21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3096 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Þær brtt., sem ég flyt við frv. það, sem hér er til umr., eru á þskj. 475.

Brtt. mínar nr. 1. nr. 3. stafl. b og d, og brtt. nr. 4 á þskj. 475 og raunar brtt. á þskj. 485, sem er nýkomin úr prentun, eiga það sameiginlegt að ég geri þar till. um að viðurkennt verði til fulls að barn sé á framfæri til fullra 17 ára aldurs og reglum um barnabætur og útsvarsfrádrátt breytt samkv. því í ársbyrjun 1972 kom til framkvæmda sú breyting, að barnalífeyrir og meðlög skyldu greidd með börnum til 17 ára aldurs í stað 16 ára áður. Sú sjálfsagða breyting var rökstudd með því að það væri engu ódýrara að framfæra ungling á þessum aldri, einmitt kannske á því skeiði er hann væri að hefja framhaldsnám af einhverju tagi, og fylgdi því jafnvel meiri kostnaður en áður. Um þessa breytingu, sem á sínum tíma var gerð á almannatryggingal., var á sínum tíma enginn ágreiningur. Breytingar þær, sem ég legg til að gerðar verði, eru því eingöngu eðlileg samræming á sjónarmiði sem þegar hefur hlotið viðurkenningu. Ég tel eðlilegt að barnabætur og frádráttur til útsvars hlíti að þessu leyti sömu reglum og greiðsla barnalífeyris og meðlags.

2. brtt. mín á þskj. 475 er eins orðuð, en reist á öðrum forsendum. Þar er fjallað um hina skattalegu meðferð á meðlegi vegna barns á 17. ári, að hún verði hin sama og gildir um yngri börn, en raunar hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. gert sams konar till. og þarf ég því ekki að fara fleiri orðum um hana sérstaklega.

3. brtt. mín á þskj. 475 gerir ráð fyrir því að skattstiginn verði hinn sami hjá einstæðum foreldrum, sem halda heimili og framfæra þar börn sín, og hjá hjónum. Í frv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir að einstaklingur fari upp í 40% skattgreiðslu við 600 þús. kr. markið, en hjón sem samsköttuð eru, fari ekki upp í 40% markið fyrr en við 850 þús. kr. Samkv. fm. á þá einstætt foreldri, sem hefur fyrir börnum að sjá, að greiða 40% af þessum 250 þús. kr. mismun, sem er 100 þús. kr. Samkv. till. minni mundi þessi upphæð minnka um helming eða um 50 þús. og yrði þá hin sama og hjá hjónum.

Það er raunar einkenni á þessu frv. að skattar eru miklum mun þyngri hjá einstæðum foreldrum með börn á framfæri en hjá hjónum þótt barnafjöldinn sé hinn sami og tekjur heimilisins nákvæmlega hinar sömu. Þessi munur haggast ekki verulega þótt ríkisstj, hafi nú dregið í land með upphaflegar hugmyndir sínar um að skattskylda meðlagsgreiðslur. Hinn sérstaki frádráttur, sem áður gilti fyrir einstætt foreldri með börn á framfæri, hefur nú verið felldur niður en hann kemur ekki heldur að því gagni sem þyrfti að vera og hugmynd mín um hjónaskattstigann mundi gera.

Þessi mismunur á einstæðum foreldrum með börn og hjónum kemur ljóslega fram í því dæmi, sem hv. frsm. meiri hl. n. nefndi í ræðu sinni í dag, — dæmi sem Félag einstæðra foreldra hefur sent öllum alþm. Þar kemur fram að hjón með tvö börn, sem hafa atvinnutekjur 1 200 þús., tekjur til útsvars 1150 þús. og hreinar tekjur til skatts 960 þús. kr., greiða í tekjuskatt og útsvar alls 110 289 kr. Ef eiginmaðurinn í þessu dæmi missir konu sína og heldur einn heimili fyrir börn sín hækkar tekjuskattur hans og útsvar og er þá miðað við sömu atvinnutekjur og áður — upp í 233 890 kr., þ. e. a. s. upphæðin rúmlega tvöfaldast. Enda þótt brtt. meiri hl. n. um skattskyldu meðlags yrði samþ. jafnast þessi mismunur samt ekki. Eftir sem áður ber hið einstæða foreldri samt 90 þús. kr. hærri skatt en hjónin. Hreint reikningslega séð skýrist þetta að mestu af því, að í stað konu sinnar hefur ekkjumaðurinn fengið fjárhagslegar bætur fyrir þá vinnu sem hún innti af hendi. Tryggingarnar viðurkenna réttilega að heimilið hafi einhvers í misst við missi móður og húsmóður. En samkv. þessu frv. lítur skattalöggjafinn svo á að missir húsmóðurinnar sé hreinn gróði, en ekki tap. Það er litið svo á að tryggingabætur ekkjumannsins séu auknar ráðstöfunartekjur sem hann hafi umfram kvænta manninn. Þessi skilningur kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. í dag þegar hann sagði á þá leið, að væru allar greiðslur tíundaðar væru einstæðir foreldrar betur settir. Í þessu dæmi ríkisstj. og hv. frsm. er húsmóðirin sama sem núll. Hún er í besta falli matvinnungur ef ekki hreinn ómagi á manni sínum. Vinnan, sem húsmóðir innir af hendi meðan hún er á lífi, er skattfrjáls. Samkv. frv. snýst dæmið við. Þegar hún andast eru bæturnar eftir hana skattlagðar sem aukið ráðstöfunarfé heimilisins í formi feðralauna og tekjumark 20% álagningar þar með lækkað um 250 þús. kr.

Það er fróðlegt að íhuga þessar staðreyndir í ljósi þeirra orða, sem hæstv. fjmrh. hefur viðhaft bæði hér á þingi og utan þess, er hann boðaði nýtt frv. á næsta þingi um sérsköttun hjóna, þar sem fyrirhugað er að tekjum heimilisins verði skipt jafnt á milli hjónanna, þau séu greiðsluskyld fyrir sitt hvorum helmingnum og þar með fáist viðurkenning á störfum húsmóður á heimili. Ég ætla ekki að fara nú inn á allar þær röksemdir sem sýna hina dæmalausu hugsunarvillu í þessari fullyrðingu. Ég hef raunar gert það áður og fæ kannske tækifæri til þess að endurtaka það síðar en sú rökvilla, sem liggur að baki þessari hugmynd hæstv. fjmrh. o:g Sjálfstfl., dygðu þeim til þess að verða að athlægi um alla heimsbyggðina ef hún fréttist svo langt. Það er ekkert annað.

Kona getur orðið sjálfstæður skattþegn án þess að slíkt þrugl þurfi að fylgja. Sjálf hef ég flutt till. um að gift kona verði sjálfstæður skattþegn. Krafan um það að gift kona verði sjálfstæður skattþegn er byggð á þeirri kröfu að hún fái óskorað fjárforræði, að það sé litið á hana sem ábyrga og hæfa til að gera sjálf grein fyrir fjárhag sínum, hvort sem hún vinnur fyrir skattskyldum tekjum eða ekki, á sama hátt og reiknað er með að unglingur eða ógift kona geti gert slíkt. Heimilisstörf eru skattfrjáls, enda mun samkv. hugmyndum Sjálfstfl. ekki ætlunin að breyta því. Meginhugsun þeirra mun eingöngu vera sú að heimavinnandi húsmóðir „fái“ að telja fram helminginn af tekjum mannsins, þ. e. a. s. tekjum fyrir vinnu sem hann innir af hendi. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason virðist vera á sömu braut. Slík tilhögun sem Sjálfstfl. leggur hér til mundi auk alls annars, sem ég mun geyma mér, hafa í för með sér svo verulega þyngingu á skatti eftirlifandi aðila, þegar hinn félli frá, að óþolandi yrði.

Aukin skattheimta er ekki viðurkenning á vinnu. Varla hefði ASÍ eða aðrir aðilar krafist skattalækkunar ef svo væri. Viðurkenning á vinnu húsmóður kemur í öðru formi, t. d. með tryggingabótum. En við höfum nú séð dæmi þess hvernig hæstv. ríkisstj. lítur á slíka viðurkenningu sem hreinan ágóða fyrir heimilið ef húsmóðirin fellur frá. Þannig er nú hugurinn til heimavinnandi húsmæðra þegar allt kemur til alls, að maður tali nú ekki um þann skýrleika í hugsun sem hæstv. ríkisstj. sýnir. En hæstv. ríkisstj. hefur nú tækifæri til að sýna viðurkenningu á störfum húsmóður með því að fallast á till. mína um að tekjuskattur einstæðra foreldra skuli reiknast eftir sama skattstiga og hjá hjónum, Í þessu frv. er þetta sjónarmið raunar viðurkennt í 9. gr. B-lið, tölul. 3. Þar er viðurkennt að heimilishald hjá einstæðu foreldri, sem heldur heimili fyrir börn sín, sé hið sama og hjá hjónum.

Vitaskuld aukast bein útgjöld þegar annað foreldri hverfur af sjónarsviðinu. Þar nægir að minna á útgjöld vegna dagvistunar, útgjöld vegna aukins kostnaðar við vinnu og þjónustu. Annar kostnaður stendur í stað en minnkar ekki eins og hæstv. ríkisstj. virðist gera ráð fyrir. Mikilvægir útgjaldaliðir heimilis ráðast af barnafjölda, ekki því hvort hjón standa fyrir heimili eða einungis annað foreldrið. Svo er t. d. um húsnæðiskostnað, hita, rafmagn, svo að eitthvað sé nefnt. Það er því hróplegt ranglæti þegar ríkisstj. ætlar nú að breyta skattal. í þá átt að ætla einstæðum foreldrum með börn á framfæri að bera þyngri skatta en hjónum með sömu tekjur. Það er jafnvel gengið enn lengra, því að skattar beinlínis þyngjast frá því sem nú er hjá einstæðum foreldrum við um það bil 850 þús. kr. tekjumarkið. Þessi hópur er raunar innan þess ramma eða við jaðarinn sem ASÍ hefur gert kröfu til um jöfnunarbætur, og kemur því úr hörðustu átt þegar á að fara að þyngja skatta á þessum hópi í frv. sem hefur verið talað um að fæli í sér skattalækkun.

Þetta misræmi í sköttun milli heimila einstæðra foreldra og hjóna þrátt fyrir sömu tekjur og sama barnafjölda verður enn alvarlegra þegar litið er til barnabótanna. Í reynd þýðir þetta lægri eftirstöðvar til barna einstæðra foreldra en þeirra barna sem njóta beggja foreldranna. Þetta kemur þannig út að barnabætur jafnast upp, eru búnar hjá einstæðum foreldrum við rúmlega 800 þús. kr. tekjumark brúttó en hjá hjónum ekki fyrr en við rúmlega 900 þús. kr. markið, og hef ég þá miðað við að í þessum dæmum væru tvö börn á heimili.

Samkv. till. minni mundu því einstæðir foreldrar byrja að njóta góðs af hjónaskattstiganum í útborgun barnabóta við 800 þús. kr. brúttótekjur. Ég held að enginn geti talið 800 þús. kr. neinar hátekjur fyrir einstætt foreldri með tvö börn á framfæri. Þrátt fyrir brtt. mína nýtur einstætt foreldri ekki jafnræðis við hjón þegar tekjur fara hækkandi. Einstætt foreldri mun enn standa verr að vígi sakir þess að hjónum nýtist betur ýmiss konar skattafrádráttur, t. d. 50% frádráttur eiginkonu, svo að eitthvað sé nefnt, og vík ég þessu að þeim sem telja að einstæðir foreldrar hafi það raunar of gott nú, eins og mátti skilja á hv. frsm.

Í 3. brtt. minni, c-lið, legg ég til að breytt verði forgangsröð varðandi útborgun barnabóta, þ. e. a. s. í stað þess að greiðsla opinberra gjalda hafi algeran forgang og eftirstöðvar greiddar framfæranda skuli fyrstu 20 þús. kr. með hverju barni renna til framfæranda. Hér er eingöngu verið að breyta forgangsröð en að sjálfsögðu gert ráð fyrir að eftirstöðvar, ef einhverjar verða, verði síðan greiddar framfæranda eins og frv. gerir ráð fyrir.

Útborgun fjölskyldubóta hefur verið mörgu barnmörgu heimili mikil stoð. Það hefur verið litið svo á víða, mjög víða, að fjölskyldubæturnar væru ráðstöfunarfé húsmóðurinnar. Hún hefur getað gengið að reiðufé í þessu formi og haft tök á að vita nákvæmlega hversu háa upphæð hún fær í hendur. Þetta er fyrst og fremst hagsmunamál fyrir börnin. Það er lítil huggun í því að vita það, að heimili sé orðið skuldlaust við hið opinbera, en skorti reiðufé til að kaupa klæði og fæði handa börnunum. Fjölskyldubæturnar hafa verið fyrst og fremst slík trygging og öryggi. Auk þess geta tekjur og skattar verið mismunandi hjá fólki frá ári til árs og eftirstöðvar því óvissar. Í útreikningum hæstv. ríkisstj. er miðað við eitt ár, en þar sem sveiflur eru miklar í atvinnulífi og tekjur manna mismunandi frá ári til árs, eins og t. d. hjá sjómönnum, rennur fólk blint í sjóinn með það hverjar eftirstöðvar verða vegna barnanna á hverju ári fyrir sig.

Það má einnig benda á að líkur eru til, að meginþorri barnafólks með miðlungstekjur greiði meiri skatt en barnabótunum nemur. Útborgaðar barnabætur samkv. frv. eru jafnar eða hærri en núverandi fjölskyldubætur, ef brúttótekjur eru lægri en 850 þús. kr. hjá hjónum með 2 börn og 760 þús. hjá einstæðum foreldrum með 2 börn. Um leið og brúttótekjur fara yfir þetta mark eru barnabæturnar orðnar minni en núverandi fjölskyldubætur. Hér sjáum við raunar enn mismuninn í útborgun barnabóta eftir því hvort um er að ræða hjón eða einstætt foreldri. En þó að við lítum fram hjá því í þessu dæmi, þá eru 750–850 þús. kr. lágtekjur ef heimili hefur tvö börn á framfæri, og það er að mínu viti afar varhugavert að minnka útborgun barnabóta til þessa fólks.

Útborgun fjölskyldubóta hefur stundum verið mótmælt á þeim forsendum að fólk fengi greiddar fjölskyldubætur sem það hefur ekki þurft á að halda. En ég bendi á að í frv. er ekkert sem kemur í veg fyrir að barnmargur hátekjumaður, sem hefur lag á því að vera tekjuskattslaus, fái allar sínar barnabætur greiddar, meðan barnafólk með miðlungstekjur fengi lítið sem ekkert. Ég hef einnig gert ráð fyrir því að sá, sem vill heldur að barnabætur renni fyrst og fremst til greiðslu opinberra gjalda, geti þá afsalað sér þessari 20 þús. kr. greiðslu með hverju barni og búið við það fyrirkomulag sem frv. gerir ráð fyrir. En óskin verður að koma frá honum sjálfum. Ég hef enn fremur gert ráð fyrir því að upphæðin breytist í samræmi við skattvísitölu.

Meginefni 4. brtt. minnar á þskj. 475 er á þá leið að hækka skuli frádrátt til útsvars fyrir hvert barn. Frádrátturinn í gildandi lögum er 1000 kr. fyrir hvert barn og 2000 kr. fyrir hvert barn umfram þrjú. Til þess að halda hlutfalli sínu miðað við skattvísitölu þurfa þessar tölur að hækka enn meir en gert er ráð fyrir í frv. og því hef ég lagt til að í stað 1 500 kr. fyrir hvert barn, sem gjaldandi hafi á framfæri, skuli koma 2 700 kr. og fyrir hvert barn umfram þrjú skuli frádrátturinn vera 5 400 í stað 3 000 eins og frv. gerir ráð fyrir.