25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3296 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

223. mál, almenningsbókasöfn

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Fyrir skömmu fylgdi hæstv. menntmrh. úr hlaði frv. til 1. umr. um almenningsbókasöfn. Það má ekki minna vera en að þessu frv. sé fagnað við fyrstu sýn. Á undanförnum árum og þingum hefur oft verið spurt eftir frv. af þessu tagi. Það hefur lengi verið beðið eftir ákvörðunum á þessu sviði.

Fyrstu lög um almenningsbókasöfn voru sett árið 1955. Þau voru endurskoðuð, aukin og endurbætt árið 1963, lög nr. 22 frá 1963, og hafa gilt fram á þennan dag óbreytt að efni og formi. Á síðasta Alþ. kom fram frv. til l. um almenningsbókasöfn, en það varð ekki útrætt. Það er fróðlegt að bera þessi tvö frv. saman, frv. frá í fyrra og frv., það sem nú hefur verið lagt fram. Frv. það, er lagt var fram í fyrra, var 36. gr. samtals. Þar var rætt um miðbókasöfn, rætt um að í umdæmi hverra landshlutasamtaka sveitarfélaga skuli vera eitt miðbókasafn. Að öðru leyti virtist frv. vera byggt upp að töluverðu leyti á hugmyndinni um landshlutasamtök sveitarfélaga. Ég held að ýmsir hafi verið óánægðir með það frv., þ. á m. Bókavarðafélag Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga, eftir því sem mér er tjáð. Það frv., sem nú er lagt fram, er aðeins 14 gr. Það er rammalöggjöf og virðist vera grundvallað á því skipulagi sem nú ríkir í skiptingu landsins í bæjar- og sýslufélög. T. d. er rætt á bls. 4, um 8., 9. og 10. gr. að rétt þyki að tengja sýslusjóði við rekstur og uppbyggingu safnanna. „Á undanförnum árum,“ segir þar, „hafa sumar sýslunefndir reynst héraðsbókasöfnum miklir máttarstólpar og allvíða eru sýslur eignaraðilar að góðum söfnum og bókhlöðum.“

Það er að sjálfsögðu oft álitamál hvað eigi að hafa frv. til l. ítarleg, en ég hygg þó að oftast fari betur á því að hafa lagafrv. stutt, en setja þeim mun fleiri ákvæði í reglugerð sem skipa þarf með ákvæðum á annað borð. Ég geri ráð fyrir því að um þetta frv., sem nú hefur verið lagt fram, séu skiptar skoðanir að einhverju leyti eins og jafnan er. En mér sýnist full ástæða til þess að fagna því þegar á þessu stigi og skoða það nánar. Ég tel í raun og veru og vil láta það koma fram að ekki hafi verið mjög rík ástæða til að gera meginbreyt. á löggjöf þeirri sem nú er í gildi. Þau lög eru fyrst og fremst úrelt hvað fjárframlög varðar og svo er um fleiri lög sem nú gilda á landi voru. Þetta hefur að sjálfsögðu háð mjög allri starfsemi bókasafna að undanförnu, sérstaklega í dreifðum byggðum og kauptúnum. En eins og við vitum er það algengt fyrirbrigði að kenna löggjöf um ef eitthvað skortir á um framkvæmd, t. d. fjárveitingar.

Ráðandi stefna á undanförnum árum í þessum efnum hefur verið sú að efla héraðsbókasöfnin svo að þau verði fær um að annast bókasafnsþjónustu í dreifbýli í vaxandi mæli. Ég tel að þessi starfsemi hafi reynst heilladrjúg þar sem söfnin eru einhvers megnug og beri því að hraða þessari þróun eftir mætti á þeim grundvelli sem byggt hefur verið á til þessa. Sum héraðsbókasöfn hafa þegar reynst hlutverki sínu vaxin, en nauðsynlegt er að renna styrkari fjárhagsstoðum undir starfsemi þeirra. Það er fyrst og fremst þetta, hvað ákvæði l. frá 1963 eru orðin úrelt hvað fjárframlög varðar, sem valdið hefur því að mörgum hefur þótt brýna nauðsyni bera til að endurskoða þessa löggjöf.

Þetta frv. fer að sjálfsögðu til n. og verður þar skoðað og athugað frá öllum hliðum og ætla ég því ekki að lengja þessa umr., en benda á að lokum að mestu máli skiptir að sjálfsögðu að l. reynist þannig úr garði gerð að þau stuðli að eðlilegri þróun þessara mála í framtíðinni.