21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

36. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Þegar nú þetta mál er til umr., frv. til l. um heimild til handa ríkisstj. til að fela Rafmagnsveitum ríkisins að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu með allt að 32 mw., vil ég að mínu leyti fagna framkomu þessa frv., fagna því sérstaklega að mönnum sýnist nú tími til kominn að taka stórt skref til þess að bæta úr þeim sára orkuskorti sem þjáð hefur þennan landshluta um langa hríð. Að vísu eiga aðrir landshlutar sammerkt með Austurlandi í þessum efnum. En undanfarin ár hafa fært okkur heim sanninn um að þarna hefur legið við borð stórslys vegna þess að raforku hefur skort eða vatnsaflsstöðvar brugðist þegar mest á reynir.

Það er rétt, eins og kom fram í ræðu hæstv. iðnrh., að möguleikarnir eru margvíslegir á Austurlandi. Enda þótt þessi kostur sýnist við fyrstu sýn mjög góður, sem hér um ræðir, virkjun Bessastaðaár, þá er þó fullkomin ástæða til að hafa uppi örfá varnaðarorð vegna þeirrar reynslu sem menn hafa heyjað sér á undanförnum árum á Austurlandi í sambandi við rekstur þeirra vatnsaflsstöðva sem fyrir eru. Á ég þá við þrjár þeirra, tvær að vísu, sem þegar er fengin reynsla af, og þá reynslu, sem þegar hefur fengist vegna virkjunar Lagarfoss.

Þá er fyrst fræga virkjun að telja, Grímsárvirkjun. Ég hygg að öllum, sem fylgst hafa með, sé fullkunnugt um það, að enda þótt hún hafi vissulega skilað verðmætri orku á liðnum árum inn á orkuveitusvæði Austurlands, þá er talið að mjög mikil mistök hafi átt sér stað, aðra kosti hefði fremur átt að velja fyrr, vegna þess að mjög algengt er að þar verður um mjög mikinn vatnsskort að ræða og er undantekningarlaust að á hverjum vetri verður þar um tilfinnanlegan vatnsskort að tefla.

Allir minnast þess sem upp á kom varðandi Smyrlabjargaárvirkjun á s.l. hausti, í nóv. og des., þegar vatnsbirgðir þar þrutu gersamlega og lá við borð að stórslys yrði á orkuveitusvæði þeirrar litlu virkjunar. Úr þessu hefur verið bætt á þessu sumri, þó ekki svo að óyggjandi sé að ekki geti til þessa dregið enn á ný. Þess vegna er nauðsynlegt að sjálfsögðu að hafa varaafl, dísilafl, til staðar.

Og þá er það þriðja virkjunin sem nú stendur til að taka til starfa þegar og ef viðskiptavinum okkar, tékkum, þóknast að afhenda tæki, sem um var samið. Það er Lagarfossvirkjun. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég var grunlaus um það að þetta fljót gæti brugðið á það ráð, ef svo má orða það, eins og sannaðist í fyrrahaust, að verða aðeins 1/7 hluti af því vatnsafli sem nægjanlegt er til að knýja þær vélasamstæður núverandi virkjunar, sem þarf, eða tæpir 50 rúmmetrar á sek. Og heimamenn gagnkunnugir fullyrða, að rennslið geti farið ofan í 1/12, ofan í um það bil 4 kúbikmetra á sekúndu. Aldrei, svo að mér væri kunnugt um, höfðu þessar staðreyndir verið bornar fram. Þessar staðreyndir höfðu ekki legið fyrir þegar lokaákvörðun um virkjun Lagarfoss var tekin. Þess vegna ber sérstaklega að fagna því, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að haft verði náið samráð við heimamenn í þessum efnum og um of hafi verið treyst á sérfræðinga, enda þótt að sjálfsögðu sé hin mesta nauðsyn á að hafa sem nánast samstarf við þá og þeir hafi forustuna og á þekkingu þeirra séu allar undirstöður byggðar. Þess vegna er það, að þess er ekki að dyljast að heimamenn þar eystra hafa látið þá skoðun í ljós við mig að e.t.v. kynni varðandi þessa virkjun einnig að vera nokkur hætta á ferðum varðandi vatnsmagnið. Fram kemur í frv., að meðalrennsli á ári er talið vera um 4.1 kúbikmetri. Hins vegar er þess getið líka að vatnsmagnið sé mjög breytilegt og geti farið upp í allt að 54 rúmmetra á sekúndu, sem mundi þýða, ef slíkt vatnsflóð væri, að áin mundi spýta fram öllu sínu vatnsmagni á einum mánuði. Á snjóléttum vetrum vilja þeir, sem gerst til þekkja, álíta að mjög yrði vafasamt að tækist að mynda þau uppistöðulón nema með ærnum tilkostnaði sem mundu nægja til þess að hún skilaði neitt nálægt því þeim afköstum, sem hér er verið að tala um, 32 mw. Og það er hægt að veita hér upplýsingar um það að löngum rennur enginn vatnsdropi í þessari á. En tæknimenn nútímans sjá kannske við því, og enda þótt ég hafi uppi þessi varnaðarorð, þá fer því fjarri að ég sé að telja úr í þessu sambandi. Rannsóknir og mælingar verða að skera úr í þessu efni að sjálfsögðu. Þetta er afar álitleg virkjun, eins og öll aðstaða til virkjunar er á þessum slóðum, vegna þeirra staðhátta, sem hæstv. iðnrh. lýsti, vegna hinnar miklu fallhæðar sem þarna er í boði.

Ég vil aðeins víkja aftur að Lagarfossvirkjuninni og þeim þrengingum sem þar hafa átt sér stað varðandi afgreiðslu véla sem um var samið við tékka. Í apríl 1973 kom til umr. fsp. frá mér varðandi Lagarfossvirkjun þar sem ég spurðist fyrir um það og beindi þeirri fsp. til þáv. iðnrh., hv. núv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, hvort hefðu orðið breytingar á áætlunum um virkjun Lagarfoss og ef svo væri í hverju þær væru fólgnar. Þetta var af því gefna tilefni að flogið hafði fyrir að um verulega seinkun yrði að ræða vegna afgreiðslufrests á vélasamstæðu frá Tékkóslóvakíu. Það er upp úr áramótum 1972–1973 sem þessi orðrómur fær byr undir vængi. Þessu svarar þáv. iðnrh., rifjar það upp að samið hafi verið við tékka, sem vitað var, þrátt fyrir lengri afgreiðslufrest þeirra og sá kostur valinn að taka þeirra tilboði sérstaklega á þeim forsendum að þeir buðu stærri vélasamstæðu, sem munaði 1.5 mw. Boðin hafði verið út 6 mw. samstæða, en þeir buðu 7.5, og þar sem aðstæður virtust henta vel fyrir þá samstæðu var það ráð tekið að semja við þá, enda þótt um lengri afgreiðslufrest væri að ræða. En hann fullyrðir í svari sínu að ekkert það hefði komið fram sem gæfi til kynna að afgreiðsla á vélum yrði ekki í samræmi við ofangreindan samning. Upphaflega var áætlað að vélasamstæðurnar yrðu afhentar í okt. 1973, en vegna þess að valinn var samningur við tékka, þá var samið um afgreiðslu 1. júní 1974.

Það má ekki misskilja það, ég er vitanlega ekki að víkja neinni gagnrýni í þessu efni að núv. hæstv. iðnrh. því að hann hefur þegar er hann kom að þessum málum tekið rösklega á þeim, svo sem fram kom í ræðu hans. En þessar fréttir, sem bárust út í ársbyrjun 1973, voru vissulega hafðar eftir tæknimönnum, sem störfuðu við Lagarfossvirkjun, og fsp. var af því gefna tilefni borin fram, hvort þessi orðrómur hefði við rök að styðjast. En svör hæstv. þáv. ráðh. voru tvímælalaus, að það hefði ekkert slíkt komið fram, sem gæfi tilefni til þess arna, og sannar þetta þar með að í þessu efni var flotið sofandi að feigðarósi, því að eins og kom fram í þeim upplýsingum, sem hæstv. iðnrh. flutti okkur hér áðan, er það ekki smáræði, sem munar um hvern mánuðinn sem seinkar afgreiðslu slíkrar vélasamstæðu. Og ég vil nú leyfa mér að víkja þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort mögulegt sé að beita tékka einhverjum viðurlögum, hvort við getum náð einhverjum skaðabótum fram í þessum efnum. Þessu vildi ég fá svarað ef þess er kostur, enda þótt staðreyndin sé hins vegar sú að oft er erfitt um vik í þeim efnum, nema þá einhver sérstök sektarákvæði séu í samningum.

Þetta var um þetta mál að segja. Æðstu yfirvöld þá, í apríl 1973, sinntu í engu þeim blikum, sem á lofti voru um að ekki yrði við samninga staðið af hálfu tékka, og því er nú svo komið sem komið er, að það má kannske, ef vel tekst til, vænta þess að virkjunin verði gangsett um miðjan febr., ef ég tók rétt eftir, og gæti þá innan skamms tekið til starfa.

Ég endurtek að þessi virkjun er mjög álitleg. Ég held að það hafi komið fram hjá hv. 4. þm. Austf., Tómasi Árnasyni, að þetta væri fljótasta lausnin til þess að bæta úr orkuskorti Austurlands. Það veit hann ekkert um, ekkert liggur fyrir um það. Það hafa verið gerðar aðrar rannsóknir í þessu efni, m.a. í Fjarðará, Fossá í Berufirði og Geithellnaá, og það liggur ekkert fyrir um að það hafi ekki verið hægt að bæta úr brýnustu orkuþörf Austurlands með skjótari hætti heldur en Bessastaðaárvirkjun, sem liggur ekki fyrir, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., hvort muni taka til starfa fyrr en kannske árið 1980, eða í árslok 1978, eins og kom fram í álitsgerð, hygg ég, frá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens.

Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á að á þingi í fyrravetur flutti ég till. til þál. um beislun orku og orkusölu á Austurlandi og ég hef nú fengið heimild míns þingflokks til þess að endurflytja þessa þáltill. í svo til óbreyttu formi að öðru leyti en því, að þar mun að sjálfsögðu ekki verða vikið sérstaklega að smærri virkjunum, eins og í Fjarðará og Geithellnaá, þar sem annað frv. er hér, þar sem vel á að vera fyrir neysluorku Austfirðinga séð með þeirri virkjun. En í þeirri þáltill., sem ég bar fram, var ályktað að fela ríkisstj. að lokið yrði hið fyrsta rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar, fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar, og að leitað yrði eftir kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum.

Ég vil alveg sérstaklega fagna þeim ummælum hæstv. iðnrh., sem hann viðhafði og endurtók oftar en einu sinni, að það yrði lögð mikil áhersla á að halda áfram rannsóknum á þeim möguleikum, sem þarna kunna að vera fyrir hendi, glæsilegum möguleikum, sem flestir, sem til þekkja, vilja meina að eru fyrir hendi til stórvirkjunar. Ég tók eftir því og það var endurtekið af hv. 4. þm. Austf., Tómasi Árnasyni, hann lagði á það mjög mikla áherslu að rannsóknir í þessu sambandi yrðu í höndum íslenskra manna. Auðvitað þurfa íslendingar að hafa yfirstjórn og ráða alveg ferðinni varðandi öll þessi mál um beislun og nýtingu orkulinda sinni. En ég fæ ekki skilið hvað ætti að vera í veginum fyrir því að við leituðum samvinnu við aðrar þjóðir, eins og t.d. bandaríkjamenn, svisslendinga, norðmenn, svo að eitthvað sé nefnt, um t.d. þessar rannsóknir, að sjálfsögðu með öllum fyrirvörum og án skuldbindinga. En bæði er það að þetta er fjárfrekt og okkur skortir fé til þess arna, og eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. er það eitt meginmálið nú að skipuleggja fjáröflun til þess að hrinda fram þessum rannsóknum. Ekki er komin fram skýring á því hvers vegna lögð var áhersla á að þetta yrði allt saman í höndum íslendinga, nema ég hafi misskilið hann að því leyti að átt sé eingöngu við að við höfum á þessu yfirstjórn, sem sjálfsagt er og óþarft er að taka fram. En ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt, ef það er í boði, að við þiggjum samvinnu við aðrar þjóðir og leitum jafnvel eftir henni að fyrra bragði. En mér segir svo hugur um, að það hafi jafnvel verið boðið fram.

En varðandi þá þáltill., sem ég bar fram og mun leggja fram á næstu dögum, er það að segja að þær forrannsóknir, sem þar hafa farið fram, benda til þess að þar muni vera um einhverja girnilegustu stórvirkjunarmöguleika að ræða sem við eigum hér á landi. Kemur þar margt til: feiknaleg fallhæð, staðsetning orkuversins 25 m yfir sjávarmál í byggð, lagning linu til einnar bestu hafnar landsins þar sem einhverjar ákjósanlegustu aðstæður eru fyrir hendi til stóriðju. Allt þetta helst í hendur við það að sjálfsögðu að við fáum kaupendur, sem okkur eru skapfelldir og hagkvæmir, að þessari orku. Í þeirri þáltill. og í grg., sem henni fylgdi, var upplýst að talið mundi vera hagkvæmast að stærð þeirrar virkjunar yrði um 236–240 mw.

Enda þótt það sé talinn kostur vegna fyrirhugaðrar stórvirkjunar að byggja nú þessa smærri virkjun, þá er alveg augljóst að hér er notað sama vatnið, að ef ekki hefði verið ráðist í Bessastaðaárvirkjun, en hin stærri byggð, þá vitanlega hefði hún nýtt þessa 4.9 kúbikmetra sem eiga að knýja 32 mw. Bessastaðaárvirkjun. Það gefur auga leið. Og að óbreyttu verður vitanlega Fljótsdalsvirkjun um það bil sem þessu nemur minni en áætlanir, sem í því dæmi liggja fyrir um vatnsmiðlun við Eyjabakka, geysistóra vatnsmiðlun. Geymslan þar er um 1100 millj. lítra og að vatninu yrði veitt í skurðum niður í Gilsárvötn, þar sem kemur uppistaða fyrir Bessastaðaárvirkjun, og svo nærri 600 metra fall eða 580 metra fall niður í Fljótsdal, sem menn við endurskoðun á þessu áætla að geti gefið allt að 300 mw. orku. Þess er einnig að geta og það er einmitt í beinu samræmi við það, sem fram kemur varðandi Bessastaðaárvirkjun, þar er henni talið til gildis, sem rétt er, að hún muni verða að sínu leyti vatnsmiðlun fyrir Lagarfoss, þó að sjálfsögðu ekki í stærra mæli en sem nemur um það bil 1/12 af því vatnsmagni sem Lagarfossvirkjun þarf til þess að ganga á fullu. Aftur á móti er vatnsmagnið, sem knýr hina stærri virkjun sem gerð er till um, nákvæmlega það vatnsmagn sem þarf til þess að Lagarfossvirkjun gangi stöðugt á fullu eða um 50 kúbikmetrar á sekúndu.

Ég ætla ekki að setja á miklu lengri tölu um fyrirhugaða möguleika á stórvirkjun þarna. Þar eru rannsóknir of skammt á veg komnar. Ég vil aðeins rifja þær staðreyndir upp að viðreisnarstjórnin tók mjög myndarlega á rannsóknarverkefnum austur þar og veitti stöðugt aukið fé til rannsóknanna. En í tíð vinstri stjórnarinnar sælu var á árinu 1971 dregið úr, að vísu ekki mikið, enda höfðu aðrir lagt áætlanirnar, stórlega minnkað 1972 og hætt 1973 þessum rannsóknum. Það var allur myndarskapurinn. Enda þótt eigi kannske eftir að henta einhvern tíma að láta svo sem þeir hafi haft áhuga á þessum stórkostlegu möguleikum, ég vil segja glæsilegustu möguleikum sem við eigum í landinu í þessu sambandi, þá mun þó staðreyndin vera allt önnur.

Ég legg mjög mikla áherslu á að ég legg hið mesta upp úr þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. að þetta muni í engu verða til þess að seinka eða allra síst setja fótinn fyrir þá möguleika, sem kunna að vera í sambandi við stórvirkjun, og lögð verði áhersla á að hraða rannsóknum á þessum möguleikum, enda gefst hv. þm. kostur á því að ljá fylgi sitt við málið, þar sem um þetta mun verða borin fram þáltill., eins og ég tók fram, nú á næstu dögum.

Þetta var að mestu leyti það sem ég vildi sagt hafa. Það liggur alveg ljóst fyrir og þarf ekki að rifja upp hve gífurleg þörf er þar eystra á aukinni orku. Það kom skýrlega fram í ræðu hæstv. ráðh. hve óhagkvæm orkuframleiðslan er á Austurlandi, eins og nú stendur. Austurland hefur að vísu mátt búa við um langa hríð gífurlega, rándýra dísilorku sem verður, ef ekki verður brugðið við með myndarlegum hætti, óbærilegur baggi á afkomu fólks. Að því leyti sem snýr beint að því að bæta úr þessari þörf, — ég vænti þess fastlega að þar reynist þessi kostur við lokarannsóknir hinn ákjósanlegasti, — þá fagna ég því sérstaklega að svo skjótt og myndarlega hefur verið brugðið við um meðalstóra virkjun í framhaldi af Lagarfossvirkjun sem þetta frv. ber með sér.