25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Enn á ný fáum við frv. lagt fram af hæstv. ríkisstj. um ráðstafanir gengishagnaðar, tvívegis með stuttu millibili. Það er búið að framkvæma stórar gengisfellingar og að því er sagt er í því skyni að bjarga atvinnuvegunum. Þessar gengisfellingar eru alveg í samræmi við þann hörmungarsöng, sem hæstv. ríkisstj. hefur sungið allt frá því hún tók við stjórnartaumunum í landinu. En ekki ber öllum saman um að hve miklu gagni gengisfellingarnar hafa komið fyrir atvinnuvegina. Eitt er þó víst, að þær hafa ekki orðið til þess að bæta hag útgerðarinnar í landinu enda hafa útgerðarmenn marglýst yfir því á opinberum vettvangi að þær hefðu ekki gert annað en valda útgerðinni tjóni.

Nú stendur yfir mikið verkfall hjá stærri togurunum í landinu, — verkfall sem hefur í för með sér að afkastamestu atvinnutæki þjóðarinnar liggja bundin við hafnarbakkann, frystihúsin sem vinna úr afla þessara skipa, loka og stórlega dregur úr framleiðslu. Á þeim samningafundum, sem haldnir hafa verið milli sjómanna og togaraútgerðarmanna, hefur það sí og æ verið endurtekið af þeirra hálfu að þeir séu ekki aflögufærir um nokkurn skapaðan hlut. Í þessa frv., sem hér liggur fyrir, eru þó áætlaðar 950 millj. til þess að lækka erlendar skuldir togaranna, og í því frv., sem lagt var fram í haust af sama tagi, voru hvorki meira né minna en 600 millj. í sama skyni, og til bátaflotans og til þess að bæta afkomu skuttogaranna fóru annars vegar 250 millj. og hins vegar 230 millj. hins vegar eða samtals 1080 millj. sem bætast við þær 950 millj. sem eiga að koma út úr þessu frv., þ. e. a. s. það er komið nokkuð á 3 milljarð til þess að bæta stöðu þessara fyrirtækja. Samt segja þeir, sem hafa togarana bundna við bryggju í dag, að þeir eigi engan afgang og mannskapurinn geti ekki fengið krónu í viðbót.

Ég minntist á það áðan að útgerðarmenn hefðu ekki verið ánægðir með þessar ráðstafanir, þeir hefðu ekki séð neinn hag í þeim stóru gengisfellingum sem skellt hefur verið yfir þjóðina með stuttu millíbili. Er þess skemmst að minnast að í Morgunblaðinu í gær er haft eftir Kristjáni Ragnarssyni álit Landssambands ísl. útvegsmanna. Og ég vildi, til þess að staðfesta það sem ég sagði um óánægju útvegsmanna, með leyfi forseta, lesa upp það sem Kristján hefur þar að segja, orðrétt. Þá segir Kristján:

„Í aths. um frv. segir að hlutur útgerðarinnar og fiskverðshækkunin í ársbyrjun sé 900 millj. kr. En útgjaldaauki af völdum olíuhækkunar frá áramótum sé um það bil 1000 millj. kr. Auk þess er um stórfelldar hækkanir að ræða á öðrum sviðum útgerðarkostnaðar eins og á veiðarfærum, viðhaldi og verði skipa o. fl. Að undanförnu hefur mátt lesa í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins“, segir Kristján, „að um stórfellda fjármagnstilfærslu hafi verið að ræða til útgerðarinnar á undarnförnum mánuðum, og látið er að því liggja að þakklæti útvegsmanna til stjórnvalda hafi verið af of skornum skammti.“ Skyldi nokkurn undra þótt eitthvað hafi skort af þakklæti? Og enn segir Kristján Ragnarsson: „Nú fyrst er að koma fram frv. um ráðstafanir í sjávarútvegi sem gilda á frá 1. jan. þar sem gert er ráð fyrir stórfelldri aukningu á sjóðakerfi sjávarútvegsins, um allt að 11/2 milljarð kr., með álagningu nýrra útflutningsgjalda sem verja á til niðurgreiðslu á olíu, sem mun koma útgerðinni til góða. Að undanförnu hefur mikið verið um það rætt að nauðsyn beri til að afnema hið flókna kerfi er sjávarútvegurinn á við að búa, er allt byggist á innbyrðis tilfærslu í atvinnugreininni sjálfri. Ríkisstj. hafði tjáð útvegsmönnum að fiskverðið hækkaði um 11% með lögum ef bæta ætti útgerðinni hinar miklu kostnaðarhækkanir er gengisbreytingin olli og mundu útgerðarmenn þá greiða það olíuverð sem þeim er gert að greiða í dag. Þeir, sem vel öfluðu, myndu þá njóta tekna umfram útgjöld, og þeir, sem lítið öfluðu yrðu að greiða það sem á vantaði. Þessa hugmynd samþykktu samtök útgerðarmanna og lögðu áherslu á að þessi leið yrði farin. Af einhverjum ástæðum hefur ríkisstj. nú alveg skipt um stefnu og leggur nú áherslu á aukningu sjóðakerfisins sem hún hefur áður svo mjög fordæmt. Samtök útgerðarmanna hafa í meginefni lýst sig andvíg ráðstöfun gengishagnaðar vegna þess að þeim fjármunum er mjög misskipt meðal útgerðarinnar þrátt fyrir að þeir eru hennar eignir.“

Ég vildi aðeins láta það koma fram svo að ekki yrði um villst, að forstöðumaður útgerðarmanna á Íslandi lýsir algjörlega vanþóknun sinni á þessum aðferðum, þó að ég vilji taka skýrt fram að ég er ekki sammála formanninum Kristjáni Ragnarssyni um fjölmargt í þessari grein. En ég hlýt hins vegar að taka undir það að þetta frv., nú seint í apríl, er auðvitað allt of seint á ferðinni þar sem það á að gilda frá áramótum og er það furðulegur slóðaskapur af hæstv. ríkisstj. og sýnir einu sinni enn hversu fálmkennd og ráðvillt ríkisstj. virðist vera í öllum meginmálum.

Við höfum sem sé fengið tvenn lög vegna tveggja gengisfellinga með stuttu millibili. Í fyrri lögunum frá því fyrir áramótin síðustu — þau voru rædd hér í hv. Alþ. — voru tekin af sjómönnum 5% af þeirra réttmæta hlut samkv. þeirra samningum í stofnfjársjóð, fiskverðið bundið fram að áramótum við hámark 11% hækkun, olíukostnaði sem nam a. m. k. 530 millj. velt yfir á bak sjómanna og gripið inn í frjálsa samninga o. s. frv. Með þessu frv. er nú ætlað, eins og ég gat um áðan, til þess að bæta þeim eigendum fiskiskipa sem hafa orðið fyrir gengistapi sitt tjón, að fara þar inn 950 millj. En það má skjóta því inn að með ráðstöfunum ríkisstj. hefur hvergi bólað á neinum aðgerðum til þess að bæta almenningi í landinu það gengistap sem hann verður fyrir á hverju heimili.

Nú eru enn þá áætlaðar 400 millj. kr. til lána í sjávarútveginn. Samkv. þessum tvennum lögum er sú upphæð nú komin upp í 800 millj. sem á að breyta skuldum fyrirtækjanna í lengri lán, eða til 2–3 ára. Og í því sambandi mætti spyrja hæstv. ráðh. að því hversu háar upphæðir samtals hafi farið til þess að breyta vanskilaskuldum og skammtímalánum útgerðar og fiskvinnslu í landinu úr bankakerfinu undanfarin missiri. Og þar sem um svo geigvænlegar upphæðir er að ræða finnst mér lágmarkið að hæstv. ráðh. gefi Alþ. skýrslu um það hvernig þessum fjármunum hefur verið varið. (Gripið fram í: Ég var að því rétt áðan.) Það er rétt að hæstv. ráðh. minntist aðeins á þessa hluti áðan, en þar var engin grein gerð fyrir því hvert þessir peningar hefðu farið og hvað mikið til hverra. Það er rifist um miklu smærri upphæðir hér dögum saman á hinu háa Alþ. heldur en upphæðir sem skipta milljörðum. En það er kannske eins og í haust, þegar hæstv. ráðh. mælti fyrir frv. sem var samkynja þessu sem nú er, hann vildi hafa alla úthlutun á hendinni einn, sjútvrn. átti að skammta þessa peninga eftir geðþótta. (Gripið fram í.) Já þeir verða með þetta í poka á bakinu og útbýta ávísunum fyrir jólin.

Það væri einnig fróðlegt í sambandi við þessar upphæðir, 800 millj., sem eiga að fylla í þessi vanskil fyrirtækjanna, fyrir þm. að vita hvort hæstv. ráðh. telur líklegt að þessir peningar skili sér svo að hægt verði að nota þá í því skyni sem þeir eru ætlaðir til, þ. e. a. s. til þess að greiða niður gengistap vegna hækkana ú skuldum þeirra, er skulda í erlendum gjaldeyri.

Í þessu frv. eru vissulega gr. sem mér finnast nokkuð góðar, — greinar sem hefðu mátt sjást hér nokkru fyrr, og ég get ekki neitað því að ég er samþykkur ýmsum atriðum sem þarna koma frem. Þar má nefna t. d. b-liðinn í 1. gr. þar sem áætlaðar eru 50 millj. til þess að bæta eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir þegar skipin eru dæmd ónýt og skipin ekki bætt með öðrum hætti. Ég gæti trúað að skynsamlegt væri að reyna smátt og smátt að efla einmitt þennan sjóð.

Við, sem erum hér fulltrúar sjómanna, erum einnig ávægðir með það þegar við sjáum í slíku frv. upphæðir sem verja skal til lífeyrissjóða sjómannastéttarinnar og til aðstoðar við þá í orlofsmálum til þess að reisa orlofshús. En ef við tökum þessar tölur saman, þá er það ekki meira en sem nemur 87 millj. af 1 644, en gengishagnaðurinn, sem þarna á að skipta, nemur þeirri upphæð og mér sýnist öll skynsamleg rök mæla með því að sjómenn hljóti að eiga langtum stærri hluta í gengishagnaðinum en sem nemur þessum upphæðum.

Ég vil þá aðeins víkja nokkrum orðum að 2. gr. frv., en þar er fjallað um sérstakt útflutningsgjald sem á að koma í viðbót við þær byrðar sem þessi atvinnuvegur stendur undir. Þar á að leggja 4% af fob-verði útfluttra sjávarafurða nema saltfisks og mjög, en á saltfiskinn á að leggja hvorki meira né minna en 6% og 2% á mjölið, að vísu með undantekningum sem koma fram í ákv. til brb. Í fyrra frv. var einnig um mikla hækkun á útflutningsgjöldum að ræða. Og ég hygg að það væri forvitnilegt fyrir þá hv. þm., sem ekki hafa kynnt sér þessa hluti, að þeir fengju að vita það frá hæstv. ráðh. hversu há útflutningsgjöldin eru og hversu há gjöldin öll, sem lögð eru á útflutninginn í sjávarútvegi, eru orðin eða verða með þessari hækkun. Það eru býsna stórar tölur.

Ég vil einnig segja það, að með því að fara þessa leið, að leggja á þessi háu útflutningsgjöld, þó er í rauninni verið að koma í veg fyrir að hægt sé að hækka fiskverðið, þá er verið að koma í veg fyrir að sjómenn geti fengið eðlilegar kjarabætur. Og með þessari aðgerð eru sjómenn ennþá, ofan á það sem lagt var á þá með lögunum frá því fyrr í vetur, að greiða verulegan hluta olíukostnaðarins í viðbót. Hins vegar veit enginn nákvæmlega hver þróunin verður í verðlagsmálum á olíu. En það hlýtur hver maður að sjá að það getur ekki talist sanngjarnt að ein stétt manna greiði allan þennan olíukostnað. Það hefði verið eðlilegra að dreifa þeim olíukostnaði sem sjávarútvegurinn telur sig ekki geta staðið undir, láta þjóðfélagið greiða hann í heild í stað þess að útgerðin og sjómennirnir taki á sig sívaxandi bagga til þess að standa undir honum. Til þess þyrfti fiskverðið að hækka. En það ætti ekki að hækka með sama hætti og form. Landssambands ísl. útvegsmanna leggur til. Það, sem hann minntist á í grein sinni um fiskverðshækkun um 11%, það var fiskverðshækkun sem átti eingöngu að fara til útgerðarinnar og fara fram hjá skiptum. Það var fiskverðshækkun sem var með nákvæmlega sama hætti og lagt var á sjómennina að bera árið 1968. Það hafa auðvitað engir aðrir en íhaldsstjórnir látið sér detta í hug að haga sér svona. Með slíkum aðgerðum er auðvitað farið fram hjá því verði sem til skipta kemur, og það er ósköp eðlilegt frá sjónarmiði Kristjáns Ragnarssonar og Landssambands ísl. útvegsmanna að þeir séu ánægðir með að fá slíka fiskverðshækkun. En ég á við fiskverðshækkun sem kæmi útgerðarmönnum til góða að því leyti að útgerðin gæti notað hana til þess að greiða olíukostnaðinn, en að sjómenn fengju vissulega sinn hlut af. Og ég mun við frekari afgreiðslu þessa máls leggja til að fiskverð verði hækkað, og þá hækkar verð á fiski, sem enn eru möguleikar á að fá.

1 grg. frv. er hæstv. ráðh. að hrósa sér af þeirri geysilegu fiskverðshækkun, sem gerð var 14. febr. En við athugun á því hvernig sú hækkun á fiskverði kemur út hjá sjómönnum kemur í ljós á mjög mörgum bátum, að með því að hækka stærsta fiskinn svona mikið hækkar auðvitað fiskverð ekki til sjómanna vegna þess að mikill hluti af sjómönnum finnur hvergi þennan stóra fisk, enda lítið orðið eftir af honum. Þetta var sniðugt bragð hjá hæstv. ríkisstj., að ákveða svona myndarlega fiskverðshækkun á stóra fiskinum en hann er bara búinn. (Gripið fram í.) — Hér er hins vegar í grg. einnig setning, sem óneitanlega vekur hálfgerða ógleði hjá mönnum sem þekkja til kjara sjómanna nú í dag. Hér stendur í fyrsta lagi: „Til að tryggja sanngjarna hækkun á aflahlutum sjómanna til samræmis við breytingar tekna annarra stétta.“ Þetta minnti mig á tóninn í KFUM.

Í grg. er sagt að fiskverðsbreytingin, sem gerð var 14. febr., komi til með að valda 1 500 millj. kr. hækkun á hráefniskostnaði fiskvinnslu á ári. Ég hef oft verið hrifinn af reiknimeisturum en ég skil ekki hvernig hæstv. ríkisstj. getur einfaldlega reiknað þetta dæmi vegna þess hvernig farið er að í ýmsum verstöðvum landsins. Mér er kunnugt um það t. d. að í Þorlákshöfn hefur netafiskur alls ekki verið stærðarflokkaður. Hann er borgaður allur sem stærsti fiskur á hæsta verði. Á Suðurnesjum sums staðar hefur fiskurinn ekki einu sinni verið gæðametinn, heldur allur borgaður sem fyrsta flokks fiskur jafnvel þó að hann sé hálfgerður skítur. Að reikna út þessa fiskverðshækkun alveg upp á krónu, það endar á tveimur núllum meira að segja, það held ég að sé meiri háttar afrek í reikningskúnst.

Það hefur komið skýrt fram og er augljóst raunar, að gengisfellingarnar sem slíkar hafa ekki verið í þágu útgerðarinnar. Og með þessu frv. og frv. frá því í haust um ráðstafanir vegna gengisfellinganna, sem hafa dunið yfir með stuttu millibili í því gengisfellingaræði sem gripið hefur hæstv. ríkisstj., er verið að reyna að leiðrétta þau skakkaföll sem útgerðin hefur orðið fyrir vegna gengisfellinganna. En það er aðeins eitt sem hæstv. ráðh. gætir eins vel og sjáaldurs auga síns og það er að sjómenn fái ekkert út úr þessum ráðstöfunum. Þeim er ætlað að greiða vaxandi hluta af olíukostnaði í stað þess að afla tekna til þess með öðrum hætti sem útgerðin getur ekki staðið undir þó að hún hefði fengið hækkað fiskverð. Þess er enn vandlega gætt að kaup sjómanna hækki ekki og kannske er hæstv. ráðh. enn þeirrar skoðunar að kaup sjómanna sé enn svo óhóflegt að ruglað geti allan kaupsamanburð í þjóðfélaginu eins og hann hélt fram í ræðu sinni hér í haust og vakti mikla furðu um allt land.

Kaup sjómanna er ekki hátt ef það er skoðað vel. Nú á þessari vertíð hafa í mínu plássi verið gerðir út, milli 60 og 70 bátar og það er áreiðanlegt að talsvert meira en helmingur þessara báta hefur ekki fiskað nema fyrir tryggingu og minna en það. Og hver er svo trygging sjómanna á mánuði fyrir þennan langa vinnutíma sem þeir leggja á sig? Hún er núna eftir hækkunina, sem þeir fengu um daginn 67 þús. kr. á mánuði. Það væri fróðlegt að vita, hvað það gerir mikið á tímann. (Gripið fram í: 67 þús.?) 67 þús. kr. á mánuði. Það er kauptrygging sjómanna. Ég held að það sé alveg óhætt að vara hæstv. ríkisstj. alvarlega við þróuninni í þessum efnum því að verði haldið áfram á þessari braut, þá kemur að því og það líklega fyrr en seinna að sjómenn fást alls ekki út á fiskiskipin og þarf ekki að lýsa því fyrir neinum hv. alþm. hvað það þýðir fyrir íslenskan þjóðarbúskap.

Ég mun að þessu sinni, við þessa 1. umr. frv., láta þetta nægja. En þar sem ég á sæti í þeirri hv. n. sem þetta frv. fer til, og á þess vegna kost á því að ræða málið nánar síðar, mun ég leggja fram og skýra þær brtt., sem ég mun þá koma með í þessu máli.