21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Á það hefur rækilega verið bent í þessum umr. að frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum, sem verið er að ræða, er í raun og veru stórkastleg umturnun á þeim fjárl. sem sett voru fyrr á þessu þingi. En ég tel að því hafi ekki verið veitt nógsamleg athygli að það eru að því er mér virðist lögð drög að því strax í 1. gr. frv. að þessi umturnun verði ekki hin síðasta. Í 1. gr. er kveðið á um heimild fyrir ríkisstj. til að lækka fjárveitingar á fjárl. um allt að 31/2 milljarð kr. Ég tel öll rök hníga að því að það, sem þarna er sett fram og talsmenn ríkisstj. virðast telja örugga stærð, sé í rauninni ekki nema fróm ósk. Ég tel að það muni sýna sig, þegar að því kemur að framkvæma þennan niðurskurð, að hann er ógerlegur ef ekki á að valda stórfelldu tjóni, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Það væri annað mál ef hér væri verið að leggja til að kveðið yrði á um það í eitt skipti fyrir öll að lækka tiltekna fjárlagaliði um ákveðnar upphæðir. Þá væri um að ræða fastan grundvöll fyrir því sem verið er að gera. En ég leyfi mér að bera brigður á að þessi upphæð standist, og ég held því eindregið fram að ef í það yrði farið að framkvæma slíkan niðurskurð af fullri hörku hlyti hann að bitna á ýmsum þeim hlutum, sérstaklega framkvæmdum, sem eru líftaugar í lífi landsbyggðarinnar.

Meginkafli þessa frv. fjallar um skattamál. Það eru tvennar veilur, sem einkum eru afdrifaríkar og raunar öllum augljósar, í íslenskum skattamálum. Annars vegar eru ákvæði, sem eru orðin úrelt eða hafa breytt stórlega um áhrif á skattkerfið vegna breyttra tíma. Þetta eru þeir hlutir sem hæstv. viðskrh. nefndi smugur eða gloppur í skattal. í viðhali í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Hin veilan er beinn undandráttur, skattsvik, sem ekki hefur tekist að stemma stigu við. Það væri fagnaðarefni ef hér lægi fyrir frv. þar sem tekið væri einarðlega á þessum tveim miklu vandamálum, en því er nú síður en svo að heilsa. Þvert á móti fæ ég ekki betur séð en báðar þessar örlagaríku veilur í skattakerfinu séu a. m. k. festar, ef ekki auknar, eins og málið er í pottinn búið. Það fer ekki á milli mála að með málatilbúnaði sem þessum, um verulega breytingu ýmissa atriða í skattlagningu, þegar skattframtöl liggja þegar fyrir og úrvinnsla þeirra hjá skattstofunum ætti fyrir löngu að standa sem hæst, er verið að torvelda mjög allt starf þeirra embættismanna sem um það fjalla að leggja á skattana og hafa eftirlit með því að skattframtölin séu svo úr garði gerð sem þau eiga að vera. Þegar þessar breytingar koma svona seint fram og eru þar á ofan eins lengi í meðförum í n. í fyrri d. og þessar hafa verið, hvorki meira né minna en mánuð, þá getur ekki hjá því farið að skattstofurnar verði fyrir gífurlegum töfum í álagningarstarfinu og þessar tafir verða til þess að starfskrafta og tíma skortir til að framkvæma það eftirlitsstarf, sem verður að vinna í skattstofunum, ef starf skattrannsóknadeildar og skatteftirlit á landsmælikvarða á að bera viðhlítandi árangur. Starf skattstofumannanna verður í rauninni það að endurreikna framtöl allra framteljenda, sem hafa gengið frá framtölum sínum samkv. allt öðrum lagaákvæðum en gilda við álagninguna, í stað þess að þeir ættu, ef vel væri, að geta varið miklu af starfskröftum sínum til þess að fara ofan í framtölin og líta eftir því að þau séu rétt úr garði gerð. Ég vil halda því fram að með slíkri málsmeðferð sé í raun og veru verið að friða skattsvikara og það því fremur sem þetta lapparí á skattal. verður óhjákvæmilega til þess að veigameiri endurbætur dragast úr hömlu.

Af hinum atriðunum, þeim sem hæstv. viðskrh. nefndi gloppur í skattal., er sú áreiðanlega fyrirferðarmest sem varðar það, sem nefnt er sérstök óbein fyrning eða flýtifyrning, og þann verðhækkunarstuðul, sem henni fylgir. Eins og þessi verðhækkunarstuðull var ákveðinn síðla s. l. árs, þá held ég að það sé dómur fróðra manna um skattframkvæmd að verði eftir honum farið þá sé í raun og veru verið að losa með öllu við tekjuskatt flest fyrirtæki í landinu og þá einstaklinga sem eiga verulega hluti í fyrirtækjum, með þessu sé í raun og veru búið svo um hnútana að gróðamyndun, hversu mikil sem hún er, sé skattfrjáls. Og menn geta gert sér í hugarlund hver áhrif það hefur á hinn óbreytta skattgreiðanda, sem aðeins hefur launatekjur fram að telja og greiðir af þeim sín gjöld að fullu, að vita að þeir aðilar, sem hafa margir hverjir stórgróða, sleppa með öllu við tekjuskattsgreiðslur. Það hefur komið fram áður að það er álit okkar í Samtökunum að eitthvert brýnasta verkefnið í skattamálum sé að reisa skorður við því að þetta ástand fái að vara lengur, og við munum greiða atkv. brtt. sem um það efni fjallar á þskj. 441.

Eitt sinn taldi annar núverandi stjórnarflokka það mikið stolt ríkisstj., sem sat næst á undan þessari, að hún hefði komið fyrir kattarnef æðimörgum hvimleiðum nefsköttum, sem lögðust á fólk án þess að nokkurt tillit væri til þess tekið hvert gjaldþol þess var, og þessum álögum var breytt í tekjuskatt sem lagðist á eftir efnum og ástæðum. En ég sé ekki betur en í VI. kafla þessa frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að leggja á nefskatt, sem að vísu fellur ekki á hvert mannsbarn í landinu sem orðið er fullveðja, heldur á alla þá sem þurfa að ferðast með flugvélum. Þar eru drög að því lögð að lagt verði á flugvallagjald og vitnað í því sambandi til flugvallagjalds í öðrum löndum. En ég tel þann samjöfnuð algerlega tilefnislausan. Það flugvallagjald, sem hér er um að ræða, er svo margfalt hærra en nokkurt slíkt þjónustugjald sem mér er kunnugt um, að hér er í rauninni um að ræða ferðaskatt og hann lagður á sem nefskattur, hann skulu allir þurfa að greiða í hvaða erindum sem þeir ferðast, hversu nauðsynlegar og óhjákvæmilegar sem ferðir þeirra eru og hversu svo sem þeir eru fjáðir að reiða af hendi farareyri. Ég tel þetta flugvallagjald óhóflegt og þar að auki er það þannig úr garði gert að það hlýtur að raska öllu skipulegu starfi í ferðamálum, Það mætti færa að því rök að hóflegt gjald, sem ætti að standa til frambúðar, væri á lagt og þá með hæfilegum og eðlilegum fyrirvara, en ætla að leggja á þennan sérstaka ferðaskatt svona háan um takmarkaðan tíma tel ég algert óráð.

Þetta frv. og margt, sem því er samfara, sýnir að mínum dómi mjög skýrt hversu ráð hæstv. ríkisstj. er að mörgu leyti á reki og reiki. Ég minni t. d. á það svona rétt í framhjáhlaupi að ég benti á það í útvarpsumr. skömmu eftir að frv. kom fram að í 18. gr. væri heldur sérkennileg upptalning á varningi, feitmeti ýmiss konar, sem ætti að gefa heimild til að fella niður af tolla. Nú er lagt til í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. að þessi heimild sé niður felld og er vitnað í því sambandi til aths. og mótmæla heilbrigðiseftirlitsins. Væri nú fróðlegt að vita hvernig þessi till. hefur orðið til að ýta við heilbrigðiseftirlitinu. Annað atriði og margfalt afdrifameira er að óbreytt er það ákvæði samkv. brtt. meiri hl. að ekki er á nokkurn hátt kveðið á um hvernig nota skuli og hvernig notuð verði heimild til þess að slaka á söluskattsheimtu af einhverjum ótilteknum vörutegundum. Ég hygg að þessi málatilbúnaður, að hafa þarna allt loðið og óákveðið og eiginlega eintóm eftirkaup, eigi sinn þátt í því að 9 manna nefnd Alþýðusambandsins vildi hafna þessari leið með öllu og einvörðungu fá þá skatteftirgjöf, sem um er rætt, með afslætti af tekjuskatti. Eina framlag hv. 5. þm. Reykn. til þessa máls, sem ætla hefði mátt að mundi greina nánar frá því á hvaða vörum og hversu mjög ætti að lækka söluskattinn, var að hann taldi margvísleg tormerki á því að hægt væri að koma þar að lækkun á söluskatti af kjötvörum. Ég vil því lýsa því yfir fyrir okkar hönd, samtakamanna, að við munum greiða atkv. brtt. á þskj. 483 frá 2. minni hl. og fjh.- og viðskn.

Þótt brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. séu mikið plagg og komi víða við í frv. er ekki að heyra á hv. frsm. að enn sé lokið því reiki og reki sem stjórnarliðið reynist vera á í þessu máli, því að enn boðar hann brtt. við 3. umr. Síðan vantar gersamlega í þetta frv. efndir á tveim af þeim loforðum sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið í sambandi við nýafstaðna kjarasamninga. Þar örlar hvergi á efndum á því loforði að lífeyrisþegar skuli hljóta auknar bætur, og því teljum við samtakamenn sjálfsagt að greiða atkv. brtt. um það efni á þskj.. 483 frá fyrra minni hl. fjh.- og viðskn. Sömuleiðis skortir algerlega að nokkur ávæningur hafi verið gefinn um það hvernig framkvæma á annað fyrirheit, fyrirheitið um að dreifa greiðslum opinberra gjalda á lengri tíma en tíðkast hefur hjá þeim; sem lækka í tekjum frá undanfarandi ári, og þar skuli afdráttur ekki fara yfir 40%. Þetta er að flestra hyggju ekki auðvelt í framkvæmd, en því meiri ástæða er til að lýsa eftir vitneskju um hvernig hæstv. fjmrh. ætlar sér að koma því í kring.

Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að bæta að einhverju leyti hag einstæðra foreldra gagnvart skattheimtu og jafna skattstöðu fólks í óvígðri sambúð við það sem er í formlega frágengnu hjónabandi. En slík atriði sem vissulega fyrirfinnast í þessu frv. eru smámunir hjá því að með þessum málatilbúnaði er að minni hyggju verið að festa í sessi skaðlegustu veilur skattkerfisins og sömuleiðis að þau fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið og skipta verulegu máli fyrir afkomu þeirra sem við lökust kjör búa í landinu, virðist ætla að rætast bæði seint og illa.