23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil minna á að með afgreiðslu þessa frv. á Alþ. er ekki verið að taka ákvörðun um úthlutun þess fjár sem frv. fjallar um. Ákvörðun hefur þegar verið tekin og nægir að vísa til endurtekinna samþykkta sem gerðar hafa verið á hv. Alþ., bæði við afgreiðslu fjárl. og einnig með þál. frá 18. maí 1972. Hér er hins vegar verið að ákveða framkvæmdahlið málsins, og þar er um að ræða atriði sem samkomulag hefur tekist um og ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til að Alþ. samþykki nú á þessum vetri og kannske væri rétt að segja staðfesti það samkomulag sem tekist hefur um fyrirkomulag þessara mála.

Í tilefni af till. Jóns Árm. Héðinssonar sé ég mig til neyddan að fara nokkrum orðum um hugsanlega aðild tónskálda að þessum sjóði. Ég vil taka það skýrt fram að ég er algerlega sammála Jóni Árm. Héðinssyni um að vel gæti komið til athugunar að tónskáld ættu beina aðild að þessum sjóði og væntanlega yrði fjáröflun til sjóðsins með hliðstæðum hætti og er í sambandi við bækur, þannig að söluskattur af t. d. hljómplötum rynni til þessa sjóðs eða sem sagt jafnvirði þeirrar upphæðar. En um þetta hefur ekki verið fjallað á undirbúningsskeiði þess frv. og málið hefur verið undirbúið, hvorki af hálfu tónskáldanna né af hálfu þeirra sem með fjármálin fara eða af hálfu menntmrn. Ég held því að það sé hæpið að vera að blanda því máli inn í afgreiðslu þessa frv. Ég hef átt tal við formann Tónskáldafélagsins einmitt um þetta atriði, og hann var mér sammála um að mestu máli skipti að þetta frv. næði fram að ganga og það væri ekki rétt að eiga á hættu með verulegri grundvallarbreytingu á frv., sem gengi í aðra átt en samkomulag hafði áður tekist um, að frv. dagaði uppi hér í þinginu á seinustu vikum þingsins, tónskáldin vildu ekki taka á sig ábyrgðina á því með því að fara að reyna að blanda hagsmunum sínum inn í þetta frv.

Þess vegna er það afstaða mín að till. Jóns Árm. Héðinssonar, jafnágæt og hún er, sé ekki tímabær á þessu stigi málsins og yrði frekar að reikna með því að ráðrúm gæfist til þess í sumar, eftir að frv. hefði verið samþ., að undirbúa það mál betur þannig að hægt væri á næsta vetri að gera viðeigandi breytingu á frv. Ég sem sagt óttast að ef till. yrði samþ. og væri búið að gera talsvert veigamikla breytingu á frv. með þeim hætti gæti ferð frv. í gegnum báðar d. Alþ. verið í nokkurri hættu, einkum með tilliti til þess hve lítill tími virðist vera til stefnu. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti till. Jóns Árm. Héðinssonar þó að ég sé hins vegar því algerlega samþykkur að þessi hlið málsins verði athuguð þótt síðar verði.