25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls benti ég á að í þessu langa og mikla frv., sem er einn af þeim bandormum sem stundum sjá dagsins ljós hér á hv. Alþ., eru aðallega þrjú atriði sem mestu máli skipta. Það er í fyrsta lagi skattalækkunin, í öðru lagi niðurskurður á útgjöldum ríkisins og þar með á verklegum framkvæmdum og í þriðja lagi meðferð fjárfestingarmálanna og meðferð á fjáröflun til fjárfestingarlánasjóðanna.

Við 1. umr. benti ég á, að fjáröflun til fjárfestingarlánasjóðanna væri mjög skorin við nögl að þessu sinni, og fullyrti að þær breyt., sem gerðar hefðu verið til bóta í þessu efni við 3. umr. málsins í Nd., dygðu ekki til og ljóst væri að það mundi hafa háskalegar afleiðingar fyrir uppbyggingu atvinnuveganna ef við svo búið yrði látið standa, enda er hraðinn í uppbyggingu atvinnuveganna að sjálfsögðu mjög háður því hversu mikið fé er aflögu til útlána til hinna ýmsu greina atvinnulífsins.

Við athugun málsins í n. gafst að sjálfsögðu tækifæri til þess að skoða sérstaklega þessa hlið málsins. Ég benti á það í n. að meðferð þessa máls væri öll með einkar furðulegum hætti sem ætti sér fá fordæmi hér á hv. Alþ. Alþ. er að ákveða 2 000 millj. kr. lánsfjárútvegun til stofnlánasjóðanna, en þegar sú ákvörðun er lögð fyrir Alþ., þ. e. a. s. till. um slíka ákvörðun, þá eru engar upplýsingar Lagðar jafnframt fram um það hvað stofnlánasjóðirnir telja sig sjálfir hafa til ráðstöfunar, hvernig þeir hyggjast skipta væntanlegu lánsfé, hve há sé fjárhæð þeirra umsókna sem fyrir liggi hjá stofnfjársjóðunum, hve mikið sé óafgreitt af umsóknum frá fyrra ári og hverjar séu útlánaáætlanir stofnlánasjóðanna. Það er sem sagt bara sagt: Komið þið með þessar 2000 millj., en hvernig við ætlum að ráðstafa þeim, það fær enginn neitt að vita.

Ég benti á það í fjh.- og viðskn. í morgun að þetta væri í fyrsta skipti um langt skeið sem nokkur ríkisstj. dirfðist að hegða sér á þennan veg gagnvart Alþ. Um árabil hefur það verið svo að Framkvæmdasjóður og starfsmenn hans sem eru um leið starfsmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins, eins og kunnugt er, hafa undirbúið till. um útlán stofnlánasjóðanna. Till. þessar hafa síðan verið ræddar í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, áður í stjórn Framkvæmdasjóðs, og síðan hafa till. verið sendar ríkisstj. og Alþ. og Alþ. hefur síðan veitt heimildir til erlendrar lánsfjáröflunar þannig að sú áætlun, sem gerð hefur verið, gæti komist til framkvæmda. Til að gera Alþ. kleift að gegna þessu hlutverki hefur verið lögð fram árum saman svonefnd skýrsla fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir árið 1973 og í þessari skýrslu er vandlega farið yfir fjárhag einstakra fjárfestingarlánasjóða,hvað þeir hafi mikið sjálfir af fjármagni og hvað þeir þurfi að fá mikið til þess að sinnt sé þeim umsóknum sem talið er eðlilegt að sinna Ef Alþ. hefur talið að útlánaáformin væru of mikil hefur það getað lækkað erlendu lánsfjáröflunina og er sannast að segja að ekki hefur það oft komið fyrir, heldur hefur hitt verið algengara að Alþ. sæi ástæðu til að hækka lánsfjáröflunina í meðferð málsins. En að sjálfsögðu hafa alþm. haft upplýsingar í höndunum til þess að geta rætt málin og tekið ákvarðanir út frá einhverjum tölulegum forsendum. Hitt hefur aldrei gerst fyrr að stjfrv. væri lagt fram sem fæli í sér ákveðna lánsfjárútvegun, án þess að nokkrar yfirlitstöflur eða nokkur grg. væri jafnframt lögð fram. Nei, alþm. er sem sagt ætlað að samþykkja þessa tölu eins og hún kemur fyrir, rétt eins og hverjir aðrir páfagaukar, og Framkvæmdastofnun ríkisins virðist þarna hvergi koma við sögu að því er séð verður. Ég er sjálfur í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, en ég get upplýst það hér að á þetta mál hefur aldrei verið minnst í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar og ég hef þar af leiðandi ekki hugmynd um hvort sú stofnun hefur eitthvað unnið að þessum málum eða ekki, eins og lög mæla þó fyrir um. Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun krafðist ég þess að sjálfsögðu, þótt seint væri orðið, að lögð yrði fram fullnægjandi grg. um stöðu þessara mála, en það ætlaði nú svo sannarlega ekki að ganga auðveldlega að fá þær upplýsingar fram. Ég vil að vísu strax taka fram að hv. form. n. var allur af vilja gerður að útvega þessar upplýsingar og hann byrjaði á því að hringja í Framkvæmdastofnun ríkisins og átti þar viðræður við ráðamenn og spurðist fyrir um það hvort ekki væri hægt að afhenda þessar upplýsingar. En hann fékk þau svör að þessar upplýsingar mætti ekki afhenda, og skildist mér þó að um málið hefði verið formlega fjallað innan stofnunarinnar, en niðurstaðan hefði orðið sú að Alþ. mætti ekki fá þessar upplýsingar. Nú er það svo að það leikur grunur á því að framkvæmdastjórar hinnar ágætu stofnunar, Framkvæmdastofnunarinnar, hafi einhverja hugmynd um þetta mál, — það leikur grunur á því. Og það leikur sem sagt grunur á því að þeir hafi neitað að afhenda upplýsingar sem þeir sjálfir höfðu í höndunum. Ég vil lýsa því yfir að hér er bersýnilega um fáheyrða framkomu að ræða af hálfu opinberra embættismanna gagnvart Alþ. og ég get ekki nefnt þetta neinum öðrum nöfnum en að hér sé um hreint hneyksli að ræða.

Eftir að fyrir lá að framkvæmdastjórar Framkvæmdastofnunarinnar neituðu að gefa alþm. upplýsingar um, hvað þeir væru raunverulega að samþykkja með því að heimila 2 000 millj. kr. erlenda lánsfjárútvegun, og fyrir lá, að þessi skortur á upplýsingum yrði gerður að umtalsefni hér í þinginu og ríkisstj. dregin til ábyrgðar fyrir að útvega ekki sjálfsagðar og nauðsynlegar upplýsingar, tókst form. nefndarinnar eftir nokkra erfiðleika að finna þolanlega lausn á þessum vanda. Hann fann sem sagt í pússi sínu skýrslu sem kemur frá Seðlabanka Íslands og inniheldur einmitt þær áætlanir sem frv. er miðað við. Þessi áætlun er greinilega miðuð við sömu tölur og þar er verið að fjalla um, og þetta reynast sem sagt vera þær upplýsingar sem ég hef verið að kvarta um, en gat ekki fengið með hjálp form. n. frá Framkvæmdastofnuninni. Það kemur sem sagt í ljós að Seðlabankinn hefur undirbúið þær till. sem frv. er byggt á, en ekki verður séð að Framkvæmdastofnun ríkisins hafi komið þar mikið við sögu. Ég vil því af þessu tilefni leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé stefna ríkisstj. að Seðlabankinn yfirtaki Framkvæmdastofnunina og starfsemi hennar í nánustu framtíð. Ég vil sem sagt spyrja hann að því hvernig á því standi að áætlunarstarfsemi, sem Framkvæmdastofnuninni er ætluð með lögum, virðist fara fram í Seðlabankanum sem er látinn semja um það ítarlega skýrslu sem alþm. geta fengið í hendur, en þær hugmyndir og till., sem hugsanlega eru á ferðinni í Framkvæmdastofnuninni, — hvort þær eru þar á ferðinni eða ekki skal ég að vísu ekki fullyrða um, en ég trúi ekki öðru en að stofnunin gegni því hlutverki, sem hún á lögum samkv. að gera. Þær hugmyndir og till., sem þar hafa verið á ferðinni, eru leyndarmál sem alþm. er neitað um aðgang að. Ég sem sagt hlýt að spyrja: Er það ætlun ríkisstj. að Seðlabankinn yfirtaki þessa starfsemi af Framkvæmdastofnuninni og hafi með höndum héðan í frá gerð útlánaáætlana fyrir stofnlánasjóði atvinnuveganna? Og ég vil einnig spyrja að því, hvernig í ósköpunum stendur á því að Alþ. er ekki gerð grein fyrir afkomu og útlánaáætlunum fjárfestingarlánasjóðanna áður en afgr. er frv. um það efni hér í þinginu eins og ávallt hefur verið.

Ég þakka að vísu form. fjh.- og viðskn. fyrir það að hann útvegaði þessar upplýsingar í morgun, sem ég hef nú gert að umtalsefni. En ég hefði talið sjálfsagt að ríkisstj. hefði séð sóma sinn í því að leggja sjálf fram þessar upplýsingar eins og ævinlega hefur verið gert hér á þingi, yfirleitt á mjög ítarlegan og greinargóðan hátt í löngu yfirliti fjmrh. sem hann hefur síðan fylgt úr hlaði með langri ræðu. Ekkert slíkt hefur heyrst eða sést hér á Alþ. á þessum vetri. Ég vil einnig spyrja að því, vegna þess að vitað er að þetta hefur gengið þannig fyrir sig að Framkvæmdastofnunin hefur safnað upplýsingum um útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóðanna og því næst hafa Alþ. og ríkisstj. tekið ákvarðanir sem byggðar hafa verið á þessum upplýsingum, raunverulega lokaákvarðanir, hvernig í ósköpunum stendur á því að mönnum hefur dottið í hug að hagkvæmt gæti verið að snúa þessari ákvörðunartöku við þannig að það sé Alþ. sem fyrst eigi að taka ákvörðun án þess að hafa fengið nokkrar upplýsingar í hendur.

Ég vil svo snúa mér að fjármálum fjárfestingarlánasjóðanna og þeim fullyrðingum sem ég hef haft hér í frammi að ískyggilega sé skorinn við nögl fjáröflun til þessara sjóða. Árið 1973 lánuðu atvinnuvegasjóðirnir 4 300 millj. kr. til innlendra framkvæmda og veitti vist sannarlega ekki af því eins og þeir muna sem eitthvað komu nærri þeim málum á sínum tíma, því að eftirspurn eftir lánsfé var að sjálfsögðu langtum, langtum meiri. 1974 var hins vegar reynt að takmarka útlán vegna þeirrar óvissu sem fram eftir árinu ríkti um það hvaða stefna yrði tekin í efnahagsmálum og vegna þess að þörf var talin á því að draga úr þenslunni. Þá urðu útlán atvinnuvegasjóðanna 4980 millj. og var um tæpa 16% aukningu að ræða frá fyrra ári. Hins vegar hækkaði vísitala byggingarkostnaðar um 50% milli áranna 1973 og 1974. Það var því um mikla útlánaminnkun að ræða í reynd eins og menn sjá með samanburði á þessum tveimur prósentutölum. Afleiðingin af samdrætti í útlánum stofnlánasjóða á árinu 1974 var sú að það myndaðist langur hali af óafgreiddum umsóknum, umsóknir hlóðust upp án þess að fé væri fyrir hendi til að afgreiða þær og er þá að sjálfsögðu einungis átt við þann hluta umsóknanna sem ekki var talin ástæða til að synja þegar í stað vegna þess að þær ættu ekki rétt á sér.

Nú er hækkun fjárfestingarkostnaðar milli áranna 1974 og 1975 talin verða um 70%. Ég held því að öllum ætti að vera ljóst að fráleitt væri með öllu að ætla að bæta nú niðurskurði í útlánum stofnlánasjóða ofan á þann niðurskurð sem fyrir var, en samt sem áður er það gert í því frv. sem hér liggur fyrir. Þegar frv. var fyrst lagt fram var aðeins gert ráð fyrir 36% hækkun á útlánum stofnlánasjóðanna frá árinu 1974 eða úr 4 980 millj. kr. í 6 785 millj., og eftir þá breyt., sem gerð hefur verið í Nd. og felur í sér 800 millj. kr. hækkun á útvegun lánsfjár til stofnlánasjóðanna, er hækkunin milli ára 52%, en það verður að teljast algerlega ófullvægjandi miðað við það hvað umsóknir höfðu hrannast upp ú árinu 1974 og miðað við þá miklu kostnaðarhækkun sem orðið hefur milli ára.

Ég vil nú snúa mér að fjármálum einstakra fjárfestingarlánasjóða. Fiskveiðasjóður lánaði árið 1973 2421 millj. kr., en árið eftir, 1974, aðeins 1996 millj. kr. Það var sem sagt um að ræða minnkun í útlánum frá árinu 1973 til 1974 sem nam 18%. Nú telur Fiskveiðasjóður, sem er í miklum fjárhagsörðugleikum vegna þeirra fjöldamörgu umsókna sem hann hefur orðið að slá á frest að afgr. frá s. l. ári, að hann þurfi a. m. k. 3 800 millj. kr. til þess að geta gegnt lágmarksskyldu sinni. Ég vil taka fram að í þessu tilviki er áreiðanlega um að ræða algert lágmark, jafnvel óeðlilega lágt mark, en skv. frv. eins og það er nú og með þeim upplýsingum, sem gefnar voru í morgun um það hvernig þessum 804 millj. yrði hugsanlega ráðstafað, virðist að ekki verði um að ræða að lán úr Fiskveiðasjóði verði nema 3 650 millj. Það mun sem sagt vanta um 150 millj. og þó í raun og veru miklu, miklu meira ef tekið er fullt tillit til hinna raunverulegu þarfa.

Ef við snúum okkur næst að Stofnlánadeild landbúnaðarins, þá lánaði hún út á árinu 1974 1050 millj. kr. Með því viðbótarfjármagni, sem fæst eftir þá breyt. sem Nd. hefur gert á frv., er talið samkv. þeim upplýsingum, sem við nm. fengum í morgun, að til útlána úr Stofnlánadeildinni geti orðið á þessu ári 1 350 millj., en það er liðlega 30% aukning frá árinu áður. Stofnlánadeildin telur sig hins vegar þurfa sem algert lágmark 1800 millj. kr. til þess að geta sinnt lágmarksskyldum sínum. Það er eins með Stofnlánadeildina og Fiskveiðasjóðinn að hún dregur eftir sér langan hala. Þarna er um að ræða að talsvert miklum hluta lán til íbúðabygginga í sveitum og segir sig sjálft að þegar um er að ræða meira eða minna fastar sjálfvirkar lánveitingar til íbúðahúsabygginga í þéttbýli í gegnum lánakerfi Húsnæðismálastofnunarinnar væri algerlega fráleitt ef íbúðahúsabyggingar í sveitum ættu að falla undir einhverjar aðrar reglur og að miklu, miklu erfiðara væri að fá lán til þeirra framkvæmda en þeirra sem fram fara í þéttbýlinu. Ég sem sagt undirstrika hér að það er útlit fyrir gífurleg lánsfjárvandræði hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins ef hún fær ekki meira fé en gert er ráð fyrir í frv. sem við erum að ræða eins og það liggur fyrir nú.

Um Iðnlánasjóð er það að segja að hann lávaði á árinu 1974 341 millj. kr., en áætlað er að hann geti lánað á árinu 1975 510 millj. Þar er um nokkra hækkun að ræða, 50% hækkun, en hækkunin er þó langt frá því að að kostnaðarhækkuninni milli áranna 1974 og 1975 sem er, eins og ég hef áður sagt, nærri 70%. Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem sýnt er að útlán Iðnþróunarsjóðs aukast mjög lítið milli ára. Þau voru á árinu 1974 401 millj. kr., en áætlað er að þau verði á árinu 1975 aðeins 450 millj. kr. Aukningin nemur sem sagt aðeins 12% enda þótt kostnaðarhækkunin sé um 70%. Það er því bersýnilegt að í heildina tekið verður raunverulega um að ræða mjög mikla skerðingu á útlánum til iðnaðarins frá því sem var á s. l. ári, en þá var, eins og ég hef áður tekið fram, um að ræða að útlánum var haldið í spennitreyju á því ári vegna sérstakra aðstæðna.

Ég hef nefnt hér fjóra stofnlánasjóði og ég get bætt þeim fimmta við sem líku máli gegnir um. Það er Lánasjóður sveitarfélaga.

Ég vil þó fara sérstökum orðum um þann sjötta, Byggðasjóð, vegna þess að áform Seðlabankans um útlán til Byggðasjóðs virðast nú einkennast af óhugnanlegri þröngsýni en áformin varðandi hina sjóðina. Árið 1974 lánaði Byggðasjóður út til ýmissa framkvæmda 627 millj. kr. Áætlun Seðlabankans um útlán úr Byggðasjóði hljóða upp á 695 millj. kr. á árinu 1975. Hækkunin er aðeins 11%. Ég held ég þurfi ekki að fara frekari orðum um það að ef þetta kæmi til framkvæmda yrði um að ræða stórfellda rýrnun á lánveitingum úr Byggðasjóði þegar haft er í huga að kostnaðarhækkunin er tæp 70% milli ára. Til þess að Byggðasjóður lánaði út álíka mikið fjármagn að verðgildi og hann gerði á árinu 1974 þyrftu útlán hans að hækka í 1 066 millj., en það er allt það fé sem Byggðasjóður hefur til ráðstöfunar á þessu ári raunverulega ef tekið er með það fé, sem hann á að fá úr ríkissjóði, og það fé, sem hann fær með öðrum hætti. Ástæðan til þess að Seðlabankinn reiknar ekki með að sjóðurinn láni svo mikið út, er sú að hann áætlar að Byggðasjóður láni í einu lagi til Stofnlánasjóðs landbúnaðarins 300 millj. Það er af þeirri ástæðu sem upphæðin dettur niður í tæpar 700 millj. kr.

Ég þarf ekki að minna á að mikið hefur verið býsnast yfir auknum fjárveitingum í Byggðasjóð og Framsfl. hefur nú aldeilis talið sér það til tekna að um yrði að ræða gífurlega hækkun á lánveitingum Byggðasjóðs á þessu ári. En eins og ég hef sýnt hér fram á er allt útlit fyrir að lánsfjármagn úr Byggðasjóði muni í raun lækka frá því sem var á s. l. ári. Það er nú öll þessi mikla aukning. Ég verð að vísu að játa að ég hef enga trú á því að Seðlabankinn komist upp með að knýja það fram að Byggðasjóður láni heilar 300 millj. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég hef ekki trú á því. Ég spái því að þar verði um að ræða 140–150 millj. og að stjórnendur Framkvæmdastofnunarinnar, sem um leið eru stjórnendur Byggðasjóðs, muni koma í veg fyrir að það fé, sem til útlána er úr Byggðasjóði, verði skert svo stórkostlega. En með því að lána t. d. 100–150 millj. úr Byggðasjóði er greinilega um að ræða að fjárveiting verði minni að verðgildi til á árinu 1975 en þær voru á árinu 1974. Til þess að þær séu jafnar að verðgildi er sjóðurinn ekki fær um að lána eina einustu krónu til annarra stofnlánasjóða.

Kannske er einhver sem ekki áttar sig á því hvernig í ósköpunum standi á því að þegar verið er að framkvæma þá ákvörðun ríkisstj. að 2% af ríkisútgjöldum renni í Byggðasjóð skuli útkoman verða svo hroðaleg sem raun ber vitni. Hvernig í ósköpunum getur á þessu staðið? Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki er raunverulega um aukningu að ræða þegar þessi regla er upp tekin? Skýringarnar eru tvær og eins gott fyrir alla að átta sig á þeim. Skýringin er í fyrsta lagi sú að tekjustofnar sem áður voru ákveðnir til Byggðasjóðs, í fyrsta lagi framlag ríkissjóðs til sjóðsins og í öðru lagi tekjur sjóðsins af álverksmiðjunni, þessir tekjustofnar eru dregnir frá því fjármagni sem greitt er á fjárl. til Byggðasjóðs, og þarna er ekki um neinar smávegis upphæðir að ræða. Þarna er sjálfsagt um að ræða a. m. k. 300 millj. En í öðru lagi fær Byggðasjóður ekki að taka neitt lán í þetta sinn samkv. þeim áætlunum sem Seðlabankinn hefur gert. Byggðasjóður tók á árinu 1974 200 millj. að láni hjá Framkvæmdasjóði og hann tók á árinu 1972 og 1973 4.50 millj., samtals 650 millj. á þremur árum. Nú er ekki ætlunin að Byggðasjóður fái að taka neitt að láni. Þetta eru auðvitað þær tvær skýringar sem valda því að um verður að ræða í reynd minnkun á lánveitingum úr Byggðasjóði ef þessi áform ná fram að ganga sem ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um. Ég er hér einungis að fjalla um þær áætlanir sem Seðlabankinn hefur gert. Virðist vera, að af í öllu falli þessum 1240 millj., sem fyrst var reiknað með að yrðu til ráðstöfunar úr Framkvæmdasjóði, eigi ekki ein einasta króna að renna til Byggðasjóðs. Og mér skilst að eins sé um þær 800 millj. sem bætast við, að ekki sé meiningin að neitt af þeim renni til Byggðasjóðs, heldur séu þvert á móti áform uppi um að Byggðasjóður fari að lána öðrum stofnlánasjóðum fjármagn án þess að taka nokkuð sjálfur að láni. Þó er það svo að hin nýja stjórn Byggðasjóðs hefur tekið upp þá reglu að lána töluvert mikinn hluta af fjármagni Byggðasjóðs til framkvæmda án nokkurs tillits til byggðasjónarmiða. Ég gæti trúað að einhvers staðar milli þriðjungur og fjórðungur af ráðstöfunarfé Byggðasjóðs renni til framkvæmda sem ekki miðast við byggðasjónarmið eða hinn upprunalega tilgang sjóðsins, heldur er veitt samkv. sjálfvirkum reglum til skipakaupa án tillits til þess hvar skipin eru staðsett.

Ég hef fært hér sönnur að því að miðað við þá miklu verðbólgu, sem er í þjóðfélaginu, verður ekki annað sagt en að stofnlánasjóðirnir séu í svelti á árinu 1975. Ég hef því lagt fram till. sem felur í sér hækkun á lánsfjármagni til stofnlánasjóðanna úr þeim 2 000 millj., sem felast í frv. eins og Nd. gekk frá því, í 2 800 millj. Ég sé ekki ástæðu til að leggja fram í brtt.- formi sundurliðað yfirlit yfir það hvernig þessu fjármagni verði skipt úr því að ekki liggja fyrir till. um það hvernig þessum 2 000 millj. verður skipt sem þó væri að sjálfsögðu eðlilegast. En ég vil taka það fram að ég tel að þessi upphæð ætti fyrst og fremst að skiptast milli fimm stofnlánasjóða. Ég tel að Fiskveiðasjóður þyrfti að fá a. m. k. 150 millj. til viðbótar þeim 400 millj., sem hann hugsanlega fær af þessum 800 millj. sem bættust við í meðferð málsins í Nd. Ég tel að Stofnlánadeildin ætti að fá 150 millj. til viðbótar því sem ráð er fyrir gert að hún fái. Ég tel að Iðnlánasjóður þyrfti að fá a. m. k. 200 millj., Byggðasjóður 200 millj. og Lánasjóður sveitarfélaga a. m. k. 100 millj. Samtals eru þetta 800 millj., að vísu lausleg skipting, en sett fram til þess að menn geri sér fyllilega grein fyrir hinni raunverulegu lánsfjárþörf sem fyrir hendi er. Ég tel að þetta sé algert lágmark, það sem gæti talist viðunandi ef ekki á að verða mjög ískyggilegur samdráttur í uppbyggingu atvinnuveganna. Nú segir kannske einhver að við hreinlega megum ekki og getum ekki tekið meira af erlendum lánum en gert er. Þessa fullyrðingu höfum við heyrt einhvern tíma áður. Ef ég sný mér fyrst að síðari fullyrðingunni, að við getum ekki tekið meira af erlendum lánum, þau séu ekki fáanleg, þá minni ég á að þessi fullyrðing hefur oft sést áður og ævinlega reynst jafnmarklaus. Í því frv., sem hér liggur fyrir, og í grg. fyrir frv. er fram tekið að nauðsynlegt sé að taka 1200 millj. kr. lán til stofnlánasjóða atvinnuveganna, en það sé hámark þess sem hægt sé að fá að láni. Því miður hef ég ekki þessi orð fyrir framan mig, en get vísað á bls. 57 — held ég það sé í grg. með frv. þar sem kemur skýrt fram að það er álit flm. frv. og þeirra, sem það hafa samið, væntanlega einhverra sérfræðinga í Seðlabankanum, að það sé ekki hægt að fá meira fjármagn en þetta, þetta sé hámark þess sem fáanlegt sé. Svo líða nokkrar vikur, þá kemur till. um að bæta við 800 millj. Þá er allt í einu hægt að bæta við 800 millj., þó að áður hafi verið upplýst að 1 200 væru algert hámark. Ætli flestir sjái ekki í gegnum skollaleik af þessu tagi? Að sjálfsögðu eru málin ekki þannig að ekki sé hægt að fá að láni meira fjármagn en þetta. Spurningin er að sjálfsögðu fyrst og fremst um það hvort eðlilegt sé af efnahagslegum ástæðum að taka svo mikil erlend lán.

Ég vil í þessu sambandi segja það sem mína skoðun að þó að mikil verðbólga sé í veröldinni í dag er fátt sem bendir til þess að erfiðara verði á næstu árum að fá erlent lánsfjármagn en verið hefur. Eftirspurn hefur að vísu aukist nokkuð, en flest bendir til þess að framboð á erlendu lánsfé sé jafnt og þétt að aukast. Eins og menn vita er viðskiptajöfnuður þjóða nokkuð mismunandi. Sumar þjóðir hafa afgang á viðskiptajöfnuði sínum. Aðrar þjóðir eru með halla á viðskiptajöfnuði sínum. Samanlagður afgangur á viðskiptahalla þjóðanna hlýtur að sjálfsögðu að standast á við samanlagðan halla á viðskiptajöfnuði þjóðanna. Það hefur löngum verið svo að þær þjóðir, sem hafa mesta fjárfestingarmöguleika, iðnaðarþjóðirnar, hafa haft afgang, en þær, sem hafa minni fjárfestingarmöguleika, hafa ekki haft afgang, heldur halla. En á síðustu tveim árum hefur þetta snúist við. Afgangur á viðskiptajöfnuði þjóðanna hefur verið að flytjast frá löndum með mikla fjárfestingarmöguleika til olíulandanna sem geta hreinlega ekki fjárfest ótakmarkað vegna þess að efnahagslíf þeirra hefur ekki náð þeirri breidd að þær geti fjárfest ótakmarkað. Það er því spádómur margra efnahagssérfræðinga, m. a. hins kunna danska sérfræðings Thorkil Kristensens, að eftir þá ringulreið, sem hefur ríkt að undanförnu á alþjóðlegum peningamarkaði, verði auðveldara að afla lánsfjár en verið hefur. Spurningin hlýtur hins vegar fyrst og fremst að vera sú hvort við megum taka svo mikið af erlendum lánum, hvort við séum komin að hámarki þess sem sé efnahagslega þorandi að taka af erlendum lánum.

Ég vil segja það hér að ég tel að ákaflega erfitt sé að fullyrða hvar sé þakið í sambandi við erlendar lántökur nú. Ég hef enn ekki fengið neitt töfraorð, neitt lykilorð um það hvað þessi þjóð geti leyft sér að taka af erlendum lánum, en hitt veit ég, að erlend lán, sem íslendingar hafa tekið, eru hlutfallslega miklu minni en fjölmargar aðrar þjóðir hafa tekið. Oft er reynt að mæla þetta í hlutfallinu milli greiðslubyrði af erlendum lánum annars vegar og útflutningstekna þjóðarinnar hins vegar. Í því sambandi má upplýsa að nú um nokkurt árabil hefur þetta hlutfall verið 10–11%. Við höfum sem sagt orðið að greiða af útflutningstekjum okkar u, þ. b. 10–11% bæði í afborganir og vexti af erlendum lánum. En rétt er að upplýsa að þetta hlutfall hefur oft verið miklu, miklu hærra. Árið 1968 var þetta hlutfall 15.1%, árið 1968 var þetta hlutfall 16.7%. Nú er að vísu útlit fyrir að þetta hlutfall fari vaxandi vegna þess að við höfum tekið talsvert mikið af erlendum lánum á undanförnum árum. Við höfum fengið í hendur áætlanir hagfræðideildar Seðlabankans um það hvað þetta hlutfall muni vaxa á næstu árum og óneitanlega er þar um talsvert mikla hækkun að ræða. Ég vil hins vegar fullyrða að þar er um ákaflega hæpna áætlun að ræða, fyrst og fremst vegna þess að gert er ráð fyrir ákaflega hægum vexti í aukningu útflutningstekna. Það er gert ráð fyrir að útflutningstekjur vaxi aðeins um 5% á ári sem er í raun og veru alls ekki líklegt ef tekið er tillit til hinnar alþjóðlegu verðbólgu og hinnar alþjóðlegu verðþróunar sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil einnig segja það að miðað við þær gífurlega miklu arðbæru fjárfestingar, sem þjóðin hefur lagt í á undanförnum árum, bæði með hinum miklu togarakaupum og miklu framkvæmdum í orkumálum og á mörgum öðrum sviðum, er ekki líklegt að sú fjárfesting muni skila sér jafnhægt og þarna er greinilega gert ráð fyrir. En hvað um það, það má hins vegar vel vera að erlend lán eigi eftir að hækka allverulega á næstu árum og að greiðslubyrðin af þeim eigi eftir að þyngjast meira og verða meiri en verið hefur nú um nokkurt skeið. Hitt leyfi ég mér að fullyrða, að á miklum verðbólgutímum er augljóslega hagstætt fyrir íslensku þjóðina að hafa verið dugleg að fjárfesta í arðbærum atvinnutækjum á undanförnum árum og geta notið þeirrar fjárfestingar með aðstoð lána sem rýrna að verðgildi á ári hverju. Um þetta gilda að sjálfsögðu nákvæmlega sömu lögmál og gilda í þjóðfélaginu sjálfu, að það er hagkvæmt á verðbólgutímum að fjárfesta mikið og þá kannske um leið að skulda talsvert á móti.

Þá miklu takmörkun á útlánum fjárfestingarlánasjóðanna, sem við stöndum nú frammi fyrir, og ekki þá síst meðferðina á Byggðasjóði, eins og ég hef hér lýst henni, verður að sjálfsögðu að skoða í ljósi þess að ríkisstj, fyrirhugar að leggja 9 000 millj. ísl. kr. til byggingar og rekstrar járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Fjárfestingin í heild er að vísu miklu meiri, nálgast 20 þús. millj., en hér er aðeins verið að nefna fé ríkissjóðs. Þetta fé verður ríkissjóður að taka að láni erlendis og þá er ekki verið að hugsa um hvort greiðslubyrði af þessum erlendu lánum muni verða mikil eða ekki. Ég vil minna menn á hversu gífurlegir fjármunir hér eru á ferðinni, að 9 000 millj. eru þrefalt það fé sem veitt var samanlagt úr Iðnlánasjóði, Stofnlánasjóði landbúnaðarins, Framkvæmdasjóði og Fiskveiðasjóði á s. l. ári, 9 000 millj. Þessu til viðbótar er svo ætlunin að eyða 500 millj. í hafnargerð við Grundartanga. Ég þarf ekki að minna á að þessar framkvæmdir munu augljóslega valda stórfelldri röskun í byggðaþróun hér á landi og þær koma til viðbótar þeim gífurlegu fjárfestingum sem boðaðar hafa verið á Keflavíkurflugvelli, en þar er ætlunin að fjárfesta 5 800 millj. kr. í nýjum framkvæmdum. Þetta er sem sagt byggðastefna Sjálfstfl. og um leið Framsfl. í reynd.

Áður en ég hverf frá fjárfestingarmálunum vil ég nefna þær till. sem fyrir liggja um fjáröflun til orkumála. Ég held að allir geti verið sammála um að brýnasta verkefnið, sem við íslendingar eigum kost á að ráðast í, er að hraða eins og nokkur kostur er að olíuhitun verði útrýmt. Engar framkvæmdir í landinu eru jafnarðvænlegar og framkvæmdir í orkumálum eins og nú stendur á. En sú fjáröflun og þær framkvæmdir, sem ráðgerðar eru í frv. því, sem hér er til umr., eru bersýnilega ónógar. Ég tel það furðu mikla að í upptalningunni um framkvæmdir í orkumálum skuli ekki vera minnst einu einasta orði á stofnlínur frá Suðurlandi til Norðurlands ellegar undirbúning að stofnlínum frá Norðurlandi til annars vegar Vestfjarða og hins vegar Austurlands. Án þess að orðlengja það frekar, þá er það ein af þeim till. sem ég hef flutt á þskj. 511, að 1000 millj. kr. til viðbótar verði varið til þessara mása. Það tel ég algert lágmark.

Ég sný mér svo að skattamálunum enda þótt ég þurfi ekki að vera margorður um þá hlið þessa frv. Ég vil hins vegar minna á að það er fölsun að tala um að hér sé um að ræða 2 000 millj. kr. skattalækkun — það er hrein fölsun. Í þeirri tölu er lækkun á útsvarsbyrði tekin með, 360 millj., en við útreikninginn er þá ekki tekið tillit til þess að gert er ráð fyrir því að útsvör verði 11% á þessu ári í staðinn fyrir 10% á liðnu ári. Sveitarfélögum almennt var bannað á s. l. ári að hækka útsvörin og þau voru því 10% almennt, að vísu að viðbættu 1% aukagjaldi, sem ekki kom sköttunum við, en átti þó að falla niður nú. En hér er um að ræða raunverulega hækkun á útsvörum og það er því hrein fölsun að tala um 2 000 millj. í þessu sambandi.

Áður en ég vík frekar að skattahlið frv. vil ég leggja á það mikla áherslu að við Alþb.-menn erum algerlega andvígir þeirri samdráttar- og niðurskurðarstefnu í atvinnu- og framkvæmdamálum sem fram koma í þessu frv. Við teljum illt að sjá hvernig fyrirhugað er að skera raunverulega niður fjáröflun til fjárfestingarlánasjóðanna. En hitt er þó langtum verra, að gert er ráð fyrir 3 500 millj. kr. niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs sem sýnt er að koma mun niður á verklegum framkvæmdum víðs vegar um land. Það er því till. okkar að niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs verði langtum minni, þ. e. a. s. aðeins 1500 millj., og við leggjum á það áherslu, eins og ég gat um við 1. umr. málsins, að um verði að ræða eingöngu lækkun á almennum rekstrarútgjöldum, en þess verði vandlega gætt að lækkun útgjaldanna hafi engin áhrif á fjárveitingar til verklegra framkvæmda né heldur á framlög til félagsmála eins og fram kemur í 1. brtt. sem ég ber fram á þskj. 511. En jafnframt er það till. okkar að tekna á móti þeim skattalækkunum, sem frv. gerir ráð fyrir, verði aflað á allt annan hátt en frv. gerir ráð fyrir. Við viljum í fyrsta lagi hækka skattstigana þannig að jaðarskattur geti orðið 45% á mjög háum tekjum. Þær tekjur eru svo háar að jafnvel vesælir þm. mundu ekki ná að komast upp í þann stiga og eru þeir þó af mörgum taldir býsna tekjuháir. Við gerum einnig ráð fyrir því að til sé jaðarskatturinn 50% á enn hærri tekjum eins og nánar kemur fram í 3. brtt. á þskj. 511.

Í öðru lagi gerum við ráð fyrir því að fyrningaákvæðum skattalaga verði verulega breytt þannig að ekki verði um að ræða flýtifyrningaheimildir ellegar heimildir til hækkunar á fyrningum af völdum verðhækkunarstuðuls. Í þessu sambandi er rétt, að láta þess getið að ríkisstj. virðist hafa komist. að þeirri niðurstöðu að rétt væri — til að ganga ofurlítið til móts við háværar kröfur í þjóðfélaginu um að þessar fáránlegu fyrningareglur séu teknar til endurskoðunar — að ganga til móts við þessar kröfur með því að lækka verðhækkunarstuðulinn um 30%, þannig að hann verði aðeins 70% af því sem áður hafði verið ákveðið. Ég vil hins vegar benda á að þessi lækkun er ákaflega smá í sniðum. Verðhækkunarstuðullinn á lausafé á þessu ári hafði verið ákveðinn 70% og með því að taka aðeins 70% af því til greina verður augljóslega um að ræða verðhækkunarstuðul upp á 49%. Þetta hefur það í för með sér að fyrningar geta ekki orðið hæstar 31.5% á lausafé eins og ella hefði verið, heldur geta þær nú orðið hæstar 28.5%, lækkunin er nú ekki meiri en þetta. Það er aftur á móti okkar till. að aðrar fyrningar verði ekki leyfðar á þessu ári en þær sem leiðir af almennum, venjulegum fyrningareglum eins og þær voru allt. fram til ársins 1971, þ. e. a. s. af lausafé 15%.

Um frv. að öðru leyti þarf ég ekki að vera sérlega margorður. Ég tel að hækkun dráttarvaxtanna sé ískyggilega mikil. Þar er um að ræða að ef maður hefur ekki staðið skil á skatti mánaðamótin júní-júlí eins og vera ber, þá á hann á hættu að öll upphæðin, sem hann skuldar í skatta, geti numið nokkrum hundruðum þús. kr., lendi í 24% dráttarvöxtum — 24% vöxtum á ári. Ég held að það sé svo augljóst sem verða má að það verði býsna margir sem eiga erfitt með að borga skattana sína á þessu ári og að ekki sé á þau vandamál bætandi með því að gera dráttarvextina svo óbærilega sem þessar reglur hljóta að leiða af sér.

Ég mun ekki greiða atkv. gegn flugvallaskattinum vegna þess að ég tel að hann eigi fyllsta rétt á sér, en hefði þó talið eðlilegra að ákvæði hefði verið um það í frv. að flugvallaskatturinn rynni til flugvallaframkvæmda og að hann kæmi þá fram sem viðbót við það fé sem varið hefur verið til flugmála í landinu því að okkur er öllum ljóst að einmitt á sviði flugmála er þörf á miklum framkvæmdum og miklu fjármagni. En því miður vantar öll slík ákvæði og er ekki annað að sjá en þessi flugvallaskattur eigi aðeins að verða almennt eyðslufé fyrir fjmrh. til hvers konar þarfa. Ég vil hins vegar segja það að ég hefði talið að skattur á ferðagjaldeyri hefði að mörgu leyti verið eðlilegri og þar hefði verið hugsamlegt fyrir ríkissjóð að ná miklu hærri upphæðum á sanngjarnari hátt en hægt. er að gera með flugvallaskattinum.

Um skyldusparnaðinn get ég verið fáorður. Ég tel að hann eigi fyllsta rétt á sér og sé mjög hóflegur. Mér virðist að hann sé miðaður við mjög há tekjumörk og að hann muni því verða léttbær á mönnum með hátekjur. Hitt er annað mál, að ég hef áður varað við því að ríkið sé að taka lán í stórum stíl frá þjóðfélagsþegnunum á allra óhagstæðustu kjörum sem hugsanlegt er að fá. Þessar lántökur fara mjög vaxandi með ári hverju eins og kunnugt er, þessi svonefndu verðtryggðu lán, og ég óttast að þessi verðtryggðu lán muni geta valdið ríkissjóði stórfelldum erfiðleikum þegar fram liða stundir. Og mér sýnist, að sama máli muni gegna um þessi skyldusparnaðarlán og önnur lán sem tekin hafa verið af þessu tagi.

Um þær till., sem ég hef lagt fram við 2. umr. og ég hef ekki nú þegar vikið að, þarf ég ekki að fara mörgum orðum.

2. brtt. er sú að frádráttur vegna vinnu eiginkonu bónda við búrekstur skuli aldrei nema lægri fjárhæð en 268 þús. kr., enda gegni hún ekki öðrum launuðum störfum. Hér er raunverulega um það að ræða að verið er að flytja nákvæmlega sömu brtt. og við Helgi Seljan og Stefán Jónsson höfum áður flutt við tekjuskattslögin. Eins og kunnugt er eru 50% af launatekjum eiginkonu frádráttarbær til skatts. En þetta gildir ekki um eiginkonur bænda. Þær eru settar í sama flakk og eiginkonur atvinnurekenda almennt og frádráttur þeirra fer því ekki upp fyrir 1/4 af persónufrádrætti hjónanna. Vegna þess að kunnugt er að eiginkonur bænda vinna mjög mikið að búrekstrinum þykir okkur þetta ósanngjarnt og óeðlilegt og því höfum við borið fram þá till. að frádrátturinn verði helmingur af persónufrádrætti hjóna, en það er sú upphæð sem fram kemur í till., 268 þús. kr.

Við höfum lagt fram till. um að heildarupphæð barnabóta greiðist til framfæranda barns, 20 þús. kr. með hverju barni, og að upphæðin breytist í samræmi við skattvísitölu, en eftirstöðvum barnabóta, þegar dregnar hafa verið á0 þús. kr. frá þeim, megi verja til greiðslu opinberra gjalda eins og segir í frv. Sjálfsagt þarf ég ekki að skýra þessa brtt. í löngu máli, en hún er fram borin með hliðsjón af því að ekki er nærri alltaf að framfærendur barns búi saman og eins getur verið að þótt framfærendur barns búi saman hafi lengi tíðkast að annar framfærenda, t. d. faðirinn, greiði skattinn meðan hitt framfærenda, t. d. móðirin, taki við fjölskyldubótunum. Geta legið þar til grundvallar fjölmargar sérstakar og sérstæðar heimilisástæður sem gera það að verkum að ekki er heppilegt og ekki sanngjarnt að hverju sinni megi taka allar barnabæturnar upp í hugsanlega ógreidda skatta sem t. d. heimilisfaðirinn hefur undir flestum kringumstæðum aðallega unnið til og stendur því skil á. Ef sá aðili, sem hefur aðaltekjur heimilisins, er vanskilamaður, greiðir ekki skattana sína og barnabæturnar því ævinlega teknar upp í skattana, þá getur þar verið um að ræða mjög alvarlega breytingu frá því sem verið hefur, að móðirin hefur getað sótt fjölskyldubæturnar til umboðsmanns Tryggingastofnunarinnar og ekki hefur mátt taka þær upp í skatta nema með heimild viðtakanda. Við sem sagt leggjum til að teknar verði undan 20 þús. að lágmarki sem ekki megi skuldjafna sjálfkrafa upp í opinber gjöld.

Ég vek á því athygli að þær tvær till., sem ég nú hef síðast gert að umtalsefni, eru hvorug ýkja stór í sniðum hvað fjármagn snertir, en snerta báðar vandamál sem ákveðnir þjóðfélagshópar standa frammi fyrir. Ég vil því mjög svo mælast til þess að hv. meiri hl. í þessari d. fengist til að skoða þessar till. af fullri sanngirni og meta það hvort ekki væri hægt að taka þær til greina. Hið sama gildir um mjög svo sjálfsagða og ágæta till. sem hv. þm. Geir Gunnarsson hefur leyft sér að flytja um það að bráðabirgðaákvæði verði bætt við og samkv. því fari fram fullgild rannsókn á því hve útgjöld vegna barna eru mikil þannig að unnt sé að taka þessi mál til endurskoðunar og ákveða þessar upphæðir á næsta þingi. Þessi till. kæmi áreiðanlega að mjög miklu gagni ef samþ. yrði. Vil ég því mjög eindregið mælast til þess að hún verði tekin til athugunar, ef ekki nú við 2. umr., þá við 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég tek undir það sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði í lok sinnar ræðu: Skattamálin eru furðulega seint á ferðinni hér í þingi að þessu sinni. Till. til breyt. á skattamálum eru ótrúlega seint fram komnar og hér er um stórfellt hneyksli að ræða, að við skulum vera að afgr. skattamál í þinginu í lok aprílmánaðar.

Ég hef áður látið þess getið að með flutningi þeirra brtt., sem ég hef hér gert grein fyrir, erum við Alþb.-menn að freista þess að fá fram afgerandi breytingar á þessu frv. En þar sem við litum svo á að niðurskurðarheimildin, sem í frv. er, muni hafa háskalegar og örlagaríkar afleiðingar fyrir fjöldamargar framkvæmdir, óhjákvæmilegar framkvæmdir víðs vegar um land, þá munum við, ef brtt. okkar verða felldar, sjá okkur tilneydda, þó að við séum samþykkir ýmsum efnisatriðum frv., að greiða atkv. gegn frv.