21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég sé ástæðu til að fara hér um nokkrum orðum, — atriði sem komið hafa fram í máli manna í þessum umr.

Ég ræddi í dag nokkuð tekjutrygginguna og svo gerði einnig hv. þm. Magnús Kjartansson. Ég ítreka það, sem ég sagði þá, að með þeirri 13% hækkun, sem verður a. m. k. vegna láglaunabóta, og 18%, sem áætlað er vegna útborgunar í skattkerfinu, þá hækkar tekjutryggingin um 33% ársgrunni, en í reynd um 54% á helmingi ársins, þar sem þá yrðu þessi 18% greidd fyrir heilt ár. Ég er þess fullviss að hv. þm. Magnús Kjartansson hlýtur að fagna hækkun sem þessari.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason kom víða við í sinni ræðu. Hann talaði hér mikið um skattlækkunarleiðina annars vegar og söluskattsleiðina hins vegar á grundvelli töflu sem Þjóðhagsstofnunin hefur reiknað og ég vísaði einnig til í minni ræðu. Ég sagði í dag að þarna væri vart um að ræða marktækan mun og vísaði einmitt í því sambandi til þessarar töflu, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vísaði einnig til og hann nefndi þar tölur sem eru þetta frá 1500 kr. og upp í 2400 eftir tekjuhæð. Tölur Þjóðhagsstofnunar innar eiga við almennari lækkun söluskatts en haft er í huga í því sem ég nefndi í minni ræðu.

Þar eru einmitt valdar vörur, sem koma launafólki til hvað mestra hagsbóta, og þar með vörur sem aukast ekki í neyslu með hærri tekjum svo að orð a. m. k. sé á gerandi. En forstjóri Þjóðhagsstofnunarinnar lét þess getið á fundi n. að þessar tölur væru ekki vel grundaðar um neysluvenjur fólks eftir tekjuhæð. Og ég bendi líka á það að frumþarfir fara ekki heldur eftir tekjum. Þm. gerði nokkurt mál úr því að það hefði verið á fundi n. af hálfu fulltrúa Alþýðusambandsins lýst eftir gagnrökum í n. eða lýst eftir rökum frá meiri hl. hennar hvers vegna væri ekki orðið við till. þeirra að fullu og öllu. Ég svaraði því í n. að þau rök mundu koma fram við 2. umr. málsins, og ég hygg að ég hafi fært fram í máli mínu í dag rök fyrir því hvers vegna frv. er einmitt svona, en ekki öðruvísi.

Ég nefndi það líka í dag að útborgunin, ef sú leið yrði farin, kæmi aðeins til þeirra tekjulægstu sem ekki eru á vinnumarkaðnum nema hluta úr árinu og því ekki aðilum Alþýðusambands Íslands til góða. Þetta þykist ég hafa rökstutt í máli mínu í dag. Þess vegna virðist svo sem hér komi meira til góðvild Alþýðusambandsins í garð annarra en sinna meðlima og er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. En ég spurði líka í dag hvort væri haldandi uppi viðamiklu kerfi fyrir þessar fjárhæðir.

Ég held að það hafi komið fram í umr. í dag og í grg. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að þeir eru hér ekki sammála ASÍ, hann og hv. þm. Magnús Kjartansson. Þeir eru ekki sammála þessari leið sem Alþýðusambandið og að því er mér skilst Alþfl. vilja fara. Þessir menn hafa þó hingað til talið sig vera málsvara verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Einmitt á þessum neðstu bilum segja tölur Þjóðhagsstofnunar að nánast enginn munur sé á hagsbót af niðurfellingu söluskatts og lækkun beinna skatta.

Ég ítreka enn að það er misskilningur að útborgun sé ekki í þessu frv., því að allt barnafólk á kost á útborganlegum barnabótum og lífeyrisþegar munu fá hækkaða tekjutryggingu eins og ég hef áður sagt.

Þá kom hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason inn á till. sína í ákvæði til bráðabirgða um sérsköttun hjóna og minnti á þá till. Alþfl. sem hann hefur áður flutt. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í dag að frv. um þetta efni yrði væntanlega lagt fyrir þingið á næsta hausti. Mér sýnist að þessar till. hv. þm. megi líkja við till. sem hann flutti við 1. umr. þessa máls, að nú væri brýn nauðsyn að fella niður söluskatt á olíu til húsahitunar, og undir þessa till. tók hv. þm. Karvel Pálmason heils hugar. Þeim var svo bent á það síðar í umr. að söluskattur hefði verið felldur niður þegar 1971 á olíu til húsahitunar. Mér sýnist að það sé eitthvað svipað um þessa till.

Að gefnu þessu tilefni um sérsköttun hjóna og einnig því, sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir ræddi um það mál, þá skal ég aðeins fara nokkrum orðum um hvernig ég tel að að þeim málum yrði staðið.

Í uppbyggingu persónufrádráttar eða persónuafsláttar og jafnframt skattstiga hjóna í samanburði við einhleypinga yrði væntanlega við það miðað að annað hvort hjónanna væri tekjuaflandi aðilinn utan heimilisins, en hitt hjónanna ynni að heimilisstörfum eingöngu. Á þann veg yrðu heimilisstörfin á óbeinan hátt metin sem teknaframlag til heimilisins. Vinni hins vegar bæði hjónin utan heimilis eða vinni önnur störf en heimilisstörf á heimilinu yrði að veita sérstakan frádrátt vegna þess, með hliðsjón af því að hjónin, annað hvort eða bæði, sinna þá ekki að fullu heimilisstörfum og verða óhjákvæmilega fyrir auknum kostnaði, beint eða óbeint vegna heimilishalds, og sá kostnaður yrði meiri væri um börn að ræða á heimilinu. Með þessu yrði litið til heimilisins sem heildar en jafnframt yrðu afnumin gildandi skattfríðindi sem eru einungis veitt á grundvelli teknaöflunar eiginkonunnar. Hvort heldur annað hjónanna eða bæði færa heim peningatekjur til heimilisins, þá afla þau lífsgæða sér til handa, beint eða óbeint, í sameiningu og fyllilega að jöfnu og í flestum tilfellum njóta þau þeirra að jöfnu sem tveir einstaklingar. Sama má segja um eignir hjóna. Hér er um sameign að ræða sem bæði hjónin hafa tekið þátt í að mynda í flestum tilvikum og er eign hvors um sig að hálfu. Þessi helmingaskipting á tekjum og eignum hjóna er því réttlætismál á þeim grundvelli að tveir afla teknanna og eiga eignirnar, beint eða óbeint, og tveir njóta hvors tveggja, tekna og eigna. Það er því orðið tímabært að viðurkenna hlutverk eiginkonunnar í teknaöflun heimilisins og þá ekki síður ráðdeildarsemi hennar við eignamyndun hjónanna.

Að öðru leyti vil ég fara hér örfáum orðum um nokkrar af brtt. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, 2. liðurinn í brtt. þm. er í till. meiri hl., eins og hér hefur komið fram. Það er eðlilegra á þessum stað en öðrum í frv. að miðað sé við börn innan 17 ára aldurs, þar sem meðlagsskylda er að þeim aldursmörkum, enda fjallar þessi gr., 9. gr., um meðlagsgreiðslur. Um 17. árið á öðrum stöðum í brtt., þ. e. í 1. og 2.–4. lið, skattkerfi og almannatryggingakerfi, ber ekki saman um meðferð skattþegna. Í skattkerfinu er framtalsskylda frá og með 16 ára aldri og þá vafasamt í hæsta máta hvort greiða eigi fullar barnabætur og vera með frádrætti eða viðbætur vegna tekna barns á framtali föður eða móður eftir að barnið er orðið sjálfstæður skattþegn. (Gripið fram í.) Í þessu tilfelli er eðlilegra að gera annað af tvennu að breyta skattal. á þann veg að framtalsskylda byrjaði ekki fyrr en við 17 ára aldur eða að greiða framfæranda barnabætur að 16. ári barns, en barninu sjálfu þá barnabætur á sjálfu 16. árinu, en síðan hættu þær þar. Ef ekki væru gerðar fleiri breytingar á skattal. en þm. leggur til væri t. d. verið að greiða barnabætur með sjálfstæðum skattþegn til annars aðila, en fyrrnefndi aðilinn gæti jafnframt fengið námsfrádrátt o. fl.

Um útborgun 20 þús. kr. með skattvísitölu vil ég aðeins segja þetta, að till. virðist fela það í sér að ríkissjóður greiði 20 þús. kr. með hverju barni sem eru þá fjölskyldubætur á þessu ári miðað við greiðslur nú. Afgangur barnabóta má síðar mæta skattgreiðslum. Það virðist ekki mega innheimta þessa fjárhæð á móti þeim. Þetta kemur sér vel fyrir þá sem skulda hinu opinbera. Þeir, sem standa í skilum, fá fullar barnabætur útgreiddar samkv. frv., en vanskil ættu yfirleitt ekki að koma til nema vinnuveitandi viðkomandi hafi ekki staðið í skilum, Væri þessi till. samþ. er tilganginum með sameiningu fjölskyldubóta almannatryggingakerfis og skattkerfis ekki náð.

Þá ræddi þm. um að það væri einkenni á frv. að skattbyrði væri þyngri á einstæðum foreldrum en hjónum. Ég held að ég verði að álykta sem svo að hv. þm. hafi ekki hlustað á ræðu mína í dag, og það er út af fyrir sig ekkert við því að segja. En ég þóttist í máli mínu einmitt gera grein fyrir því að einstæð foreldri væru betur sett að því er varðar skattalega meðferð en hjón. Hins vegar minnkar þessi munur frá því sem var, það tók ég líka fram í ræðu minni í dag.

Ég legg áherslu á það, eins og ég hef áður sagt, að þegar þessar skattgreiðslur eru bornar saman, þá verður að horfa til þess hver raunveruleg greiðslustaða þessara aðila er, og það er ekki gert í dæminu sem fylgdi erindi frá Félagi einstæðna foreldra. Það er ekki tekið tillit til þess hver hin raunverulega greiðslustaða er. Þetta nefndi ég í dag, en ég nefndi engar tölur. Ég skal gera það nú. Ef við tökum tillit til þessa og notum sama dæmi, þá kemur það svo út að skattgreiðslur einstæðra foreldra eru hærri um 117 þús. kr. rúmar, þegar rétt er reiknað, það hefur verið leiðrétt dæmið þá, en brúttótekjur eru hærri um 220 þús. kr. rúmar. Þess vegna er greiðslustaða einstæðs foreldris betri en hjóna um upphæð sem nemur liðlega 102 þús. kr. og þá er miðað við mótteknar greiðslur 1974. Ef miðað er við upplýsingar um meðlagsgreiðslur 1975 verður þessi greiðslustaða betri um upphæð sem nemur 122 þús. kr., þótt hjá hjónum séu þá 4 í heimili en 3 hjá einstæðum foreldrum. Um þetta þarf ég ekki að hafa fleiri orð og vísa að öðru leyti til þess, sem ég sagði hér í dag um þessi efni.