25.11.1974
Efri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

64. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir vinsamlegar undirtektir undir þetta frv. Ég er honum alveg sammála hvað snertir 6. gr., að það getur verið nauðsynlegt að taka eitthvað fram, þannig að ráðh. hafi ekki of óbundnar hendur. Hins vegar býst ég við því að maður, sem gegnir ráðherraembætti, legði varla í það að skipa gersamlega óhæfan mann yfir jafnþýðingarmikla stofnun og þessa, því að starfið er mjög vandasamt. Það er kannske má segja um minna metin störf að ekki sé eins vandað til með skipun í þau, en ég hygg að það hljóti að vera kappsmál hvers ráðherra, hver sem hann er, að vanda mjög vel til. En eins og ég tók fram áðan er ég alltaf mótfallinn því að setja ákvæði eins og voru í fyrra frv. Ég get lýst því hér yfir að ef þetta frv. nær fram að ganga, svo sem ég vona, á þessu þingi, þá er enginn ákveðinn maður í huga mínum til að skipa í þetta starf. Það verður að ráðast, þegar auglýst verður eftir umsóknum, hverjir koma til með að sækja. Það þarf ekki endilega að vera að gengið verði fram hjá háskólamenntuðum manni, ef hann er talinn hæfur og fær í þetta á öðrum sviðum.

Í sambandi við 9. gr. töldu starfsmenn rn. ekki ástæðu til þess að gera á henni breytingar. Ég lagði ekki mikið upp úr því sjálfur. Hins vegar vil ég að það komi hér fram, að n., sem fær málið til athugunar, getur auðvitað gert brtt. við 9. gr. ef hún telur fara betur á því. Ég set það ekkert fyrir mig og tel að það sé nauðsynlegt að athuga þessi mál eins og önnur mjög ítarlega.

Mér láðist í framsögu að geta þess, að þegar ég sagði að allar stofnanir sjávarútvegsins væru hlynntar þessu frv., þá láðist mér að geta þess að Fiskmat ríkisins lagði fram margar aths. við fyrra frv., en ég tel rétt að það komi fram. Það er eina stofnunin, sem hefur lagt fram einhverjar veigamiklar aths. Allar aðrar greinar í sjávarútvegi eru samþykkar frv. í öllum höfuðdráttum. Vafalaust fær sjútvn. þessar aths. Fiskmatsins. Hitt er svo annað mál, sem alltaf er og alltaf verður, að þegar á að breyta einhverju eru oft viðkomandi stofnanir afar íhaldssamar á allar slíkar breytingar og því verður ekki hægt, hvorki fyrir rn. né Alþ., að láta þær ráða ferðinni ef við teljum nauðsynlegt að gera breytingar, eins og ég hygg að Alþ. sé sammála um að gerðar séu í þessum málum.