar sett ákvæði sem girða fyrir það að hafi sambúðarfólk stofnað heimili og eigi saman barn geti þau talist einstætt foreldri og notið réttinda sem slík þótt þau framfæri á heimilinu barn sem þau hafa ekki átt saman.

Þá er það e-liður. Við þá breyt., sem gerð er á gildandi lögum með till. í frv. um persónuafslátt til tekjuskatts, barnabætur svo og persónulækkun til útsvars, þykir tímabært að setja inn ákveðna reglu um meðferð þessa hjá þeim aðilum sem til landsins flytja og taka upp heimilisfestu hér á landi á skattárinu. Þessi ákvæði eru hliðstæð við ákvæði 1. nr. 22/1956 um þá íslendinga sem flytja af landi brott á gjaldárinu. Þetta á við e- og g-liðinn og reyndar b-liðinn líka.

F-liðurinn: Í frv. er ákvæði þess efnis að búi foreldrar barns saman ógift teljist faðir barnsins framfærandi þess. Með hliðsjón af því ákvæði, sem sett var inn í síðari málsgr. D-liðar í brtt. við 10. gr., þykir rétt að kveða svo á að sami aðili teljist framfærandi annarra barna en þeirra sem foreldrarnir eiga saman, enda verður að ætla að þessi börn séu á framfæri hans á heimilinu.

Í h-liðnum er eingöngu leiðrétting á orði til samræmis, þ. e. sett inn orðið „tekjuskattur“ í staðinn fyrir „skattgjald“.

4. brtt. er við 11. gr. Þar bætist við ný málsgr. Það er breytt reglum um dráttarvexti af vangreiddum tekjuskatti til samræmis við dráttarvexti innlánsstofnana. Samsvarandi ákvæði eru tekin upp í III. kafla frv. að því er varðar vangreidd útsvör. Þessi ákvæði taki hins vegar ekki gildi fyrr en 1. jan. 1976.

5. brtt. er við 12. gr., þar komi ný málsgr. Þar er breytt ákvæðum 52. gr. skattal. Skv. gildandi lögum er skattstjóra heimilt að lækka tekjuskatt, Við þá breyt., sem gerð er með frv. þessu um persónuafslátt í stað persónufrádráttar, þykir rétt að breyta upphafi 52. gr. á þann veg að skattstjóra sé heimilt að lækka skattgjaldstekjur. Með þessari breyt. er ívilnun orðin víðtækari en áður, þ. e. tekjulágir aðilar njóti hennar með frekari þátttöku í útsvarsgreiðslu þeirra þegar svo stendur á, en áður nutu þessara ívilnana eingöngu þeir aðilar sem höfðu það háar tekjur að þeir báru tekjuskatt. Í 2. málsl. 2. tl. 1. málsgr. 52. gr. gildandi l. er tilvísun til barnafrádráttar, þ. e. persónufrádráttar skv. 16. gr. gildandi laga. Lagt er til í frv. þessu, sbr. 10. gr., að persónufrádráttur 16. gr. gildandi laga falli niður sem slíkur. Hér þarf því að setja inn nýja viðmiðun og þykir rétt að miða hana við upphæð barna lífeyris skv. almannatryggingum. Þá er enn hreyt. við 52. gr. Það er síðasta breyt. við II. kafla. Þar er skotið inn orðunum „m. a.“ Með l. nr. 60/1973 voru ákvæði fyrri laga og reglugerðar í reynd þrengd þar sem inn kom tvímælalaus upptalning. Rétt þykir að leggja til að meira svigrúm verði í þessu, sbr. t. d. ákvæði c-liðar í A-lið 49. gr. reglugerðar nr. 245/1963.

Við III. kafla eru brtt., sem fluttar eru að beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga. Þær varða undanþáguákvæði frá álagi á fasteignaskatt, svonefnt fólksfækkunarframlag og dráttarvexti.

6. brtt. er þess efnis að í gr. er fjallað um heimild sveitarstjórna í sveitarfélagi, þar sem bæði er dreifbýli og þéttbýli, þ. e. a. s. sveit, kauptún eða kaupstaður, til að undanþiggja fasteignir í dreifbýli sveitarfélagsins álagi á fasteignaskatt, enda þótt fasteignaskattur í þéttbýlishluta sveitarfélagsins sé innheimtur með álagi, en slíka heimild skortir nú í lögum. Alkunna er að útgjöld sveitarfélaga eru meiri vegna þéttbýlis en dreifbýlis, svo sem vegna gatna- og holræsagerðar, gatnahreinsunar, sorphreinsunar o. fl. Í sveitarfélögum, sem hafa innan marka sinna bæði dreifbýli og þéttbýli, hafa sveitarstjórnir sumar hverjar ekki treyst sér til að innheimta fasteignaskatt með álagi, enda þótt þær hefðu fulla þörf fyrir meiri tekjur þar sem þeim hefur þótt það ranglátt gagnvart eigendum fasteigna í dreifbýli sem lítillar eða engrar þjónustu hafa notið af hálfu sveitarfélagsins. Það virðist því vera eðlilegt að slík heimild sem í þessari gr. felst verði lögtekin.

7. brtt. felur í sér að felld er niður skylda einstakra sveitarfélaga til að gera kröfur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga innan tiltekins tíma um sérstakt aukaframlag vegna fólksfækkunar í sveitarfélaginu næstliðið ár. Í ljós hefur komið að miklu vafningaminna er að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði hlutaaðeigandi sveitarfélagi fólksfækkunarframlagið þegar fyrir liggja upplýsingar sem ákvörðun framlagsins byggist á. Er það því samdóma álit rn. og sveitarfélaga að gildandi ákvæðum ætti að breyta á þann hátt sem hér er lagt til.

8. brtt. er svo við 14. gr. frv. Hún á við það að útsvar skuli lækka um tiltekna upphæð, þ. e. 10500 kr., hjá fólki í óvígðri sambúð eins og hjá hjónum og einstæðum foreldrum. Aðrar efnisbreyt. eru ekki í þessari brtt. D-liðurinn hefur áður verið skýrður, þar sem hann er hliðstæður 3. brtt., e-lið.

9. brtt. Með l. nr. 60/1973 var ákvæðum 52. gr. skattal. breytt á þann veg að tölul. hennar urðu 7 í stað 4. Þrátt fyrir þetta var c-lið 27. gr. l. nr. 8/1972 ekki breytt. Með þessari brtt. er samræmi milli 52. gr. skattal. og tilvitnana í þessum staflið 27. gr. tekjustofnalaga.

10. brtt varðar breyt. á dráttarvöxtum sem ég hef áður skýrt.

11. brtt. er um bráðabirgðaákvæði. Það er í fyrsta lagi a-liður, um dráttarvextina, sem kveður svo á að reglan, sem ég gat um áðan, taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1976, en sú regla, sem getið er um í a-lið bráðabirgðaákvæðanna, verði í gildi til áramóta. — B-liðurinn er svo hljóðandi: „þar til nýtt fasteignamat hefur tekið gildi er ráðh. heimilt að ákveða fyrir 15. nóv. ár hvert að gjöld næsta árs, sem reiknuð eru sem hlutfall af fasteignamati, megi breytast í hlutfalli við þá breyt. á byggingarvísitölu sem orðið hefur frá 1. nóv. árið áður til 1. nóv. ákvörðunarársins.“ Þessi regla horfir mjög til einföldunar.

Þá er það 12. brtt. Þá erum við komin að V. kafla frv. Það er lagt til að V. kafli frv. breytist á þá leið að niður falli heimild til að lækka tolla á vörum sem falla undir XV. kafla tollskrárlaga. Vörur þessar eru ekki mikilvægar neysluvörur og eru einkum notaðar til iðnaðar. Þetta er í samræmi við beiðni Vitrols hf., Félags ísl. iðnrekenda og Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Hins vegar er lagt til að í stað heimildar til að lækka eða fella niður tolla af þeim ávöxtum, sem í gr. eru taldir, skuli ákveðið með lögum að tollarnir skuli felldir niður. Hér er um mikilvægan þátt í matarútgjöldum hverrar fjölskyldu að ræða. Tollar af þessum vörum eru taldir nema um 83 millj. kr. Það er rétt að taka fram að ávextir eru háðir verðlagsákvæðum.

13. brtt. er við VI. kafla, um flugvallagjald. Þar er í fyrsta lagi fellt niður tímamarkið 3 sólarhringar, en í stað þess komi að undanþegnir gjaldskyldu séu þeir sem viðkomu hafa á Íslandi skv. farseðli milli annarra Evrópulanda og Ameríku o. s. frv.

Þá er sú brtt. þarna gerð að flugvallagjald verði einnig innheimt vegna farþega sem ferðast innanlands, þar á móti komi niðurfelling söluskatts af fólksflutningum með flugvélum innanlands. Þetta hefur ekki í för með sér tekjubreytingu fyrir ríkissjóð. Það er áætlað að tekjur af flugvallagjaldi af innanlandsflugi muni á tímabilinu 1. maí til 31. des. 1975 nema 62 millj. kr., en tekjur af söluskatti sama tímabil af innanlandsflugi 61.5 millj.

14. brtt. er við 21. gr. Þar er gert ráð fyrir helmingi lægra gjaldi þegar ferðast er milli flugvalla úti á landsbyggðinni, en þegar ferðast er að eða frá Reykjavíkur- eða Keflavíkurflugvelli. Til þess er þá litið að þjónusta á öðrum flugvöllum við flugfarþega er víða mun lakari en á þessum stærstu flugvöllum landsins, auk þess sem um er að ræða stuttar vegalengdir milli flugvalla innan sama landshluta. Með flugvallagjaldi í innanlandsflugi er stefnt að því að koma í veg fyrir að skattlagður sé sá aðstöðumunur sem af því leiðir að íbúar landsbyggðarinnar þurfi að sækja þjónustu til Reykjavíkur mismunandi langan veg. Þessi breyt. gengur mjög í sömu átt og frv. það sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson flutti í hv. Ed. fyrr á þessu þingi, en hefur ekki verið afgr.

15. og 16. brtt. eru þess efnis að orðin „frá Íslandi“ falli brott og það er vegna þess að flugvallagjald í innanlandsflugi er einnig tekið upp.

17. brtt. er við VII. kaflann og efnislega samhljóða breyt. á 3. málsgr. D-liðar 10. gr.

Við VIII. kaflann eru ekki brtt., en gerð verður grein fyrir fjármögnun fjárfestingarlánasjóðanna við 3. umr. frv.

18. brtt. er við IX. kafla og er þess efnis, að 32. gr. frv. falli brott, en gr. fjallar um það að úr gildi yrðu felld lög nr. 28 frá 12. maí 1972, um heimild fyrir ríkissjóð til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum. Ekki virðast vera nein sérstök rök fyrir hendi sem gera niðurfellingu þessarar heimildar nauðsynlega. Að sjálfsögðu verður að reikna með að íslendingar haldi áfram að kaupa togara, og núv. hæstv, ríkisstj, er fyllilega treystandi til að fara með það vald sem henni er fengið í hendur með þessari heimild.

19. brtt. fjallar um það að í nýrri gr., sem verði 35. gr., komi ákvæði þess efnis að meðan flugvallagjald af innanlandsflugi sé innheimt falli niður söluskattur af farmiðum.

20. brtt. er svo um gildistökuákvæði, Þar eru þær breyt., sem ég hef raunar áður getið um, að hin nýja regla um dráttarvexti taki gildi 1. jan. 1976 og að innheimta flugvallagjalds hefjist 1. maí í stað 1. apríl af eðlilegum ástæðum.

Ég hef nú rakið þær brtt., sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur á þskj. 478, og rökstutt þær. Rétt er að geta þess að ætlunin var að flytja við þessa umr. brtt. við 8. gr. frv. í samræmi við fyrirheit ríkisstj. til þess að greiða fyrir lausn samninga við bátasjómenn. Till. kemur væntanlega fram við 3. umr. og verður þá vonandi fullljóst hvort þeir samningar, sem nú hafa tekist, verði staðfestir. Þá vil ég einnig geta þess að unnið er að athugun á því hvort breyta megi ákvæðum 6. málsgr. C-liðar 15. gr. skattal. um hina sérstöku óbeinu fyrningu, og má vænta till. um það efni við 3. umr.

Ég vil þá gera grein fyrir því hvað ráðið hefur afstöðu meiri bl. n. til sumra þeirra erinda sem henni hafa borist. Ég sný mér þá fyrst að erindi Alþýðusamb. Íslands.

Eins og áður hefur komið fram voru það tilmæli Alþýðusambandsins að öll skattalækkunin, sem heitið var, 2000 millj. kr., kæmi fram í lækkun beinna skatta og í samræmi við það væri í síðari till. Alþýðusambandsins lagt til að V. kafli frv. yrði felldur niður, þ. e. heimildarákvæðin um lækkun eða niðurfellingu tolla og söluskatts af einstökum matvöruflokkum. Meiri hl. n. hefur ekki treyst sér til að verða við þessum tilmælum. Ástæðurnar eru einkum tvær. Í fyrsta lagi teljum við að frv. eins og það nú er, með brtt. okkar, efni það fyrirheit að fullu sem forsrh. gaf 26. mars s. l., þ. e. að lækka skatta um allt að 2 000 millj. kr. með það fyrir augum að skattalækkun þessi gagnist best þeim sem við erfið kjör búa. í öðru lagi verður að teljast varhugavert að lækka beina skatta meira en hér er gert ráð fyrir án þess þá jafnframt að gera víðtækari breyt. á lögum, svo sem varðandi sérsköttun hjóna o. fl.

Til þess að gera frekari grein fyrir hvers vegna frv. er nú svo úr garði gert sem það er, en ekki einhvern veginn öðruvísi, verð ég að fara nokkrum orðum almennt um lækkun beinna skatta, helstu atriði breytinganna á tekjuskattinum og fara síðan nokkrum orðum um persónuafslátt og nýtingu hans.

Sem kunnugt er hefur verið samþ. í fjárl. ársins 1975 að skattvísitalan skuli hækka um 51%. Samsvarar þetta til fulls áætlaðri tekjuaukningu að meðaltali milli áranna 1973 og 1974, Með þessari ákvörðun var leitast við að tryggja að skattbyrði hækkaði ekki milli ára. Þá er í fjárl. gert ráð fyrir lækkun tekjuskatts og eru áætlaðar til þess 700 millj. kr. og til að greiða fyrir sameiningu fjölskyldubóta og skattgreiðslna.

Við tillögugerð um tilhögun skattalækkunarinnar var tekið mið af framtíðarstefnu í skattamálum, og till. urðu einnig liður í því að stuðla að samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör. Eins og frv. liggur nú fyrir með brtt. meiri hl. felur það í sér lækkun beinna skatta um 1380 millj. kr. að því er áætlað er við álagningu á þessu ári. Þeim tilgangi að skattalækkunin gagni best tekjulágum og fólki með miðlungstekjur er náð með því að breyta persónufrádrætti gildandi laga í persónuafslátt, með því að sameina ívilnanir ríkisins til barna í barnabætur sem eru gerðar óháðar tekjum, með breytingu heimilisfrádráttar einstæðra foreldra í afslátt og með því að gera ráð fyrir að lækkunarheimildir skv. 52. gr. geti komið tekjulágum að betra haldi en hingað til. Einnig eru í frv. önnur nýmæli, eins og skattaleg meðferð fólks sem býr saman í óvígðri sambúð, ákvæði sem koma í veg fyrir að persónuafsláttur nýtist með óeðlilegum hætti o. fl.

Í 10. gr. frv., sem verður 9. gr. skv. till. meiri hl. er að finna uppistöðu þeirra brtt. sem gerðar eru til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga og til tekjujöfnunar. Samkvæmt till. meiri hl. n. er gert ráð fyrir að ákvæði frv. um upphæðir persónuafsláttar og barnabóta svo og um skattstiga og skatthlutföll standi óbreytt. Varðandi meðferð persónuafsláttar er lagt til að eftirstöðvar hans gangi í fyrsta lagi ekki til greiðslu eignarskatts eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur einvörðungu útsvars á gjaldárinu, og í öðru lagi að þær eftirstöðvar, sem þá kunna að verða, greiðist ekki út, heldur falli niður. Í frv. er einnig miðað við þá meginreglu að eftirstöðvar greiðist ekki út, en undantekning er þar gerð um lífeyrisþega að ákveðnu marki. Meiri hl. n. leggur jafnframt til að þessi útgreiðsla verði sameinuð tekjutryggingu almannatrygginga og mun till. í þessu efni verða gerð við meðferð frv. til 1. um láglaunabætur sem nú liggur fyrir Ed.

Þar sem frv. og till. meiri hl. n. fela í sér veigamiklar breyt. frá gildandi lögum varðandi meðferð persónuafsláttar er rétt að gera þeim till. nokkru nánari skil.

Hugtakið skattafsláttur var fyrst lögleitt við skattkerfisbreytinguna 1974. Skattafsláttur var þá 11 þús. kr. fyrir einstakling, 18 500 kr. fyrir hjón, 3300 fyrir hvert barn, 6500 aukalega fyrir einstætt foreldri og 600 kr. að auki fyrir hvert barn þess. Skattafsláttur þessi takmarkaðist við 6% af tekjum. Nýtist skattafsláttur ekki til greiðslu á tekjuskatti skal honum ráðstafað með ákveðnum hætti og greiðast út til viðkomandi framteljanda ef svo ber undir. Ráðh. skyldi með sérstakri reglugerð ákveða meðferð skattafsláttar þar sem m. a. skyldi tryggt eftir föngum að vissir aðilar nytu ekki skattafsláttar.

Hugmyndin um skattafslátt var að mörgu leyti gagnmerk, en hana ber að með nokkuð öðrum hætti en við hefði mátt búast. Skattafslátturinn kom nokkuð á ská á skattkerfið og varð nokkurs konar viðhengi sem laut eigin lögmálum. Einnig hafa komið í ljós nokkrir gallar á fyrirkomulaginu á því reynsluári, sem liðið er, og er ástæða til að bæta úr því.

Um persónuafslátt þessa frv. og barnabætur, sem eru í reynd útborganlegur afsláttur, og reglur um þau er þetta helst að segja að teknu tilliti til brtt. meiri hl. n.:

Í fyrsta lagi er tilgangur afslátta og barnabóta að ná tekjujöfnunaráhrifum og meira réttlæti en hingað til. Jafnframt er sú mikla einföldun gerð að fjölskyldubætur almannatryggingakerfis eru sameinaðar skattgreiðslum. Skattafslættinum frá 1974 var ætlað að bæta að nokkru hækkun söluskattsins.

Í öðru lagi skerðist persónuafsláttur ekki við tiltekið tekjumark í frv. eins og gildandi lög kveða á um. Þessi 6% skerðing hefur eflaust orðið til að halda kostnaði vegna afsláttar niðri, en jafnframt fylgdi sá böggull skammrifi að ýmsir, sem mest þurftu á afslætti að halda, fengu engan eða lítinn afslátt vegna tekjuleysis eða lágra tekna. Í gildandi lögum eru sérákvæði um námsmenn sem felld eru niður í frv.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir stórfelldri hækkun persónuafsláttar þar sem persónufrádrætti er að fullu breytt í afslátt og hann sameinaður skattafslætti. Af þessum sökum þarf að huga vel að framkvæmdaatriðum og girða fyrir óréttlæti í meðferð afsláttarins í því skyni að tryggja réttláta og sanngjarna nýtingu eftirstöðva persónuafsláttar. Í þessu skyni eru settar tvær reglur í frv. Í fyrsta lagi er ætlast til þess að í þeim tilvikum, er sveitarstjórn hefur heimild til að beita svonefndri reglu um viðmiðunartekjur, skuli tekjur til tekjuskattsútreiknings hækkaðar með ákveðnum hætti þannig að minna gangi upp í útsvar en ella. Í öðru lagi eru reistar almennar skorður við því að þeir, sem hafa verulega lægri skattgjaldstekjur en vergar tekjur til skatts, fái að nýta eftirstöðvar persónuafsláttar til greiðslu á útsvari.

Þau atriði, sem vega þyngst á metunum við ákvörðun um að eftirstöðvar persónuafsláttar greiðist ekki út umfram útsvar, eru þessi : Hin stórfellda hækkun afsláttarins útheimtir fyllstu varfærni í útborgun. Með þeirri tilhögun barnabóta, sem frv. gerir ráð fyrir, verða þær í reynd útborganlegur afsláttur, þannig að allt barnafólk fær útborganlegan afslátt. Jafnframt jafngilda barnabæturnar stórfelldri hækkun útborganlegs afsláttar hjá þeim, sem mikla ómegð hafa, svo og hjá þeim tekjulágu vegna þess að skerðingarákvæði gildandi laga hafa í för með sér að þessi hópur fær lítinn eða engan skattafslátt, en takmörkunin nær einnig til skattafsláttar vegna barns, þ. e. 6% takmörkunin sem ég gat um áðan. Lífeyrisþegar fá ígildi útborganlegs afsláttar með hækkun tekjutryggingar.

Sérstök athugun hefur verið gerð á því hverjir það gætu verið og hve margir það væru sem töpuðu á því að eftirstöðvar persónuafsláttar yrðu ekki greiddar út. Samkvæmt því, sem ég hef sagt, getur þar einungis verið um að ræða tekjulága framteljendur úr hópi barnlausra hjóna og einhleypinga sem ekki eru lífeyrisþegar. Hið athyglisverða kemur í ljós að nær öll barnlaus hjón með minna en 550 þús. kr. brúttótekjur eru lífeyrisþegar. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa svo og fjölda atvinnurekenda og fjölda ungra hjóna án barna á þessu tekjubili er í mesta lagi um 65 barnlaus hjón að ræða sem tapað gætu á því að útborgun yrði hætt. Í hópi einhleypinga eru tekjulægstu framteljendurnir unglingar á aldrinum 16–20 ára. Fyrir utan unglinga þá, sem eru merktir sem atvinnurekendur á skýrslum, og fyrir utan lífeyrisþega eru á brúttótekjubilinu frá 0–250 þús. kr. innan við 3 000 framteljendur, en hluti þeirra eru námsmenn eldri en 20 ára. Það eru því fáir í þessum hópi sem mundu bera skarðan hlut frá borði, kannske um 2 000 framteljendur sem mundu þá sjá af óverulegum upphæðum. Það sem greitt yrði út í lokin yrði það lítið að vafasamt er hvort Alþingi getur mælt með því að almannafé verði varið til að halda uppi slíku kerfi, sérstaklega ef tekið er tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á meðferð skattafsláttar á s. l. ári. Þetta gildir einnig um till. Alþýðusambands Íslands að þessu leyti. Því má ekki heldur gleyma að sá fámenni hópur, sem nú sæi af skattafslætti, kemur til með að njóta þeirrar skattalækkunar sem nú er lögð til þegar hann kemur út á vinnumarkaðinn.

Áætlað er að útborgun til lífeyrisþega umfram útsvar samkv. reglum frv. í óbreyttu formi hefði getað numið 150–200 millj. kr. á þessu ári. Ástæðan fyrir því, að frv. gerði ráð fyrir sérmeðferð lífeyrisþega, var sú að niðurfelling útborganlegs afsláttar hefði komið hart niður á þessum hópi manna. Þeir fengu stóran hluta þess skattafsláttar sem borgaður var út 1974, ekki síst vegna þess að sveitarfélög lækkuðu yfirleitt útsvör á lífeyrisþegum eins og þau hafa heimild til. Það væri æskilegt að geta búið þannig um hnútana að ekki væri verið að tekjujafna á mörgum stöðum til sama fólksins. Till. um barnabætur í frv. er einmitt til komin í því skyni að sameina ívilnanir hins opinbera til barna á einum stað. Eðlilegast væri að fara svipað að varðandi lífeyrisþega. Kemur þá til álita að breyta tekjutryggingu í afslátt í skattkerfinu eða flytja hinn útborganlega afslátt yfir á tekjutrygginguna. Seinni kosturinn hefur orðið fyrir valinu þar sem hinn fyrri þýddi umfangsmeiri breyt. og því eðlilegt að sá kostur verði íhugaður nánar við frekari athugun á samhæfingu tryggingabóta og skattkerfis. Sameining afsláttarins og tekjutryggingarinnar skv. till. meiri hl. n. hefur jafnframt þann kost að greiðslurnar verða mánaðarlegar, en útborgun afsláttar kæmi að öðru jöfnu í einu lagi á ári hverju eftir að skattskrá hefur verið lögð fram. Að sjálfsögðu yrði svo þessi framkvæmdamáti til einföldunar og sparnaðar.

Athugað hefur verið með hvaða hætti mætti hækka tekjutryggingu og að hvaða marki á þessu ári til að ná sömu áhrifum á ráðstöfunarfé lífeyrisþega og frv. felur í sér. Áætlað er að hækka megi tekjutryggingu um u. þ. b. 18%, auk þeirra 13% sem þegar hefur verið gerð till. um í frv. til 1. um láglaunabætur, en nánari till. í þessum efnum verður felld inn í það frv. eins og ég hef áður tekið fram. Bent skal á að hér er miðað við heilt ár, þannig að á þessu ári mundi hækkunin nema 36% af þessum sökum á seinni helmingi ársins.

Af þeim töflum, sem fylgja nál. meiri hl. n., má glögglega sjá að fyrirhuguð breyt. skattalaga gagnar þeim best sem lægstar tekjur hafa. Það er í samræmi við það fyrirheit sem gefið var. Þetta gildir um alla hópa framteljenda. Þótt ekki liggi nú fyrir hvernig heimildum 19. gr. frv. um niðurfellingu söluskatts af einstökum matvörum eða matvöruflokkum verður beitt má treysta því að valdar verða þær vörutegundir sem skipta máli fyrir hverja fjölskyldu í landinu. Ég nefni þar sem dæmi afnám söluskatts af nýjum ávöxtum og grænmeti og brauði, sem talinn er nema 600 millj. kr. á ári, eða þá af tei, kaffi, kakói, haframjöli, hveiti, hrísgrjónum og brauðvörum sem talinn er nema 600–650 millj. kr. á ári.

Í mjög samanþjöppuðu máli vil ég segja þetta um niðurfellingu söluskatts af tilteknum vörum í stað frekari lækkunar beinna skatta:

Í fyrsta lagi hefur verið talið varhugavert að lækka beinu skattana meira í þessum áfanga án þess að gera jafnframt veigameiri breytingar á skattalögunum, t. d. varðandi sérsköttun hjóna sem ríkisstj. hefur samþ. að beita sér fyrir.

Í öðru lagi má segja að það hafi verið eðlilegt að viðbrögð Alþýðusambands Íslands hafi verið á þann veg sem raun er á meðan það var nokkuð í lausu lofti hvernig heimildum frv. yrði beitt. Þegar ákveðnar vörutegundir, sem tvímælalaust eru brýnar nauðsynjar, hafa verið nefndar ætti að vera ljósara hver áhrifin verða.

Í þriðja lagi er ekki unnt að henda á marktækan mun á því hvort kemur lágtekjufólki betur í þessum efnum og vísa ég þar til töflu Þjóðhagsstofnunar.

Í fjórða lagi þarf ekki að líta á það, sem hér er lagt til, sem tilhögun sem standa þarf um aldur og ævi.

Í fimmta lagi myndast hér mótvægi við allar niðurgreiðslurnar sem nú eru viðhafðar á kjöti og mjólkurvörum.

Í framhaldi af þessu vil ég fara nokkrum orðum um niðurfellingu söluskatts af sérstökum vörutegundum og þá erfiðleika sem upp kunna að koma.

Stjórn Stéttarsambands bænda sendi n. ályktun þess efnis að söluskattur skyldi felldur niður af kjöti og kjötvörum. Ég bendi á að 19. gr. frv. er í formi heimildar til fjmrh. um að lækka eða fella niður söluskatt af einstökum matvörum eða matvöruflokkum. N. hefur því í sjálfu sér ekkert um þessa ályktun að segja þar eð n. hvorki ákveður né gerir till. um af hvaða vörutegundum beri að fella niður söluskatt. En þar sem komin er fram brtt. við 19. gr. frv. frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni þess efnis að söluskattur skuli felldur niður af m.a. þessum vörutegundum, þ. e. kjöti og kjötvörum, þá sé ég ástæðu til að fara um þetta nokkrum orðum.

Ég hef þegar greint frá því að lækkun beinna skatta samkv. frv. er talin nema 1380 millj. kr. og lækkun tolla samkv. V. kafla frv. rúmum 80 millj. Samtals eru þetta rúmlega 1460 millj. kr. Ríkisstj. mun að sjálfsögðu standa við það fyrirheit sitt að lækka skatta samtals um 2 000 millj. kr. Nota þarf því heimildir 19. gr. frv. til þess að lækka eða fella niður söluskatt að upphæð um 540 millj. kr. Söluskattur á kjöti og kjötvörum er hins vegar talinn nema um 775 millj. kr. Þá vaknar sú spurning í fyrsta lagi hvort hægt sé að lækka skattinn þannig að lækkunin nemi 540 millj., en áfram standi 235 millj., og í öðru lagi hvernig slík niðurfelling eða lækkun söluskatts á þessari vörutegund verði framkvæmd.

Það er óhætt að segja að allar undanþágur frá meginreglunni um söluskattsskyldu samkv. gildandi söluskattslögum hafi í för með sér visst óöryggi við framkvæmd laganna. Undanþágur opna oft leiðir til undandráttar og kalla þar af leiðandi á aukið eftirlit. Það fer hins vegar eftir tegundum undanþágusölu og söluvenjum hvaða áhrif undanþáguákvæði hafa á framkvæmd laganna í heild. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga þegar vöruflokkar eru valdir. Almennt er nær óhugsandi að greina í sundur sölu á einstökum vörutegundum strax við sölu þeirra í smásölu. Ef undanþiggja á einstakar vörutegundir söluskatti á smásölustigi verður því að fara aðrar leiðir til að finna út eða reikna þá sölu sem undanþegin er, eftir því sem þær eru færar. Sú leið, sem helst kemur til greina, er að reikna út sölu á undanþáguvörum eftir innkaupum þeirra vara að viðbættri sannanlegri álagningu á þær. Þannig fæst út söluverðið með sæmilegri nákvæmni, en þó því aðeins að álagningin sé almennt sú sama og nokkuð ákveðin stærð. Þegar verslað er með margar vörutegundir í sama fyrirtækinu, vörutegundir sem undanþegnar eru söluskatti, og álagningin á vörurnar er mismunandi verður framkvæmdin öll hin flóknasta, en tæknilega séð hugsanleg. En þegar vinnslan fer að nokkru leyti fram hjá smásala, eins og á sér stað með kjöt og kjötvörur, þá er endanlegt útsöluverð algerlega óþekkt stærð við kaup varanna og nær óhugsandi að finna það út nema með flókinni skráningu eða framleiðslubókhaldi.

Við framkvæmd söluskattslaga verður að ganga út frá því að sá, sem senda á uppgjör á söluskatti til skattyfirvalda, hafi sjálfur möguleika til að greina undanþágusölu frá annarri sölu með nokkurri nákvæmni, svo að skattyfirvöld hafi tæknilega möguleika til að sannreyna réttmæti uppgjörsins. Um kjötvörur er því það að segja að hér er um mun erfiðari þátt að ræða en t. d. mjólk og mjólkurvörur eða olíu til húshitunar og virðist ekki í fljótu bragði vera mögulegt að setja neinar skynsamlega örugga framkvæmdareglu um söluskattsundanþágu á sölu þessara vörutegunda og skal ég til frekari áherslu nefna nokkur atríði í því sambandi.

Í fyrsta lagi er dreifing kjöts og kjötvara til smásala í höndum fjölda aðila, það eru framleiðendur og kjötvinnslustöðvar, og varan er seld á mjög mismunandi framleiðslustigum. Í öðru lagi fer vinnsla kjötvara í flestum tilvikum fram að einhverju leyti hjá smásala sjálfum og er því ekki hægt að beita fastri álagningarreglu. Sem dæmi má nefna kjötkaupmann sem kaupir kjöt í heilum skrokkum af framleiðanda fyrir fast verð. Kaupmaðurinn selur hluta kjötsins í heilum stykkjum, hakkar hluta þess og sagar annað, reykir, saltar og býr til álegg. Hve mikið kaupmaðurinn fær endanlega fyrir kjötskrokkinn getur hann naumast vitað þar sem sala hans blandast sölu annarra vara í versluninni og það er engin tiltæk leið til að reikna það út með neinni vissu. Í þriðja lagi er sala á kjöti og unnum kjötvörum stór liður í sölu veitingahúsa og matsölustaða. Þegar seld er t. d. kjötmáltíð á veitingahúsi er verið að selja ekki bara efnið í máltíðina, heldur ýmislegt annað sem henni fylgir auk þjónustunnar, og kjötsalan verður vart aðgreind frá öðru í þessu tilviki. Verði sala kjöts í veitingahúsum talin söluskattsskyld, þá vaknar t. d. spurning um sölu tilbúinna rétta í matvöruverslunum og aðgreiningu þeirrar sölu frá annarri sölu slíkra verslana. Verði undanþágan hins vegar takmörkuð við óunnið kjöt, sem yrði nánar skilgreint, skapast margvíslegir möguleikar til undanskota og verður ekki séð hvaða möguleikar ern til að sannreyna söluskattsuppgjör þeirra sem versla með þessar vörur.

Eins og ég sagði áðan getur kaupmaðurinn ekki sýnt fram á það hve mikið hann selur af óunnum kjötvörum annars vegar og unnum kjötvörum hins vegar. Ef miða ætti að einhverju leyti við innkaup á óunnum vörum verður eflaust tilhneiging til að halda því fram að sem mestur hluti kjötsins hafi verið seldur óunninn.

Með hliðsjón af því, sem ég hef hér sagt verður að teljast nær óframkvæmanlegt að lækka eða fella niður söluskatt af þessum vörutegundum meðan við búum við þetta kerfi.

Ég kem þá að till. Félags einstæðra foreldra en þær till. voru sendar öllum hv. þm. að því er ég best veit. Það er kannske ekki ástæða til að ég fari að rekja einstakar brtt. þessa félags í smáafriðum. N. hefur að nokkru leyti orðið við tilmælum þess að því er varðar skattfrelsi meðlagsgreiðslna hjá einstæðum foreldrum eða þeim, sem við meðlaginu tekur, eins og ég gerði reyndar grein fyrir fyrr í ræðu minni. Þessi breyting hefur í för með sér um 40 millj. kr. hagsbætur fyrir einstæða foreldra frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Þótt ekki sé reiknað með áhrifum þessarar breytingar voru einstæðir foreldrar betur settir en hjón að því er tekur til skattalegrar meðferðar, en miðað við upphaflega frv. var sá munur minni en hann áður var. Ef meðlag yrði gert skattfrjálst hjá öllum sem við því taka, eins og till. gerir ráð fyrir, yrðu fjárhæðirnar hærri þar sem ýmsar meðlagsgreiðslur eiga sér stað innan hjónahópsins. Það er hins vegar óvitað hve háar fjárhæðir þar er um að ræða.

Þá er lagt til í bréfi einstæðra foreldra að einstæðum foreldrum sé reiknaður skattur eftir sama skaftstiga og hjónum. Þessi breyt., ef gerð yrði, er talin kosta ríkissjóð um 40 millj. kr. Ég bendi á að einstæðir foreldrar fá hjónaafslátt, en mismunurinn á afslætti hjóna og einstaklings kemur í stað heimilisfrádráttar í gildandi lögum. Þetta er í samræmi við anda frv. að öðru leyti þar sem frádráttum er breytt í afslætti þannig að þeir nýtist betur en áður þeim sem lágar tekjur hafa. Þá er lagt til í nefndu bréfi, nefndum till., að bætur með fyrsta barni verði 45 bús. kr. eins og með tveimur eða fleiri börnum. Ég vísa hér til athugasemda sem fylgja frv., við 10. gr. þess. Að öðru leyti má segja að ákvörðun af þessu tagi sé alltaf matsatriði, en í reynd er slíkur mismunur á barnaívilnunum í gildandi lögum auk þess sem framfærslubyrði hlýtur að aukast með fjölda barna. Mætti þá kannske allt eins spyrja hvort hjón ættu ekki að fá tvöfaldan afslátt einstaklings í stað eins og hálfs, eins og gildandi lög og frv. gera ráð fyrir.

Þá leggur félagið einnig til að árlegur lífeyrir með hverju barni verði hækkaður. Ákvörðun um það snertir ekki beinlínis þetta frv. þar sem það tekur ekki til lífeyrisgreiðslna. Verður að meta þetta atriði með hliðsjón af hækkun annars lífeyris. Ég bendi þó á að skattfrelsi meðlagsins hjá viðtakanda, einstæðu foreldri, þýðir auðvitað í raun hækkað meðlag.

Þá vil ég aðeins nefna í sambandi við erindi einstæðra foreldra að skattadæmið um Jón eiginmann og Jón ekkjumann verður að teljast nokkuð villandi. Ef allar greiðslur, sem inn á heimilið koma, eru tíundaðar þá eru einstæð foreldri alltaf betur sett en hjón með sama barnafjölda, bæði í gildandi lögum og samkv. frv. Frv. gerir hins vegar þennan mun minni hjá þeim tekjuhærri.

Ég fer nú að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég legg að lokum áherslu á þetta og endurtek þar með sumt af því sem ég hef áður sagt:

Í II. kafla þessa frv., sem fjallar um breytingar á tekjuskatti, eru verulegar breytingar gerðar á gildandi skattalöggjöf, breytingar sem miða fyrst og fremst að hagsbótum fyrir lágtekjufólk. Hinir hefðbundnu persónufrádrættir ásamt hinum gölluðu nýmælum s. l. árs um skattafslætti eru felldir niður. Þessir frádrættir og afslættir, sem nýttust hátekju- og miðlungstekjufólki að fullu, en lágtekjufólki að takmörkuðu leyti eða engu, eru nú afnumdir. Þess í stað koma persónuafslættir sem fyrst og fremst nýtast lágtekjufólki til að standa undir greiðslu útsvars að fullu eða að hluta, þeim mun meiri hluti þeirra er greiddur sem tekjur eru lægri. Þó eru sérstök ákvæði þess efnis að takmarkað verður að hve miklu leyti má nýta persónuafslátt til greiðslu útsvars hjá þeim sem hafa óvenjulágar tekjur til tekjuskatts, m. a. vegna afskrifta eða annarra hliðstæðra ástæðna, og þar með leiðréttur versti agnúinn sem var á skattafsláttarkerfinu sem kom inn í skattalöggjöfina á s. l. ári. Einnig er þak sett á fjárhæð persónuafsláttar sem nýta má til greiðslu þessara gjalda hjá sérsköttuðum börnum. Hjá framteljendum í miðlungs- eða hátekjuflokki nýtist þessi persónuafsláttur gegn tekjuskatti, en hann nýtist jafnt öllum tekjuhópum, en ekki mest hátekjum eins og áður var um persónufrádrátt og skattafslátt. Skattstigum til tekjuskatts er gjörbreytt. Einn skattstigi er fyrir hjón og annar fyrir einstaklinga, þar sem fyrra tekjubil, sem af voru greidd 20%, er hækkað nokkuð, en 30% tekjubilið afnumið. Hámarksstigi er 40% eins og áður var. Í stað ákvæða gildandi skattalaga um persónufrádrátt og skattafslátt fyrir börn á framfæri skattþegna, sem eins og persónufrádráttur og skattafsláttur skattþegnsins sjálfs hafa fyrst og fremst komið hátekju- og miðlungstekjufólki til góða, er í frv. gert ráð fyrir greiðslu barnabóta til framfæranda barnsins sem koma í stað gildandi persónufrádráttar, sk.attafsláttar og fjölskyldubóta. Hér er enn stefnt að sem fyllstri nýtingu þessara bóta fyrir lágtekjufólk. Samkv. frv. nema þessar barnabætur 30 þús. kr. með fyrsta barni, en 45 þús. kr. með hverju barni umfram eitt. Barnabætur greiðast öllum framfærendum barna án tillits til tekna framfærandans. Hafi útsvar verið skuldajafnað að fullu gegn persónuafslætti foreldra fá foreldrar barnabæturnar greiddar út að fullu, þó skal skuldajafna önnur þinggjöld, svo sem atvinnurekstrargjöld, gegn þeim fyrst, síðan önnur þinggjöld og ógoldin þinggjöld og aðstöðugjöld og mismunur þá greiddur út ef einhver er. Beri foreldri tekjuskatt er ekki um eftirstöðvar persónuafsláttar að ræða. Barnabætur skuldajafnast þá gegn tekjuskatti, öðrum þinggjöldum og eldri skuldum, útsvari og aðstöðugjaldi. Aðrar breytingar á tekjuskattslögunum í þessum kafla frv. eru nauðsynlegar ýmist vegna tilvitnana í persónufrádrátt, sem afnuminn er sem slíkur, eða vegna þess að settar eru inn nýjar grunnfjárhæðir sem eiga að fylgja skattvísitölu framvegis, en gildandi skattvísitala er afnumin.

Fleiri þættir skattamálanna eru nú í endurskoðun. Fyrir haustþing verður undirbúið frv. um sérsköttun hjóna með skiptingu tekna þeirra og eigna að jöfnu og skattlagningu hvors helmings um sig. Unnið er að athugun á því að tekinn verði upp virðisaukaskattur í stað söluskatts, og það er unnið að tillögugerð um staðgreiðslukerfi skatta. Sú breyting, sem nú er verið að gera, er því aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem eftir er að stíga. Ég er sannfærður um að þessar breytingar horfa allar til heilla fyrir alla þegna þjóðfélagsins.

Að lokum vil ég svo aðeins nefna það að hér hefur verið útbýtt brtt. við frv., — brtt. sem ég hef ekki haft aðstöðu til að skoða og get því að sjálfsögðu ekki tjáð mig um, en ég tel eðlilegt að fjh.- og viðskn. d. athugi þessar brtt. á milli 2. og 3. umr.