23.04.1975
Efri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3228 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er í fyrsta lagi niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs sem nemur 3500 millj. kr. skattalækkanir sem nema 2 000 millj. kr., tollalækkanir á ávöxtum, breytingar á fjölskyldubótum, þannig að um verði að ræða svonefndar barnabætur, flugvallagjald skyldusparnaður og lánsfjáröflun til opinberra framkvæmda. Till. þessar, sem í frv. felast eru nokkuð misjafnar að vöxtum, en þrennt er það sem skiptir mestu máli og ég mun hér gera að umræðuefni. Það er í fyrsta lagi skattalækkunin, í öðru lagi niðurskurður ríkisútgjalda og í þriðja lagi fjárfestingarmálin.

Í stuttu máli sagt er það afstaða okkar Alþb.manna til þessara þriggja meginatriða frv. að við erum meðmæltir skattalækkuninni. Við teljum sérstaka þörf á því eftir að núv. ríkisstj. hefur stórlega aukið skattaálögur á þjóðina, en það var eitt fyrsta verk hæstv. ríkisstj. eftir að hún komst til valda að hækka söluskatt um 2%. Eftir að hún hefur rýrt lífskjör almennings í landinu mjög verulega og fólkið á fyrir höndum að greiða hæstu skatta, sem nokkurn tíma hafa verið á lagðir, með hlutfallslega miklu minni tekjum en verið hefur um langt skeið, sem sagt þegar þessi viðhorf blasa við, þá er sannarlega þörf á að skattabyrðin og skattaálögurnar séu gerðar eitthvað léttbærari. Jafnframt teljum við Alþb.- menn það rétta stefnu að talsverður hluti þessarar skattalækkunar sé framkvæmdur með lækkun söluskatts á matvörum og afnámi tolla á innfluttum ávöxtum. Við erum aftur á móti andvígir því að ríkisstj. rétti hlut sinn og rétti hlut ríkissjóðs vegna þessara skattalækkana með niðurskurði á ríkisútgjöldum, einkum þar sem sýnt er að þessi niðurskurður á fyrst og fremst að bitna á verklegum framkvæmdum víðs vegar um land.

Við viljum að teknanna til að standa undir minnkuðum skatttekjum sé aflað á tvennan hátt. Við viljum afnema verulegan hluta af hinum fáránlegu fyrningaheimildum skattalaga, sem nú eru í gildi, og þá fyrst og fremst verðhækkunarstuðul fyrningareglnanna og ákvæðin um flýtifyrningu, þannig að eftir stæðu aðeins hinar almennu fyrningareglur skattalaganna, en þær eru allt að 15% af bókverði lausafjár. Fyrningaheimildir lausafjár geta hins vegar orðið allt að 31.5% að óbreyttum lögum eða meira en tvöfalt hærri en við leggjum til að þær verði og meira en tvöfalt hærri en þær voru fyrir fáum árum. Ætla má að þessi breyting ein hefði í för með sér 1100–1200 millj. kr. auknar tekjur fyrir ríkissjóð.

Í öðru lagi viljum við hækka tekjuskatt af hátekjum. Samkv. frv. ríkisstj. getur tekjuskattur orðið hæstur 40% af skattgjaldstekjum, en með því hugtaki mun vera átt við brúttótekjur að frádregnum lögleyfðum frádráttarliðum, svo sem vöxtum, hálfum tekjum eiginkonu, lífeyrisgreiðslum og öðrum slíkum frádráttarliðum. Við leggjum til að skattur á tekjur hjóna, sem hafa meira en 1 750 þús. kr. skattgjaldstekjur, en það mun að meðaltali jafngilda um 2 millj. 300 þús. kr. brúttótekjum, verði 45% af því sem er fram yfir 1 750 þús. kr., en þegar skattgjaldstekjur verða hærri en 2 750 þús. kr. hjá hjónum sé greiddur 50% skattur af því sem fram yfir er þá upphæð. Til nánari skýringa má geta þess að 2 750 þús. kr. í skattgjaldstekjur mun að meðaltali jafngilda um 3 millj. 700 þús. kr. í brúttó-árstekjur hjá hjónum. Sem sagt, hér er um að ræða hækkun skattstigans í 45% þegar skattgjaldstekjurnar eru komnar í 1750 þús. kr. og í 50% þegar þær fara yfir 2 millj. 750 þús.

Með hliðsjón af þessum tekjuöflunartill. teljum við sjálfsagt að lækkun á útgjöldum ríkisins samkv. fjárl. ársins 1975 nemi ekki meira en 1500 millj. kr., og við leggjum á það þunga áherslu .að þar verði einungis um að ræða lækkun rekstrarútgjalda, en þess verði gætt að þessi niðurskurður hafi engin áhrif á fjárveitingar til verklegra framkvæmda né á framlög til félagsmála. Við afgreiðslu fjárlaga 1975 var hækkun á almennum rekstrarútgjöldum ríkisins furðulega mikil, en með almennum rekstrarútgjöldum ríkisins er átt við önnur rekstrargjöld en beinar launagreiðslur og viðhaldskostnað. Þessi liður einn hækkaði við afgreiðslu fjárlaga milli áranna 1974 og 1975 um 76%. Við teljum því allmiklar líkur á því að skera mætti þar nokkuð niður að ósekju og að skaðlausu.

Í umr. um þetta frv. hér á Alþ. hefur hæstv. forsrh. farið mörgum fögrum orðum um hin heilsusamlegu áhrif sem niðurskurður ríkisútgjalda hefði á hinn sjúka líkama íslensks efnahagslífs. Hann hefur fullyrt að stórfelldur niðurskurður framkvæmda og fjárveitinga hins opinbera sé beinlínis lífsnauðsynlegur á þeim tímum er að kreppir og tekjur þjóðarinnar minnka. Áfergja hæstv. forsrh. í niðurskurð félagslegra framkvæmda minnir mig óneitanlega nokkuð á kreddur þeirra manna fyrr á tímum sem töldu það allra meina bót við hvers kyns sjúkdómum að sjúklingum væri tekið blóð. Því alvarlegri sem sjúkdómurinn var talinn, þeim mun meira blóði var af þeim tappað. Það er sem sagt ekki í fyrsta sinn nú að hæstv. forsrh. og skoðanabræður hans prédika þessa töfralækningu, að skera niður útgjöld ríkisins. Áreiðanlega er flestum í fersku minni að á því blómaskeiði, sem þjóðin hefur lifað undanfarin ár, hefur Sjálfstfl., með formann sinn í fararbroddi, býsnast yfir því í tíma og ótíma að þenslan í efnahagslífinu væri alltof mikil, það yrði að draga úr þenslunni. Og úrræðið hefur alltaf verið það sama, að skera niður útgjöld ríkisins. Nú er þessu þensluskeiði lokið og aðrir tímar runnir upp. Heildartekjur þjóðarinnar hafa að vísu ekki minnkað mikið,en þó heldur dregist saman. Hins vegar hafa endurteknar stórfelldar gengisfellingar dregið verulega úr innlendri byggingarstarfsemi og stórum lakari lífskjör fólksins hafa þegar og eiga eftir að hafa í för með sér minnkandi eftirspurn eftir innlendum framleiðsluvörum og þjónustu. Það kreppir að í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna stórfelldrar tekjutilfærslu innan þjóðfélagsins sem núv. ríkisstj. stendur fyrir, og þá er enn sama töfralækningin á ferðinni. Enn sem fyrr birtist læknirinn, sem ráð kann við öllu, með kutann á lofti til að skera niður verklegar framkvæmdir ríkisins og félagsleg nauðsynjamál. Enn sem fyrr og nú við gjörbreyttar aðstæður er meinið það sama að dómi formanns Sjálfstfl. Það er félagslegi þátturinn í íslensku þjóðfélagi sem er of fyrirferðarmikill og honum skal því blæða. Ef ekki væri þessi kreddufulla afstaða til sameiginlegra útgjalda þjóðarinnar, til félagslegra þarfa í anda hinnar klassísku íhaldsstefnu, sem sækir að forustumönnum Sjálfstfl. í tíma og ótíma, væri þeim áreiðanlega jafnljóst og öllum öðrum að á samdráttartímum eins og þeim, sem nú eru runnir upp af orsökum sem eru bæði af innlendum og erlendum toga sprottnar, er sérstök ástæða til þess að í engu sé dregið úr verklegum framkvæmdum ríkisins og fjárframlögum til félagsmála. Á þess háttar tímum er einmitt mikil nauðsyn að ríkisvaldið leitist við að fylla í þau skörð sem hugsanlega myndast í efnahags- og atvinnulífi til að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingar efnahagslegs samdráttar og tryggja fulla atvinnu í landinu.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir afstöðu okkar til tveggja meginatriða þessa frv. Þriðja meginatriðið er fjármögnun framkvæmda og stofnlánasjóða með innlendu og erlendu lánsfé. Þar er mikið stórmál á ferðinni, enda ræðst hraðinn í uppbyggingu íslenskra atvinnuvega mjög af því hvernig hagað er fjármögnun fjárfestingarsjóðanna. Nú eru horfur á því að opinberum fjárfestingarlánasjóðum verði haldið á þessu ári í meira svelti en verið hefur um langt skeið og á þetta einkum við Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins. En horfur eru á því að þessir sjóðir geti engan veginn gegnt hlutverki sínu vegna þess hve smátt er til þeirra skammtað miðað við þarfirnar.

Við 3. umr. í Nd. voru samþ. breytingar á því frv., sem hér er til umr., sem fólu í sér hækkun á lánsfjáröflun til Framkvæmdasjóðs. Í ljósi þessara breyt. er að sjálfsögðu rétt að skoða betur í n. nú milli umr. hvernig útlánaáætlanir fjárfestingarsjóðanna líta nú út. En mér virðist þegar sýnt að verði ekki gerðar frekari breyt. á frv. sé fjármögnun stofnlánasjóðanna alls ófullnægjandi. Frv. ríkisstj., eins og það var afgr. frá Nd., einkennist í stuttu máli sagt af samdráttar- og niðurskurðarstefnu ríkisstj. í atvinnu- og fjárfestingarmálum. Þessi stefna er röng og háskaleg og getur haft hinar verstu afleiðingar fyrir atvinnuástand í landinu og byggðaþróun víðs vegar um land.

Herra forseti. Ég hef haldið mig við nokkur meginatriði þessa máls og varið til þess 15 mínútum, en það hefur verið aðalsmerki þessarar d. að umr. hafa verið hér hóflega langar. Með það í huga læt ég þessi orð nægja við 1. umr. málsins. Við Alþb.-menn munum freista þess að koma fram gagngerum breytingum á þessu frv. í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef hér lýst, en nái þær ekki fram að ganga, munum við, enda þótt við séum samþykkir nokkrum jákvæðum atriðum þessa frv., greiða atkv. á móti því.