23.04.1975
Neðri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Sverrir Bergmann:

Virðulegi forseti. Ég vildi eiginlega eingöngu fjalla um þann þátt þessa máls er viðkemur mengun og mengunarvörnum, en þessi atriði hafa verið mjög í brennidepli og margt verið um þau fullyrt, sem ekki fær tvímælalaust staðist og ekkí alltaf verið sett fram að gaumgæfilega athuguðu máli.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að af þessum fyrirhugaða verksmiðjurekstri verður einhver mengun, fram hjá því verður ekki komist. Spurningin er fremur sú, hvers eðlis þessi mengun sé, hversu mikil hún kunni að verða en þó kannske umfram allt er spurningin um það hvort við getum eitthvað gert til þess að draga úr henni og þá með hverjum hætti og að hve miklu leyti. Að mínu áliti er það algert grundvallarskilyrði fyrir verksmiðju og verksmiðjurekstri af þessu tagi að mengun megi halda innan þess ramma að hún sé ekki skaðleg mönnum og umhverfi í ljósi þeirrar þekkingar sem fyrir liggur. Og raunar tel ég að þótt allir þættir þessa máls séu mikilvægir, þá tel ég alla aðra þætti þess vera þess eðlis að þeir væru ekki leyfilegir til framkvæmda ef við værum að taka þekkta, óhæfilega áhættu hvað viðkemur mengun. En af þeim upplýsingum, sem liggja fyrir um mengunaráhrif, þá virðist mér að þessi ábætta sé í lágmarki, vel að merkja ef allar mengunarvarnir eru í heiðri hafðar. Og það er algerlega í trausti þess að svo verði gert að ég mun greiða þessu frv. atkv. Og það er í trausti þess sama að ég hef skrifað undir og er einn þeirra, sem mynda meiri hl. hv. iðnn. Nd. í þessu máli. Ég er enginn sérstakur talsmaður stóriðju á Íslandi og síst af öllu stóriðju með þátttöku erlendra aðila. En ég skal viðurkenna það að til grundvallar þeirri afstöðu liggja tilfinningalegar ástæður, og ég hef gert mér það ljóst í þessu efni eins og öðrum að nauðsynlegt er að taka tillit til skynseminnar og reyna að leita sátta tilfinningalegra og skynsamlegra sjónarmiða.

Ég vildi þá fara nokkrum orðum um mengunina. Fyrsta spurningin, sem upp kemur og mikið hefur verið til umtals, er þessi, hver yrðu áhrif slíks verksmiðjurekstrar sem hér um ræðir á lífríki Hvalfjarðar. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vísa til grg. Náttúruverndarráðs, en þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Varðandi fyrirhugaða kísiljárnverksmiðju í Hvalfirði er það mat Náttúruverndarráðs að hættan á skaðlegum áhrifum á lífríki vegna mengunar af hennar völdum sé ekki veruleg, ef allar tiltækar varúðarráðstafanir eru gerðar, og minni en af öðrum málmblendiiðnaði, svo sem af framleiðslu mangan- og krómjárnblendis. Veldur því fyrst og fremst annað hráefni svo og annar tæknibúnaður til mengunarvarna.“

Síðan segir með leyfi virðulegs forseta: „Þrátt fyrir áratugareynslu af mikilli og hvimleiðri rykmengun frá kísiljárnbræðslum í Noregi hafa að sögn umhverfisyfirvalda þar ekki komið fram neinar upplýsingar sem benda til þess að slík mengun hafi haft skaðleg áhrif á gróður eða dýralíf.“

Á hinn bóginn var það einnig upplýst, að það hafi ekki verið sérstaklega rannsakað og að sjálfsögðu höfum við ekki reynslu af slíkri starfsemi hér á landi. En síðan segir:

„Með þeim tæknibúnaði til rykhreinsunar, sem prófaður hefur verið á allra síðustu árum, hafa skapast möguleikar á stórfelldum úrbótum frá því sem áður var til varnar rykmengun út frá kísiljárnverksmiðjum og jafnframt verið unnt að bæta verulega innri starfsskilyrði í slíkum verksmiðjum.“

Næsta spurning, sem hefur verið áleitin, er á þá leið hvort könnun á lífríki Hvalfjarðar nú mundi segja okkur fyrirfram um áhrif hugsanlegrar mengunar frá væntanlegri verksmiðju á lífríki þar í firðinum. Á fundi hv. iðnn. með sérfræðingum Náttúruverndarráðs svöruðu þeir þessu neitandi. Þeir töldu að það mundi ekki vera hægt að segja fyrir um hver áhrif þessi rekstur hefði á lífríkið, enda þótt upplýsingar um eðli þess lægju fyrir. En þeir teldu það hins vegar skipta verulegu máli að rekstur verksmiðjunnar væri kannaður rækilega og þar gerðar allar þær kröfur er mættu verða til þess að draga úr hugsanlegri mengun svo sem unnt væri. Hins vegar segir svo í grg. Náttúruverndarráðs, með leyfi virðulegs forseta:

„Náttúruverndarráð telur mikilsvert að vistfræðileg rannsókn á umhverfi verksmiðjunnar ásamt nauðsynlegum efnarannsóknum hefjist sem fyrst þannig að áreiðanlegar niðurstöður varðandi umhverfisaðstæður liggi fyrir áður en rekstur hefst. Einnig leggur ráðið áherslu á að slíkri alhliða könnun verði fram haldið skipulega eftir að rekstur hæfist í sambandi við áætlun er Náttúruverndarráð lætur í té.“

Mengun sú, sem um ræðir, verður rakin til annars vegar rykmyndunar innan verksmiðjunnar og utan hennar og hins vegar til fastra úrgangsefna, þ. e. a. s. aðallega gjall- og steinefna úr deiglum, og raunar segir svo um þann hluta mengunarinnar í skýrslu Náttúruverndarráðs, með leyfi virðulegs forseta:

„Önnur föst úrgangsefni, svo sem gjall- og steinefni úr deiglum, eru ekki í þeim mæli að valda þurfi erfiðleikum sé frá þeim gengið með eðlilegum hætti og jafnframt fylgst með efnasamsetningi þeirra og áhrifum frá þeim við geymslusvæði.“

Í skýrslu Heilbrigðiseftirlits ríkisins kemur fram að áætlað magn fasts úrgangs, annars en ryks, er um 2 500 tonn á ári. Þar af eru um 1500 tonn eldfastur steinn úr deiglum og úrgangur frá hreinsun bráðins málmblendis. Það kemur fram í grg. Heilbrigðiseftirlitsins að mjög er nauðsynlegt að þessi úrgangur sé efnagreindur og það sé gert áður en ákveðið verði hvernig honum verði endanlega fyrir komið, enda þótt Heilbrigðiseftirlit ríkisins bæti því svo við í sinni grg. að á þessu stigi sé ekki vitað til að í honum leynist skaðleg efni. En hér er gert ráð fyrir sjálfsagðri varúðarráðstöfun. Rykmagnið er gífurlegt og nemur um það bil 20 þús. tonnum á ári. Með þeirri hreinsunaraðferð, sem gert er ráð fyrir að nota, þ. e. með svokölluðum pokasíum, má fanga milli 98 og 99% af þessu rykmagni, en óhjákvæmilega berast 1–2%, þ.e. 200–300 tonn af þessu, út í andrúmsloftið.

Í sambandi við útblásturinn og hugsanleg mengunaráhrif frá honum segir svo í skýrslu Náttúruverndarráðs, með leyfi virðulegs forseta:

„Mengun af völdum snefilefna, svo sem málmsambanda í útblæstri, virðist af fyrirliggjandi gögnum ekki líkleg til að valda tjóni, en gæti þó samkvæmt“ — og er nú vitnað til þess, sem áður er sagt — „skapað vandamál vegna samsöfnunar við endurvinnslu ryksins í málmbræðslunni“ — en að því mun ég koma síðar — „og því nauðsynlegt að fylgjast vel með þeim þætti, svo og efnainnihaldi allra hráefna sem notuð eru.“

Í grg., sem fyrir liggur frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, er fjallað um ryk þetta, og það, sem meginmáli skiptir í því sambandi, er að í þeim mælingum, sem á því hafa verið gerðar, kemur ekki fram að þar leynist efni eins og þungmálmar í því magni sem skaðlegt er talið. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar.

Hins vegar eru hér einnig lofttegundir, þ. e. aðallega kolsýringur og brennisteinsildi. Kolsýringurinn er lítill vegna þess að bruni er fullkominn og er ekki ástæða til þess að vænta mikillar áhættu í sambandi við hann. Hins vegar kann brennisteinsildi að vera nokkuð mikið og Heilbrigðiseftirlitið mælir með því að nota kol með lágu brennisteinsinnihaldi. Það, sem stendur eftir af þessum mengandi efnum, er þá allt það ryk sem hefur verið hreinsað þannig að ekki fari út í andrúmsloftið og er hér um að ræða gífurlegt magn, kannske allt að 20 þús. tonnum á ári. Það er auðvitað visst vandamál hvað við þetta ryk á að gera. Náttúruverndarráð leggur mikla áherslu á að það liggi sem allra ljósast fyrir og liggi raunar alveg ljóst fyrir hvað um það verði. Nú er upplýst að allt að 70% af þessu má endurnýta í fyrirhugaðri verksmiðju, og það er einnig upplýst að vel er mögulegt að nota það, sem eftir er af þessum úrgangi, að heita má mestallt til annars iðnaðar, — iðnaðar sem er til hér á landi. Engu að síður er nauðsynlegt að sem allra fyrst liggi fyrir — og það er greinilegt að það hlýtur að verða sett sem skilyrði fyrir rekstrarleyfi þessarar verksmiðju — að frá þessum hluta ryksins sé gengið með þeim hætti sem við verður unað.

Í grg. Heilbrigðiseftirlits ríkisins er því haldið fram að í þessu ryki í föstu formi hafi ekki fundist hættuleg efni, en það er tekið fram að efnasamsetningin kunni að breytast og ná hættumörkum við endurnotkun efnisins. Þá má ekki heldur gleyma þeirri mengun sem er innan dyra. Að vísu er það svo að úr þeirri mengun má draga verulega og samkv. þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, raunar bæði frá Náttúruverndarráði og einnig í skýrslum Heilbrigðiseftirlits ríkisins, hafa atvinnusjúkdómar ekki verið tíðir í iðnaði af þessu tagi, jafnvel þótt ekki hafi verið um fullnægjandi varnarráðstafanir að ræða. En atvinnusjúkdómar hafa engu síður komið upp og eru það þá aðallega sjúkdómar í lungum. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir á vinnustað sem draga verulega úr þessari hættu sem þó er, eins og ég nefndi, greinilega og sem betur fer miklu minni en kannske hefði verið ástæða til að ætla. Raunar segir svo í grg. Heilbrigðiseftirlits ríkisins, með leyfi virðulegs forseta:

„Svo sem fram kemur berst nokkurt ryk út í andrúmsloft verksmiðjubygginganna. Langstærstur hluti þess er formlaust kísilryk, en heimildum ber ekki saman um skaðsemi þess.“

Síðar er svo sagt að af 865 starfsmönnum við iðnað af þessu tagi í Noregi og Svíþjóð höfðu 17 einkenni um kísilveiki og höfðu 5 þeirra mestmegnis eða eingöngu unnið í ofnhúsi, en 12 höfðu unnið í rykmenguðu andrúmslofti utan þess og í öðrum iðnaði. Síðar segir að hafa beri í huga að þau tilfelli, sem hér um ræðir, eigi rætur sínar að rekja til málmblendiverksmiðja fyrir 10–30 árum. Hreinsitækni hefur farið fram síðan með tilsvarandi minna ryki innan dyra, og sjálfvirkni hefur einnig fleygt fram og losað menn við mörg af hættulegustu störfunum, einkum þar sem kristallað ryk er á ferðinni, svo sem í mulnings-og blöndunarstöðvum. Álit bandarískra heilbrigðisyfirvalda virðist vera að amorf kísilryk valdi ekki kísilveiki eitt sér í því magni sem um er að ræða. Sé því samfara kristallað ryk aukist hættan aftur á móti þótt um lítið magn sé að ræða.

Síðar kemur fram að trúnaðarlæknir Union Carbide fullyrðir að kísilveiki hafi ekki orðið vart hjá starfsmönnum fyrirtækisins, en rannsókninni sé ekki að fullu lokið. Er síðan bent á að tvær bandarískar háskólastofnanir, sem gert hafi rannsóknir á eiginleikum amorfs kísilryks frá málmblendiframleiðslu, hafi slíka rannsókn með höndum. Ég vil taka trúanlegt það sem fram kemur frá læknum og háskólastofnunum í þessu sambandi hvað sem líður áliti manna á öðrum aðilum í þessu sambandi.

Ég legg áherslu á það að fram hjá þessum möguleika á veiki hjá starfsmönnum, lungnaveiki, má ekki ganga og verður að viðhafa allar varúðarráðstafanir og nauðsynlegt eftirlit til þess að fyrirbyggja slíkt.

Þá koma þær upplýsingar fram í grg. Náttúruverndarráðs að 70% starfsmanna í hliðstæðri verksmiðju í Noregi höfðu merki um skerta heyrn og stafar þetta af són sem er á vinnustaðnum. Þetta er sónn sem erfitt er að átta sig á og einkennin læðast að mönnum, eins og við oft segjum, og er því nauðsynlegt að þarna sé útbúnaður til þess að fyrirbyggja áhrif frá þessu.

Ég vil taka það fram að ég er ekki sérfróður maður um þessa hluti og ég hef orðið að byggja mína afstöðu í þessu máli á því sem fram kemur hjá þeim aðilum sem ég hef nú vitnað til. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en þeir hafi staðið heiðarlega að allri sinni vinnu og sannfærðist raunar um það á þeim fundum sem ég átti kost á að sitja með þeim á vegum iðnn. hv. deildar.

Mín ályktun er sú að mengunaráhrif frá þessari verksmiðju geti verið í algeru lágmarki og lágmarksáhætta sé einnig tekin hvað viðkemur lífríki Hvalfjarðar. Hins vegar er það jafnaugljóst að þetta er því aðeins svona að öllum þeim skilyrðum, sem sett eru, verði rækilega framfylgt. Það verður að treysta því að svo verði gert, og það er jafnframt greinilega mjög mikilvægt að stöðugt eftirlit sé þarna meira en nafnið eitt. Það er með mörgu sem þarf að fylgjast. Það þarf að fylgjast með hreinsibúnaðinum, það þarf að fylgjast með því efni sem notað er, með meðferð þess og fylgja eftir athugunum á umhverfinu og síðast en ekki síst að hafa nákvæmt eftirlit með því fólki sem við þessa framleiðslu vinnur. Sé þessa alls gætt sýnist mér að mengunaráhrif öll geti verið í algeru lágmarki. Ég viðurkenni það auðvitað að vitneskja okkar hér þarf ekki að vera og er vafalaust hvergi nærri tæmandi. En það er nú einu sinni svo að menn hafa alltaf orðið að taka sínar ákvarðanir í ljósi þeirrar þekkingar sem legið hefur fyrir á hverjum tíma. Og ég dreg í efa að miklar framfarir hefðu yfirleitt orðið ef öðruvísi hefði verið að staðið. Auðvitað eru ekki allar framfarir til góðs. En staðreyndin er þó sú að öll framvinda eða framför skapar mönnum nýja vitneskju og raunar skapar venjulega sú vitneskja ný vandamál, en leysir um leið önnur. Það er nú einu sinni þannig sem okkur miðar alltaf svolítið áfram.

Mín afstaða til þessa máls hefur fyrst og fremst ráðist með tilliti til þessara upplýsinga sem ég hef um hugsanlega mengun af verksmiðjunni. En ég hef einnig stutt þetta mál með tilliti til þess að því skilyrði er fullnægt að eignarhluti er að meiri hl. í höndum okkar sjálfra, í öðru lagi með tilliti til þess að þessi verksmiðja verður ekki nema um það bil mátulega stór hluti í okkar efnahagskerfi og í þriðja lagi vegna þess að ég kem ekki auga á það að full not af okkar orkuframleiðslu verði á annan hátt tryggð á næstunni hvað sem líður hugmyndum manna um annað og hvað sem því líður að henni mætti dreifa með öðrum hætti og kannske á vissan hátt til meiri hagsbóta í bráð fyrir ákveðinn hluta þjóðarinnar. En þá verður einnig að hafa það í huga að það er ekki ætlunin að nema staðar í þeim úrhótum, sem taka sitt mið af aukinni raforkuframleiðslu í landinu.

Ég held annars að íslendingar eigi að flýta sér ákaflega hægt í efnum eins og þeim sem hér eru á dagskrá. Ég vil engan ásaka og raunar ekki halda uppi gagnrýni á nokkurn mann í þessu sambandi, en einhvern veginn finnst mér nú samt að þetta mál sé búið að vera ansi lengi á döfinni og það sé búinn að vera nægur tími til þess að ganga frá öllum þáttum þess á þann veg að engum þurfi að finnast að fljótt sé að farið á síðustu stundu. Ég held að menn verði að vera sjálfum sér svolítið samkvæmir í þessu efni. Enda þótt andmæli gegn hugsanlegum framkvæmdum komi fram í byrjun, andmæli, sem oftast eru ekki á rökum reist, þá mega menn ekki láta það verða til þess að undirbúningsathuganir geti ekki gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Og menn mega auðvitað ekki ganga út frá því að þeir geti í upphafi gefið sér niðurstöðurnar af slíkum athugunum.