25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins samkv. l. nr. 2 frá 1975 og um ráðstafanir vegna hækkunar brennsluolíuverðs til fiskiskipa. Talið var að gengisbreytingin frá 14. febr. s. l. hefði verið nægileg til að skila sjávarútveginum í heild þolanlegri rekstrarstöðu. Hins vegar hefur öllum verið ljóst að eftir stóð óleystur vandi veiðigreinanna þrátt fyrir fiskverðshækkunina sem gerð var fyrir gengisbreytingu, en með henni var einkum tekið mið af því að tryggja sanngjarna hækkun á aflahlut sjómanna til samræmis við breytingar á tekjum annarra stétta og laga verðhlutföll milli fisktegunda og stærðarflokka að markaðsaðstæðum. Áætluð meðalverðhækkun fiskverðs er talin vera 14.5%, þar af fær bátaflotinn um 16.1%, minni skuttogarar 12.9% og stærri skuttogarar 10.3%. Í þessu sambandi vil ég geta þess að fiskverð hækkaði um 11% 1. sept. á s. l. ári, en hafði þá verið óbreytt frá 1. jan. 1974. Um langt skeið hafa fiskkaupendur orðið að greiða viðbótarverð á fyrsta flokks línufisk og var það ákveðið 75 aurar á kíló frá 1. jan. 1974, en hækkaði í 85 aura 1. sept. á s. l. ári og 1 kr. frá 1. jan. 1975. Á móti þessu hefur ríkissjóður greitt 40 aura á kg og hefur sú greiðsla verið óbreytt frá 1. jan. 1972, en var hækkuð um 50% eða í 60 aura frá síðustu áramótum.

Eins og áður er sagt var óleystur vandi hjá veiðigreinum þar eð gengisbreytingin olli miklum kostnaðarhækkunum hjá útgerðinni, en auk þess höfðu viðskiptakjör útvegsins breyst mjög til hins verra vegna stórhækkaðs olíuverðs og mikilla hækkana á öðrum rekstrarvörum útgerðarinnar.

Í árslok síðasta árs var verð á gasolíu til íslenskra fiskiskipa 5.80 kr. á lítra, en hækkaði í 8.20 kr. hinn 11. jan. s. l. eða um 2.40 kr. á lítra. Samsvarandi hækkanir urðu á öðrum tegundum olíu. Þessi hækkun hefði kostað útveginn um 387 millj. kr. á ári. Enn hækkaði olían hinn 19. febr. og þá í 11.70 kr. lítrinn til fiskiskipanna og hefði það kostað útveginn 564 millj. kr. Alls hefðu þessar tvær hækkanir á olíu valdið útveginum um 950 millj. kr. kostnaðarauka á ári. Með tilvísun til framangreindra atriða er frv. þetta flutt til að bæta hag veiðigreinanna með tekjutilfærslu frá vinnslugreinum og með ráðstöfun gengismunar í þágu útgerðarinnar.

1. gr. frv. fjallar um ráðstöfun gengismunar sem myndaðist vegna ákvörðunar Seðlabankans um breytingu á gengi ísl. kr. og vísa ég í því sambandi til 2. gr. laga nr. 2 frá 1975. Samkv. síðustu áætlun Seðlabankans, sem birt er með aths. þessa frv., er gert ráð fyrir að þessi gengismunur muni nema samtals 1644 millj. kr., en samkv. þessari gr. frv. er ráðstafað 1627 millj. kr. þannig að segja má að teflt sé á tæpasta vað. Heildargengismunurinn er um 1844 millj. kr. eins og kom fram í aths. með þessu frv., en samkv. ákvæðum 2. gr. l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytt gengi krónunnar eru greiddar um 200 millj. kr. vegna hækkaðs flutningskostnaðar á þær afurðir, sem fluttar eru út og greiddar á hinu eldra gengi, og enn fremur til að mæta skakkaföllum sem áætluð eru eins og segir í aths. frv.

Samkv. a-lið 1. gr. er lagt til að verja 75 millj. kr. til lífeyrissjóða sjómanna til að styrkja getu þeirra til að greiða lífeyri þeim sjómönnum sem lífeyrisgreiðslna eiga að njóta á þessu ári og næstu árum. Í sambandi við ákvörðun fiskverðs í febr. og setningu laga um ráðstafanir vegna breytingar á gengi ísl. kr. lýsti ríkisstj. því yfir að hún mundi beita sér fyrir því að 75 millj. kr. af gengishagnaði skv. 2. gr. l. yrði varið til eflingar lífeyrissjóðum sjómanna, einkum til þess að styrkja getu þeirra til að greiða lífeyri þeim sjómönnum, sem lífeyrisgreiðslna eiga að njóta á þessu ári og næstu árum, og til annarra umbóta á lífeyrisrétti sjómannastéttarinnar.

Sjómenn eru nú að miklum meiri hl. sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði sjómanna. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 1958 og var upphaflega eingöngu fyrir togarasjómenn en síðar öðluðust undirmenn á farskipum einnig aðild að honum. Árið 1969 sömdu bátasjómenn og útvegsmenn um lífeyrisréttindi til handa bátasjómönnum frá ársbyrjun 1970 að telja og var þá lögum sjóðsins breytt með tilliti til aðildar bátasjómanna. Árið 1969 varð enn fremur um það samkomulag milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda að verkafólki í landi skyldi almennt tryggð aðild að lífeyrissjóðum. Í nokkrum byggðarlögum og landshlutum kusu bátasjómenn að eiga aðild að nýjum sjóðum, er þá voru stofnaðir, í stað þess að verða sjóðsfélagar í lífeyrissjóði sjómanna og voru af þeirri ástæðu sett ákvæði um undanþágur frá þátttöku í þeim sjóði. Eru nú 3 stórir byggðarlagasjóðir auk nokkurra smærri sjóða með bátasjómenn innan sinna vébanda, þ. e. Lífeyrissjóður vestmanneyinga, Lífeyrissjóður vestfirðinga og Lífeyrissjóður Austurlands. Höfuðvandamál allra þessara lífeyrissjóða eins og raunar íslenskra lífeyrissjóða almennt, er að sjálfsögðu verðbólgan. Með lögum nr. 49/1974, um lífeyrissjóð sjómanna, var kveðið á um nýjan grundvöll lífeyrisréttinda frá 1. jan. 1972 að telja og sjálfkrafa hækkanir næstu tvö ár, 1973 og 1974. Eftir það skyldu ákvarðanir um áframhaldandi hækkanir teknar með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins og þeirri aukningu skuldbindinga sem hækkanirnar hefðu í för með sér. Hefur hækkun fyrir árið 1975 verið ákveðin í samræmi við till. sjóðsstjórnar. Í reglugerðum flestra lífeyrissjóða verkalýðsfélaga, sem hafa sjómenn innan vébanda sinna, er gert ráð fyrir takmörkuðum og skilorðsbundnum verðbótum á lífeyrisgreiðslur er ákveðnar skulu fyrir tiltekið tímabil í senn með hliðsjón af fjárhagsstöðu hlutaðeigandi sjóðs annars vegar og skuldbindingum þeim, sem af lífeyrishækkun leiðir, hins vegar. Hefur verið gert ráð fyrir að ákvarðanir um slíkar hækkanir skuli í fyrsta sinn teknar á yfirstandandi ári.

Áður hefur gengishagnaði tvívegis verið varið til stuðnings lífeyrissjóðum sjómanna, þ. e. 25 millj. kr. með lögum nr. 52 frá 1974 og 15 millj. kr. með lögum nr. 106 frá s. l. ári. Af þessum 40 millj. hefur Lífeyrissjóður sjómanna fengið rúmlega 77%, áðurnefndir þrír byggðarlagasjóðir 19%, en afgangurinn hefur skipst á milli fjögurra smærri sjóða. Þau framlög, sem hér um ræðir, vega ekki þungt á móti þeirri verðrýrnun höfuðstóls sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir af völdum verðbólgunnar undanfarin ár. Þeim er hins vegar ætlað að tryggja að greiðslur til lífeyrisþega, sem enn eru tiltölulega fáir, geti hækkað með hækkandi kauplagi og verði þannig að hluta verðtryggðar um nokkur næstu ár a. m. k., eða svo lengi sem framlögin endast. Frambúðarlausn vandamála lífeyrissjóðanna tryggja framlög þessi að sjálfsögðu ekki. Almennur eftirlaunaaldur hjá Lífeyrissjóði sjómanna er nú 65 ár, en heimilt er að hefja töku lífeyris fyrr að uppfylltum tilteknum skilyrðum um lengd starfstíma á sjó. Af hálfu sjómanna hefur verið lagt kapp á frekari lækkun eftirlaunaaldurs og er einkum átt við þetta atriði í yfirlýsingu ríkisstj. þegar minnst er á aðrar umbætur á lífeyrisrétti sjómannastéttarinnar.

Til fróðleiks skal ég geta þess að þessar 40 millj., sem hafa verið til skipta til að bæta stöðu lífeyrissjóða sjómanna, hafa skipst þannig að hinn almenni lífeyrissjóður sjómanna hefur fengið 30 millj. 976 þús., Lífeyrissjóður Bolungarvíkur tæpa hálfa millj., Lífeyrissjóður vestfirðinga 2 millj. 656 þús., Lífeyrissjóður verkamanna á Hvammstanga 4 þús., Lífeyrissjóður stéttarfélaga í Skagafirði 164 þús., Lífeyrissjóður verkalýðsfélaga á Norðurl. v. 724 þús., Lífeyrissjóður Austurlands 2 millj. 288 þús. og Lífeyrissjóður vestmanneyinga 2 millj. og 700 þús.

Þá er gert ráð fyrir því skv. b-lið þessarar 1. gr. að 950 millj. kr. verði varið til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda. Gert er ráð fyrir að öll gengistryggð lán verði bætt, en það þýðir að lán Fiskveiðasjóðs, sem eru gengistryggð að hluta, munu njóta þessara bóta. Skv. athugun, sem gerð hefur verið, mun láta nærri að heildarupphæð þeirra lána, sem bætt verða skv. þessari gr., séu um 16 þús. millj. kr., en skv. því mundu gengisbæturnar verða tæp 6% af stofnupphæðinni. Talið er að eigendur fiskibáta muni fá um 41% af heildarupphæðinni en eigendur togara um 59%. Gert er ráð fyrir að þessar bætur verði greiddar á 3 árum frá 14. febr. s. 1. að telja og að Fiskveiðasjóður Íslands annist greiðslurnar í gegnum sérstaka stofnfjárreikninga. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að þessum bótum veði þinglýst sem kröfum á þau skip sem veðsett eru til tryggingar viðkomandi láni, — kröfum sem ekki verði innheimtar nema við sölu skipanna. Verður þetta að teljast eðlileg ráðstöfun og munu verða settar nánari reglur hér að lútandi í samvinnu við Fiskveiðasjóð.

Ég vil geta þess hér að lán Fiskveiðasjóðs vegna erlendra skipakaupa voru 181.7 millj. kr. á árinu 1972, en 1110 millj. kr. á árinu 1973, 1691 millj. kr. á s. l. ári og þau eru áætluð að vera um 2 400 millj. kr. á yfirstandandi ári. Sömu ár voru lán vegna innlendrar skipasmíði 538 millj. 1972, 615 millj. á árinu 1973, 428 millj. á árinn 1974, en nú eru áætluð lán á yfirstandandi ári vegna innlendrar skipasmíði hvorki meira né minna en 1120 millj. kr. Heildarútlán Fiskveiðasjóðs þessi ár voru 1263 millj. árið 1972, 2 milljarðar 249 millj. 1973 og 2 milljarðar 661 millj. á 5. 1. ári, en eru áætluð tæpar 4000 millj. á þessu ári.

Samkv. þessum lið, b-lið, er enn fremur gert ráð fyrir því að sjútvrn. geti ráðstafað allt að 400 millj. kr. af heildarfjárhæðinni til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja skv. nánari reglum sem sjútvrn. setur. Er þetta ákvæði sett til að auðvelda úrvinnslu sem fram fer hjá bankakerfinu í því skyni að bæta lausafjárstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi, en eins og kunnugt er eru sams konar ákvæði í lögum nr. 106 sem afgr. voru í des. á s. l. ári.

Í sambandi við umrædda úrvinnslu hjá bankakerfinu vil ég geta þess að 15. þ. m. höfðu verið samþ. samtals 84 lánveitingar, samtals að upphæð 1005 millj. kr., og samfara því er reiknað með að fjárfestingarlánasjóðir veiti gjaldfrest á gjaldföllnum afborgunum samtals að upphæð 95 millj. kr. þannig að búið er að ráðstafa þegar um miðjan apríl 1100 millj. kr. til að bæta greiðslustöðu í sjávarútvegi. Í framkvæmd er stefnt að því að lán til skamms tíma og veltufjármunir standist á hjá viðkomandi fyrirtækjum. Það hefur valdið mér vonbrigðum hve seint þetta mál hefur unnist og hve afgreiðsla samþykktra lána hefur dregist hjá viðskiptabönkunum, en um þessi atriði verður enginn einn sakaður, þar er um margar samverkandi ástæður að ræða, en þessum málum verður flýtt eins og tök eru á.

Skv. e-lið þessarar greinar er gert ráð fyrir að ráðstafa 300 millj. kr. sem óafturkræfu framlagi til Fiskveiðasjóðs Íslands. Fénu á að ráðstafa til að greiða fyrir lánveitingum sjóðsins til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskiskipum, en þörfin á þeirri lánafyrirgreiðslu er mjög vaxandi. Er þess vænst að þar með verði unnt að afgreiða slík lán jafnóðum og lánshæfar umsóknir berast sjóðnum, en s. l. 3 ár hafa útlán Fiskveiðasjóðs á þessu sviði verið þessi: 1972 198.7 millj. kr., 1973 192.8 millj. kr., 1974 211.3 millj. kr. og á þessu ári er áætluð fjármagnsþörf um 400 millj. kr.

Skv. d-lið þessarar gr. á að bæta eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir ef skip þeirra eru dæmd ónýt, enda sé tjónið ekki bætt með öðrum hætti. Hér er um gamla hugmynd að ræða, þ. e. um ellisjóð fiskiskipa eins og komist er að orði í bréfi Fiskveiðasjóðs á s. l. ári í sambandi við annað mál, en hér er um fyrsta framlag að ræða í þessu skyni, — framlag sem lagt yrði í sérstakan sjóð sem verður ætlað að sinna fyrrgreindu hlutverki og jafnvel því að kaupa skip sem fyrir aldurs sakir væru talin þjóðhagslega óhagkvæm til útgerðar. Um ráðstöfun þessa fjár verða höfð samráð við hlutaðeigandi samtök og Fiskveiðasjóð.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minna á að í maí 1958 var stofnuð deild í Samábyrgð Íslands á fiskiskipum um tryggingar á bráðafúa í tréskipum og eigendur slíkra skipa skyldaðir til að tryggja skip sín gegn þessu tjóni. Fyrstu 10 árin voru komin 304 tilfelli af þess konar skemmdum og námu bótagreiðslur 213 millj. kr. Nú eru um 400 skip tryggð gegn bráðafúa. Þetta sýnir vel þörfina sem var á þeim tryggingum, og mér segir svo hugur að eins fari í sambandi við þá sjóðstofnun sem hér: er fyrirhuguð en auðvitað í allt of litlum mæli:

Til Olíusjóðs fiskiskipa er gert ráð fyrir að verði varið 80 millj. kr. skv. e-lið þessarar gr. til að jafna greiðsluhalla sjóðsins til 15. febr. s. l., en þá er reiknað með að olíuhækkunin 11. jan. verði greidd niður þannig að olíuverð til íslenskra fiskiskipa verði hið sama og það var fyrir áramótin eða 5.80 á gasolíulítra og tilsvarandi verð á svartolíu. Olíusjóðurinn var stofnaður með brbl. nr. 87/1974, sbr. 4. gr., en hlutverk sjóðsins er, eins og öllum er kunnugt, að greiða niður verð á brennsluolíu til íslenskra fiskiskipa. Tekjur sjóðsins koma frá sérstöku útflutningsgjaldi sem er 5% af saltfiski og skreið og 4% af öðrum afurðum og voru þá áætlaðar 1230 millj. kr. miðað við heilt ár. Framan af árinu, eða frá 1. jan. til 31. maí, var ætlunin að leysa olíuvanda íslensku fiskiskipanna með sérstöku loðnuútflutningsgjaldi, sem með brbl. frá 11. jan. 1974 var ákveðið 5% af loðnuafurðum framleiddum það ár, sem reyndist svo fjarri því að duga, m. a. vegna verðfalls á loðnumjöli. Vitað var að greiðslustaða Olíusjóðsins yrði erfið um áramótin síðustu, enda þótt verðlag á olíu yrði óbreytt, en hækkunin 11. jan. gerir það að verkum að þessi greiðsla er óumflýjanleg.

Miðað við óbreytt ástand hefur verið reiknað með að núverandi tekjustofnar Olíusjóðs skiluðu 1500–1550 millj. kr. á ári, en miðað við að greiða olíuna niður í sama verð á s. l. ári, eða 5.80 á lítra og tilsvarandi á svartolíu, er tekjuþörf sjóðsins talin vera um 2500 millj. kr.

Skv. f-lið þessarar gr. er 100 millj. kr. ráðstafað til Tryggingasjóðs fiskiskipa til að bæta greiðslustöðu hans, eins og segir í aths. með frv. Tryggingarupphæð flotans hefur hækkað verulega, eða um 30% frá síðustu áramótum, og gert er ráð fyrir að iðgjaldaprósentan hækki nokkuð. Þrátt fyrir þessar hækkanir er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins muni nægja til greiðslu áætlaðra iðgjaldastyrkja miðað við greiðslugrunn, en þá er í reynd gert ráð fyrir 6 mánaða töf á greiðslu styrkjanna.

Ég vil í þessu sambandi fara nokkrum orðum um greiðslutilhögun sjóðsins. Greiðslureglur til báta voru eins árið 1972 og 1973 þannig að sjóðurinn greiddi staðaliðgjöld skv. ákvörðun iðgjaldanefndar að frádregnum 6% vegna áætlaðra hafnleguendurgreiðslna vegna skipa yfir 100 rúmlestir. Vegna skipa undir 100 rúmlestum greiddi sjóðurinn 94% iðgjalda, þó aldrei meira en nettóiðgjald, þ. e. iðgjald að frádregnum endurgreiðslum vegna hafnlegu og uppistöðu. Enn fremur greiddi sjóðurinn 77% iðgjalda vegna bráðafúatryggingar. Miðað var við að skip hefði fullt úthald 270 daga á ári. Væri úthald skemmra lækkaði greiðslan hlutfallslega. Greiðslureglur voru að mestu þær sömu á s. l. ári, nema hvað ekki er talið til úthaldstímabils þegar bátur er til viðgerðar. Með bréfi sjútvrn., dags. 2. maí 1974, voru greiðslureglur fyrir árið 1974 ákveðnar og þar er ákveðin skerðing, sem snert getur alvarlega þau skip sem lítið afla eða skila litlu aflaverðmæti, og er það veigamesta breytingin frá eldri greiðslureglum. Umrædd skerðingarákvæði eru þess efnis að greiðslur skuli aldrei vera hærri en 10% af aflaverðmæti viðkomandi skips á árinu að greiðslu í stofnfjársjóð meðtalinni. Með þessu ákvæði var ætlunin að skapa aðhald, þannig að bátum með lítið aflaverðmæti en háu iðgjaldi yrði í minna mæli en áður haldið uppi á kostnað hinna sem skila meira aflaverðmæti. Með bréfi rn. frá 11. nóv. s. l. var þetta skerðingarákvæði rýmkað nokkuð og hækkað úr 10 í 15% skv. tilmælum L. Í Ú. og meðmælum stjórnarnefndar Tryggingasjóðs.

Til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, deildar fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja, er ætlað að verja 50 millj. kr. skv. g-lið þessarar 1. gr. til greiðslu verðbóta vegna loðnumjöls og fiskimjöls á vetrarvertíð 1975, en við ákvörðun loðnuverðs 23, mars s. l. var gefið fyrirheit um að 25 millj. kr. yrði ráðstafað af gengismun til sjóðsins til að verðbæta það mjöl sem framleitt yrði eftir þann tíma. Var það gert til að tryggja framhald veiðanna meðan veiðivon var. Ef það hefði ekki verið gert hefðu þau skip hætt loðnuveiðum 23. mars og því taldi ríkisstj. eðlilegt og rétt að gefa þetta fyrirheit um 25 millj. kr., enda held ég að það hafi alveg ótvírætt borgað sig fyrir þjóðarbúið.

Skv. h-lið þessarar greinar á að verja 10 millj. kr. til rannsókna og styrkveitinga til þeirra fiskiskipaeigenda sem breyta vilja vélbúnaði skipa sinna þannig að þær brenni svartolíu í stað gasolíu. Svartolíunefnd var skipuð af sjútvrn. og hefur hún undir forustu Gunnars Bjarnasonar fyrrv. skólastjóra Vélskólans unnið ötullega að tilraunum og kynningu á notkun svartolíu sem orkugjafa í stað gasolíu í vélar í íslenskum fiskiskipum. S. 1. haust sýndu eigendur japönsku togaranna mikinn áhuga á þessu máli, enda höfðu tilraunir í einum af þessum togurum gefist vel. Félag þessara togaraeigenda óskaði síðan eftir aðstoð rn. til að breyta búnaði allra þessara togara þannig að þeir gætu brennt svartolíu í stað gasolíu, en fullyrt er að þannig megi spara verulegar fjárhæðir í olíunotkun. Ríkisstj. varð við þessum tilmælum og styrkti þessa aðila með 550 þús. kr. á skip úr gengishagnaðarsjóði 1974 til að gera þessar breyt. sem áætlað var að mundu þá kosta um eina millj. á skip. Fiskimálasjóður ákvað síðan að styrkja þessar tilraunir með 250 þús. kr. á skip. Umræddar breytingar hafa þegar verið gerðar á nokkrum þessara skipa og virðast eigendur mjög ánægðir og fullyrt er af kunnáttumönnum, sem fylgst hafa með tilraunum n. og athugunum, að vélarnar muni ekki bíða tjón af þessum sökum. Ýmsir aðrir skipaeigendur hafa nú sýnt þessu máli áhuga og þess vegna er gert ráð fyrir þessari greiðslu.

Með l. nr. 106 frá s. l. ári, f-lið 9. gr., var ákveðið að verja 11 millj. kr. til orlofshúsa sjómannasamtakanna. Var auglýst eftir umsóknum um framlag eða styrki af þessu fé og hafa borist 6 umsóknir frá ýmsum samtökum sjómanna, en þær umsóknir eru nú til athugunar í rn. Ljóst er af þessum umsóknum að mikill áhugi og framkvæmdahugur er í sjómönnum og þess vegna er í i-lið þessarar greinar gert ráð fyrir að 12 millj. kr. til viðbótar verði varið til orlofshúsa sjómannasamtakanna.

Eftirstöðvum gengismunarins, ef einhverjar verða, verður ráðstafað af sjútvrh. í samráði við ríkisstj., eins og alltaf hefur verið gert við þær eftirstöðvar sem hafa orðið af gengismun.

2. gr. þessa frv. fjallar um viðbótarútflutningsgjald sem á að renna í Olíusjóð fiskiskipa. Gjaldið á að reikna af fob-verði sjávarafurða sem framleiddar eru eftir 15. febr. s. l. þannig: 4% af fob-verði frystra afurða, skreiðar og löndunum veiðiskipa erlendis, 6% af fob-verði saltfisks og 2% af fob-verði fiskmjöls, karfamjöls, loðnumjöls, humar- og rækjumjöls, karfa- og síldarlýsis. Undanþegið þessu viðbótarútflutningsgjaldi er lagmeti og þær afurðir sem koma frá hvalveiðum, selveiðum og hrognkelsaveiðum. Með bráðabirgðaákvæði er allt mjöl og lýsi, sem framleitt er fyrir 1. okt. n. k., sömuleiðis undanþegið þessu gjaldi. Byggist það á lélegri afkomu þessara greina svo og því að við verðákvörðun á loðnu frá 16. febr. s. l. var teflt á tæpasta vað.

Skv. aths. með þessu frv. er gert ráð fyrir að tekjuauki Olíusjóðs skv. ákvæðum þessarar gr. muni nema um 1450 millj. kr. á ári og er þá gengið út frá fob-verðmæti að upphæð 33 milljarðar 750 millj. kr. Í þessu sambandi má geta þess að hráefnishlutfallið af þessum, stofni er talið 45% eða um 27% af hlut útgerðarinnar og 18% af hlut sjómanna. Af umræddum 1450 millj. kr. kæmu þá um 798 millj. kr. frá vinnslu, um 391 millj. kr. frá útgerðinni og 261 millj. kr. frá sjómönnum, en öll rennur upphæðin til að bæta hag veiðanna. Vegna áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis vegna mjöl- og lýsisframleiðslunnar má reikna með að þessi stofn lækki um allt að 5 milljarða, en auk þess ná þessi ákvæði ekki til afurða sem framleiddar eru til 15. febr. og reikna verður með að nokkuð af afurðum, sem framleiddar eru eftir þann tíma, hafi verið seldar og greiddar þegar frv. þetta verður orðið að lögum og kemur til framkvæmda. Óvarlegt er því að reikna með að tekjuauki Olíusjóðs verði meiri en áætluð útgjöld, en gert er ráð fyrir að Olíusjóður greiði niður olíuverðið til íslenskra fiskiskipa þannig að þau greiði sama verð og þau greiddu á s. l. hausti, en það eru 5.80 kr. á gasolíulitra og hliðstætt fyrir svartolíu. Eftir þessa breytingu næmi niðurgreiðsla á gasolíuverðinu samtals kr. 14.40 á lítra eða mismuninum á kr. 20.20 og 5.80. Um framkvæmd þessara niðurgreiðslna verða svo sett nánari ákvæði í reglugerð.

Eins og fram hefur komið í því, sem ég hef nú sagt, er ljóst að reiknað er með að umrædd útflutningsgjöld verði innheimt af öllum afurðum, sem framleiddar hafa verið eftir 14. febr. og afreiknaðar verða á nýju gengi, öðrum en þeim sem hafa verið seldar og greiddar áður en frv. þetta verður að lögum. Ég vona að allir, sem hér eiga hlut að máli, sýni skilning varðandi þetta atriði enda þótt óeðlilegur dráttur hafi orðið á að þetta frv. væri lagt fram, — dráttur sem var algerlega óviðráðanlegur.

Í sambandi við bráðabirgðaákvæðin hefur hér að framan verið rætt um 1. lið, að ekki skuli innheimta umrætt viðbótarútflutningsgjald af mjöli og lýsi, loðnu og síldarlýsi, sem framleitt er fyrir 1. okt. n. k. En um hin bráðabirgðaákvæðin vísa ég til aths. með frv., en þar segir um 2. ákvæði til bráðabirgða:

„Við verðlagningu á loðnu til hræðslu á þeirri vertíð, sem nú er nýlokið, var ljóst þegar í upphafi að grípa yrði til innstæðna loðnuafurða í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins: Var þetta afleiðing þess mikla verðfalls sem orðið hafði á loðnumjöli frá síðustu vertíð. Skv. gildandi lögum og reglum Verðjöfnunarsjóðs er ráð fyrir því gert að greiðslur úr sjóðnum eða í hann skuli fara fram þegar framleiðsla verðjöfnunartímabils hefur verið greidd og gjaldeyri skilað. Nú er þannig ástatt að nokkur hluti framleiðslu loðnuvertíðarinnar er óseldur og afskipanir á því, sem selt hefur verið, mun að hluta til dragast fram á síðari hluta ársins. Þetta mun valda framleiðendum verulegum erfiðleikum þar sem beinn vinnslukostnaður, svo sem hráefni, vinnulaun og rekstrarvörur, verður að greiðast þegar við framleiðsluna. Vegna þessara sérstöku aðstæðna þykir rétt að veita heimild til fráviks frá gildandi reglu um greiðslur úr sjóðnum, eins og hér er gert, en það mundi létta nokkuð undir með loðnuverksmiðjunum. Sjóðsstjórnin mun að fengnu samþykki sjútvrh. setja um það reglur hvernig slíkar greiðslur skuli framkvæmdar.“

Um 3. lið í ákvæðum til bráðabirgða segir: „Sú loðna, sem á land var komin 16. febr. s. l. var greidd á eldra verði sem miðast við eldra gengi, og aðföng til vinnslunnar voru að verulegu leyti keypt með sama hætti á eldra gengi fyrir þennan tíma. Telst því sanngjarnt, að afurðir framleiddar úr loðnu, sem landað hefur verið fyrir 16. febr. s. l. greiðist á hinu eldra gengi.“

Um ráðstöfun gengishagnaðar má deila óendanlega, hvernig eigi að ráðstafa þessum gengishagnaði. Hér eru uppi margar skoðanir hvernig eigi að ráðstafa gengishagnaði og hefur mjög borið á því, einkum hjá útgerðarmönnum, að þeir telji að það eigi að ráðstafa gengishagnaði eftir aflabrögðum þannig að þau skip, sem mest fiska, fái mest af gengishagnaðinum. Ég er aftur þeirrar skoðunar að við verðum að taka mið af því hvað miklar erlendar skuldir hvíla á útgerðinni og á fiskiskipaflotanum og koma til móts við þá, sem fá á sig stórfelldar hækkanir vegna gengisbreytinganna, með þeim hætti sem gert var á s. l. vetri með þeim ráðstöfunum sem þá voru gerðar í sjávarútvegi og nú er lagt til að hér verði gert. Hér er um tvö mismunandi sjónarmið að ræða. Ef við tökum ekki tillit til þeirrar stöðu sem útgerðin er í hvað snertir erlendar skuldir hennar, þá auðvitað verður sá vandi óleystur. Þess vegna eru þessi ákvæði höfð á þennan hátt. Það er komið fyllilega til móts við bátaútgerðina með þessu því að gengistryggðu lánin verða bætt alveg eins og erlendu lánin, en gengistryggð lán Fiskveiðasjóðs eru að 3/5. Ég held að eftir atvikum sé ekki hægt að segja annað en að þessar till. séu mjög sanngjarnar um skiptingu. En þeir, sem vilja fara aðrar leiðir og hlusta ekki á neitt annað en sína skoðun, verða auðvitað eftir sem áður óánægðir, en það verður að hafa það.

Í sambandi við fjáröflun til Olíusjóðsins má líka óendanlega deila um hvaða aðferð á að velja til að fjármagna á þann hátt að hægt sé að koma til móts við veiðarnar vegna þeirrar miklu hækkunar, sem þær hafa orðið fyrir, sérstaklega af völdum olíuhækkunar. Þá kemur að mínum dómi tvennt til:

Í fyrsta lagi að breyta með lögum hlutaskiptunum. Ég hygg að enginn þm. vilji ljá máls á því að breyta hlutaskiptunum með lögum. Ég fyrir mitt leyti vil ekki leggja það til við Alþ. og því tel ég þá leið alls ekki koma til greina.

Í öðru lagi var til sú leið að bæta ofan á fiskverðið ákveðinni prósentu sem færi óskipt til þess að mæta þessum verðhækkunum útgerðarinnar. Þá leið er vel hægt að fara, en henni var tekið mjög illa af sjómönnum, að fara inn á 11% fiskverðshækkun, eins og um var talað lengi vel. Þó að þeir séu óánægðir með þessar ráðstafanir á milli greina í sjávarútvegi, þá hygg ég að mér sé óhætt að segja að þessi leið, sem hér er lögð til að fara, sé þó skást að þeirra dómi. Hér er um það að ræða að það vantar fjármagn til útgerðarinnar. Það hefur alltaf þurft að gera hliðarráðstafanir, þegar gengisbreytingar hafa átt sér stað, til þess að bæta vinnslugreinunum upp þannig frá fiskvinnslunni. Hraðfrystiiðnaðurinn getur engan veginn bætt á sig þeim kvöðum sem koma af þessu aukna útflutningsgjaldi, og er að því stefnt að breyta greiðslum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins þannig að auka hlutdeild Verðjöfnunarsjóðsins til hraðfrystiiðnaðarins um 400 millj. kr. Í upphafi þessa árs var þessum greiðslum breytt þannig að varið var til hraðfrystiiðnaðarins um 1130 millj. kr. Og nú þegar þetta frv. verður orðið að lögum, þá er reiknað með að auka það enn um 400 millj. og er þá teflt á tæpasta vað með frystideild Verðjöfnunarsjóðsins því þegar það hefur verið framkvæmt má segja að sú deild sé þurrausin.

Oft hefur verið mikið talað um það hér, bæði innan þings og utan og í fjölmiðlum, hvað það sé óeðlilegt hvað sjóðakerfi sjávarútvegsins þenjist út. Það er byrjað sakleysislega á sjóðmyndun, en hún verður óviðráðanleg — eða illviðráðanleg réttara sagt — á tiltölulega skömmum tíma. En það er ekki eins auðvelt að komast út úr þessu sjóðakerfi og menn vilja halda og láta í veðri vaka. Ég er einn þeirra sem eru þeirrar skoðunar að þetta sjóðakerfi sjávarútvegsins sé orðið allt of mikið og ofvaxið, að það bíður margvíslegri spillingu heim að viðhalda slíku kerfi á þennan hátt. En þessu verður ekki breytt nema samningar náist um það að hlutaskiptum verði breytt á öllum fiskiskipaflotanum og tekið mið af þeirri breytingu sem er orðin í uppbyggingu fiskiskipastólsins og sjávarútvegsins almennt og þeim gífurlegu hækkunum sem hafa orðið á fjölmörgum rekstrarvörum sjávarútvegsins.

Í sambandi við brbl. sem gefin voru út í haust, litlu eftir að þessi ríkisstj. tók við, kom það fram í umr. bæði við sjómenn og útgerðarmenn að við þyrftum að stefna að breyt. hvað þetta snertir og virtust allir hafa áhuga á því er ekki fyrr en fyrst nú við gerð síðustu kjarasamninga að aðilar vinnumarkaðarins, eða fulltrúar sjómanna og fulltrúar útgerðarinnar, koma sér saman um að skrifa ríkisstj. bréf þar sem þeir óska eftir því að ríkisstj. feli Þjóðhagsstofnuninni að láta fara fram endurskoðun á samningsfyrirkomulagi varðandi kerfisbreytingu á hlutaskiptum og afstöðu til sjóðakerfis sjávarútvegsins. Þessir sömu aðilar leggja til að n. verði skipuð undir forustu Þjóðhagsstofnunarinnar og að Sjómannasamband Íslands tilnefni tvo fulltrúa í þessa n., L. Í. Ú. tvo, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tvo, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda einn, Alþýðusamband Vestfjarða einn og Alþýðusamband Austurlands einn, þannig að þessi n. verður, þegar þessir aðilar hafa tilnefnt sína fulltrúa, skipuð þegar í stað og að því er stefnt að hún ljúki störfum í síðasta lagi fyrir 1. des. Ef út úr þessu kemur það að samkomulag næst á milli þessara aðila um breytingu á samningsfyrirkomulagi og kerfisbreytingu á hlutaskiptum, þá er skapaður grundvöllur fyrir því að stórlækka eða leggja niður með öllu sjóðakerfi sjávarútvegsins. Ég fyrir mitt leyti mundi fagna því innilega ef slíkt samkomulag næðist, en það er ekki hægt, eins og ég sagði áðan, að gera það með lögþvingan á þennan hátt að breyta skiptaprósentunni í algeru stríði við sjómannasamtökin.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en vil aðeins benda á það, að ef menn telja að það sé hægt að ná þessu fjármagni á hægari hátt en hér er lagt til, þá auðvitað koma þeir með sínar till. í þeim efnum. Undanfarnar ríkisstj. hafa allar átt það sameiginlegt að auka sjóðakerfið. Viðreisnarstjórnin jók sjóðakerfið hvað eftir annað með sérstöku álagi á fiskinn sem var fram hjá skiptum, fyrrv. ríkisstj. setti sérstakt gjald á loðnuafurðir til þess að greiða niður olíuhækkunina, og þannig hafa allir flokkar hér á þingi gert, þrátt fyrir margyfirlýstar skoðanir þeirra um að eyða og helst að leggja niður sjóðakerfið, og allar ríkisstjórnir troðið þessa sömu slóð, að setja á slík gjöld og á þann hátt að auka sjóðakerfið. (Gripið fram í: Enginn hefur samt verið eins stórvirkur og núverandi sjútvrh.) Enda þurfti hann mikið að moka þegar hann tók við, þegar sá fyrri yfirgaf stólinn.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. sjútvn.