23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

248. mál, fjarskipti

Flm. (Steingrímur Hermannsson); Herra forseti. Í lögum um fjarskipti frá 1941 eru ströng ákvæði um einkarétt ríkisins á öllum sviðum fjarskipta. Þá var þessi einkaréttur mjög eðlilegur. Þarna varð að hafa strangt eftirlit, ekki síst á ófriðartímum, og raunar er enn þá eðlilegt að hið opinbera hafi slíkan viðtækan einkarétt, jafnvel á friðartímum. Hins vegar hafa ýmsar aðstæður breyst mjög frá þessum tíma og tel ég því að tími sé kominn til að rýmka nokkuð um þennan einkarétt. Sá er megintilgangurinn með flutningi frv. til l. á þskj. 473 um breytingar á lögum um fjarskipti.

M .a. er í fjarskiptalögunum frá 1941 svo kveðið á að hið opinbera hafi einkarétt til allra viðgerða, viðhalds og allrar smíði á fjarskiptatækjum. Að vísu eru í 3. gr. frv. aftur á móti víðtækar heimildir fyrir ráðh. til að veita undanþágu frá þessum einkarétti, ekki aðeins til smíða og viðgerða á fjarskiptatækjum, heldur í raun og veru á flestum sviðum fjarskiptastarfseminnar. Heimild til undanþágu hefur þó verið heldur lítið notuð þrátt fyrir það að komið hefur fram skilningur hjá ríkisvaldinu á því að tímabært sé og jafnvel nauðsynlegt að rýmka þar um á ýmsum sviðum. Sérstaklega er að mínu mati mjög mikil þörf á því að losa um þennan einkarétt í sambandi við viðgerðir og viðhald á fjarskiptatækjum.

Fjölmargir aðilar í atvinnulífi og einkaaðilar eiga eða reka fjarskiptavirki, t. d. talstöðvar, sérstaklega í öllum bátum og er þess raunar krafist af öryggisástæðum að fjarskiptatæki séu á bátaflotanum.

Viðhald þessara tækja er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt ef þau eiga að koma að fullum notum. Staðreyndin er hins vegar sú að viðhaldsþjónustunni hefur verið mjög ábótavant víða á landsbyggðinni og er það svo að víða í útgerðarstöðum eru bátar í raun og veru án þessa mikilvæga öryggistækis í lengri eða skemmri tíma vegna skorts á viðhalds- og viðgerðarþjónustu. Þar sem slík þjónusta er ekki til staðar, og það mun vera á fæstum stöðum, er annaðhvort nauðsynlegt að senda tækin til viðgerðar til Reykjavíkur eða bíða eftir viðgerðarmanni frá Landssímanum til staðarins. Það getur að sjálfsögðu oft verið mjög háð veðrum og sömuleiðis hvort slíkir menn eru á lausu þegar þeirra er þörf.

Ég sé enga ástæðu til þess að viðgerðarþjónusta sé í höndum hins opinbera einhliða. Ég tel ástæðu til að losa þar um. Slík heimild fyrir iðnaðarmenn á þessum sviðum til að gera við fjarskiptavirki gæti leitt til þess að þeir setjist að á ýmsum stöðum um landið og veiti þannig á staðnum mjög mikilvæga þjónustu. Í þessu frv. er því lagt til að 3. gr. laganna verði breytt svo, að þrátt fyrir ákvæði um einkarétt ríkisins á öllum sviðum fjarskiptatækni verði þó iðnaðarmönnum, sem löggildingu hafa hlotið á þessu sviði, heimilt að smíða og gera við fjarskiptavirki.

Ekki tel ég eðlilegt að nema úr lögum einkarétt hins opinbera því að nauðsynlegt getur verið eftir sem áður að hið opinbera hafi eftirlit með slíkri viðhaldsþjónustu og geti gert til slíkra einstaklinga einhverjar þær kröfur sem nauðsynlegar kunna að teljast, t. d. um löggildingu og e. t. v. kröfur um skýrslur til hins opinbera um starfsemi þeirra. Það er ekki heldur óeðlilegt að þeir, sem þurfa að leita til slíkra manna um viðgerðir á tækjum sínum, vilji teljast tryggir um að það sé ekki um lélega vinnu að ræða. Mætti gera það með að krefja þessa menn um samþykki Landssímans og jafnvel að gera ráð fyrir því að þeir hafi slík vottorð undir höndum.

Með þessu móti tel ég að nauðsynlegum ákvæðum þess einkaleyfis, sem nú er í gildi, sé fullnægt, þ. e. a. s. hið opinbera eða Landssíminn, sem fer með umboð ráðh. í þessu sambandi, geti haft allt nauðsynlegt eftirlit og tryggt að þjónustan sé með góðum hætti, en jafnframt losað svo um hnútana að þessi mjög mikilvæga þjónusta sé til staðar svo víða um landið sem frekast er kleift.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Frv. fylgir nokkur grg. í svipuðum dúr og ég hef nú mælt og geta menn kynnt sér hana. Ég vil hins vegar leyfa mér að vona að þetta nauðsynjamál fái fljóta afgreiðslu í nefnd. Að þessu mæltu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.