23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af orðum síðasta ræðumanns. Það er rétt að ég hef heyrt þetta sagt frá sennilega sama manni og hann vitnaði í að þeir vildu ekki, tónskáld, verða til þess að hefta framgang kjarabóta til rithöfunda. En auðvitað tók hann fram, að hann fagnaði hverju skrefi, — eða gerði það við mig, — sem Alþ. sýndi þeim þann heiður að fælist í kjarabót til þeirra. En við þá er sagt að það sé erfiðara í framkvæmd, sem ég reyndar skil nú ekki, að fá einhverja viðmiðunartölu handa þeim eins og fundið hefur verið gagnvart rithöfundum. Ég skil ekki hvernig það er erfiðara í framkvæmd undir söluskattskerfinu. En það er rétt að frv. byggist á ákveðinni athugun, á ákveðnu samkomulagi sem gert var á sínum tíma fyrir atbeina og forgang rithöfunda. En ég ætla og miða við það, sem ég hef heyrt af tónskáldum, að þá séu þau raunverulega bara hógværari en rithöfundarnir. Það er æðioft með ýmsar stéttir að þær hafa mismunandi harða kjarabaráttumenn, og sumir hafa e. t. v. verið fullrólegir eða réttara sagt kurteisir í því efni. En auðvitað yrðu tónskáld þakklát að fá viðurkenningu ekkert síður en rithöfundar. Hér er, eins og ræðumaður reyndar viðurkenndi og tók undir, um viðurkenningu á hugverkum að ræða og eðlileg rök fyrir því að hjálpa þessum mönnum ekkert síður, ef við tökum þá ákvörðun að greiða áfram úr ríkissjóði fyrir slík störf. Þetta frv. staðfestir það sem þegar hefur verið ályktað á Alþ. og þegar verið gert í fjárl. en er ekkert bundið við að halda óbreytt áfram. Það er ekkert sem segir það, alls ekki neitt.

Ég get vel látið mér detta í hug að taka þessa till. aftur nú við 2. umr. og láta hana bíða 3. umr. og n. gæfist kostur á að koma einu sinni saman.

Ef það er talið til hindrunar að reyna að hjálpa tónskáldum jafnframt því að við viðurkennum þetta til rithöfunda, þá verður svo að vera, en ég sé ekki nein sérstök rök í þá átt. Á sama hátt og við finnum hvað söluskatturinn er af bókum, þá finnum við út hvað söluskattur er af nótum og öðrum höfundaverkum tónskálda ekkert síður. Það gerir málið ekkert flóknara. Frv. sjálft, eins og það kemur fram í grg., er byggt á ákveðnu samkomulagi sem gert hefur verið við rithöfunda. En ég held að það sé ekki æskilegt hjá okkur að auka sífellt á misrétti í þessu þjóðfélagi, nóg er af því samt. Ef við viljum viðurkenna hugverk manna, þá eigum við að gera það til allra samtímis eins og hægt er, og tónskáld standa í þessu tilliti alveg ,jafnfætis rithöfundum að mínu mati.