25.04.1975
Efri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

130. mál, fóstureyðingar

Soffía Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði þáv. heilbr: og trmrh., Magnús Kjartansson, fram á Alþ. frv. til l. um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þetta frv. hefur í daglegu tali verið nefnt fóstureyðingafrv. og 9. gr. þess, eins og það birtist í upphaflegri gerð, hefur orðið tilefni til mestra umræðna og deilna innan þings og utan. Um þau ákvæði frv., sem lúta að ráðgjöf og fræðslu, virðist hins vegar vera samstaða, enda er þar tvímælalaust um að ræða ágæt nýmæli sem hafa almennt gildi og snerta mikilvægan þátt mannlegs lífs.

8. gr. frv. í fyrstu gerð, sem ég geri hér að umræðuefni, kvað m. a. svo á að fóstureyðing væri heimil að ósk konu að vissum skilyrðum uppfylltum. Aðgerð verður að framkvæma fyrir 12. viku meðgöngu, engar læknisfræðilegar ástæður mega mæla móti aðgerð, kona verður að ræða vandamál sín við sérfróða aðila og skylt er að fræða hana um félagslega aðstoð sem stendur til boða fyrir þungaða konu og við barnsburð. Svo sem sjá má af þessum ákvæðum fer því fjarri að hér sé um að ræða frjálsar fóstureyðingar, eins og haldið hefur verið fram af hálfu margra þeirra sem eru andvígir því að konan njóti þeirra mannréttinda að ákveða sjálf hvort hún vill fæða barn og ala það upp. Það er ólíkt siðrænna viðhorf sem í því felst að móðerni sé nokkuð sem konan ákveður af fúsum og frjálsum vilja hvort hún vilji takast á hendur eða ekki.

Þetta frv. hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi, en siðar skipaði núv. heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, nefnd 3 karlmanna til að endurskoða frv. áður en það yrði lagt fram á þingi öðru sinni. Þegar það svo kom fram að nýju var það í allbreyttri mynd frá upphaflegri gerð að því er tekur til mikilvægra atriða, því að einmitt þetta ákvæði, sem átti að tryggja konunni sjálfri rétt til að taka ákvarðanir sem snerta hana fyrst og fremst, hafði verið numið burtu, en þess í stað skyldi fært í hendur sérfræðingum og embættismönnum vald til að taka örlagaríkar ákvarðanir um líf annarra sem verða svo að sínu leyti að taka öllum afleiðingum og bera hina endanlegu ábyrgð.

Það hefur margoft komið fram í umræðum innan þings og utan og sakar ekki að endurtaka það að slíkt vald yfir lífi og örlögum annarra má engum fela í hendur. En það má með sanni segja að karlmannavaldið lætur ekki að sér hæða frekar en fyrri daginn.

Fæstir komast hjá því á lífsleiðinni að þurfa að taka örðugar ákvarðanir af einhverju tagi með tilheyrandi hugarangri, og enginn neitar því heldur að leiðbeiningar og holl ráð eru ævinlega vel þegin. En hina endanlegu ákvörðun um eigin persónulegan vanda verður hver einstaklingur, karl eða kona, að taka sjálfur og bera á henni ábyrgð.

Nú er kunnara en frá þurfi að segja, að í þessu margumrædda máli er raunar ekki verið að deila um réttmæti fóstureyðinga í sjálfu sér því að við höfum um áratugaskeið búið við löggjöf sem heimilar slíkar aðgerðir við vissar aðstæður. Ekki hafa menn kippt sér upp við þau lagaákvæði, og hefur þar ekki gætt teljandi vanstillingar.

Það er ekki fyrr en sú till. er uppi að helsti málsaðilinn, konan sjálf, fái ákvörðunarréttinn, að menn taka að ýfast og virðast því aðeins vera reiðubúnir að fallast á heimildir til fóstureyðinga að það sé tryggt að einhver annar en konan sjálf taki ákvörðun þar um.

Í frv., eins og það liggur nú fyrir, er lagt til að fóstureyðingar verði heimilaðar af félagslegum ástæðum og er það nýmæli frá gildandi löggjöf. Ekki er þó örgrannt um að nokkurrar tregðu gæti við að viðurkenna þá staðreynd að svo óbærilegar félagslegar ástæður geti fyrirfundist í okkar samfélagi sem réttlæti fóstureyðingu sem úrræði, og fram hafa komið brtt. sem bera keim af þessu viðhorfi, rétt eins og hægt sé að hafa óskhyggjuna eina að leiðarljósi.

Það er eftirtektarvert í þessu máli öllu að þeir, sem hafa lýst sig andvíga sjálfsákvörðunarrétti konunnar og hrópa hátt um lotningu sína fyrir lífinu, um mannhelgi og rétt fósturs til lífs, eru öldungis ekki í hópi þeirra sem berjast fyrir félagslegum framfaramálum. Nú heyrir það að sjálfsögðu til mannréttinda barns að það fæðist velkomið, við ákjósanlegar ytri aðstæður og að því séu búin sómasamleg uppvaxtarskilyrði. Það er því ekki úr vegi að rifja það upp að þeir, sem eru að vísu áfram um að börnin fæðist, en fást minna um þau lífsskilyrði sem bíða þeirra, hafa oftlega átt þess kost að styðja ýmisleg félagsleg framfaramál mæðrum og börnum til handa. T. d. flutti Margrét Sigurðardóttir hér á hv. Alþ. frv. til l. um fæðingarorlof árið 1960 þegar hún átti sæti á Alþ. um tíma sem varaþm. Alþb. Þetta frv. hefði falið í sér mikilvæga réttarbót til handa mæðrum og börnum hefði það náð fram að ganga. Fyrr á þessu þingi, sem nú situr, flutti Bjarnfríður Leósdóttir, varaþm. Alþb., þáltill. um fæðingarorlof, og enn fór á sömu leið. Þá er ekki lengra síðan en þrír dagar að þeir, sem bera lotningu fyrir lífinu, áttu þess kost að sýna hug sinn í verki með því að samþ. till. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar um fæðingarorlof, en hv. þm. stjórnarliðsins sáu sér ekki fært að styðja slíkt félagslegt framfaramál og létu sig ekki muna um að fella allar brtt. Alþb. við efnahagsmálafrv. sem nú liggur fyrir. Það bar reyndar upp á sama daginn hér á hv. Alþ. að vegsömuð var sköpun almættisins og helgi lífsins og í sama mund voru till. um mikilsverðar félagslegar úrbætur til handa mannfólkinu malaðar niður.

Það er vissulega rétt að kona sem æskir fóstureyðingar, stendur frammi fyrir örðugri ákvörðun. En það getur enginn leyst hana undan þeim vanda að taka hana sjálf, enda er það hún sem ber hina endanlegu ábyrgð og er æðioft ein um hana. Það er yfirgengilegt steigurlæti sem í því felst að telja sig þess umkominn að ráða fyrir aðra í slíkum málum.

Styrinn stendur ekki endilega um réttar eða rangar ákvarðanir í hverju einstöku tilviki, heldur um það hver eigi að ákveða eða hvort viðurkenna skuli að konur séu færar um að taka sjálfstæðar ákvarðanir og bera á þeim ábyrgð.

Þetta er dæmigert kvenréttindamál, því að hér er einmitt um að ræða rétt konunnar til sjálfræðis og ábyrgðar. Sá réttur hefur ævinlega verið harðsóttur og svo er enn. Allar réttarkröfur, sem miðast við að konan viðurkennist sem sjálfstæður einstaklingur, hafa löngum mætt harðri mótspyrnu. Nægir þar að minna á baráttuna fyrir rétti kvenna til fjárforræðis, til mennta og starfa, að ógleymdri baráttunni fyrir kosningarrétti og kjörgengi.

Í almennum umr. um margnefnt fóstureyðingafrv. hefur gætt furðulegs vanmats á dómgreind og siðgæðisþroska íslenskra kvenna. Ýmsir hafa talið að nái 9. gr. frv. í upphaflegri gerð fram að ganga, þá verði ekki gengið hægt um gleðinnar dyr. Trassaskapur um notkun getnaðarvarna muni stóraukast svo og ábyrgðarleysi og lausung. Í slíkum málflutningi felast raunar svo ósæmilegar aðdróttanir í garð kvenna að engu tali tekur. Það er rétt að auknu frelsi fylgir aukinn vandi og aukin ábyrgð. En ég fullyrði það að fái íslenskar konur þann sjálfsákvörðunarrétt sem styrinn stendur um þessa stundina, þá muni þær umgangast hann að fullri gát, af alvöru og siðgæðisvitund í vissu þess, að fóstureyðing er ævinlega neyðarúrræði sem gengur nærri tilfinningum hverrar þeirrar konu sem er í slíkum vanda stödd að sjá ekki aðra leið færa. Það er nú að koma í ljós hvert traust hv. alþm. bera til íslenskra kvenna í þessum efnum, hvort þeir telja þær til þess færar að ráða fram úr eigin vanda upp á sitt eindæmi og án þess að skjóta sér á bak við einn eða neinn.

Að lokum vil ég minna á það félagslega misrétti sem í því felst að koma á þrengri löggjöf í þessum efnum en þeirri sem ríkir í grannlöndum okkar. Þær konur, sem eru fjárhagslega vel settar, munu eftir sem áður geta tekið til sinna ráða ef þeim býður svo við að horfa. En þær, sem minnst mega sín, gætu allt eins staðið uppi án þeirrar aðstoðar sem þær þyrftu öðrum fremur á að halda. Þegar þetta er löggjöf sem lengi á að standa, verður að horfa fram, en ekki aftur, því að það fær ekki staðist að miða lagaákvæði við aðstæður sem þegar eru úreltar og í engu samræmi við nútímann.

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka upp í hv. d. þær brtt. við frv. þetta, sem áður lágu fyrir í Nd. og voru bornar fram af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni. Þær taka til eftirfarandi greina: 9. gr. um heimild varðandi fóstureyðingar, 11. gr. um framkvæmd og 13. gr. sem fjallar um umsóknir.