25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur athugað frv. þetta á samtals 7 fundum. Fimm fundanna hafa verið sameiginlegir fundir með fjh.- og viðskn. Nd. og þetta mál hefur að mestu verið unnið sameiginlega af n. beggja d. N. hafa haft mál þetta til meðferðar síðan 24. mans s. l. og hafa haft samband við mjög marga aðila sem hafa veitt ýmsar upplýsingar. Ég vil nefna í fyrsta lagi þá sem stóðu að samningu þessa frv. sérstaklega varðandi skattamál, einkum þá prófessor Guðmund Magnússon og Þorstein Geirsson deildarstjóra í fjmrn. Einnig komu fyrir n. ráðuneytisstjóri í fjmrn., ríkisskattstjóri, skattrannsóknastjóri, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, hagsýslustjóri, seðlabankastjóri og margir fleiri. Auk þess komu til fundar við n. fulltrúar ASÍ og fulltrúar Verslunarráðs Íslands. Ýmis bréf og erindi bárust til n. og vil ég þar nefna bréf frá samninganefnd ASÍ þar sem mælst var til þess að það fjármagn, sem reiknað er með að skattar muni lækka um verði eingöngu notað til að lækka beina skatta. Félag einstæðra foreldra sendi n. till. um breyt. ásamt grg. Stjórn Stéttarsambands bænda sendi ályktun þess efnis að söluskattur yrði felldur niður af kjöti og kjötvörum. Flugleiðir hf. sendu aths. vegna flugvallagjalds, og einnig barst bréf frá Ferðamálaráði um sama mál. Þá sendu Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Félag ísl. iðnrekenda aths. varðandi V. kafla frv. um breyt. á tollskrárákvæðum. Og að síðustu sendi Samband ísl. sveitarfélaga erindi og óskaði eftir nokkrum breyt. Öll þessi erindi hafa verið tekin til meðferðar og athugunar hjá n. og hlotið þar nokkuð ítarlega athugun.

Ég vil í stuttu máli gera grein fyrir þeim breyt. sem eru mikilvægastar, þ. e. a. s. þeim breyt. sem n. hafa gert till. um, en þar sem málið hefur fengið mjög ítarlega meðferð í Nd. sé ég ekki ástæðu til að rekja málið ítarlega.

I. kafli frv. fjallar um heimild til lækkunar ríkisútgjalda og þar hefur n. ekki gert till. um neina breyt. Hér er um að ræða heimild til ríkisstj. og slík lækkun ríkisútgjalda getur því aðeins farið fram að fjvn. samþykki slíka lækkun. Till. um slíka lækkun hafa ekki enn verið mótaðar og því ekki mögulegt að rekja þær hér. En það, sem hlýtur að ráða nokkuð slíkri lækkum, er í fyrsta lagi atvinnusjónarmið. Ríkisstj. hefur lýst því yfir að hún muni stuðla að því að haldið verði uppi fullri atvinnu í landinu og þess vegna er mjög mikilvægt að slík lækkun ríkisútgjalda hafi ekki í för með sér atvinnuleysi. Ber að gæta þess að þenslan í þjóðfélaginu er mjög misjöfn. Hún er mikil á einstökum stöðum, en lítil sem engin á öðrum. Í öðru lagi hlýtur mikilvægi fjárveitinga að ráða miklu í þessum efnum.

En frv. þetta fjallar ekki aðeins um lækkun ríkisútgjalda. Það fjallar einnig um hækkun ríkisútgjalda og þar með breyt. á forgangsröð. Þar má sérstaklega nefna fyrirhugaða hækkun á útgjöldum til orkuframkvæmda og þar er mótuð sú stefna að orkuframkvæmdir skuli hafa algeran forgang á þessu ári. Einnig má nefna að ákveðið hefur verið að greiða niður áburðarverð sem mun hafa í för með sér veruleg útgjöld fyrir ríkissjóð þannig að hér er um það að ræða einnig að breyta forgangsröð á ríkisútgjöldum.

II. kafli frv. fjallar um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt og þar hafa n. gert nokkrar brtt. sem voru afgr. við umr. í Nd. Það var alveg ljóst, ef átti að fullnægja því skilyrði að lækkun á beinum sköttum kæmi fyrst og fremst til góða láglaunafólki, að þá var aðeins ein leið fær ef ná átti þessum tilgangi, og sú leið var að auka skattafslátt, í fyrsta lagi að breyta persónufrádrætti í persónuafslátt og auka barnabætur. Þar með eru sameinuð í eina heild annars vegar fjölskyldubætur og hins vegar sá frádráttur sem menn hafa hlotið gagnvart skatti, en sá frádráttur var 75 500 kr. Það er tvímælalaust til bóta að breyta þessum frádrætti og fjölskyldubótum í eina upphæð því að eins og þetta var áður nýttist það í mörgum tilfellum ekki barnmörgum, tekjulágum fjölskyldum. Það var gert ráð fyrir því upphaflega í frv. að persónufrádráttur yrði notaður til greiðslu eignarskatts, til greiðslu útsvars og þar að auki til elli- og örorkulífeyrisþega, þeim skyldi greitt út af persónuafslætti, þó aldrei hærri upphæð en 20 000 kr. til einstaklings og 30 000 kr. til hjóna. Í meðförum n. voru gerðar brtt. í þessu efni. Í fyrsta lagi sú að persónuafsláttur skyldi ekki ganga til greiðslu eignarskatts og er það tvímælalaust til bóta því að ef svo hefði verið, þá er blandað saman tveimur stofnum, annars vegar álagningu skatts á eignir og hins vegar álagningu skatts á tekjur. Þannig hefði eignahár maður með litlar tekjur fengið eignarskatt sinn greiddan af hinu opinbera. Í öðru lagi var gerð sú breyt. að elli- og örorkulífeyrisþegar fengju ekki greiddar út eftirstöðvar af persónuafslætti og þar með var mörkuð sú stefna að skattafsláttur skuli aldrei greiðast út og gerð till. um það að ígildi þessa afsláttar yrði notað til að hækka tekjutryggingu. Þetta er að mínum dómi einnig mjög til bóta. Það er kannske rétt að geta þess að gamalt fólk hafði í fyrri lögum sérstakan skattafslátt. Þessi afsláttur nýttist eingöngu því fólki sem hafði nokkuð háar tekjur. Á þennan hátt var verið að ívilna á mjög handahófskenndan hátt, og það er mun skýrara og kemur betur við hjá þeim, sem lægri tekjur hafa, að greiða þessa ívilnun út í formi tekjutryggingar. Það fór fram sérstök athugun á því hverjir það eru sem tapa á því að eftirstöðvar persónuafsláttar séu ekki greiddar út, og kom í ljós að þar gat eingöngu verið um að ræða tekjulága framteljendur úr hópi barnlausra hjóna og einhleypinga sem ekki eru lífeyrisþegar. Það kom hins vegar í ljós að nær öll barnlaus hjón með minna en 550 þús. kr. brúttótekjur eru lífeyrisþegar. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa svo og fjölda atvinnurekenda og fjölda ungra hjóna án barna á þessu tekjubili er í mesta lagi um 65 barnlaus hjón að ræða sem tapað gætu á þessu, u. þ. b. 4000 kr. eða minna ár hvert, ef útborgun yrði hætt. Ég held að það hljóti að vera ljóst að það er mjög mikil bót að því að losna við þessa útgreiðslu, koma henni úr kerfinu, og þess vegna varð niðurstaðan að fella þessa útgreiðslu algerlega niður.

N. gerðu eina breyt. varðandi skattmeðferð einstæðra foreldra. Einstæðir foreldrar hafa notið sérstaks frádráttar í gildandi skattalögum og sá frádráttur er 144 960 kr. að viðbættum 16 610 kr. fyrir hvert barn. Það er alveg sama með þennan frádrátt og annan frádrátt, sem veittur er í tekjuskattslögunum, að hann nýtist eingöngu því fólki sem hefur tekjur til þess að nýta þennan frádrátt. Í stað þessa frádráttar var ákveðið að einstæðir foreldrar skyldu fá persónuafslátt hjóna. Sá afsláttur nýtist betur tekjulægri einstæðum foreldrum. Hins vegar varð ljóst að þetta hafði í för með sér nokkra íþyngingu hjá þeim einstæðu foreldrum sem höfðu nokkuð háar tekjur. N. gerðu það að till. sinni að til þess að leiðrétta þetta yrði meðlag einstæðra foreldra gert skattfrjálst og var sú breyt. samþ. í Nd. Allar þessar breyt., þessar lækkanir á beinum sköttum, munu kosta ríkissjóð u. þ. b. 970 millj. kr.

Þar að auki hefur verið samþ. sú breyt. í Nd. að lækka svonefnda verðstuðulsfyrningu sem átti að vera 70% af lausafé, þ. e. a. s. 70% af fyrningum, en það var samþ. í Nd. að þessi fyrning skyldi aðeins vera 70% af þessari 70% fyrningu eða u. þ. b. 50%. Hér er ekki um mjög verulega breyt. að ræða, en fyrst og fremst viðurkennt að taka beri ákvæði kattalaga varðandi fyrningar og meðferð söluhagnaðar til gaumgæfilegrar endurskoðunar. Þessi ákvæði hafa reynst að flestra dómi, sem um þau hafa fjallað, óraunhæf og því hefur þegar verið lýst yfir að þessi ákvæði verði tekin til gaumgæfilegrar endurskoðunar og breyt. lagðar fyrir haustþingið.

Það er rétt að geta þess í fjórða lagi að það voru einnig samþ. breyt. í Nd, um sjómannafrádrátt, og þessar breyt. hafa í för með sér um 60 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð.

III. kafli frv. fjallar um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga og voru samþ. í Nd. nokkrar smávægilegar breyt. Sú lækkun, sem þessi kafli hefur í för með sér fyrir sveitarfélög, er um 410 millj. kr.

V. kafli frv. fjallar um heimild til lækkunar eða niðurfellingar á söluskatti og afnám tolla af nokkrum mikilvægum matvörum og hráefnum til matvælagerðar. Sú breyt. var gerð í meðförum n, að lagt var til að heimild til að lækka tolla á feiti og ýmsum skyldum vörum yrði felld út og var sú breyt. samþ. í Nd. en eftir stendur þá tollalækkun á ávöxtum og mun sú lækkun kosta ríkissjóð um 83 millj. kr. Hafa verið gefin þau fyrirheit að lækka skatta og tolla um u. þ. b. 2 000 millj. kr. og eftir standa þá u. þ. b. 500 millj. kr. sem ákveðið er að nota til lækkunar á söluskatti. Alþýðusamband Íslands hafði óskað eftir því að þessi heimild yrði ekki notuð og upphæðin nýtt til þess að lækka enn frekar beina skatta. Það er hins vegar alveg ljóst að ef .sú leið hefði verið farin hefði vart verið hægt að koma slíkri lækkun til skila hjá hinum tekjulægri nema taka upp útgreiðslukerfi, þ. e. a. s. að greiða út neikvæðan skatt. Hins vegar er ljóst að mjög lítill munur er á þessum leiðum og í reynd liggja ekki fyrir neinar ákveðnar staðreyndir í þeim efnum sem sanni að lækkum á söluskatti komi hinum tekjulægri verr. Og það varð niðurstaða í n. að það væri mjög neikvætt og ekki æskilegt að taka upp útgreiðslu á persónuafslætti. Varð því niðurstaðan að velja frekar söluskattsleiðina.

VI. kafli frv. fjallar um flugvallagjald. Í meðförum n. var ákveðið að leggja til að einnig skyldi lagt flugvallagjald á innanlandsflug. Það var ekki gert í því augnamiði að afla ríkissjóði frekari tekna vegna þess að jafnframt var ákveðið að leggja til að söluskattur á innanlandsflugi yrði felldur niður. Söluskattur á hinum lengri flugleiðum er mjög mikill og þess vegna er ljóst að þessi breyt. felur í sér meiri jöfnuð fyrir þá sem lengra þurfa að fara, lengra þurfa að sækja, t. d. til Reykjavíkur, vegna ýmiss konar þjónustu, og þess vegna felur þessi breyt., sem var samþ. í Nd., í sér mikla jöfnun í þessu sambandi. Þessi breyt. felur í sér nokkurt tekjutap fyrir ríkissjóð. Það er einnig ljóst að flugfargjöld munu hækka á næstunni og þess vegna mun ríkissjóður ekki leggja frekari skatta á þær hækkanir sem kynnu að koma á flugleiðum innanlands.

VII. kafli frv. fjallar um skyldusparnað. N. hafa ekki lagt til að neinar breyt. væru gerðar á þessum kafla, en það hefur komið fram nokkur gagnrýni á það að leggja á skyldusparnað og sagt í því sambandi að sparnaður skuli vera frjáls. Að sjálfsögðu taka allir undir það að það er æskilegast að sparnaður sé frjáls í hverju þjóðfélagi og þjóðfélagsþegnarnir geti ráðið því á hvern hátt þeir vilji spara. En því má ekki gleyma að sparnaður er undirstaða framfara í þjóðfélaginu og alveg er ljóst að ýmsir hafa misst trúna á að spara vegna hinnar miklu verðbólgu sem hefur verið undanfarin ár. Að mínum dómi réttlætir það það að taka nú upp skyldusparnað að það er nauðsynlegt að spara, ekki síst í þeim tilgangi að reyna að vekja trú manna á gildi sparnaðar.

VIII. kafli frv. fjallar um lántökuheimildir vegna opinberra framkvæmda og Framkvæmdasjóðs. Þar er um að ræða lántökuheimildir til framkvæmda í orkumálum og er í frv. skýrt lauslega frá því hvaða framkvæmdir muni rúmast innan þessa ramma. Það eru í fyrsta lagi framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins og rafvæðing sveitanna. Rafvæðing sveitanna hefur dregist aftur úr. Henni átti að ljúka á þessu ári og því nauðsynlegt að það verði tryggt fjármagn til að ljúka henni á þessu ári. Einnig eru hér nefnd orkumál Norðurlands og innan þess flokks munu rúmast byggðalína og framkvæmdir við Kröfluvirkjum. Einnig eru hér nefnd kaup á jarðborum sem þegar hafa átt sér stað og munu hafa kostað um 330 millj. kr. Þá eru nefndar hér virkjunarrannsóknir og má þar nefna rannsóknir við Blöndu og ekki síst rannsóknir og undirbúningsframkvæmdir við Bessastaðaá sem eiga að eiga sér stað á þessu ári. Í síðasta lagi eru orkuveitur sveitarfélaga sem eru ýmsar hítaveituframkvæmdir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja frekar þær breyt. sem hafa þegar verið gerðar í Nd. og urðu flestar vegna sameiginlegrar vinnu n. í báðum d.

Þær skattbreyt., sem þetta frv. felur í sér, eru mjög seint fram komnar og ber að vara við því að slíkt verði gert aftur. Það er mjög óþægilegt fyrir alla framkvæmd skattamála í landinu að gera slíkar breyt. svo seint sem raun ber vitni. Ég vil einnig vara við því að skattamál og skattastefna verði gerð að samningsatriði við hina ýmsu hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Ef stjórn efnahagsmála á að ganga vel er nauðsynlegt að Alþ. og ríkisstj. ráði yfir þessu tæki til þess að beita því við úrlausn ýmissa vandamála, bæði til öflunar tekna til sameiginlegra þarfa og einnig til að stjórna hagkerfi þjóðarinnar. Það hefur æ meira borið á því að það hefur verið sótt á að gera skattastefnu og skattamál að samningsatriði. Það er e. t. v. þess vegna að það varð reyndin í tíð fyrrv. stjórnar að einkaneysla jókst um 40% á sama tíma sem samneysla jókst um 25%. Ég er í hópi þeirra sem vilja mikla samneyslu, meiri samneyslu. Mér er það hins vegar ljóst að slíku verður ekki komið við eigi skattstefna og skattamál að vera samningsatriði við ýmsa aðila utan Alþ. og ríkisstj.