21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

7. mál, Framkvæmdasjóður Suðurnesja

Flm. (Gunnar Sveinsson):

Hv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram frv. um Framkvæmdasjóð Suðurnesja. Aðalefni frv. er:

1. gr. Sjóðurinn heitir Framkvæmdasjóður Suðurnesja.

2. gr. Verkefni sjóðsins eru þessi:

a. Að veita lán til einstaklinga og félaga á Suðurnesjum til innlendrar atvinnuuppbyggingar og þá fyrst og fremst í sjávarútvegi og iðnaði.

b. Að veita lán til framkvæmda sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

3. gr. Tekjur sjóðsins skulu vera:

a. 2% af veltu Aðalverktaka og annarra verktakafyrirtækja á Keflavíkurflugvelli af starfrækslu þeirra á Suðurnesjum.

b. 1/3 af aðstöðugjöldum, sem nú eru greidd af starfsemi á Keflavíkurflugvelli til viðkomandi sveitarfélaga.

c. 4% af veltu fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli.

d. 2% af veltu flughafnarinnar.

e. Vextir.

4. gr. Framkvæmdasjóðurinn er sjálfstæð stofnun. Stjórn hans skal skipuð 7 mönnum, einum frá hverju sveitarfélagi á Suðurnesjum. Skulu þeir kosnir til fjögurra ára í senn, að loknum sveitarstjórnarkosningum, af viðkomandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd. Stjórnin kýs sér sjálf formann. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af tveimur endurskoðendum kosnum af samtökum sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi.

5. gr. Framkvæmdasjóðurinn skal ávaxtaður á Suðurnesjum. Stjórn sjóðsins skal semja við lánastofnanir á Suðurnesjum um afgreiðslu fyrir hann og um geymslu sjóðsins. Stjórn sjóðsins hefur á hendi ákvarðanir um lánveitingar hans. Allur kostnaður við stjórn og rekstur sjóðsins skal greiðast af tekjum hans.

6. gr. Stjórn sjóðsins ákveður að fengnu samþykki Seðlabanka Íslands vexti af lánum, er veitt eru úr sjóðnum.

7. gr. setja skal í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, svo og um lánstíma, umsóknir um lán úr sjóðnum, tryggingar lána svo og aðra skilmála.

8. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1975.

Það sem felst raunverulega í þessu frv., sem hér er lagt fram, er í stuttu máli að stofnaður verði sjóður til stuðnings innlendri atvinnustarfsemi á Suðurnesjum. Lagt er til að tekjur sjóðsins séu skattur af verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli, hluti af aðstöðugjöldum sveitarfélaga á sama stað og gjald af ríkisfyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli sem nú eru skattfrjáls.

Á Suðurnesjum eru 7 sveitarfélög, en Suðurnes tel ég byggðirnar sunnan Hafnarfjarðar. Með þessum sveitarfélögum hefur á síðustu árum tekist gott samstarf um þjónustustarfsemi og framkvæmdir er varða öll sveitarfélögin á svæðinu. Verður því að telja eðlilegt, að sveitarfélögin ráði þessum sjóði og lánveitingum úr honum samkv. markmiðum hans.

Margir munu e.t.v. segja, að ekki sé ástæða fyrir suðurnesjamenn að fara fram á slíka stofnun sem hér er stungið upp á, þeir hafi flugvöllinn og varnarstöðina og þaðan streymi fé og skatttekjur. Ástæðan fyrir þessum hugsanagangi, sem við suðurnesjamenn verðum svo oft varir við, er sú að fjölmargir álíta að allt það fólk, sem vinnur á Keflavíkurflugvelli, sé suðurnesjamenn. Svo er þó ekki. Stór hluti þess eru reykvíkingar og aðrir aðkomumenn. Það er að vísu satt og rétt að suðurnesjamenn hafa á margan hátt atvinnulega séð notið góðs af staðsetningu flugvallarins og varnarstöðvarinnar. Þó er það í mun minna mæli en margur heldur.

Innlent atvinnulíf og þó sérstaklega frumatvinnuvegur okkar suðurnesjamanna, útgerð og fiskvinnsla, hefur átt og á í harðri samkeppni við flugvöllinn og varnarstöðina um vinnuaflið á Suðurnesjum. Þessi samkeppni hefur að mörgu leyti skapað óeðlilegt ástand varðandi rekstur þessara atvinnuvega. Nærtækasta dæmið í þessu sambandi, sem benda má á, kemur fram í úttekt þeirri sem nú er gerð á vegum ríkisstj. og leitt hefur í ljós að útgerð og fiskvinnsla er einna verst sett á Suðurnesjum á öllu landinu.

Staðreyndin er, að bæjar- og sveitarfélögin á Suðurnesjum fá óverulegar skatttekjur af þeim rekstri og umsvifum, sem fram fara á Keflavíkurflugvelli. Á s.l. ári munu þessar tekjur hafa numið milli 10 og 12 millj. kr. í aðstöðugjöldum til allra sveitarfélaga, en mjög misjafnlega mikið til hvers þeirra eftir því hvar fyrirtækin voru staðsett á flugvellinum. Sveitarfélögin eru því ekki undir það búin að hafa forustu um eðlilega atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum við núverandi aðstæður. Verður því að telja fullkomlega eðlilegt að sú stóriðja, ef segja má svo um þá starfrækslu sem fram fer á Keflavíkurflugvelli, leggi meira af mörkum til Suðurnesjasamfélagsins í heild en nú er, bæði að því er varðar þjónustu og uppbyggingu atvinnuveganna.

Allir flokkar hafa lýst því yfir að hér eigi ekki að vera her á friðartímum. Menn greinir aftur á móti á um hvenær þeir tímar séu. Vonandi eru þeir ekki langt undan. Suðurnesjamenn geta hvorki né eiga að treysta á að varnarstöð verði einhver afgerandi liður í atvinnuuppbyggingu þeirra, heldur verða þeir að treysta á innlendan atvinnurekstur í framtíðinni eins og hingað til. En því aðeins verður það hægt að undirstöðuatvinnuvegirnir verði ekki afskiptir með uppbyggingu og framfarir og þeir verði ekki látnir grotna niður eða kaffærðir í óraunhæfum framkvæmdum erlendra aðila. Við verðum að gera okkur ljóst að aðstæður, bæði hér og erlendis, geta breyst á mjög skömmum tíma, og við því verðum við að vera búnir.

Við minnumst þess að þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru staðsettar á Siglufirði, en þær voru raunverulega fyrsta stóriðja á Íslandi, voru þær að mestu skatt- og útsvarsfrjálsar. En fljótlega sáu menn að hér hafði verið rangt að farið. Sérstaklega sáu menn þetta eftir að síldin hvarf. Siglufjarðarbær var ekki undir það búinn að taka á sig þær breytingar í atvinnumálum sem hvarf síldarinnar hafði í för með sér, að nokkru vegna þess að aðalatvinnutækið hafði verið skattfrjálst og eins vegna hins, að ekki hafði verið stutt við bakið á annarri atvinnustarfsemi svo sem þurft hefði.

Lánveitingar Byggðasjóðs hafa komið mikið til umr. í sambandi við þessi mál. Stjórn sjóðsins hefur samþ. að veita ekki lán úr sjóðnum til svæðisins frá Akranesi til Þorlákshafnar. Telur stjórnin að það samrýmist ekki því markmiði sjóðsins að efla jafnvægi í byggð landsins. Er það á margan hátt skiljanleg afstaða. Þrátt fyrir það höfum við suðurnesjamenn átt erfitt með að sætta okkur við þetta, enda hefur það komið sér mjög illa fyrir okkur í sambandi við endurnýjun bátaflotans. Má í því sambandi benda á að meðalaldur báta mun hér á landi vera hæstur á Suðurnesjum, eða 16 ár. Er því endurnýjun flotans mjög brýn. Að þessu leyti eru því Suðurnesin sambærilegri við sjávarplássin úti á landi en t.d. Reykjavík. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta atriði. Ef við lítum hlutlaust á málið og spyrjum: Að hvaða leyti eru sjávarplássin á Suðurnesjum, Grindavík, Sandgerði, Njarðvík, Hafnir, Garður og Keflavík, betur fær um að endurnýja bátaflota sinn en önnur sjávarpláss. á landinu? — fæ ég ekki séð hvað það sé, nema þá síður sé. Þau eru fámenn öll nema Keflavík og skatttekjur þeirra af flugvallarsvæðinu eru óverulegar, eins og hér hefur verið bent á. Ríkisfyrirtækin eru skattfrjáls og stór hluti starfsmanna býr utan þess atvinnusvæðis.

Stundum hefur beinlínis oltið á Byggðasjóði hvort af skipakaupum gæti orðið á Suðurnesjum. Í slíkum tilfellum hefur verið sótt hart að sjóðnum, því að í annað hús var ekki að venda, og láníð þá fengist eftir mikla eftirgangsmuni.

Með stofnun Framkvæmdasjóðs Suðurnesja tel ég að verið væri að koma til móts við suðurnesjamenn í sambandi við endurnýjun fiskiskipa þeirra og uppbyggingu íslensks atvinnurekstrar, þótt það fé, sem myndast í sjóðnum árlega, sé ekki mikið. Lauslega áætlað ætti það að geta orðið um 35 millj. kr. á ári. Mundi það a.m.k. að einhverju leyti losa Byggðasjóð undan þeirri ásókn sem nú er í lán hjá honum til uppbyggingar sjávarútvegs Suðurnesjasvæðisins og stuðla að því að suðurnesjamenn gætu orðið sjálfum sér nógir á þessu takmarkaða sviði.

Í þeirri lauslegu áætlun, sem hér er gerð og er miðuð við s.l. ár, kemur 1/3 fjárins frá verktakastarfsemi, en 2/3 frá skattfrjálsum ríkisfyrirtækjum og sveitarfélögum. Ég geri mér vel ljóst að hér er aðeins um lauslega tillögugerð að ræða. Með breyttum aðstæðum og til samkomulags mætti breyta þar um eins og mönnum þætti sanngjarnt. En eitt vil ég sérstaklega benda á, að engin sanngirni mælir með því, að ríkisfyrirtæki greiði ekki einhver gjöld til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau eru starfrækt, og hélt ég sannast að segja að slíkt væri ekki til staðar lengur. Það sem hér er um að ræða er því eðlileg skattlagning af starfsemi á Suðurnesjasvæðinu sjálfu. Þetta fé heyrir til sveitarfélögunum öllum að mínu áliti og þau eiga því að ráða því sjálf.

Stór hluti af suðurnesjamönnum er aðfluttur til Suðurnesja utan af landi. Þeir og aðrir suðurnesjamenn gleðjast yfir þeim framförum, sem þar hafa átt sér stað á undanförnum árum. Þeir fagna þeim auknu möguleikum, sem Byggðasjóður hefur til að auka framfarir og uppbyggingu á landsbyggðinni með eflingu sjóðsins og vilja síður en svo leggja stein í götu þeirra framfara er með því geta átt sér stað. En þeir vilja jafnframt benda á þá sérstöðu er Suðurnesin hafa í þessu máli.

Sumir munu e.t.v. líta svo á að með stofnun þessa sjóðs sé verið að skapa hættulegt fordæmi, varhugavert geti verið að leyfa svo afmörkuðu svæði að hafa sinn eigin framkvæmdasjóð. En því fer fjarri. Fram hafa komið hugmyndir um að byggja Byggðasjóð upp á þennan hátt, þ.e. að honum væri skipt eftir fjórðungum eða kjördæmum. Væri sú till. fyllilega athugaverð.

Réttilega má benda á, að hér er ekki gert ráð fyrir neinum möguleikum til stuðnings við sjávarútveg Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, þótt þeir staðir eigi ekki möguleika á fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði samkv. reglum hans. Því er til að svara að Reykjavíkurborg hefur þegar sinn eigin framkvæmdasjóð sem veitt hefur lán til togarakaupa. Hafnfirðingar hafa stóriðju á sínu svæði sem reynst hefur góður skattborgari. Virðist ekki óeðlilegt þótt einhverju af því fjármagni, sem þar kemur inn, verði varið til alhliða uppbyggingar og þar á meðal í sjávarútvegi á þeim stað.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjh: og viðskn.