21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3084 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Þetta frv. og meðferð þess öll af hálfu ríkisstj. og stjórnarflokkanna hér þess glöggt vitni að þegar ríkisstj. var mynduð á sínum tíma tókst henni ekki að móta neina heildarstefnu í íslenskum efnahagsmálum. Frv. og það, hvernig að því hefur verið staðið eftir að það var lagt fram hér á hinu háa Alþ., ber þess glöggt vitni að ríkisstj. er ekki þeim vanda vaxin að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar. Auðvitað hljóta það að teljast í hæsta máta undarleg vinnubrögð að leggja fram fjárlög í desember, en flytja síðan í mars frv. þar sem gert er ráð fyrir að lækka nýsamþ. fjárlög um allt að 3500 millj. kr. En enn þá undarlegra verður málið allt þegar haft er í huga að þótt nú sé langt liðið á aprílmánuð hefur ríkisstj. enn enga grein gert, hvorki sjálfri sér né heldur Alþ., fyrir því hvaða útgjöld hún ætlar að lækka um 3 500 millj. kr. M. ö. o.: þegar næstum fjórir mánuðir eru liðnir af árinu ríkir enn alger óvissa um ríkisbúskapinn og um opinberar framkvæmdir á sumri komanda.

Þetta frv. var á sínum tíma lagt fram meðan stóð á samningaviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins, en afgreiðslu málsins var hins vegar frestað, eins og algerlega eðlilegt var, meðan enn var óvíst hvort samningar næðust eða ekki. Nú vita allir að samningar tókust og í því sambandi gaf hæstv. forsrh. út yfirlýsingu f. h. ríkisstj. hinn 26. mars, en aðalatriði þessarar yfirlýsingar forsrh. var þetta — með leyfi hæstv. forseta — hann segir:

„Til þess að greiða fyrir samningum um kaup og kjör milli samtaka launafólks og vinnuveitenda og í trausti þess, að vinnufriður haldist, lýsir ríkisstj. yfir: 1) Í efnahags- og fjármálafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþ., eru till. ríkisstj. um lækkun skatta og heimildir til lækkunar skatta sem numið gætu í heild allt að 2 000 millj. kr. Ríkisstj. mun og Alþ. beita sér fyrir skattalækkun að þessu marki með það fyrir augum að hún gagnist sem best þeim sem við erfið kjör búa.“

Þetta var kjarni yfirlýsingar þeirrar sem hæstv. forsrh. gaf 26. mars f. h. ríkisstj. Í 2. lið yfirlýsingarinnar kvaðst ríkisstj. mundu beita sér fyrir því að innheimtu opinberra gjalda ársins 1975 verði dreift á lengri tíma en ella hjá þeim launþegum sem í ár hafi sömu tekjur eða lægri peningatekjur en í fyrra. Og í 3. lið yfirlýsingarinnar kvaðst ríkisstj. mundu beita sér fyrir því að tekjutryggingarmark almannatrygginga hækki í sama hlutfalli og lægstu kauptaxtar í samningum Alþýðusambandsins og vinnuveitenda og skuli hækkun almenns lífeyris einnig ákveðin í samræmi við niðurstöðu almennra kjarasamninga.

Skattaákvæði frv., eins og það var í upphaflegri gerð, voru talin lækka skatta um 1 240 millj. kr. Í yfirlýsingu ríkisstj. fólst fyrirheit um að lækka skatta enn frekar sem næmi um það bil 800 millj. kr. og jafnframt hét ríkisstj. því að framkvæma þessa 800 millj. kr. viðbótarskattalækkun á þann hátt, eins og segir orðrétt: „að sem best gagnist þeim sem við erfið kjör búa.“

Samninganefnd ASÍ fjallaði í beinu framhaldi af bráðabirgðasamkomulaginu og yfirlýsingu ríkisstj. um það með hverjum hætti fyrirhuguð viðbót á skattalækkun gæti gagnast þeim best sem við erfið kjör búa. Niðurstaða níu manna nefndarinnar kom fram í bréfi sem samninganefndin sendi fjh.- og viðskn. Nd. 1. apríl. Í þessu bréfi, sem undirritað er af allri samninganefndinni, þ. e. a. s. Birni Jónssyni, Snorra Jónssyni, Eðvarð Sigurðssyni, Magnúsi Geirssyni, Jóni Sigurðssyni, Benedikt Davíðssyni, Einari Ögmundssyni, Birni Bjarnasyni og Birni Þórhallssyni — í þessu bréfi einróma samninganefndar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta — ég les aðalatriði málsins:

„Eru það eindregin tilmæli samninganefndarinnar að því fjármagni, sem nýting heimildarákvæða V. kafla frv. mundi kosta ríkissjóð, verði varið í sérstakan eða aukinn skattafslátt sem kæmi til útborgunar með sama hætti og barnabætur þegar svo stendur á að skattafsláttur verður hærri en opinber gjöld viðkomanda. Það er einróma skoðun samninganefndarinnar að framangreind breyting mundi skila hinum tekjulægri hagsbótum með miklum mun skýrari og óumdeilanlegri hætti en verða mundi með lækkun söluskatts og tolla um jafnháa upphæð í báðum tilvikum. Styðst sú skoðun m. a. við athugun Þjóðhagsstofnunar og þau augljósu rök að þeir, sem hafi meiri fjárráð, eyði hærri upphæðum í kaup á söluskattsskyldum og tollskyldum varningi en hinir tekjulægri. Sú aðferð, sem ákvæði V. kafla frv. gerir ráð fyrir, mundi því skila minni hagsbótum til hinna efnaminni en þeirra, sem betur eru settir, gagnstætt því sem segir í yfirlýsingu ríkisstj. frá 26. mars og þeim tilgangi frv. sem um er rætt í aths. við það. Fyrir þessa annmarka yrði hins vegar girt ef skattafsláttur svarandi til sömu kostnaðarupphæðar og gert er ráð fyrir í frv. kæmi jafnt til allra án tillits til tekna. Sá háttur mundi einnig að okkar dómi skapa minni skatttæknileg vandamál en sá sem frv. gerir ráð fyrir.“

Þetta var m. ö. o. skoðun einróma samninganefndar Alþýðusambandsins. Nú hefur hins vegar það gerst að hæstv. ríkisstj., væntanlega með stuðningi sinna þingflokka, hefur algerlega vísað á bug þessum tilmælum níu manna samninganefndar Alþýðusambandsins, því að í þeim till. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur nú flutt er gert ráð fyrir því að það, sem á vantar til þess að almenn tekjuskattslækkunarákvæði frv. nái 2 000 millj. heildartekjuskattslækkun, skuli fást með því að lækka tolla á ávöxtum og með því að lækka söluskatt.

Nú hefur áætlunin um áhrif almennra tekjuskatts- og útsvarslækkunarákvæða frv. verið hækkuð úr 1 240 millj. í 1 380 millj., svo að það, sem launþegasamtökin héldu að þýddi 800 millj. kr. viðbótarlækkun á skatti, er nú ekki nema tæplega 70ð millj. kr. viðbótarlækkun á skatti. En ég vek athygli á því, að enn virðist þó ekki hafa verið tekin ákvörðun um á hvaða vörum söluskattur skuli lækka og er hér enn eitt dæmi um algert ráðleysi ríkisstj. Það er ekki frambærilegt eftir þann mikla athugunartíma sem verið hefur til ráðstöfunar að ríkisstj. skuli óska eftir heimild til lækkunar á söluskatti sem nemi tæpum 600 millj. kr., en hafi enga grein gert sér fyrir því og geti ekki gert Alþ. neina grein fyrir því hvernig hún ætlar að nota þessa heimild, þ. e. a. s. á hvaða vörum söluskatturinn skuli lækka. En þar sem samninganefnd Alþýðusambandsins hefur lýst því yfir í bréfi til fjh.- og viðskn. að það sé skoðun sín að lækkun söluskatts og tolla skili minni hagsbótum til hinna efnaminni en þeirra sem betur eru settir heldur en sú leið sem hún hefur stungið upp á, þá hlýtur samninganefndin að telja að ekki sé staðið við fyrsta og mikilvægasta lið yfirlýsingar forsrh. frá 26. mars. Ég vil einnig fyrir mitt leyti láta í ljós þá skoðun að verði till. meiri hl. n. samþ. hafi ekki verið staðið við 1. lið yfirlýsingar forsrh., heldur sé það samkomulag þá svikið.

Þá kemur að því hver rök samninganefndar Alþýðusambandsins eru fyrir því að það muni gagna hinum tekjulægri betur að fá aukinn skattfrádrátt, að fá frekari lækkun á tekjuskatti og útsvari, en að lækka tolla og söluskatt sem svarar jafnhárri upphæð. Þessi niðurstaða er byggð á athugun sem Þjóðhagsstofnunin hefur gert á framfærslukostnaði vísitölufjölskyldunnar og því hversu miklu hún ver til kaupa á matvælum og jafnframt rannsókn á því hvernig matvælakaup fjölskyldna breytast með breytilegum tekjum. Þjóðhagsstofnun hefur gert samanburð á því hver áhrif það hafi á kjör hjóna með tvö börn á framfæri ef 800 millj. kr. skattalækkun sé framkvæmd annars vegar með frekari lækkun beinna skatta og hins vegar með lækkun óbeinna skatta af matvælum. Niðurstaðan er sú að tekjuskattslækkunarleiðin færði slíkri fjölskyldu með 800 þús. kr. tekjur 8.7% kjarabót, en söluskattslækkunarleiðin 8.4% kjarabót eða 0.3% minna. Miðað við 900 þús. kr. tekjur yrðu tölurnar 8.0% og 7.8%. Munar enn 0.2% hvað tekjuskattslækkunarleiðin er hagstæðari launþegum með 900 þús. kr. tekjur heldur en söluskattslækkunarleiðin. Og ef um 1 millj. kr. tekjur er að ræða gæfi tekjuskattslækkunarleiðin 8% kjarabót, en söluskattslækkunarleiðin 7.8% kjarabót. Ef tekjurnar væru 1100 þús. kr., gæfi tekjuskattslækkunarleiðin 7.8%, en söluskattslækkunarleiðin 7.6%. Svo að ég taki síðasta dæmið, ef tekjurnar væru 1.2 millj. gæfi tekjuskattslækkunarleiðin 6%, en söluskattslækkunarleiðin 5.9%. Þetta eru ekki tölur sem nefnd Alþýðusambandsins hefur reiknað út, heldur Þjóðhagsstofnunin. Er það á þessum tölum sem þau rök samninganefndar Alþýðusambandsins eru reist að það mundi gagna hinum tekjulágu betur að fá viðbótarfjárhæðina í formi aukins skattfrádráttar en í formi lækkaðs söluskatts, því að við öll þau tekjumörk sem ég nefndi yrði kjarabótin meiri ef tekjuskattslækkunarleiðin yrði farin heldur en farin væri leið lækkunar óbeinna skatta.

Þjóðhagsstofnunin hefur einnig gert útreikninga sem sýna hver niðurstaðan verður í krónum talið hjá hjónum með tvö börn á þeim tekjustigum sem ég var að nefna áðan. Ef miðað er við 800 þús. kr. tekjur mundu hjón með tvö börn fá í viðbótarlækkun opinberra gjalda 12 900 kr. samkv. tekjuskattslækkunarleiðinni, en ekki nema 10 500 kr. eftir söluskattslækkunarleiðinni. Ef tekjurnar væru 900 þús. kr. væri munurinn 2 700 kr., þ. e. a. s. tekjuskattslækkunarleiðin gefum 2 700 kr. meiri skattalækkun heldur en söluskattslækkunarleiðin. Miðað við 1 millj. kr. tekjur yrði mismunurinn 2100 kr., við 1100 þús. kr. tekjur yrði mismunurinn 1800 og við 1.2 millj. kr. tekjur yrði hann 1 500 kr., þ. e. a. s. hann fer lækkandi. En á öllum þessum tekjustigum fengi launþeginn meiri skattalækkun eftir tekjuskattslækkunarleiðinni heldur en eftir söluskattslækkunarleiðinni. Það er á þessum ótvíræðu niðurstöðum Þjóðhagsstofnunarinnar sem samninganefnd og stjórn Alþýðusambandsins hefur byggt þá till. sína til ríkisstj. að tekjuskattslækkunarleiðin verði farin, en þeim tilmælum hefur ríkisstj. nú augljóslega hafnað.

Í fjh.- og viðskn. var lýst eftir rökstuðningi fyrir því að lækkun óbeinna skatta kæmi launþegum betur, m. ö. o. lýst eftir gagnrökum við þau rök sem málsvarar Alþýðusambandsins fluttu gagnvart fjh.- og viðskn. En enginn slíkur rökstuðningur var fram borinn. Þeirri staðreynd er því enn algerlega ómótmælt að tekjuskattslækkunarleiðin, eins og Alþýðusambandið hefur stungið upp á, gagnist best þeim sem við erfið kjör búa, eins og segir í yfirlýsingu hæstv. forsrh.

Í samræmi við þessi sjónarmið flyt ég á sérstöku þskj. till. um að hver einstaklingur fái við bótarívilnun, þ. e. a. s. lækkun tekjuskatts og út svars eða greiðslu sem svarar 4 300 kr. á einstakling, 8 600 kr. á hjón og 2150 kr. á hvert barn. Er það í samræmi við till. sem fulltrúar Alþýðusambandsins gerðu í fjh.- og viðskn. á föstudaginn var. M. ö. o.: þessi viðbótarlækkun á skatti einstaklings, hjóna og vegna hvers barns svarar til þeirrar óskar sem fram var sett í því bréfi Alþýðusambandsins sem ég las áðan.

Mér voru það að sjálfsögðu mikil vonbrigði að fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. skyldi ekki vilja gerast meðflm. minn að þessum till. sem bornar voru fram af hálfu Alþb. og gerð var ítarleg grein fyrir af hálfu málsvara þess gagnvart fjh.- og viðskn. En hann var ekki reiðubúinn, fulltrúi Alþb., Magnús Kjartansson, til að gerast flm. hér á hinu háa Alþ. till. sem væri í einu og öllu í samræmi við óskir samninganefndar Alþýðusambands Íslands.

Í raun og veru má um það deila hvort í yfirlýsingu hæstv. forsrh. 26. mars hafi ekki falist það að viðbótarskattalækkun skuli nema 800 millj. kr. þar eð þá lá fyrir frv. þar sem talið var að mundi gefa í skattalækkun 1240 millj., en lofað var ca. 800 millj. í viðbót. Mætti með miklum rétti halda fram að loforðið hafi ekki verið um 2000 millj., heldur verið um 800 millj. kr. í viðbót við það sem skattalækkunin var þegar ákveðin þegar yfirlýsingin var gefin.

Þegar samningarnir voru gerðir miðaði Alþýðusambandið auðvitað við að fá hagsbót sem næmi 800 millj. kr. til viðbótar við frv., svo að ég segi enn að það má líta þannig á að í raun og veru sé ríkisstj. skylt, hvaða leið sem hún velur, að skila launþegum 800 millj. kr. til viðbótar því sem talið var að rétt væri þegar yfirlýsingin var gefin. En þá ætti auðvitað söluskatturinn að lækka meira en gert var ráð fyrir í máli frsm. meiri hl. n. áðan.

Þó að hv. þm. Magnús Kjartansson, sem hefur setið síðustu fundi í fjh.- og viðskn., hafi að vísu sagt í ræðu sinni áðan að hann hafi talið ríkisstj. skylt að verða við einróma tilmælum samninganefndar Alþýðusambandsins, þá lýsti hann sig á hinn bóginn andvígan því að fara tekjuskattslækkunarleiðina og 1ýsti sig fylgjandi því að fara söluskattslækkunarleiðina og er það auðvitað skýringin á því að hann vildi ekki gerast meðflm. minn að till. sem lagðar höfðu verið fram af hálfu Alþýðusambandsins í fjh.- og viðskn. s. l. föstudag. En margvísleg rök má færa fram gegna söluskattsleiðinni. Hvers vegna á í raun og veru að binda viðbótarívilnunina við kaup á ákveðnum vörum, t. d. við kaup á kjötvörum, kaup á ávöxtum, kornvörum eða brauði eða einhverju því um líku? Hví á ekki launþeginn að fá viðbótarívilnunina, sem í heild á að nema 800 millj. kr., á þann máta að hann geti sjálfur ráðið hvað hann gerir við ívilnunina, að hann geti sjálfur ráðið hvað hann gerir við peningana? Er það ekki augljós skerðing á valfrelsi launþegans ef hann getur því aðeins fengið ívilnunina að hann kaupi þá vöru sem söluskatturinn lækkar á, hver svo sem sú vara er? Það er auðvitað að þeir peningar koma sér betur sem hann getur ráðstafað að eigin vild. Þeir peningar eru meira virði, sem hann getur ráðstafað að eigin vild, heldur en þeir peningar sem hann getur því aðeins hagnast af með því að nota þá til kaupa á ákveðinni, tiltekinni vöru. Með þessari aðferð hæstv. ríkisstj. er í raun og veru valfrelsi neytandans skert. Hvað um þá fjölmörgu sem kaupa matvörur á veitingahúsum, t. d. einhleypinga sem borða og verða e. t. v. að borða atvinnu sinnar vegna á matsölustöðum? Þó að söluskattur lækkaði á einhverjum matvörum mun söluskattur ekki lækka á seldum mat í veitingahúsum. M, ö. o.: einhleypingur, sem auðvitað á rétt á þeirri skattívilnun sem hér er verið að ræða um, mundi ekki njóta hennar. Það er verulegur hluti fólks sem kaupir ekki mat til neyslu á heimili, heldur kaupir mat á matsölustöðum eða með öðrum hætti. Það er augljóst mál að söluskattslækkunarleiðin er mismunun. Hún er ekki aðeins skerðing á valfrelsi og rýrir verðgildi ívilnunarinnar, heldur mismunar hún einnig milli einstakra launþega.

Auðvitað geta menn deilt um tölur, auðvitað eru það þessar niðurstöður Þjóðhagsstofnunarinnar, útreikningar og áætlanir, sem menn geta leyft sér að vefengja, þó að þær séu allar saman á eina lund. En það er að mínu viti ekki mergurinn málsins hvort þarna muni 0.2%, 0.1% eða 0.3% í tekjubótinni eða hvort sú viðbótarskattalækkun, sem maður fær, er 1000 kr., 1500 kr. eða 2 000 kr. Hitt er í mínum augum mergurinn málsins, að þeir aðilar, sem eiga að njóta viðbótarívilnunar upp á sem metið er 800 millj. kr., hafa þegar lýst því yfir með hvaða hætti þeir telji sér verða mest gagn og mest hagsbót að þessum 800 millj. kr. Þeir hafa einróma og án nokkurs tillits til stjórnmálasjónarmiða lýst því yfir að þeir óski eftir því að fá þessar 800 millj. kr. í formi viðbótarlækkunar á tekjuskatti og útsvari eða auknum útborganlegum skattfrádrætti. Þetta er einróma skoðun þeirra sem ívilnunina eiga að fá og ívilnunin var ætluð, og þá hlýtur að gefa auga leið að vægast sagt mjög óhyggilegt er að ganga gegn mati þeirra manna á gildi ívilnunar sem hennar eiga að njóta. Það er óhyggilegt af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, og ég spái því að þetta fyrirhyggjuleysi, þetta gáleysi eigi eftir að hefna sín.

Þá er rétt að vekja athygli á því að í brtt. meiri hl. n. er ekki að finna neinar till. varðandi 2. og 3. lið yfirlýsingar forsrh. frá 26. mars, þ. e. a. s. að innheimtu opinberra gjalda verði á árinu 1975 dreift á lengri tíma en ella hjá þeim launþegum, sem í ár hafa sömu eða lægri peningatekjur en í fyrra, né heldur um hækkun tekjutryggingarmarks og almenns lífeyris. Í n. var að vísu frá því skýrt að við þessi fyrirheit yrði staðið, um hið fyrra þyrfti ekki lagasetningu, en vegna síðara atriðisins yrði öðrum lögum breytt. En langeðlilegast hefði þó verið að skýr ákvæði hefðu verið sett um öll atriði yfirlýsingar forsrh. í þessi lög.

Þá vil ég taka fram að þingflokkur Alþfl. er andvígur ákvæðum frv. um flugvallagjald. Í fyrsta lagi telur hann varhugavert að leggja slíkt gjald á með þeim stutta fyrirvara sem hér er ráðgerður. Í öðru lagi telur hann tekjur af þessu gjaldi ekki réttlæta þann skriffinnskukostnað sem það hefði í för með sér, enda er hliðstætt gjald ekki innheimt í nálægum löndum. En mikilvægast er þó í augum okkar að gjaldið mun skipta verulegu máli í augum efnalítils fólks og torvelda því að njóta orlofs erlendis, en skiptir hins vegar litlu eða engu máli fyrir hina tekjuháu og þá sem fá ferðakostnað sinn greiddan af fyrirtækjum eða af opinberum aðilum.

Þá er síðast þess að geta að það er skoðun okkar í þingflokki Alþfl. að fyrst með þessu frv. séu á annað borð gerðar enn veigamiklar breytingar á skattkerfinu, þá sé rétt að minna á og vekja upp aftur till. sem þingflokkur Alþfl. hefur áður flutt um sérsköttun hjóna. Þegar núgildandi skattalög voru sett vorið 1972, var af hálfu þingflokks Alþfl. flutt till. um að kona skuli vera sjálfstæður skattþegn hvort sem hún væri gift eða ekki og hvort sem hún ynni utan heimilis eða á heimili. Hugmyndinni var vel tekið af þáv. hæstv. fjmrh., Halldóri E. Sigurðssyni, og núv. hæstv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, hefur einnig lýst yfir skilningi á nauðsyn þess að gerðar verði breyt. á núgildandi skipan. En ekkert hefur enn gerst í málinu. Þess vegna er nú enn á ný vakin athygli á nauðsyn breytinga. Kjarni þessa máls er sá, að það á auðvitað engin áhrif að hafa á skattgreiðslu konu, hvort hún hefur gifst eða ekki. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lengst af galt konan þess herfilega ef hún var gift og aflaði sér sjálfstæðra tekna, þar eð tekjur hennar voru lagðar við tekjur eiginmannsins og þannig greiddar af þeim hlutfallslega miklu hærri skattar en af hliðstæðum tekjum ógiftrar konu. Þetta hefur eflaust átt sinn þátt í því að karl og kona hafa oft valið þann kost að búa saman án hjónabands ef það varð til þess að létta skattbyrði. Nokkrar ráðstafanir hafa að vísu verið gerðar á undanförnum árum til þess að bæta úr þessu, en eina fullnægjandi ráðstöfunin er þó sú að telja konu jafnan sjálfstæðan skattþegn án tillits til stöðu hennar í þjóðfélaginu, innan hjónabands eða utan, enda er það í sannleika sagt eitt í samræmi við nútímasjónarmið varðandi mannréttindi. Til þess að þetta geti orðið verður, auk þess sem konan greiðir að sjálfsögðu alltaf skatt af þeim tekjum sem hún sjálf aflar, að ætla konu, sem vinnur á heimili, nokkurn hluta af tekjum eiginmannsins sem laun hennar fyrir vinnu á heimilinu og af þeim tekjum á hún að sjálfsögðu að greiða opinber gjöld, en skattar eiginmanns minnka þá hins vegar á móti. Sú hugmynd að skipta tekjum hjóna til helminga, sem rætt hefur verið um, mundi verða tekjuháu fólki óeðlilega hagstæð og ekki vera í samræmi við þau s.jónarmið um réttmæta stighækkun tekjuskatts og útsvars sem núgildandi skattkerfi grundvallast á.

Megintill. þær, sem ég flyt, eru sem sagt annars vegar að þær 700–800 millj., sem ríkisstj. hefur heitið launþegasamtökunum í ívilnun til viðbótar því sem segir í frv., skuli fást með viðbótarlækkun á tekjuskatti og útsvari, þ. e. auknum skattfrádrætti sem skuli vera útborganlegur. Er þessi tillöguflutningur að fullu og öllu í samræmi við einróma óskir samninganefndar Alþýðusambands Íslands. Hin megintill. er um að ríkisstj. skuli fyrir næsta þing undirbúa ákvæði um sérsköttun hjóna með þeim hætti að kona skuli jafnan talin sjálfstæður skattþegn.

Þetta eru megintill. og vildi ég mega vænta þess, ekki hvað síst um þá till. sem flutt er beinlínis að beiðni samninganefndar Alþýðusambandsins, að hún hljóti góðar undirtektir hér í hv. deild.