22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv., gerði nokkuð að umræðuefni láglaunabæturnar og kjör aldraðs fólks og öryrkja. Hann fylgdi þessu eftir í gær með langri ræðu og tillögugerð sem var felld við atkvgr. við 2. umr. þessa frv. sem hér liggur nú fyrir til 3. umr., um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum. Ég vil taka það fram, sem hæstv. forsrh. raunar gerði í gær, að það er ekki ætlunin að afgreiða bætur til lífeyrisþega í sambandi við afgreiðslu á þessu frv., heldur er það ætlun ríkisstj. að þær bætur komi inn í frv. um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga og verðlagsmál, sem liggur fyrir Alþ. Það frv. verður væntanlega afgr. á næstu dögum. Hitt er athyglisvert, að sú till., sem lá hér fyrir og felld var í dag, gerir ráð fyrir mjög veigamiklum hækkunum og það er ólíkt stærri skammtur, sem flm. þeirrar till. ætlar núv. ríkisstj. en hann ætlaði þeirri fyrri og þá alveg sérstaklega þeim manni sem þá fór með starf heilbr.- og trmrh. Þá var meira skorið við nögl en í þeim till. sem hann sjálfur flutti hér í gær og komu til afgreiðslu í dag.

Það er talið að fjöldi lífeyrisþega hafi verið 1. des. 1973 10792 einstaklingar og 2639 hjón. Fjöldi örorkulífeyrisþega var 1. des. 1973 3 496 einstaklingar og 197 hjón. Reikna má með að 4.6% fjölgun ellilífeyrisþega verði á tímabilinu 1973–1975, en hins vegar er talið að aldurshóparnir frá 1907–1908 séu óvenju fámennir svo að um örari fjölgun verður að ræða á næstu árum. Í almannatryggingalögum er lífeyrir til hjóna 90% af lífeyri tveggja einstaklinga, eins og öllum er kunnugt. En í brtt., sem hv. 3. þm. Reykv. flutti í gær, er gert ráð fyrir hækkun lífeyris um 4 900 kr. á mánuði. skv. sömu reglum og frá var gengið í samningum verkalýðsfélaga og atvinnurek enda 26. mars s. l. Þar sem það mundi valda miklu ósamræmi í lögum um almannatryggingar að skjóta þar inn reglum frábrugðnum því kerfi, sem l. eru byggð á, og gera má ráð fyrir að þær reglur standi aðeins mjög takmarkaðan tíma. Í kostnaðaráætlun, sem er byggð á núv. kerfi og reiknað með 4 900 kr. hækkun á mánuði fyrir einstaklinga og 8820 kr. fyrir hjón, er talið að á 10 mánuðum þessa árs mundi ellilífeyrir hafa hækkað skv. þessari till. um 796.5 millj.kr., örorkulífeyrir um 198.4 millj. kr. og aðrir liðir lífeyristrygginganna að frátalinni 19. gr. um 344 millj. kr., en fjárhæðir skv. 19. gr. er áætlað að hefðu hækkað um 263 millj. kr. og sjúkradagpeningar um 105 millj. kr., svo að ef till. frá því í gær hefði verið samþ. hefði orðið hækkun á þessum bótum um 1 milljarð 707 millj. kr. Áætlað er að fæðingarorlof í 3 mánuði muni kosta um 479 millj. kr. fyrir tímabilið mars-des. 1975, miðað við núv. kaupgjald. Þá er um brúttóupphæð að ræða, en ekki hægt að segja til um hve mikið er greitt af atvinnurekendum hvað þetta varðar. Það er tala sem hvorki ég né aðrir geta fullyrt um á þessu stigi, en það er auðvitað um verulega upphæð að ræða til lækkunar frá þessari tölu.

Berum nú þessar till. saman við það sem gerðist í tíð fyrrv. ríkisstj. Þegar launahækkanir áttu sér stað hækkuðu bætur almannatrygginga að jafnaði hlutfallslega mánuði síðar. Þegar engin launahækkun varð 1. júní 1974 á s. 1. ári var bótum almannatrygginga einnig haldið óbreyttum þrátt fyrir hækkun framfærsluvísitölu úr 242 í 289 stig á tímabilinu frá febr.-maí 1974. Hvernig stóð á því að bótum almannatrygginga var þá haldið óbreyttum? Hvernig stóð á því að við gerð kjarasamninga í ársbyrjun 1974 kom ekki fram þessi stórkostlega till. hv. 3. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar? Hefur hann aldrei, Magnús Kjartansson, 3. þm. Reykv., reynt að tala við fyrrv. heilbrrh., Magnús Kjartansson, og spyrja hann hvernig á því stóð að fyrrv. heilbrrh., þegar engin launahækkun varð 1. júní 1974, lét þá bætur almannatrygginga haldast óbreyttar þrátt fyrir að framfærsluvísitala hafði hækkað á tímabilinu febr.-maí úr 242 stigum í 289 stig? Það væri fróðlegt að heyra hverju heilbrrh. fyrrv. svaraði þm. Magnúsi Kjartanssyni, hvað hefði ráðið afstöðu hans til þessa máls á s. l. sumri. Það getur vel verið að þessir tveir menn tali lítið saman í seinni tíð. En það væri nauðsynlegt fyrir þá að rifja svolítið upp hvað gerðist þá og hvað er nú verið að leggja til.

Þessi till. er auðvitað ekkert annað en sýndartill. og það veit þessi ágæti þm. og greindi maður. Hann veit að hún er sýndartill. sem hefur aldrei verið farið eftir hvorki af vinstri stjórn né hægri stjórn eða nokkurri ríkisstj. á Íslandi. Þessar bætur hafa hækkað hlutfallslega og annað ekki.

Sami þm. flutti hér langt mál í gær sem væri full ástæða til að fara ítarlega út í. Þar gerði hann grein fyrir afkomu atvinnuveganna og reyndi að gylla eins og hægt var hvernig ástandið hafi verið þegar hann fór úr ráðherrastól. Það er vitað mál og liggur fyrir að í júlí í sumar var halli í sjávarútvegi samkv. spám Þjóðhagsstofnunarinnar, sem hann vitnaði mjög mikið til í gær, um 1380 millj. hvað veiðar snerti. En í sambandi við rekstur fiskvinnslustöðva var halli á sama tíma hvað frystiiðnaðinn snerti um 900 millj. kr., en hagnaður á söltun og herslu um 380 millj. kr. Þegar við tökum saman veiðar og vinnslu var ástandið þannig við júlí — skilyrði að það var 740 millj. kr. halli á sjávarútveginum, bæði á veiðum og vinnslu. Þetta ástand hefur farið versnandi. Við höfum orðið fyrir margvíslegum áföllum síðan og erum að verða fyrir áföllum enn. Ef það væri sérstakt hvað okkur íslendinga varðar, þá má kannske ræða hér af hverju það stafi. En nú vitum við vel og höfum fregnir af því á hverjum degi hvernig ástandið er í velflestum nágrannalöndum okkar á þessum sviðum. Þau hafa orðið fyrir þungum áföllum í iðnaði. Eitt höfuðvandamál allra þessara ríkja er olíuvandamálið sem hefur kostað þjóðir heims, sérstaklega iðnaðarþjóðir, stórfé og versnandi afkomu. En sá er munur á okkur og velflestum þessara þjóða að þær verða nú að berjast við sífellt vaxandi atvinnuleysi, en með skynsamlegri stefnu og varkárni hjá þeirri ríkisstj. sem nú situr að völdum, hefur verið komist hjá því að atvinnuleysi yrði í þessu landi.

Við verðum að haga gerðum okkar á þann veg að gæta hófsemi og við verðum líka að játa þá staðreynd að það er ekki hægt að gera alla hluti í einu og það er heldur ekki hægt að láta eins og ekkert hafi skeð, eins og við eigum erfiðleikum hafi verið tekið og að engir erfiðleikar hafi átt sér stað hér heima fyrir og engir erfiðleikar hafi komið annars staðar frá sem við ráðum ekki við. Við verðum að játa að þetta liggur fyrir. Við verðum að komast út úr þessum erfiðleikum og við verðum líka, hvað sem talað er um að menn séu með barlóm eða svartsýni, að viðurkenna að velflestar útflutningsafurðir okkar hafa hækkað í verði, en ekki hækkað, að saltfiski einum undanskildum. En þegar menn eins og Magnús Kjartansson gera samanburð á hvað útflutningur hefur hækkað í krónutölu, þá verður, líka að taka tillit til tveggja gengisbreytinga sem hafa átt sér stað og útflutningum hefur hækkað af þeirra völdum. En í sambandi við gengisbreytingar verðum við líka að taka með í reikninginn, og það veit þessi hv. þm. mætavel, þær gífurlegu hækkanir sem verða einnig af völdum gengisbreytingarinnar og hækka framleiðslukostnaðinn hjá okkur. Það er ekki hægt að taka aðeins aðra hliðina eins og hann gerði í sinni ræðu í gær.

Ég ætla ekki að fara að flytja lengri ræðu að þessu sinni, Það gefast tækifæri til þess síðar og ég get þá beðið alveg eins í nokkra daga með það, en ég vildi að eins að þetta kæmi hér fram í sambandi við bætur lífeyrisþega, að það er ætlun ríkisstj. og stjórnarflokkanna að þessar bætur verði afgreiddar með því frv. sem ég gat um í upphafi ræðu minnar.