22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. forsrh. áðan þess efnis að fulltrúum ASÍ hafi verið kunnugt um þann fyrirvara ríkisstj. á skiptingu þeirra 2 000 millj. sem gert er ráð fyrir að lækka skatta um, þá sé ég ástæðu til þess að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, upphaf bréfs sem þeir aðilar ASÍ, þ. e. a. s. samninganefndin, sendu fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. meðan hún hafði þessi mál til umr., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með vísun til yfirlýsingar ríkisstj. um skattamál, sem hér fylgir með í ljósriti og út var gefin í sambandi við samninga verkalýðsfélaga og samtaka atvinnurekenda, leyfir samninganefnd ASÍ sér að vekja athygli hv. fjh.- og viðskn. á nauðsyn þess að breytt verði nokkrum ákvæðum frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum ef fullnægja á því hvoru tveggja að verja án fyrirvara 2 000 millj. kr. í skattalækkanir og að sú lækkun gagnist þeim fyrst og fremst sem lakast eru settir efnalega.“

Þarna er vitnað orðrétt til þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstj. gaf út og hér er verið að tala um, þannig að það er undirstrikað af hálfu þeirra samninganefndarmanna ASÍ að enginn fyrirvari var á þessu frá hæstv. ríkisstj. Hér er því farið rangt með þegar því er haldið fram að samninganefndarmönnum ASÍ hafi verið kunnugt um fyrirvara af hálfu ríkisstj. að því er þetta varðar.

Þá sagði hæstv. forsrh. að enginn ágreiningur væri um það hvar niðurskurður ætti að koma niður, hvort það væri í strjálbýli eða þéttbýli. Hann sem sagt undirstrikar að það sé alveg eindregin ákvörðun, fastmælum bundið af hálfu hæstv. ríkisstj. að notfæra sér þá heimild sem þetta frv., sem nú er hér til umræðu, gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. að skera niður útgjaldaliði um 3 500 millj. kr. Þetta stangast á við það sem hv. 4. þm. Austf., fulltrúi hins stjórnarflokksins, sem talað hefur í þessum umr., hélt fram áðan. Sennilega hefur það farið fram hjá hæstv. forsrh. að hann lét að því liggja og beinlínis í það skína, margundirstrikaði það að hér væri aðeins um heimildarákvæði að ræða sem hann vildi ekkert um spá hvort notað yrði eða ekki. Um talsverðan meiningarmun milli hæstv. forsrh. og hv. 4. þm. Austf. er því greinilega að ræða að því er þetta atriði frv. varðar sem er annað af meginatriðum frv.

Þá sagði hæstv. forsrh. að sá niðurskurður, sem hér er verið að ræða um, mundi ekki bara bitna á framkvæmdaliðum, heldur líka á rekstrarútgjöldum. Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé þá rangt sem aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið, greinir frá á s. l. sunnudag og ég vitnaði til orðrétt áðan, að annað meginatriði þessa frv. sé niðurskurður á opinberum framkvæmdum — á opinberum framkvæmdum, ekki rekstrarútgjöldum, heldur niðurskurður á opinberum framkvæmdum um 3 500 millj. kr. Er þetta rangt hjá þessu aðalmálgagni hæstv. forsrh.? Það væri gott að fá um það vitneskju.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vildi að þetta kæmi hér fram og þá fyrst og fremst að ég tel að með því bréfi sem samninganefnd ASÍ sendi fjh.- og viðskn. sé rækilega undirstrikað að margívitnuð yfirlýsing hafi verið án allra fyrirvara.