23.04.1975
Efri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Með því frv. sem hér er til umr., er fyrst og fremst verið að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til að stjórna fjármálum ríkisins án tillits til samþykktar fjárlaga. Þeim er hent á ruslahauginn fjórum mánuðum eftir að þau voru lögfest. Og það er ekki einungis svo að fjárlögin séu í rauninni felld úr gildi, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. veit í rauninni enginn hvaða lög eru eða verða í gildi á þessu ári og hvaða lög eru það ekki, að því er tekur til starfsemi, þjónustu og framkvæmda þar sem byggt er á fjárframlögum úr ríkissjóði, því að heimild sú, er felst í l. gr. frv. um niðurskurð fjárveitinga um allt að 3 500 millj. kr., tekur einnig til útgjalda sem ákveðin eru með öðrum lögum en fjárlögum, lögum sem gilda lengur en aðeins frá ári til árs eins og fjárlög. Svo kann að geta staðið á að grípa verði til þess að skerða framlög ríkissjóðs sem lögboðin eru í öðrum lögum en fjárlögum. En standi svo á, þá ætti að sjálfsögðu að tilgreina þau lög í þeim heimildum sem samþykktar eru um lækkun fjárgreiðslna úr ríkissjóði svo að þm. viti hvað þeir eru í rauninni að samþykkja og til þess að hver og einn landsmaður geti vitað hvað eru gildandi lög í landinu.

Ég minnist þess ekki síðan ég kom á þing að staðið hafi verið með þessum hætti að lagasetningu þar sem ríkisstj. ásamt tilteknum hópi þm., sem þurfa að samþykkja niðurskurðinn, er heimilað að fella niður í mjög ríkum mæli, svo að nemur 3 500 millj. kr., greiðsluskyldur ríkissjóðs, jafnt þær sem ákveðnar eru í almennum lögum sem fjárlögum.

Í meiri hl. fjvn. sitja 7 þm. Ef ákvarðanir um niðurskurð eru teknar með meirihlutaákvörðun innan þess meiri hl. sem síðan stæði saman að ákvörðun í n., er niðurstaðan sú að Alþ. hefur í því tilviki lagt í vald fjögurra þm. að ákvarða hvað skuli vera lög og hvað ekki, að því er varðar greiðsluskyldu ríkissjóðs gagnvart hvaða lögum sem er, og enginn veit hvar borið yrði niður. Slík ákvörðun, sem gæti ráðist að vilja fjögurra þm., yrði ekki eftir á borin undir Alþ. eins og á sér stað um brbl. Ég furða mig á því að slík lagasetning skuli hljóta tiltölulega greiða afgreiðslu í hv. Alþ.

Í grg. með fyrsta fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. var lýst þeim meginmarkmiðum sem keppt væri að við afgreiðslu þeirra fjárlaga sem nú er verið að kasta. Eitt þessara meginmarkmiða var að sporna við útþenslu í ríkisrekstrinum, en samtímis var því lýst yfir annars staðar í grg. að liðurinn önnur rekstrargjöld ríkissjóðs hækkaði nokkru meir en nam verðlagshækkunum í landinu. En um markmiðið „að sporna við útþenslu ríkisbúskaparins,“ eins og það var orðað við framlagningu fjárlagafrv., sagði í grg. — með leyfi hæstv. forseta: „Þetta er skref til þess að freista þess að hafa hemil á verðbólgunni, draga úr greiðsluhallanum við útlönd og tryggja sem best lífskjör almennings.“ Um þessa klausu þarf engin orð nú. Afleiðingarnar af stefnu ríkisstj., sem m. a. reyndist stórfelld útþenslustefna í rekstrarkostnaði, tala sínu máli. Almenningur kynnist þeim daglega í stórfelldum verðhækkunum, vaxtahækkunum og stöðugri rýrnun lífskjara. Nefna má t. d. um verðlagsþróunina síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum að á fundi fjvn. fyrir fáum dögum voru veittar upplýsingar um áætlaða vísitölu vegagerðar í júní nk. og samkv. því hefur hún hækkað um 59.5% frá því í ágúst s. l.

Annað aðalmarkmið fjárlagafrv. var samkv. grg. þess, eins og þar sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, skapa „svigrúm til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs á árinu 1975, en það er eitt brýnasta verkefnið í fjármálum ríkisins. Yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann verður að líkindum einn milljarður kr. við næstu áramót og er í frv. gert ráð fyrir að 250 millj. kr. þeirrar skuldar verði greiddar á árinn 1975.“ Síðan sótti hæstv. fjmrh. í sig veðrið í grg, og sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Hér er þó vart nóg að gert og verður þess freistað við meðferð frv. á þingi að hækka þessa endurgreiðslu verulega.“

Fjármálastjórnin tókst hins vegar þegar á reyndi ekki betur en svo að í stað þess að skuldin við Seðlabankann næmi einum milljarði kr. um áramótin, eins og gert var ráð fyrir í grg., tókst að auka hana svo að hún var þrisvar sinnum hærri eða um 3 milljarðar ríflega. Hæstv. fjmrh. byggði þannig rekstur ríkissjóðs á nýprentuðum seðlum úr Seðlabankanum, og í stað þess að auka endurgreiðslurnar til Seðlabankans við afgreiðslu fjárlagafrv. á Alþ. voru lántökur samkv. A- og B-hluta fjárlaga auknar um 1500 millj. kr. frá fjárlagafrv., og í því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að þrátt fyrir 3 500 millj. kr. niðurskurð ríkisútgjalda verði lántökur auknar um 1 300 millj. kr. Kemur þá í hugann sú áminning í grg. með fjárlagafrv. og aðgerðir, sem þá átti að gera til að létta skuldabyrði ríkissjóðs, mundu, eins og í grg. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „hafa umtalsverð áhrif til að stuðla að efnahagslegu jafnvægi í víðara skilningi.“

Hvað „efnahagslegt jafnvægi í víðara skilningi“ merkir þarna nákvæmlega, veit ég ekki, en það kom a. m. k. tvisvar sinnum fyrir í grg. E. t. v. er þessi setning í grg. fjárlagafrv. í tengslum við þau orð er hæstv. fjmrh. mælti í fjárlagaræðu sinni þegar hann sagði: „Því ber jafnan að haga meðferð opinberra fjármála þannig að stutt sé að jafnvægi innanlands og utan“. — Og efnahagslegt jafnvægi í víðara skilningi þýðir þá efnahagslegt jafnvægi á heimsmælikvarða. En þá horfir sannarlega illa um heimsbyggðina í þessu efni þegar svo hefur tekist til um markmiðin í grg. fjárlagafrv. um minnkun skuldabyrði ríkissjóðs sem raun varð á við afgreiðslu frv. og er nú enn að verða með afgreiðslu þessa frv., en ljóst er að lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana verða að því samþykktu u. þ. b. 60% hærri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. á sínum tíma þegar öll áherslan var lögð á nauðsyn á endurgreiðslu skulda og minnkun skuldabyrði með velferð efnahagslegs jafnvægis í víðara skilningi í huga.

Allt er þetta staðfesting á því hvert stefnuleysi og ráðleysi ríkir nú í fjármálastjórn ríkisins, enda þannig staðið að afgreiðslu fjárlaga að þar var ekki byggt á neinum raunhæfum grunni. Það var sagt í einhverju dagblaðanna um það leyti sem gengið var fellt síðast að stundum væri það svo í fjmrn. að hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri gerði. En um fjárlagafrv. kom það í ljós að sú regla gildir alltaf um þá sem ábyrgð bera á framlagningu fjárlagafrv. því að hluti af ástæðunum til þess, að fjárlögin hafa reynst markleysa, á rætur að rekja til þess að hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri gerði, eða rúmlega 1/3 hluti þess sem talið er að þurfi að lækka útgjaldaliðina um nú. Mismunandi forsendur voru nefnilega látnar gilda um áætlun tekna og gjalda í fjárlagafrv. Í gjaldahlið var reiknað með kaupgjaldi í des. 1974, en í teknahlið var gert ráð fyrir kauphækkunum á árinu 1975. Þetta atriði eitt olli 1204 millj. kr. skekkju á þeim fjárlögum sem gilt hafa í 4 mánuði og nú er verið að leggja til hliðar. 1 200 millj. kr. vantar í útgjaldahlið miðað við grundvöll við áætlun tekna.

Það hefði að sjálfsögðu átt að vera öllum ljóst við meðferð fjárlagafrv. í desember s. l. að afgreiðsla þess og niðurstöðutölur fjárlaga voru í algerri mótsögn við stefnu ríkisstj. í efnahags- og kjaramálum, stefnu kjaraskerðingar og samdráttar. Á það vildi hæstv. fjmrh. og stjórnarflokkarnir ekki hlusta þá. En það frv., sem hér liggur fyrir, er staðfesting á því að nokkurra mánaða reynsla hefur verið ólygin um það að fjárlögin voru byggð á sandi og áætlanir, sem lagðar voru til grundvallar, voru markleysa.

Við 2. umr. fjárlaga gerði ég nokkuð að umræðuefni hvernig staðið væri að afgreiðslu þeirra fjárlaga sem nú er verið að nema úr gildi, og sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Gengislækkun, hækkun söluskatts, binding kaupgjaldsvísitölu allar þessar ráðstafanir eru gerðar vitandi vits til þess að rýra kjör launþega í þeim yfirlýsta tilgangi að draga úr því sem hagspekingarnir kalla eftirspurnarþenslu. En á sama tíma eru rekstrarútgjöld ríkissjóðs þanin svo út að ríkisstj. krefst 12 þús. millj. kr. meiri ríkistekna á næsta ári en raunverulegum tekjum nemur á þessu ári. Tekjuhlið fjárlaganna byggir ríkisstj. því upp á forsendum sem samrýmast ekki aðgerðum hennar í efnahags- og verðlagsmálum, því að hvernig á að stórrýra lífskjörin með samdrætti í atvinnu og með verðlagshækkunum sem renna til ýmissa aðila í þjóðfélaginu og reikna síðan með 12 þús. millj. kr. hækkun á sköttum sem að langmestu leyti eru neysluskattar.“ — Og síðar: „Hér er því sannarlega margt athugavert við þá undirstöðu sem fjárlagaafgreiðslan er byggð á, en auðsæjust er þd. sú sjálfhelda að samtímis því sem ríkisstj. gerir ráðstafanir til samdráttar með stórfelldri kjaraskerðingu eykur hún svo gífurlega rekstrarútgjöld ríkissjóðs að ekkert nema aukinn kaupmáttur frá því sem nú er og óbreytt umsvif í atvinnulífinu geta tryggt að þessir stórfelldu neysluskattar komi til skila eins og þeir eru áætlaðir. Ef eitthvað bregður síðan út af, þá vitum við hvað gerist, þá verða með sérstökum lögum enn skornar niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda úti á landsbyggðinni, en ekkert getur hins vegar haggað fyrirhuguðum milljarða fjárfestingum af öðrum toga spunnum í næsta nágrenni beggja vegna höfuðborgarinnar.“

Hvað er nú að koma á daginn? Og við 3. umr. þegar hugmyndir stjórnarflokkanna um tekjuhlið frv. lágu skýrast fyrir ítrekaði ég enn á hve mikilli botnleysu fjárlagafrv. væri byggt og sagði þá m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar hugað er að þessari gífurlegu hækkun rekstrarútgjalda og að fyrirhuguðum lántökum, er algerlega ljóst að niðurstöður fjárlagaafgreiðslunnar ganga þvert gegn þeim tveim aðalmarkmiðum sem boðuð voru í grg. frv., þeim meginmarkmiðum að stefna gegn útþenslu í ríkisútgjöldum og styrkja fjárhag ríkissjóðs. Í grg. með fjárlagafrv. er sérstaklega tekið fram að við meðferð frv. á þingi verði keppt að því að hækka verulega, eins og það er orðað, endurgreiðslu á skuld við Seðlabankann frá því sem í frv. er gert ráð fyrir. Í stað þess að af því verði er árangurinn stóraukin fjármögnun framkvæmdanna með lántökum.

Þessu til viðbótar er nú í meðferð þingsins frv. um sölu verðtryggðra skuldabréfa vegna tiltekinna vegaframkvæmda fyrir um 2 000 millj. kr. og sóst er eftir að hækka þá lántöku enn um hundruð millj. kr. Slíkar aðgerðir samtímis stórfelldustu þenslu á rekstrarútgjöldum, sem nokkru sinni hefur átt sér stað í þingsögunni, ganga að sjálfsögðu þvert gegn öllum boðuðum markmiðum í grg. frv. og gegn stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um að hún muni stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum.“ — Og síðan: „Þrátt fyrir stórfelldar lántökur og skuldasöfnun til að standa undir framkvæmdaliðum, þegar rekstrarliðirnir hafa gleypt tekjurnar, er ljóst að til þess að geta stillt upp tekjuhliðinni svo að dugi á pappírnum a. m. k. til að mæta þessari feiknarlegu útgjaldaaukningu verður að tefla á allra tæpasta vað við áætlun teknanna. Á svo tæpt vað er teflt í þessu efni að segja má að ríkisstj. neyðist til að velja sér forsendur og gera ráð fyrir þróun sem er í algerri mótsögn við yfirlýsta stefnu hennar í efnahagsmálum, þá stefnu að draga úr því sem stjórnarflokkarnir kalla óviðunandi þensluástand. Stórkostleg útgjaldaaukning ríkissjóðs, útþensla í rekstrarútgjöldum og meðfylgjandi skattheimtuþörf, en skattheimtan er áætluð 63% hærri en á núgildandi fjárlögum, kallar á og krefst þensluástands á öllu næsta ári,en fjöldamörg óviðráðanleg atriði, sem ráða þróun efnahagsmála, benda til annarrar niðurstöðu. Stefna ríkisstj. í kjaramálum, stórskerðing kaupmáttar launa, stuðlar einnig að samdrætti sem gengur í berhögg við kröfur sem fjárlagaafgreiðslan gerir til stórkostlega aukinnar skattheimtu með neyslusköttum.“ — Og síðan: „Til að ná saman endum á fjárlögunum er þannig gripið til þess að hækka þá tekjuáætlun Þjóðhagsstofnunar sem er sú hærri þeirra tveggja áætlana sem stofnunin telur koma til greina að fara eftir. Bakgrunnur tekjuáætlunarinnar er svo, eins og ég vakti við 2. umr. athygli á, m. a. áætlaður viðskiptahalli sem getur numið 10 milljörðum kr., 1–2 þús. millj. kr. rýrnun gjaldeyrisstöðunnar, áætlanir um að gengið verði á útflutningsbirgðirnar, mjög hæpin spá um aukningu útflutningsframleiðslunnar, þar sem viðurkennt er af Þjóðhagsstofnun að byggt er á meiri bjartsýni en spár fiskifræðinga gefa tilefni til, og vafasamri spá um hækkun útflutningsverðs sjávarafurða, og fleiri atriði mætti nefna. Það er augljóst að áætlanir um tekjur til að mæta útþenslu í rekstrarútgjöldum, áætlanir um að unnt sé að auka skattheimtu, fyrst og fremst neysluskatta, um hvorki meira né minna en 18 400 millj. kr. frá raunverulegum tekjum á þessu ári, er byggð á annarri þróun efnahagsmála en ríkisstj. telur sig vera að stefna að. Fyrirsjáanleg útþensla rekstrarútgjalda ríkissjóðs hefur í för með sér svo ofboðslega skattheimtu að ekkert má í rauninni gerast svo að þessi spilaborg hrynji ekki.“

Það frv., sem hér liggur fyrir, og þær ráðstafanir um stórfelldan niðurskurð fjárveitinga eru staðfesting á því að sú spilaborg, sem fjárlagaafgreiðslan var, er hrunin.

Það er skoðun mín að gegn þeim vanda, sem af samdráttar- og kjaraskerðingarstefnu ríkisstj. leiðir, beri ekki að snúast með svo stórfelldum niðurskurði félagslegra framkvæmda sem hér er lagt til, enda óvist að jafnvel hæstv. ríkisstj. takist að koma fram svo mikilli minnkun framkvæmda, heldur beri að taka upp þá stefnu að auka kaupmátt launa og örva til aukinna athafna í þjóðfélaginu. Andúð hæstv. ríkisstj. á -svo miklum kaupmætti sem var fyrir hendi í tíð vinstri stjórnarinnar ræður ákvörðunum hennar nú um alla stefnu og aðgerðir. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að slík stefna eigi ekki rétt á sér, að aðlaga fjárl. að stórskertum kaupmætti, heldur beri að mæta vandanum af tekjuþörf ríkissjóðs með því að ýta með öllum ráðum undir aukna framleiðslu og aukin kaupmátt, en af honum leiðir auknar tekjur ríkissjóðs.

Ég var alveg sammála hæstv. núverandi félmrh., Gunnari Thoroddsen, þegar hann sagði á sumarþinginu 1974, með leyfi hæstv. forseta: „Stundum er á það minnst að kaupgeta í þessu landi sé of mikil og það er ekki nýtt fyrirbæri að á þá lund sé mælt.“ — Ég minni á, að þetta sagði hæstv. núv. félmrh. áður en núv. ríkisstj. var mynduð og ekki löngu eftir að gerðir voru þeir kjarasamningar sem stjórnarflokkarnir hafa síðan mest fordæmt. Hæstv. núv. félmrh. hélt áfram: „Áður fyrr var stundum um það talað að það þyrfti ýmist að draga úr kaupgetu ef hún væri of mikil eða eins og það var orðað að loka hana inni, þ. e. a. s. með innflutningshöftum. Ég held að þetta tal um innilokun kaupgetu eða að draga úr kaupgetu sé að mörgu leyti og í meginatriðum á miklum misskilningi byggt. Það, sem þarf að gera, er fyrst og fremst að hafa áhrif á ráðstöfun kaupgetunnar, þ. e. a. s. hvernig kaupgeta er notuð.“ Ég var og er algerlega sammála þessum orðum hæstv. núverandi ráðh., en því miður hafa ráðstafanir hæstv. ríkisstj. gengið í aðra átt, einmitt þá að draga sem mest úr kaupgetu og síðan í kjölfar þess að minnka stórlega nauðsynlegustu framkvæmdir sem unnar eru fyrir árlegar tekjur ríkissjóðs.

Meginstefnan í því frv., sem hér liggur fyrir, er hluti af þessari neikvæðu stefnu og ég er andvígur þeirri stefnu. Að því leyti sem aðalefni þessa frv. gerir ráð fyrir niðurskurði verklegra framkvæmda og félagslegra þarfa í stórum stíl, þá er það í samræmi við þessa neikvæðu stefnu og ég er henni andvígur. Ég hef áður lýst því að ég undrast hvernig að till. ríkisstj. um stórfelldan niðurskurð er staðið þar sem ríkisstj. er með samþykki fjvn. gefnar frjálsar hendur um niðurskurð á allt að 3500 millj. kr. fjárveitingum og þar með frjálsar hendur um að láta niðurskurðinn taka til útgjaldaliða sem ákveðnir eru með sérstökum lögum öðrum en fjárlögum, svo að enginn veit í rauninni hvaða lög gilda í landinu. Þm. er ætlað að samþykkja blindandi slík ákvæði, enda þótt ljóst sé að till. um þennan niðurskurð séu nú þegar til en þær till. hyggst ríkisstj. ekki sýna áður en frv. er samþykkt. Sumir hv. þm. ríkisstj., sem innst inni eru andvígir slíkum niðurskurði sem mun bitna hart á ýmsum byggðarlögum úti á landi, halda því jafnan fram að engar till. séu til og þeir hafi ekki getað haft áhrif á það hvað lagt verður fyrir fjvn. En í leiðara Morgunblaðsins hinn 6. febr. s. l. segir hins vegar, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hlýtur að verða einn meginþátturinn í væntanlegum efnahagsaðgerðum ríkisstj., að taka fjárlög ársins 1975 til meðferðar og skera útgjöld samkv. þeim verulega niður. Matthías Á. Mathiesen fjmrh. lýsti því yfir í sjónvarpsumræðum fyrir nokkrum dögum að hann hefði þegar látið undirbúa í fjmrn. till. að slíkum niðurskurði þannig að sá valkostur verði fyrir hendi þegar ríkisstj. fjallar um efnahagsvandamál.“

Þetta segir málgagn hæstv. fjmrh. og forsrh. fyrir rúmlega 21/2 mánuði. Þó að ég eigi sæti í fjvn. og verði í hópi þeirra sem eiga samkv. 1. gr. frv. að fjalla um till. um niðurskurð þar sem ákveðið verður, eftir að þingi er lokið, hvaða lög, þar sem ákveðinn er þáttur ríkissjóðs í starfsemi, þjónustu og framkvæmdum, skuli mega vera í gildi á þessu ári, þá geri ég fyrir mitt leyti kröfu til þess að þær till., sem Morgunblaðið getur um í leiðara 6. febr. s. l., verði lagðar fram áður en þetta frv. verður afgreitt. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir þegar í febrúarbyrjun að till. væru til og þeim má ekki halda leyndum fyrir Alþ.

Við afgreiðslu þessa máls í Nd. svo og í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. hér áðan hefur afstaða Alþb. til þessa frv. í heild komið fram svo skýrt að ég sé ekki ástæðu til að ítreka það öllu frekar. En það eru aðeins tvö einstök atriði til viðbótar sem ég vil minnast á.

Í sambandi við það frv., sem ég hef flutt um breytingu á persónufrádrætti við útsvarsálagninu, lýsti ég þeirri skoðun minni að við ákvörðun skattfrádráttar vegna barna hafi of lítið tillit verið tekið til framfærslukostnaðar vegna barna. Einkum á þetta við um frádrátt við álagningu útsvars. Ég er þeirrar skoðunar að enn í þessu frv. sé skattfrádráttur vegna barna of lágur, þ. e. a. s. barnabætur og útsvarsfrádráttur vegna barna. Ég hef spurst fyrir um það h já þeim aðilum sem unnu að undirbúningi þessa frv. hvort nokkur athugun á framfærslukostnaði barna lægi til grundvallar till. um skattfrádrætti vegna barna og fékk þau svör að svo væri ekki. Ég tel nauðsynlegt að slík athugun fari fram og hafði hugsað mér að flytja um það þáltill., en framgangur slíkra till. er hægur hér á hv. Alþ. og oftast borin von að þær komi til atkvæða. Ég hef því tekið þann kostinn að flytja brtt. við ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. þess efnis að slík rannsókn á kostnaði við framfærslu barna fari fram og miðað við að unnt yrði að ljúka henni fyrir n. k. áramót, og fari svo að athugunin leiði í ljós að ástæða sé til að breyta upphæðum barnabóta og útsvarsfrádrætti vegna barna eða bótum almannatrygginga vegna barna, þá verði lagt fram frv. þess efnis áður en næsta Alþ. lýkur. Ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn. taki till. til athugunar og efnislegrar meðferðar og geri á henni breytingar ef hún telur nauðsyn á, t. d. varðandi tímamörk. Till. er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta, — þ. e. við II. kafla, ákvæði til bráðabirgða, þar bætist við c-liður:

„Fyrir árslok 1975 skal fjmrh. láta fara fram sem nákvæmasta könnun á framfærslukostnaði barna, þ. á m. hvernig honum er háttað eftir mismunandi aldri og fjölda barna í fjölskyldu, svo og hvort telja megi að eðlilegt tillit sé tekið til þessa kostnaðar við álagningu skatta og ákvörðun tryggingabóta sem greiddar eru vegna barna. Á grundvelli þessarar könnunar skal endurskoðuð upphæð barnabóta og frádráttar vegna barna við álagningu útsvara svo og upphæðir tryggingabóta sem greiddar eru vegna barna samkv. lögum um almannatryggingar. Frv. um breyt. á þessum atriðum fyrrgreindra laga skulu lögð fyrir Alþ. sem fyrst eftir n. k. áramót ef könnunin gefur tilfeni til. Skýrsla um könnunina skal lögð fyrir Alþ.“

Við slíka athugun mætti t. d. styðjast við kostnað á stofnunum ríkisins þar sem börn dveljast allan sólarhringinn að staðaldri. Með því að draga út launakostnað ættu að fást nokkrar upplýsingar um raunverulegan kostnað við framfæri barna án launakostnaðar, auk þess sem slíkur kostnaður yrði kannaður á heimilum. Benda má og á að í hlunnindamati skattyfirvalda er fæði barns, sem atvinnurekandi lætur launþega í té, metið á 300 kr. á dag eða 109 500 kr. á ári, en barnabætur eru samkv. þessu frv. 30 þús. kr. með fyrsta barni og 45 þús. kr. með öðru barni og þeim sem þar eru umfram. Skattfrádráttur við útsvarsálagningu er samkv. frv. 1 500 kr. vegna hvers barns og að auki 3 000 kr. fyrir hvert barn umfram 3 á heimili. Ég er þeirrar skoðunar að frádráttur vegna barna sé of lágur, og vænti þess að hv. n. taki til vinsamlegrar athugunar þá till. sem ég var hér að gera grein fyrir.

Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh. um eitt atriði varðandi þær lántökuheimildir sem frv. fjallar um. Þetta atriði varðar hafnamál og sérstaklega höfn sem ég hef verið að beita mér fyrir að fengi fjárveitingar á fjárlögum. Í 29. gr. frv. er gert ráð fyrir að fimm tilteknar lántökuheimildir í fjárlögum falli niður, en aðrar komi í staðinn. Ein af þeim heimildum, sem eiga samkv. frv. að falla niður, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. er heimilt að taka fyrir hönd ríkissjóðs allt að 50 millj. kr. lán vegna hafnarframkvæmda við landshöfnina í Keflavík og Njarðvík.“

Önnur lántökuheimild, sem fellur niður samkv. frv., fjallar um hliðstæða lántöku að upphæð 35 millj. kr. vegna hafnarframkvæmda við landshöfnina í Rifi. Þannig eiga að falla niður lántökuheimildir vegna þessara hafna samtals að upphæð 85 millj. kr.

Í 35. gr. frv. um efnahagsmál er tilgreint hvernig skuli verja 5000 millj. kr. fjármagni sem aflað verður samkv. lántökuheimildum sem felast í því frv., þ. á m. er gert ráð fyrir að varið verði 350 millj. kr. til landshafna, en á bls. 27 í frv. kemur fram að af þessari upphæð verði 280 millj. kr. varið til framkvæmda í Þorlákshöfn. Eftir eru þá 70 millj. kr. til annarra landshafna, en eins og ég áðan greindi falla niður samkv. þessu sama frv. lánsheimildir í fjörlögum fyrir 50 millj. kr. láni til framkvæmda við landshöfnina í Njarðvík og Keflavík og 35 millj. kr. láni til framkvæmda í Rífi eða samtals 85 millj. kr. Hér munar 15 millj. Því spyr ég hæstv. ráðh.: Hvar ætla stjórnarflokkarnir þessari 15 millj. kr. skerðingu á lántökuheimildum vegna framkvæmda í landshöfnunum í Keflavík og Njarðvík og Rifi að koma niður? Ég vil fyrir mitt leyti að það sé alveg á hreinu hvað í þessari skerðingu felst. Samkv. lántökuheimildum á fjárlögum var ljóst og skýrt hvernig lántökum átti að vera háttað vegna framkvæmda við þessar landshafnir hvora fyrir sig, en verði ákvæði frv. um efnahagsmál samþ., verða þessi ákvæði nokkuð á huldu og ekki lengur tiltekið hvað fer á hvorn stað, en fullljóst er þó, að gert er ráð fyrir að lækka samanlagt fjármagn til þessara hafna um 15 millj. kr. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. skýri þessi atriði til hlítar, en ég ætlast ekki til þess að hann geri það við þessa umr., en vænti þess að upplýsingar um þetta atriði komi fram við 2. umr. málsins.