21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka fjh.- og viðskn. þessarar d. fyrir vel unnin störf og ítarlega meðferð þessa frv. sem það hefur hlotið hjá n. og raunar n. beggja d. Umr. þessar gefa ekki tilefni til þess að fjölyrða um málið að þessu sinni. Ég vil þó ekki láta hjá líða að svara fsp. sem til mín hefur verið beint.

Áður en til þess kemur drep ég á einstök atriði, sem fram hafa komið, og vek athygli á því að báðir hv. þm., Magnús Kjartansson og Gylfi Þ. Gíslason, gagnrýndu það að fjárl. væru afgreidd í des., en tekin til endurmats og endurskoðunar nú í mars og aprílmánuði. Ég vil minna á það að frá því að fjárl. voru afgreidd hafa átt sér stað mjög mikilvægar breytingar á viðskiptakjörum íslendinga. Þau hafa versnað um 8–10% og sú staðreynd ein út af fyrir sig er nægileg ástæða til þess að endurmeta fjárl. í heild.

Hv. þm. Magnús Kjartansson talaði um að fjárl. hefðu haft í för með sér aukna skattheimtu um 20–21 milljarð kr. milli fjárlagaáranna 1974 og 1975. Um leið gagnrýnir hann að fjárl. hafi hækkað um yfir 50%. Þessu er til að svara að tekjur manna jukust um yfir 50% á milli þessara ára. Þótt ég sé þeirrar skoðunar að leggja beri áherslu á að draga úr hlutfalli því sem fjárl. eru af heildarþjóðartekjum, þá hefði ég haldið að hv. þm. Magnús Kjartansson vildi ekki aðeins halda því sama hlutfalli og verið hefði að þessu leyti milli skatta og þjóðartekna, heldur jafnvel auka samneysluna frá því sem verið hefði. Þess vegna er í hækkun fjárlaga ekki fólgin raunveruleg aukin skattheimta. Það er aðeins verið að taka sama hlutfall af tekjum manna til hins opinbera og áður var. Í raun og veru er hægt að sýna fram á að hlutfall það, sem hið opinbera tekur í sinn hlut á þessu ári miðað við á síðasta ári, hefur heldur minnkað svo að að því leyti til er spor stigið í rétta átt að mínu viti, þótt ég hefði ekki haldið að Magnús Kjartansson gagnrýndi það að samneyslunni væri haldið í sama hlutfalli og verið hefði.

Í frv. er, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir því að opinber útgjaldaáform verði lækkuð um 3500 millj. kr. Hv. þm. Magnús Kjartansson vildi svo vera láta að öll þessi lækkun ætti að koma fram á verklegum framkvæmdum. Þetta er engan veginn tilgangurinn. Þvert á móti er áhersla á það lögð að þessi sparnaður eigi sér stað ekki síður á rekstrarútgjöldum en öðrum útgjöldum hins opinbera. Hann spurði hvernig það mætti vera að form. Framsfl. hefði látið þau orð sér um munn fara á nýafstöðnum miðstjórnarfundi Framsfl. að „við framsóknarmenn verðum að vera á verði að þessi útgjaldasamdráttur komi ekki niður á hinum dreifðu byggðum landsins“, ef ég hef orð form. Framsfl. rétt eftir fyrir milligöngu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar. Hann túlkaði þetta sem skoðanaágreining milli stjórnarflokkanna. Ég tel það nú ekki leyfilega ályktun og síst af öllu þegar hann að þeirri ályktun tekinni hóf að fullvissa sína eigin umbjóðendur um að það yrði að standa á verði, að þessi sparnaður kæmi ekki niður á þéttbýlinu, og vék þar sérstaklega orðum sínum að mér sem þm. Reykv. Mitt svar er þetta:

Í þessum orðum Framsfl. felst ekki vitnisburður um neinn ágreining milli stjórnarflokkanna. Að því er snertir hvar þessi sparnaður eigi niður að koma, þá á hann ekki að breyta höfuðstefnumörkun fjárl. um skiptingu útgjalda milli hinna dreifðu byggða og þéttbýlisins, ef um það er að ræða, heldur er treyst á tillögugerð, samráð og samþykki milli ríkisstj. og fjvn., að þarna sé á þann veg á málum haldið að þetta komi sem minnst við gagnlegar og nytsamar og lífsnauðsynlegar framkvæmdir, þótt menn geri sér um leið grein fyrir því að þegar heildartekjur þjóðarbúsins fara minnkandi, þá verður hið opinbera jafnt og einstaklingar að draga saman seglin.

Hér í umr. hefur nokkuð verið drepið á þá yfirlýsingu er ríkisstj. gaf til þess að greiða fyrir samningum um kaup og kjör milli samtaka launafólks og vinnuveitenda í trausti þess að vinnufriður haldist. Mér er það bæði ljúft og skylt að skýra þessa yfirlýsingu nánar og þær efndir þeirrar yfirlýsingar, sem felast í þessu frv.

Í 1. lið þessarar yfirlýsingar er, eins og hér hefur komið fram, lýst yfir að ríkisstj. muni á Alþ. beita sér fyrir skattalækkun að því marki að hún nemi í heild allt að 2000 millj. kr., með það fyrir augum, að þessi skattalækkun gagnist sem best þeim sem við erfið kjör búa. Það er dregið í efa, að þetta frv. sé fullar efndir á þessari yfirlýsingu. Ég vil segja það skýrt og skorinort að þetta frv. felur í sér fullar efndir á þessari yfirlýsingu. Aðilar vinnumarkaðarins, sem fylgdust með og tóku þátt í viðræðum við fulltrúa ríkisstj. að þessu leyti, gerðu sér grein fyrir því að ríkisstj. vildi ekki binda sig við í hvaða formi þessi skattalækkun ætti sér stað, hvort rétt væri að leggja meiri áherslu á lækkun beinna skatta eða þá óbeinna eða hvort og að hve miklu leyti hvort tveggja skyldi koma til greina. Ríkisstj. áskildi sér og Alþ. endanlegt mat um það hvernig þessi skattalækkun kæmi til framkvæmda. Þegar þessi yfirlýsing var gefin var frv. það, sem hér er til umr., komið fram. En áður en það kom fram höfðu átt sér stað ítarlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins, og frv. var í upphaflegri gerð sinni sniðið að höfðu samráði við fulltrúa launþega. Í því hafði verið tekið tillit til sjónarmiða sem birst höfðu í viðræðum milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa launþega. Með þessu er ég ekki að segja að frv. hafi á því stigi málsins tekið allar óskir launþega til greina. En þegar í upphafi hafði verið sveigt í þá átt að reyna að sætta þau sjónarmið sem fram komu hjá aðilum vinnumarkaðarins og meðal fulltrúa ríkisstj. Í þeirri upprunalegu gerð var gert ráð fyrir því að lækkanir beinna skatta mundu nema samtals um 12,40 millj. kr. eða milli 1160 og 1240 millj. kr. Nú hefur verið leitt í ljós að frv., eins og það er nú, hefur í för með sér lækkun beinna skatta sem nemur um 1 380–1 390 millj. kr., þannig að það, sem við erum í raun og veru hér að tala um, er hvort eigi að að hækka þessa tölu, lækkun beinna skatta, úr 1390 millj. og í 2000 millj. kr. eða um rúmar 600 millj. kr. í stað 800 millj. kr. áðuð, sem rætt var um að mismunurinn væri. Ef við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að við séum öll sammála um afnám tolla af ávöxtum, eins og frv. í núv. mynd gerir ráð fyrir, þá er þessi mismunur orðinn enn minni eða rúmar 500 millj. kr. ca 1/4 af þeirri lækkun skatta sem fyrirheit hefur verið gefið um og ráð er fyrir gert. Ég held, að þessi mismunur sé ekki efni til stórátaka hér á Alþ. né heldur til misskilnings eða neins eftirleiks af hálfu aðila vinnumarkaðarins eða launþegasamtakanna.

Það má vel segja sem svo að það væri í framkvæmd æskilegra að fara aðra hvora leiðina, að lækka annaðhvort eingöngu beina skatta eða eingöngu óbeina skatta, eins og að afnema söluskatt á tilteknum vörutegundum. En á hinn bóginn má líka halda því fram að það sé ákveðinn ávinningur að láta hvort tveggja koma fram í reynd og reynsluna skera úr um áhrif þessa hvors fyrir sig.

Það má einnig á það benda að áhersla er eðlilega lögð á að þessar skattalækkanir komi fram með skýru og einföldu móti gagnvart almenningi í landinu og þessar skattalækkanir komi strax í gagnið eins og þær gera með lækkun söluskatts.

Þótt lækkun beinna skatta sé engu síður mikilvæg, og að vissu leyti hef ég persónulega tilhneigingu til þess að leggja meiri áherslu á þá leið, þá kemur sú leið ekki fram gagnvart einstökum skattgreiðanda með jafnskýrum hætti og lækkun söluskatts gerir eða jafnfljótvirkum hætti.

Það, sem auðvitað ræður úrslitum, er tölfræðilegur samanburður, og nokkuð hefur verið vitnað til slíks samanburðar sem Þjóðhagsstofnunin hefur gert. Þar hefur verið vitnað til þess að það muni um 0.3. 0.2, 0.1 prósentu í kjarabót af brúttótekjum hvor leiðin er farin og þá í vil lækkunar beinna skatta. En sá fyrirvari er gerður, eins og Þjóðhagsstofnunin segir, að þar sem forsendur um mat viðbótarlækkunar með lækkun óbeinna skatta af matvælum eru talsvert ágiskunarkenndar, gefa ofangreindar tölur um kjarabót ekki tilefni til þess að álíta að um neinn raunhæfan mun sé að ræða milli þessara tveggja kosta. Og á það er bent að hér sé miðað við matvælaútgjöld vísitölu framfærslukostnaðar, en um útgjaldadreifingu eftir tekjuhæð er stuðst við danska athugun, en slík athugun mun ekki vera hér á landi til staðar svo að hana megi leggja til grundvallar.

Þegar við lítum á hve munurinn er lítill og hann er að áliti Þjóðhagsstofnunarinnar tæpast marktækur, þá getur þessi tölfræðilegi samanburður ekki ráðið úrslitum. Ástæðan til þess að ríkisstj. hefur ekki að öllu leyti viljað fara þá leið að lækka eingöngu beina skatta er sú að ríkisstj. hefur í huga enn frekari breytingar á tekjuskattskerfinu, Hér hefur verið stigið töluvert spor og heilladrjúgt, er ég viss um, sem felur í sér samræmingu og sameiningu á tekjuskatti og fjölskyldubótum, en í stefnuskrá ríkisstj. er rætt um að leitast verði við að sameina tekjuskattskerfið og tryggingakerfið í allsherjar tekjujöfnunarkerfi og að þessari endurskoðun verður áfram unnið. Það er ekki rétt að taka stærra skref í einu að mati ríkisstj., a. m. k. ekki öllu stærra skref í einu. Ber þar og til að í framhaldandi endurskoðun skattkerfisins verður lögð áhersla á að koma á sérsköttun hjóna, Ég vil líka láta það koma fram að það, sem hefur haft töluverð áhrif á afstöðu mína, er að endurgreiðsla persónuafsláttar eins og nauðsynleg væri til þess að till. Alþýðusambands Íslands kæmu að fullum notum er vafasöm í ýmsum tilvikum. Þótt við játum að ábending hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar um að t. d. einhleypingar, sem þyrftu sjálfir um sig að hugsa og greiða sitt fæði, jafnvel í veitingahúsum, bæru e. t. v. skarðan hlut frá borði í sambandi við lækkun söluskatts í stað lækkunar beinna skatta, þá er á hinn bóginn rétt að það komi fram, að sá hópur, sem e. t. v. hefur hlutfallslega hvað mesta kaupgetu hér á landi, ýmsir einhleypingar á unga aldri, sem ekki hafa framfærslubyrði og búa e. t. v. ódýrt í foreldrahúsum, eru e. t. v. bestu viðskiptavinir skemmti- og tískuiðnaðarins, og felst ekki í þeim orðum mínum nein gagnrýni á það að unga fólkið geti klætt sig vel eða skemmt sér, en þessi hópur einhleypinga mundi fá fremur hagsbót af því að lækkun beinna skatta yrði slík að um nokkrar verulegar endurgreiðslur yrði að ræða þeim til handa. Og vil ég minna á að um þetta vitnaði hv. form. fjh.- og viðskn., Ólafur G. Einarsson, í tölur sem staðfestu þessa skoðun, að skattalækkun með þessum hætti kemur ekki þeim mest þurfandi til nota. Auðvitað er það svo þegar um slíkar almennar reglur er að ræða eins og skattalækkanir, hvort heldur þær eru fólgnar í lækkun óbeinna skatta eins og söluskatts eða lækkun beinna skatta, geta þær auðvitað komið ýmsum óverðugum til nota. Það er ekki unnt að beina þeim eingöngu þangað sem þörfin er mest, en þó ber okkur skylda til að leitast við að svo verði í framkvæmd.

Ég vil svo aðeins varðandi þennan 1. lið í yfirlýsingu ríkisstj. segja það að ríkisstj. mun beita þeim heimildum, sem Alþ. veitir henni, á þann veg að að svo miklu leyti sem ekki verður náð 2000 millj. kr. skattalækkun með lækkun beinna skatta eða afnámi tolla, þá munu heimildir um lækkun söluskatts vera nýttar þannig að öruggt sé að 2000 millj. kr. skattalækkun í raun verði á þessu ári, þ. e. a. s. að þótt 1/3 hluti ársins sé liðinn, þá mun lækkun óbeinna skatta vera þeim mun meiri svo að þessari tölu verði að fullu náð fyrir árslok.

Varðandi 1. lið yfirlýsingar ríkisstj. vil ég þessu til viðbótar láta það koma fram að hv. þm. Magnús Kjartansson taldi það siðferðilega skyldu ríkisstj. að fara eftir till. Alþýðusambands Íslands. Ég hef skýrt það að sú skoðun hefur ekki við rök að styðjast og er raunar ekki í samræmi við það sem á eftir fór í málflutningi hv. þm., því að hann taldi það ekki heillavænlega þróun ef menn fengju í raun og veru útborgaða peninga, ef ég hef skilið hann rétt, af hálfu ríkisins sem atvinnurekandinn ætti í raun og veru að greiða í hærri launum. Og hann gat ekki heldur skilið að hátekjumaðurinn borðaði langtum meira af algengustu matvörum en lágtekjumaðurinn. Báðar þessar röksemdir hv. þm. eiga að leiða til þess að hann a. m. k., vilji fara blandaða leið og lækka söluskatt að einhverju leyti ásamt lækkun beinna skatta.

Þá hefur komið fram að ríkisstj. hafi ekki lagt fram frv. til l. um breytingar á innheimtu skatta til efnda á 2. lið í yfirlýsingu ríkisstj. sem fjallar um það að dreifa innheimtu opinberra gjalda ársins 1975 yfir lengri tíma en ella hjá þeim launþegum, sem í ár hafa sömu eða lægri peningatekjur en í fyrra, svo að að því verði stefnt að afdráttur opinberra gjalda frá launagreiðslum hvers launþega fari ekki fram úr 40% af tekjum hans í heild á hverjum tíma, enda sé hann ekki í vanskilum með opinber gjöld frá fyrri árum. Efni þessarar yfirlýsingar var til athugunar hjá innheimtumönnum hins opinbera, og það var álit og mat embættismanna að til efnda á þessari grein yfirlýsingarinnar þyrfti ekki lagabreytingu, og vonast ég til að það standist. Ríkisstj. mun að öllu leyti standa við það sem hér hefur verið sagt.

Um 3. lið í yfirlýsingu ríkisstj., þar sem talað er um að hún muni beita sér fyrir því að tekjutryggingarmark almannatrygginga hækki í sama hlutfalli og lægstu kauptaxtar í samningum Alþýðusambandsins og vinnuveitenda og hækkun almenns lífeyris verði einnig ákveðin í samræmi við niðurstöður almennra kjarasamninga og verði við þá ákvörðun m. a. tekið mið af öðrum tekjum þeirra, sem lífeyris njóta, þá er það að segja að við munum bera fram ákveðnar till. í þeim efnum, að svo miklu leyti sem heimildir í núgildandi lögum veita ríkisstj. ekki möguleika til þess að breyta þessu með stjórnvaldsákvörðun.

Í orðum þeim, sem 3. liður hefur inni að halda, felst tvennt. Í fyrsta lagi að tekjutryggingarmark almannatrygginga, hækki í sama hlutfalli og lægstu kauptaxtar í samningum Alþýðusambandsins og vinnuveitenda, þ. e. a. s. um 12–13%. Að því hefur verið fundið að hér sé hlutfallstala notuð, en ekki ákveðin krónutala. Þetta er samkv. venju, — í raun og veru venja sem hv. þm. Magnús Kjartansson notaði og átti þátt í að skapa. Ég hygg að hann hafi haft þennan hátt á um hlutfallslegra hækkun, t. d. eftir kjarasamningana í febr. 1974, og því sé í raun og veru ekkert við þessa aðferð að athuga, sérstaklega þegar á það er að líta að tekjutryggingarmark hjóna með lágmarkstekjutryggingu fer álíka hátt í krónutölu og lægstu kauptaxtar Dagsbrúnar sem hækkuðu um 12–13%. Á hinn bóginn verður það að segjast að einhleypingur, sem nýtur elli- og örorkulífeyris samkv. tekjutryggingarmarki, er auðvitað mun lægri í tekjum en Dagsbrúnartaxti segir til um. Er þar um sérstakt vandamál að ræða sem e. t. v. verður ekki leyst í einu skrefi.

Hinn efnisliður 3. liðar yfirlýsingarinnar er að hækkun almenns lífeyris verði ákveðin í samræmi við niðurstöður almennra kjarasamninga og verði við þá ákvörðun m. a. tekið mið af öðrum tekjum þeirra sem lífeyris njóta. Hér gæti verið um það að ræða að beita meðaltalshækkun, sem bráðabirgðasamkomulagið er talið hafa haft í för með sér, til allra elli- og örorkulífeyrisþega. En þó er sá fyrirvari tekinn í þessari yfirlýsingu að m. a. verði tekið mið af öðrum tekjum þeirra sem lífeyris njóta og þá kynni að vera beitt þeirri reglu sem bráðabirgðasamkomulagið hefur inni að halda, þ. e. a. s. að einhver minni eða engin hækkun elli- og örorkulífeyris ætti sér stað til þeirra sem hefðu hærri tekjur en þetta þak segir til um í bráðabirgðasamkomulaginu, þ. e. a. s. um 69–74 þús. kr. Hér er verið að skoða mismunandi leiðir til efnda á þessari yfirlýsingu. Það þótti rétt að fella lagaheimild, að svo miklu leyti sem hennar er þörf, annaðhvort inn í meðferð brbl. sem eru í Ed. um launajöfnunarbætur eða láta þessa till. koma fram í sérstöku frv. í stað þess að fella það inn í frv., sem hér er til umr. En við þennan lið yfirlýsingarinnar verður staðið eins og aðra.

Það er að vísu hæpið hvort ríkisstj. eigi í hvert skipti sem deilt er um kaup og kjör að breyta skattal. til þess að greiða fyrir samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Ég tel það ekki rétt til fram búðar. En miðað við þau vandamál, sem við er að etja á vinnumarkaðinum og varðandi kaup og kjör launþega, og þar sem ríkisstj. hafði á stefnuskrá sinni endurbætur á skattal. og í huga þær breytingar, sem hér um ræðir, þá er það ánægjuefni að þessar fyrirhuguðu breytingar, sem ríkisstj. hafði frumkvæði að, hafa orðið til þess að einhverju leyti að greiða fyrir samningum um kaup og kjör milli samtaka launfólks og vinnuveitenda og að því leyti tryggt vinnufriðinn svo langt sem bráðabirgðasamkomulagið nær.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um frv. á þessu stigi málsins.