22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

130. mál, fóstureyðingar

Ingiberg J. Hannesson:

Herra forseti. Allmiklar umr. hafa nú farið fram um frv. það til laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, sem þér liggur fyrir Alþ. Úr því að svo vill til að ég er lentur hér í þingsölum Alþ. þykir mér rétt að fara um frv. nokkrum orðum, þó að ég hafi ekki átt þess kost að fylgjast með umr. um málið hér í þinginu nema að því leyti sem fjölmiðlar hafa rakið þær að undanförnu. Vil ég þá aðeins nefna nokkra þætti sem hér virðast þýðingarmiklir í þessu sambandi.

Það er raunar eðlilegt að um slíkt mál sé fjallað á breiðum grundvelli þar sem það snertir svo mjög mannlega tilveru í hinum ýmsu myndum. Lögmál lífsins eru margslungin og lífsmáti mannanna er með ýmsu móti. Viðhorf þeirra til lífsins og verðmæta þess eru og á ýmsan veg. Allt skapar þetta mismunandi skoðanir á hinum ýmsu þáttum mannlífsins og heldur hver og einn því fram sem best er í samræmi við þá lífsmynd sem hann hefur gert sér um farsælt og hamingjuríkt mannlíf.

Það er augljóst mál að ýmsir kaflar þessa frv. eru hinir þýðingarmestu og til þess fallnir að auka þekkingu manna á þeim þáttum mannlífsins sem standa undir lífshamingju þeirra og tilveru.

1. gr. frv. fjallar um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Segja má að þessi upphafsgrein sé í rauninni þýðingarmesti hluti frv. þar sem gert er ráð fyrir fræðslu í þeim efnum sem hingað til hafa verið talin allt að því feimnismál manna á meðal. Vissulega er fengur að slíkri fræðslu fyrir hvern þann sem vill lifa við farsæld í ástríku samlífi karls og konu, og vel er ef unnt reynist að koma slíkri fræðslu á skipulegan og heilbrigðan grundvöll. Lagt er til að landlæknir hafi með höndum yfirumsjón slíkrar fræðslu og er það og vel ráðið að um þá stefnumótun fjalli það fólk er best þekkir til líkamsstarfsemi mannsins og þeirra þátta er samlifið snertir. Hitt er augljóst, að þessu fólki er mikill vandi á herðar lagður með því að ætla því slíka fræðslu því að vandi er að fjalla svo um þessi mál að vel sé. En aðrir munu vart til þess hæfari. Hitt virðist mér ekki eins einsýnt, að hægt muni að fela almennum kennurum þessa fræðslu í skólum landsins, eins og 7. gr. frv. gerir ráð fyrir, þar sem vafasamt er að kennara almennt fýsi að vera skikkaðir til slíkrar fræðslu. Er mér raunar kunnugt um af viðtölum við marga kennara um þessi efni að ærinn vandi muni þeim verða á herðar lagður með þessu ákvæði — vandi sem þeim er ekki öllum ljúft að leysa.

Við verðum að hafa það hugfast, eins og ég sagði áðan, að hér er um vafasamt mál að ræða og mál sem jafnvel foreldrar margir kinoka sér við að ræða um við börn sín, þó að ekki virðist ástæða til viðkvæmni í þessum sökum ef grannt er skoðað þar sem þetta er einn þýðingarmesti þáttur mannlífsins og hluti af mannlegri sköpun. En hér eimir eftir af skoðunum gamla tímans þar sem um þessi mál mátti ekki fjalla nema í hálfkæringi og pískri bak við tjöldin. Því hlýtur það að vera augljós staðreynd sem ekki verður á móti mælt að þessi mál verða ekki auðveld í meðförum margra kennara sem beinlínis væru e. t. v. skyldaðir til að taka að sér þessa fræðslu. En þarna verður framtíðin að skera úr um hversu til tekst ef að lögum verður, og auðvitað er mér ljóst að mörgum kennurum getur farið þetta vel úr hendi svo sem önnur kennsla. En hér veldur hver á heldur og röng kennsla í þessum efnum getur verið verri en engin. Því er uppbygging og mótun slíkrar kennslu vandaverk sem verður að undirbúa vandlega og byggja á traustum grunni.

Þá kem ég að þeim þætti frv. sem valdið hefur hvað mestum deilum manna á meðal, en það er 9. gr., um fóstureyðingar. Það fer ekki á milli mála að fóstureyðing yfirleitt er algert neyðarúrræði sem ekki má grípa til fyrr en í síðustu lög. Það hlýtur að vera skoðun hvers kristins manns að líf, sem orðið er til í móðurlífi, eigi tilverurétt sem ekki sé á valdi nokkurs manns að deyða. Þetta er grundvallarskoðun sem á rætur í siðferðiskennd hvers heilbrigðs manns og hyggir auk þess á því siðgæðismati sem kristin trú hefur lagt þeim í brjóst sem trúa á tilvist guðlegrar forsjónar í hverfulum heimi. Það hlýtur að vera skýlaus réttur ófæddu lífi til handa að sköpun guðs fái að þróast á eðlilegan hátt, en sé ekki tortímt af mannlegu valdi sem tekur sér í hendur guðlegt hlutverk og vill ráðskast með líf sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, því að auðvitað er fóstureyðing ekkert annað en það að eyða því lífi sem kviknað hefur. Ég held að flestir hljóti að vera sammála um það. Hins vegar er einnig ljóst að sé annað líf einnig í hættu, þá ber auðvitað að meta það hverju sinni hvort lífið er dýrmætara. Á ég hér auðvitað við líf móðurinnar, og því tel ég þau ákvæði í frv., sem skírskota til læknisfræðilegra ástæðna vera óhjákvæmileg og nauðsynleg þar sem virða verður meir líf móður en ófædds barns.

Á hinn bóginn er í frv. talað um aðrar ástæður sem liggja til grundvallar því að fóstureyðing skuli leyfð, þ. e. a. s. þær sem nefndar eru félagslegar ástæður. Hér virðast vera á ferðinni ýmsar smugur sem hægt muni að komast í gegnum ef þörf er á. Að vísu er hér um að ræða hindranir í augum þeirra sem aðhyllst hafa hinar frjálsu fóstureyðingar að ósk konu, eins og fyrri gerð frv. gerði ráð fyrir. En þó eru þessi ákvæði um félagslegar ástæður það rúm að íhuga ber vandlega hvort skynsamlegt sé að þau séu lögleidd á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Það er auðvitað augljóst mál að ástæður verðandi mæðra geta verið með ýmsu móti og oft erfiðar og andstæðar, og vitað er það einnig að þjóðfélagið býður ekki ávallt fram þá vernd konunni til handa sem hún vissulega getur þarfnast í slíkum tilvikum. Hér kemur margt til og þarfara væri að reyna að bæta úr ýmissi þjóðfélagslegri aðstöðu slíkum konum til handa fremur en leggja til svo afgerandi lausn sem að sálga því fóstri sem konan gengur með þar sem erfitt virðist að búa því þau lífsskilyrði fæddu sem yrðu því til nauðsynlegs þroska.

Vafalaust á því löggjafinn hér ýmis verk óunnin sem snúa heri höndum að. Hitt má líka minna á, að mörg eru þau börn í landi voru sem virtust mundu verða óvelkomin meðan móðir þeirra bar þau undir belti, en urðu síðar sólargeislar og nýtir þegnar er tímar liðu. Ávallt er það svo að úr rætist þegar á hólminn er komið. Enn fremur mætti líka benda á þá staðreynd, sem óvíða hefur komið fram í umr. um þetta mál á opinberum vettvangi, að mörg eru þau hjón í landi voru er ekki hafa getað eignast börn og mundu glöð taka við þeim óvelkomnu einstaklingum sem móðirin af einhverjum ástæðum gat ekki hugsað sér að fæða eða eiga. En allt um þetta eru hér ýmis vandamál á ferð sem leysa verður. En þá má ekki gleyma því að þær ástæður, sem leyfa slíkar aðgerðir sem fóstureyðing vissulega er, verða að vera svo alvarlegs eðlis að vart verði fram hjá slíkri aðgerð gengið.

Það hefur einkennt flestar umr. um þetta mál að væntanlegra feðra er að litlu getið, enda er það svo að í tilfellum þar sem um er að ræða að óskað sé eftir fóstureyðingum hvílir auðvitað aðalvandinn oftast nær á móðurinni.

Það kann að virðast svo sem þær skoðanir, sem ég hef sett fram hér í þessum efnum, séu ekki að öllu leyti í takt við þær frjálsræðishugmyndir sem eigi að ríkja um þessi efni nú á dögum. Um það verða aðrir að dæma. En ég fullyrði hiklaust að við íslendingar verðum að standa dyggilega á verði gagnvart þeim mörgu loftbólum sem blásnar eru út fyrir augum okkar og eiga að tákna framfarahug og vera opinberun fyrir nýju og glæstu lífi. Það hefur ekki getað farið fram hjá neinum hversu snöggir við oft á tíðum erum að gleypa hugmyndir frá öðrum löndum sem virðast hagkvæmar, en standast svo ekki tímans tönn. Í slíkum efnum tökum við tíðum stökk í stað skrefa.

Það geymir ekki ávallt farsæld sem hæst er hrópað húrra fyrir í útlandinu, þótt margt sé auðvitað gott þaðan komið, og höfum við þaðan mörg dæmin, bæði á sviði mannlegra samskipta almennt, í fræðslumálum og nú síðast í því málefni sem við erum nú að fjalla um. Og það skyldu menn hafa hugfast, að þjóðir, sem leitt hafa í lög svokallaðar frjálsar fóstureyðingar, eru nú sagðar draga saman seglin og óska þrengri ákvæða á ný. Hvers vegna skyldum við íslendingar þá vera að stökkva í sömu gryfju? Hví ekki að meta lífið svo mikils að búa því þær aðstæður sem því eru nauðsynlegar til lífs og þroska? Hvers vegna ekki að virða höfund lífsins svo mikils að láta vera að grípa fram fyrir hendur hans í því máli sem beinlínis snertir mannlega sköpun?

Það er gæfa Alþ. að frv. skuli hafa verið breytt svo sem raun ber vitni hvað varðar 9. gr. En ákvæðið um félagslegar ástæður virðist mér vera mjög vafasamt eins og ég hef áður getið, nema til komi mjög ábyrgir embættismenn sem fjalla skulu um þessi mál, og aldrei er hægt að vænta þess að svo verði ávallt.

Niðurstaða þessara orða minna er því sú að ég tel fóstureyðingu engan veginn réttlætanlega nema af heilsufarslegum ástæðum móður eða fósturs og í vissum afmörkuðum tilvikum sem rekja mætti til félagslegra ástæðna sem væru allt að því óbærilegar.

Ég ætla ekki að fjalla um fleiri atriði frv. að sinni sem þó eru mörg hin merkustu og þess virði að þau nái fram að ganga hér á Alþ. En lokaorð mín hér skulu verða þau nú að ég tel að konunni sé þá mestur greiði gerður er leitast er við að vernda það líf sem hún er sköpuð til að fæða í þennan heim, enda veit ég að flestar mæður hugsa þannig. En þeim konum, sem sætta sig ekki við hindranir í þessum efnum og vilja að konan sjálf og ein hafi hér úrskurðarvald, vil ég benda á að lífið var ekki hugsað þannig af höfundi þess að maðurinn hefði vald á lífinu fremur en dauðanum og því órökrétt að óska eftir valdi sem manninum hefur í raun aldrei verið gefið. Það er auðvitað satt og rétt að maðurinn hefur oft tekið sér slíkt vald í óþökk skapara síns, en allt um það er það ekki ætlun lífsins og allra síst er það stórmannlegt að níðast á lífi sem getur enga björg sér veitt. Til hvers hefur nútíminn yfir að ráða pillum og alls konar getnaðarvörnum ef ekki á að nota þau meðul til að koma í veg fyrir ótímabæran getnað? Sú vörn er ein sæmandi í þessum efnum. Að öðrum kosti verður einstaklingurinn að taka afleiðingum gerða sinna, svo þungar og erfiðar sem þær eru.

Nútímakonan þarf ekki að horfa ofan í Drekkingarhyl í sömu aðstöðu og kynsystur hennar forðum því að velferðarþjóðfélag nútímans getur vel tekið á móti þeim einstaklingum sem í heiminn fæðast og ekki síst hin fámenna íslenska þjóð. Konuna, sem er í vanda stödd með ófætt barn sitt, ber að aðstoða og vernda sé hún ekki í þeirri aðstöðu að geta búið barni sínu farsælt heimili og sómasamleg lífsskilyrði.