25.04.1975
Efri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3259 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

130. mál, fóstureyðingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú mælt fyrir hinu margumtalaða frv. sem almennt hefur gengið undir nafninu fóstureyðingafrv., og lokaorð hans voru þau að menn ættu að ræða um þetta mál af hófsemi, án fordóma og tilfinningasemi, og það vonast ég til að verði hægt að gera. Það gerði hæstv. ráðh. líka svo sannarlega og það hefur verið gert í þessari d. það sem af er.

Það er þó einkennandi fyrir umr. um þetta mál, einkum meðal almennings og er ljóst af blaðaskrifum, ályktunum og af bréfaskriftum sumum til okkar þm. að það er kannske ekki allt af hófsemi og alltaf án tilfinningasemi og allt án fordóma. Það vill nú verða svo um umræður nú upp á síðkastið meðal almennings og það sem maður hefur séð í blöðum. Það er eins og sé verið að deila almennt um afstöðu með eða móti fóstureyðingum, og andstæðingar 9. gr. í upphaflega frv. hömpuðu einkum þeim reginmisskilningi. Eins og hv. þm. Soffía Guðmundsdóttir minnti á áðan, hafa þessir andstæðingar gjarnan borið fyrir sig hátíðlega skrúðmælgi um lotningu fyrir lífinu til að punta upp á útúrsnúninginn. Margir þm. hafa hins vegar haft hreinskilni til þess að vilja þrengja ýmis ákvæði þessa frv. Það var gert í hv. Nd. Ég virði þessa hreinskilni því að hún er meira í takt við það sem allt of margir meina í raun í þessu máli, enda kom það reyndar í ljós við atkvgr. þar að till. þessara þm. áttu furðumiklu fylgi að fagna. Hins vegar er það líka einkennandi að margir andstæðingar sömu ákvæða hafa lýst yfir að það væri í raun og veru um smávægilega breytingu að ræða á 9. gr. þá og nú og mundi lítil áhrif hafa. Ég hef meira að segja heyrt lækna halda þessu fram, þá sem hafa verið jafnvel andvígir þessari 9. gr. eins og hún var upphaflega, — þeir hafa sagt berum orðum að á þessu væri sáralítill munur. Þarna er eitthvað mótsagnarkennt á ferðinni í meira lagi sem þarfnast skýringa, og ég tel skyldu mína í þeirri nefnd, sem ég á sæti í og fjallar um þetta mál, að reyna að fá einhverjar skýringar hér á.

Ég held að við eigum líka að gera okkur hitt ljóst, að það er enn til fólk sem er andvígt fóstureyðingum hvers konar og af hvaða ástæðum sem er. Það er andvígt getnaðarvörnum yfirleitt. Það er um leið andvígt almennri opinskárri umr. um kynlíf og andvígt fræðslu þar um. Við skulum ekki ganga þessa dulin að þetta fólk er til. Að vísu fer þessi hópur síminnkandi, en einhvern tíma hefði I. kafli þessa frv., sem er auðvitað veigamesti og þýðingarmesti kaflinn, um ráðgjöf og fræðslu í kynlífsmálum almennt, nánast flokkast undir guðlast af verstu tegund. Það vill nú svo til að áhrifamesta stofnun okkar þjóðfélags Lengst af, kirkjan, hafði þessi mál ekki aðeins sem feimnismál, þetta voru hrein bannorð, þó að hræsnin og yfirdrepsskapurinn hafi þar eins og sums staðar enn verið innsti kjarni málsins. Og því miður var hún lengi vel hemill á alla eðlilega afstöðu til þessara mála og enn eru þar til angar, því miður, og persónulega þekki ég því miður enn þá sjónarmið þessarar Drekkingarhylsstefnu yfirvalda, veraldlegra sem geistlegra.

En í ljósi aukinnar þekkingar, víðsýni og umburðarlyndis hafa þessi mál þróast í átt til þess að vera tekin sem eðlilegur þáttur mannlegs lífs, þýðingarmikill og sterkur, líkamlega sem andlega. Og þó að ákvæði um þetta hafi verið allskýrt, þá er I. kafli frv. í heild í raun gleðilegur vottur um framför í hugsunarhætti og viðbrögðin gagnvart honum nú eru ekki þau sem einkenndu öll þessi mál áður.

En ef menn halda að það sé út í bláinn að þetta sé rifjað upp, þó með örfáum orðum, fyrri tíma viðhorf og viðbrögð, þá er slíkt því miður mikill misskilningur. Enn er mettað andrúmsloft af eftirstöðvum þessara viðhorfa, og það er m. a. orsök þess hve þessi fræðsla hefur verið sniðgengin í menntakerfi okkar án þess að um væri kvartað af fólki sem ekki stendur þó á gagnrýni hjá gagnvart ýmsum öðrum þáttum fræðslunnar og í mörgu auðvitað réttmætlega, þó að sú gagnrýni gangi oft út í öfgar. Enn má sjá nátttröll og það er dálítið athyglisvert hvaðan þau koma. Má ég rifja upp hér — með leyfi hæstv. forseta — örlitla kristilega hugvekju úr Morgunblaðinu s. l. sunnudag sem dæmi um þetta. Ég skal taka eins lítið af þessari kristilegu hugvekju og mögulegt er vegna virðingar þessarar hv. d., en þó get ég ekki stillt mig um að taka hér upp fáeinar setningar. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Tækist svo ógiftusamlega til að sú ómannúðlega siðleysisstefna næði fram að ganga hér á landi að konur fengju frjálsa heimild til fóstureyðinga, hvert yrði þá næsta baráttumálið þegar fimmta boðorðið væri hvort eð er úr gildi fallið? Mundi ekki koma fram hugsjónafólk sem segði: Hvaða ástæða er til að láta gamalt fólk, sem að mestu eða öllu er komið út úr heiminum, lifa lengur? Væri ekki hagkvæmara og hreinlegra að taka afa og ömmu og leiða þau kölkuð og skilningssljó út í sólskinið og skjóta þau?“

Ég ætla ekki að lesa lengra, en þessu fylgir mjög hugljúf teikning og kristileg, sem háfundur, sem er prestvígður maður, hefur einnig gert og skreytir þessa kristilegu hugvekju mjög fagurlega. — Nei, það eru svo sannarlega til enn þá fordómar í þessu máli og ég minni enn á það hvaðan þessir fordómar koma og þetta er lýsandi dæmi um.

Ég ætla aðeins að gera hér að umræðuefni þann þátt sem lýtur að hlutlægri og eðlilegri fræðslu um kynferðismál sem hefur orðið alger hornreka af mörgum ástæðum.. Ég fullyrði að á ríkjandi viðhorfum fyrri tíma sé enn of grunnt þegar að þessum þætti kemur. Fræðsla foreldra er oft talin sjálfsögð byrjun, ekki skal ég vanmeta hana, enda mikilvæg sé hún innt af hendi af þekkingu og þeirri einlægni sem eðlilegt og gagnkvæmt trúnaðartraust milli foreldra og barns á að geta skapað. En hvort halda menn í alvöru að fræðsla foreldra og skóla eða fræðsla götunnar og sorprita sé veigameiri, meira að segja nú á þessum miklu menntunartímum? Ég læt hvern um sig að svara, en sjálfur fullyrði ég að því miður fari meira fyrir hinum síðarnefnda neikvæða þætti.

Í framhaldi af þessu get ég ekki stillt mig um, að benda á blómlega útgáfu og gróðavænlega á fræðsluritum um kynferðismál í formi viku- og mánaðarblaða þar sem allt er svo skrumskælt og sér í lagi á þann veg sem neikvæðastur er, langt neðar öllu eðlilegu kynlífi, að ég er sannfærður um skaðsemi þeirra fyrir sálarlíf unglinga sem fá þarna svo alranga hugmynd að eigin kynni af kynlífi geta í ljósi þessarar fræðslustarfsemi ósvífinna fjárplógsaðila valdið alvarlegum sálrænum áföllum. Skal ekki nánar út í það farið hér af velsæmisástæðum í svo virðulegri þd., en ég hygg að allir viti hvað ég á við og hvers vegna ég hef þá skoðun að ég vildi reisa hér við verulegar skorður, jafnframt því sem ég á engan hátt hef á móti æsingslausum og eðlilegum frásögnum af þessum mikilvæga þætti mannlegs lífs.

En hvers vegna hafa þá foreldrar og skólar brugðist? Ég hef bent á feimnismálaástæðuna áður, en eftir er að geta um ýmislegt annað. Ég bendi á eftirfarandi varðandi skólakerfi okkar sem er sá þáttur sem löggjafinn og um leið fjármálavaldið getur haft veruleg áhrif á. Ég er þessu máli allvel kunnugur og tel mig vera það eftir 17 ára kennslustarf. Í fyrsta lagi er það kennaramenntunin sjálf. Kennarar eru enn í dag fæstir undirbúnir til að leiðbeina og fræða um þessi mál, kannske nær engir. Kennslubækur eða kennslugögn eru engin til mér vitanlega. Mikil tregða er á því að taka þessa fræðslu beint inn á stundaskrá smátt og smátt, öðruvísi verður það ekki gert. Ég viðurkenni að vísu samtengingu við aðrar námsgreinar, svo sem heilsufræði, félagsfræði, en ég held að enn þurfi að brjóta niður vissan múr fordóma áður en raunhæfri fræðslu verður á komið. Ég held að yfirvöld menntamála eigi hér býsna mikið verk óunnið á of mörgum sviðum til þess að ég geti verið bjartsýnn á skjóta og nauðsynlega framkvæmd þessa mikilsverðasta kafla frv. Ég vona hins vegar að sú staðreynd, að hann virðist óvíða úti í þjóðfélagi okkar gagnrýndur heldur þvert á móti talinn boða betri tíð í þessum efnum, sú staðreynd verði til þess að öðruvísi verði á þessum málum tekið og þá mætti gjarnan byrja í menntakerfi okkar kennara.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um málið og skal því ekki tala nú langt mál um aðaldeiluefnið og kannske hið raunverulega deiluefni, þ. e. um sjálfsákvörðunarrétt konunnar til fóstureyðingar, að þó ýmsum skilyrðum fullnægðum, og þá neyðarráðstöfun sem fóstureyðing hlýtur jafnan að vera. Ég skal ekki elta ólar við staðhæfingar og beinar fullyrðingar of víða að um ásókn kvenna í þennan sjálfsagða þátt mannréttinda sinna til þess að geta notað hann sem beina getnaðarvörn eða í stað hennar. Svo fráleitt og fyrirlitlegt tel ég allt slíkt tal eða þegar dálítið er að því liggja jafnvel, eins og maður hefur heyrt að undanförnu, að konur séu í biðröðum óðfúsar í að láta eyða fóstri sínu án allra gildra ástæðna. Hér er einmitt talað af hvoru tveggja, fyrirlitningu á konum almennt, dómgreind þeirra og siðgæði, og því er hér ekki um svaraverða hluti að ræða, en þetta hefur um of einkennt hina almennu umr. úti í þjóðfélaginu. Ég tel einmitt þessar skoðanir vera í ætt við þann fyrri tíma svartagaldur og hugsunarhátt Drekkingarhylsins sem enn virðist eima eftir af og við heyrðum reyndar óma hér áðan í kristilegri hugvekju prestsins. Það er að vísu rétt að íslensku læknarnir vilja láta taka mikið tillit til skoðana sinna og álits, og gjarnan vildi ég gera það og mörgum þeirra treysti ég til þess mætavel. En hins vegar eru ótalin dæmi um misnotkun þess valds sem þeir hafa haft og vilja halda í. Ef ég hefði ekki jafnvel heyrt af vörum þeirra sjálfra fullyrðingar eins og þær að konur, sem djarfast hafa barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti konunnar og auknum réttindum kvenna almennt, hafi jafnvel skipulagt fóstureyðingar ungra stúlkna erlendis til að fá hagstæðari tölur í „statistik“ um þessi mál, — hefði ég ekki heyrt þetta og margt annað, þá hefði ég svo gjarnan viljað að þessir menn hefðu haft meira um þetta að segja en ég tel hollt hreinlega. Þetta og margt fleira veldur því að ég get ekki talið þá sem þá almáttugu aðila, sem sumir þeirra vilja vera láta, og ekki heldur talið þá í öllu réttari aðila en konuna sjálfa til lokaákvörðunar almennt um þessi mál. Ég segi því miður, því að algilt er þetta mat mitt ekki gagnvart íslenskri læknastétt sem slíkri. En vitanlega hlýtur það að vera svo að þeir séu mannlegir eins og aðrir, geti gert mistök, og því tel ég það ekki aðalatriði þessa máls að þeir einir hafi þarna lokaákvörðun og eigi að hafa og það tryggi allt réttlæti í málinu — það tryggi það að aldrei verði of langt gengið, að aldrei verði nein mistök gerð. Auðvitað hljóta þessir menn að vera spegilmynd þjóðlífsins sjálfs alveg eins og við öll hin, jákvæð og neikvæð eftir upplagi og gerð allri, og hví skyldu þeir þá vera þeir allsherjarlausnarar í þessu máli sem ættu einir að hafa valdið frekar en sú sem tekur afleiðingunum af hvoru tveggja ein og óstudd og ekki í skjóli neinna vottorða eða pappírsgagna, heldur í krafti eigin ábyrgðar gagnvart sjálfri sér og því lífi sem kviknað er. Það er nefnilega fjarri mér að vantreysta þeirri ábyrgðartilfinningu og þeirri heilbrigðu dómgreind og því siðgæðisstigi sem ég tel konuna vera gædda almennt umfram — ég segi umfram aðra.

Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar nú en mun við 2. umr. og í nefnd gera frekari grein fyrir skoðun minni almennt.