25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar mun ég ekki að þessu sinni fara um það mjög mörgum orðum þó að vissulega sé rík ástæða til. Ég mun einskorða mig við að benda á ákveðin atriði sem ég mun gera athugasemdir við í hv. sjútvn. þessarar d. þegar hún kemur væntanlega til starfa til þess að fjalla um þetta frv. Hitt vil ég benda á, að ríkisstj. hefur gefið sér mjög góðan tíma til þess að ganga frá þessu frv. því að ákvæði þess eiga að taka gildi frá og með 1. jan. s. l. Á þeim tíma hefur hæstv. ríkisstj. breytt því verulega frá sinni fyrstu gerð, a. m. k. ef marka má þær fregnir sem við stjórnarandstæðingar höfum fengið af því máli. Að sumu leyti til hefur sú breyting verið til bóta, að öðru leyti ekki. En ég vil eindregið vænta þess að þó að sjútvn. þessarar hv. d. þurfi e. t. v. ekki jafnlangan tíma til þess að átta sig á þessu máli og hæstv. ríkisstj. virðist hafa þurft, þá fái n. þó þann tíma sem henni nægir til þess að skoða það frv. sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í: Það eru 4 mánuðir.) Já, ég vænti þess nú að við í sjútvn. Nd. getum afgr. málið á öllu :skemmri tíma en 4 mánuðum, þó að það hafi kannske verið erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að átta sig á því fyrr en eftir 4 mánaða yfirsetu. Það er svo sem ekkert nýtt að svona frv. sé lagt fram á þessu þingi því að þetta er að verða árvissara en fjárlögin. Þetta er í annað sinn sem við fjöllum um svipað mál á sama þingi. Þetta frv. siglir í kjölfar þess að í annað skipti á fáum mánuðum, nánar tiltekið fáum vikum, hefur ríkisstj. efnt til gengisfellingar. Og svo skammur tími hefur liðið á milli þessara gengisfellinga eða öllu heldur svo skammur tími hefur liðið milli þess að frv. um ráðstöfun gengismunar hafi komið fram, að það er vart hægt að segja að búið sé að ljúka við framkvæmdaatriði þess frv., sem samþ. var hér á Alþ. um jólaleytið, þegar nýtt frv. af sama tagi kemur til umr. og afgreiðslu. Og ansi er ég hræddur um það að traustið hjá almenningi á aðgerðum þessarar hæstv. ríkisstj. sé ekki meira en svo að þeir séu fleiri en einn og þeir séu fleiri en tveir sem eiga alveg eins von á því að þessu Alþ., sem nú situr að störfum, muni ekki ljúka án þess að þriðja slíkt mál sé fyrir það lagt þó að ég ætli ekki að spá svo illa fyrir þessari hæstv. ríkisstj. eða öllu heldur svo illa fyrir þessari ágætu þjóð.

Báðar þessar gengisfellingar, bæði þessi sem nú var gerð og sú síðasta, voru gerðar að sögn ríkisstj. til þess að tryggja rekstrargrundvöll undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Staðreyndin er hins vegar sú og um það er ekki deilt, vegna þess að forsvarsmenn þeirrar atvinnugreinar hafa sjálfir tekið það fram skýrt og skorinort, að það eru mjög miklar líkur á því að þessar aðgerðir, gengisfellingin, hafi ekki gert undirstöðuatvinnugreininni í sjávarútveginum verra, að hún skyldi hafa verið gerð, heldur en ef hún hefði ekki verið gerð. Við vitum það allir hv. þm. að á undanförnum árum hefur verið keypt mikið af nýjum skipum til landsins. Flest þessara skipa hafa verið keypt með gengistryggðum lánum þannig að þarna er um mikinn skuldabagga að ræða á útgerðinni. Í hvert skipti sem gengi hefur verið breytt til þess að lækka verðgildi hinnar íslensku krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum hafa þessar skuldir útgerðarinnar hækkað í verði þannig að það er a. m. k. mjög vafasamt að gengislækkunin hafi orðið til bóta fyrir útgerðina í landinu. Það er mjög vafasamt að þeir fjármunir, sem t. d. er ráðgert að verja til útgerðarinnar samkv. þessu frv. sem hér er á ferðinni, geri nóg til þess að jafna það tap sem útgerðin hefur orðið fyrir af völdum endurtekinna gengisbreytinga. Ég a. m. k. dreg það mjög í efa. Og ég er ekki einn um það því að ég veit ekki betur en forsvarsmenn útgerðarinnar í landinu séu einnig þeirrar skoðunar.

Annars er frv. þetta og þær ráðstafanir sem ríkisstj. hefur gripið til í sambandi við sjávarútveginn, mjög með sama markinu brennt og það sem hún hefur áður aðhafst. Hér er ekki um að ræða neina utanaðkomandi aðstoð til þessa undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar. Það er eingöngu verið að taka úr einum vasanum og setja í annan. Það er eingöngu verið að taka upp millifærslu innan atvinnugreinarinnar sjálfrar — og meira en innan atvinnugreinarinnar, það er einnig verið að framkvæma töluverða millifærslu á fjármunum frá launþegum í þessum atvinnurekstri og yfir til atvinnufyrirtækjanna. Það er sami háttur sem hæstv. ríkisstj. hefur á þessu nú og hún hafði á sama máli siðast þegar hún felldi gengið. Þar sem talað er um að verið sé að tryggja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, útgerðarinnar þá e. t. v. fyrst og fremst, er það eingöngu fólgið í því að það er tekið úr einum vasa þessarar atvinnugreinar og sett í annan. Um aðra aðstoð við þennan atvinnuveg er ekki að ræða.

Það, sem kemur fram í 1, gr. þessa frv. sem hér er til umr., er í stórum dráttum að verja gengishagnaði, sem að frádregnum kostnaðarliðum, svo sem vátryggingu og frakt og öðru slíku er 1 644 millj. kr., til þess að reyna að rétta nokkuð hlut útgerðarinnar aftur eftir þær ráðstafanir sem ríkisstj. greip til með gengisfellingu. Hér er verið að ráðstafa gengishagnaði að upphæð 1644 millj. kr. Vissulega má segja að þetta sé fundið fé að nokkru leyti, þessar 1644 millj. Þær skapast vegna breyttra ytri aðstæðna í málefnum útflutningsframleiðslunnar. Hins vegar megum við ekki gleyma því að þau verðmæti, sem þarna á bak við standa, eru sköpuð af aðilum í útgerð og fiskvinnslu og þá ekki aðeins atvinnurekendum í þessum atvinnugreinum, heldur einnig af launþegum, sjómönnum og fiskverkafólki, sem við þessa framleiðslu hafa starfað. Það er því réttlætiskrafa að ekki aðeins atvinnurekendurnir fái til sín eitthvað af því sem þarna hefur fundist, ef svo má að orði komast, heldur eiga launþegarnir í þessum atvinnurekstri ekki síður heimtingu á því að fá eitthvað til baka til sín. Hins vegar fer lítið fyrir því að það sé gert í þessu frv. Að vísu eru sjómönnum réttar nokkrar bætur eða alls að upphæð 87 millj. kr., 75 millj. kr. til lífeyrissjóða sjómanna samkv. staflið a og 12 millj. kr. til orlofshúsa sjómannasamtakanna samkv. staflið í. Það er hins vegar ekki ætlast til að fiskverkafólkið, sem átt hefur hlut að því að skapa þessi verðmæti sem standa á bak við gengishagnaðarsjóðinn, fái hans notið að neinu leyti. Þarna er sem sagt aðeins verið að gera ráðstafanir fyrir fyrirtækjaþáttinn sem stendur að baki þessarar verðmætasköpunar, en ekki látinn nema mjög óverulegur hluti af þessu fundna fé ganga til launþega í þessum atvinnurekstri.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að setja á langa tölu um þetta mál, en vil þó aðeins víkja að einstaka atriði. Þá kem ég fyrst að í 1. gr. staflið B þar sem segir svo með leyfi forseta:

Sjútvrn. er heimilt að ráðstafa allt að 400 millj. kr. af heildarfjárhæð samkv. þessum lið.“ — þ. e. a. s. 950 millj. kr. fjárhæð — til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu eigenda fiskiskipa og vinnslustöðva.“

Hér er um að ræða sama ákvæðið í þessu frv. og sett var í það frv. til 1. um ráðstöfun gengishagnaðar sem var til meðferðar á Alþ. fyrr í vetur. Afstaða mín var þá mörkuð í nál. og með brtt. sem við fluttum í minni hl. sjútvn. þessarar d., ég og hv. þm. Garðar Sigurðsson. Við gagnrýndum þetta ákvæði mjög harðlega. Við töldum það í hæsta máta óeðlilegt og raunar óæskilegt líka að pólitískur aðili, eins og hæstv. sjútvrh. væntanlega er, fái 400 millj. kr. til ráðstöfunar að eigin geðþótta til lánveitinga í útgerð án nokkurra fyrirmæla frá Alþ. um hvernig með eigi að fara. Við hv. þm. Garðar Sigurðsson gerðum þá till. um að þessi fjárhæð, sem einnig var 400 millj. kr. í gamla frv., yrði lækkuð nokkuð og að það yrði ekki sjútvrh. hæstv. sem ráðstafaði henni, heldur Fiskveiðasjóður sem væri hinn eðlilegi aðili til þess að ráðstafa fé eins og þessu. Þessi afstaða mín er enn óbreytt. Ég tel það enn með öllu fráleitt að láta sjútvrh., hver sem hann er, hvort sem hann er sjálfstæðismaður, Alþfl.-maður, Alþb.-maður, framsóknarmaður eða meðlimur í flakki Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, — þá tel ég í fyllsta máta óeðlilegt að láta slíkan pólitískan aðila hafa fjármagn eins og hér um ræðir til geðþóttaráðstöfunar án þess að Alþ. gefi honum nokkur fyrirmæli um hvernig hann eigi að ráðstafa þessu fé.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þær 400 millj., sem hér er rætt um, nema um 1/4 af gengishagnaðarsjóðnum eins og hann er áætlaður í þessu frv. Af þeim 1 644 millj., sem hér er um að ræða, fær hæstv. sjútvrh. til eigin geðþóttaráðstöfunar, án þess að nokkur fyrirmæli fylgi frá Alþ. um hvernig ráðstafa beri þessu fé, um 1/4 hluta upphæðarinnar. Fyrir nokkrum mánuðum hafði þessi sami maður, hæstv. sjútvrh., fengið 400 millj. kr. með svipuðum eða sambærilegum hætti þannig að á vetrinum hafa honum verið fengnar af Alþ. fyrirmælalaust 800 millj. kr. til ráðstöfunar að eigin geðþótta án þess að nokkur fyrirmæli fylgi um hvernig með skuli fara, þ. e. a. s. um það bil helmingur af gengishagnaðarsjóðnum eins og hann er áætlaður í þessu frv. Um það bil helmingurinn af gengishagnaðarsjóðnum, eins og hann er ákveðinn í þessu frv., hefur runnið til hæstv. sjútvrh. eins án þess að Alþ. hafi gefið honum nokkur fyrirmæli um hvernig hann eigi að ráðstafa þessu fé, og ég vil taka það mjög skýrt fram að ég hef ekki enn þá séð að opinberlega hafi verið nokkur grein gerð fyrir því hvernig þeim 400 millj. kr. sem hæstv. ráðh. fékk í jólagjöf, var ráðstafað af honum. Ég vil einnig taka það fram að ég mun spyrja eftir því í sjútvn. Nd., sem tekur þetta frv. til afgreiðslu, í fyrsta lagi hvort búið sé að ráðstafa öllu þessu fé, í öðru lagi hvernig því hafi verið ráðstafað, hverjir hafi fengið lán hjá hæstv. sjútvrh. út á þetta fé sem Alþ. afhenti honum án nokkurra skilmála og á hvaða skilyrðum þær lánveitingar hafi verið byggðar. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að Alþ. fái slíka skýrslu frá hæstv. ráðh., og ég mun kalla eftir því að hann gefi hana og þá ekki endilega hér á þingi, heldur a. m. k. í þeirri n. sem þetta mál fær til meðferðar.

Þá vil ég einnig benda á að það er beinlínis gert ráð fyrir því að þetta fé, sem hér um ræðir, þessar 400 millj., fari til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu eigenda fiskiskipa og vinnslustöðva. Þarna er beinlínis verið að segja að þessum peningum eigi að verja til lánveitinga til fyrirtækja sem standa sig, að maður skyldi ætla, heldur miður en almennt gengur og gerist í sjávarútvegi. Og ég spyr: Erum við ekki að fara út á nokkuð varhugaverða braut þegar við ákveðum að lána í skammtímalán til slíkra fyrirtækja 800 millj. kr. á einu ári? Geta menn yfirleitt búist við því að fyrirtæki eins og hér er verið að ræða um, — fyrirtæki sem sýna lakari afkomu, minni arðsemi en útgerðarfyrirtæki í landinu yfir höfuð að tala og fiskvinnslufyrirtækin þá líka, geti tekið á sig til viðbótar 800 millj. kr. lánsbyrði á einu ári og staðið skil á þessu innan þriggja ára? Ég tel það a. m. k. mjög vafasamt, og ég tel að þá væri a. m. k. hentugra og æskilegra að verja þessu fé til fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem eru skynsamlega rekin, eiga nú í lánsfjársvelti, eiga erfitt með eðlilegar athafnir vegna þess að þau skortir fé. Þessum fyrirtækjum, sem eru skynsamlega rekin, má ekki hjálpa, en hins vegar á að taka sem samsvarar helming af gengishagnaðarsjóðnum, eins og hann er áætlaður samkv. þessu frv., til þess að veita lán væntanlega til fyrirtækja sem eru verr stödd en hin. Auðvitað geta verið margar ástæður fyrir því að þau séu verr stödd, en það getur einnig verið a. m. k. fyrir sum þeirra, sú einfalda ástæða að þau séu e. t. v. ekki eins vel rekin og gengur og gerist um fyrirtæki í sjávarútveginum.

Ég vil sem sagt vara mjög eindregið við því að menn fari með svona mikið fé, 800 millj. kr. og feli einum pólitískum ráðherra algjört sjálfdæmi um það hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Þar er ég ekki að ætla það að hæstv. núv. sjútvrh. sé verr treystandi til þess að fara með þetta fé en öðrum ráðh., sem kunna að taka við af honum eða hafa verið fyrir hans tíma. En mér finnst mjög óeðlilegt að pólitískur ráðh. fái sjálfdæmi um slíkar lánveitingar. Mér finnst mjög varhugavert að veita svo stóra upphæð í lán til fyrirtækja sem mér skilst a. m. k. af orðalagi b-liðar 1. gr. að séu fyrirtæki sem séu verr stödd fjárhagslega en önnur fyrirtæki í sjávarútvegi, m. a. vegna þess að þau séu ekki rekin jafn hentuglega og gengur og gerist og arðsemi þeirra því ekki jafnmikill. Ég vara sem sé eindregið við þessu og tek það fram enn einu sinni, að mér finnst að við alþm. eigum kröfu á því frá hæstv. ráðh. að fá að víta hvernig hann hefur varið þeim 440 millj. kr. sem honum voru afhentar um jólaleytið í vetur, og eftir því mun ég að sjálfsögðu ganga.

Það er ekki svo að segja að það sé ekki ýmislegt sem til bóta horfi í þessu frv., ýmislegt sem menn ættu að geta sætt sig við. Ég vil sérstaklega nefna í 1. gr. staflið h sem gerir ráð fyrir því að varið verði 10 millj. kr. til rannsókna og styrkveitinga vegna fiskiskipa sem breyta vélbúnaði sínum til að geta nýtt svartolíu í stað gasolíu sem orkugjafa. Það má að vísu deila um hvort það sé rétt að taka fjárupphæð til slíkrar styrkveitingar úr gengishagnaðarsjóðnum sem við erum að ráðstafa fé úr hér í dag. En um hitt þarf ekki að deila, að þarna er um mjög þarfa framkvæmd að ræða sem vissulega þarf að fá fé til. Það er e. t. v. ekki óeðlilegt að það sé tekið af þessu fundna fé, ef ég má orða það svo. A. m. k. mun ég ekki gera athugasemdir við það þó að það verði gert.

En ég vil einnig vekja athygli á því að það gætir töluverðs ósamræmis milli einstakra gr. í þessu frv. Í 1. gr., staflið g, er gert ráð fyrir að verja 50 millj. kr. til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, deilda fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja, til greiðslu verðbóta vegna loðnumjöls og fiskmjöls á vetrarvertíð 1975. Í c-lið 2. gr. er hins vegar gert ráð fyrir því að taka 2% útflutningsgjald af fob-verði sömu afurða. Í 1. gr. er sem sagt verið að styrkja þessa framleiðslu. Í 2. gr. er verið að skattleggja hana. Í 3. gr. kemur svo ákvæði til bráðabirgða sem hnekkir c-lið 2. gr. Þarna er því um töluvert mikið ósamræmi að ræða og ég fæ ekki séð, a. m. k. hafa engin rök komið fram um það að ætla megi að eftir 1. okt. 1976 verði staða fiskmjölsvinnslunnar í landinu eitthvað sterkari en hún er í dag. Ég ræddi um það á sínum tíma, þegar fyrra frv. var til afgreiðslu hér fyrr í vetur, að e. t. v. væri eðlilegra um atriði eins og þetta, þar sem afkoma einstakra vinnslugreina væri mjög slæm, að það yrði sett í lög heimild til sjútvrn. um að fella niður útflutningsgjaldið um ótakmarkaðan tíma, þ. e. a. s. á meðan svo stæði. Ég held að það væri rétt fyrir n. að athuga að breyta ákvæði til bráðabirgða í tölul. 1 í heimildagr. til rn., en ekki að binda það við ákveðna dagsetningu, eins og þar stendur, vegna þess að ég get ekki látið mér detta í hug að nokkur maður hér inni geti fullyrt að 1. okt. 1975 muni horfurnar vera farnar að batna stórlega fyrir fiskmjölsvinnsluna í landinu.

Mér er það auðvitað alveg ljóst eins og öllum hv. þm. að það er talsverður vandi á höndum fyrir síldar- og fiskmjölsverksmiðjur og hefur verið nú u m nokkurt skeið. Hins vegar er það mitt álit að þessi vandi sé að talsverðu leyti okkur sjálfum að kenna. Það er mitt álit að hann sé að talsverðu leyti skapaður vegna þess að rangt hafi verið haldið á sölumálum þessarar framleiðslugreinar og þá einkum og sér í lagi á s. l. vetri. Ég ætla ekki að ásaka neinn öðrum fremur þar um, en e. t. v. væri athugandi fyrir okkur, sem hér erum inni, að reyna að stuðla að því að stofnuð yrðu á vegum þessarar vinnslugreinar sölusamtök með svipuðum hætti og eiga sér stað hjá hraðfrystiiðnaðinum og skreiðarframleiðslunni. Eðlilegast væri að viðkomandi aðilar stofnuðu slík sölusamtök að eigin frumkvæði. Hins vegar er ríkisvaldið talsvert stór aðili í þessari framleiðslugrein, síldar- og fismjölsvinnslu, svo að ef viðkomandi aðilar gera það ekki að eigin frumkvæði að reyna að koma sér saman um stofnun sölusamtaka til þess að samhæfa sölustarfsemina á þessum afurðum þá gæti ríkið eða öllu heldur ríkisfyrirtækin reynt að hafa frumkvæðið um að gera slíkt. Ég held að það fari ekki á milli mála að bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og SÍF hafa starfað til mikils góðs í þjóðfélagi okkar, m. a. unnið mjög að stefnumótun í afurðasölumálunum. Og ég held að eftir reynsluna af loðnusölu og fiskmjölssölu og s. l. vetri veiti ekki af að eitthvað slíkt verði reynt að gera í sambandi við þá framleiðslugrein.

Annar aðalþáttur þessa frv. felst í 2. gr. Þar er um að ræða að styrkja Olíusjóð fiskiskipa til þess að mæta þeim verðhækkunum sem orðið hafa á brennsluolíu. Þetta er auðvitað hægt að gera með tvennu móti, eins og hæstv. ráðh. raunar gat um í sinni framsögu: Annars vegar með því að heimila eðlilega fiskverðshækkun sem að sjálfsögðu ætti að skiptast á milli útgerðar annars vegar og sjómanna hins vegar. Mér datt ekki í hug að gera ráð fyrir öðru. Það er önnur leiðin. Hin leiðin er sú, sem hér er farin, að auka millifærsluna innan sjávarútvegsins, að auka þá millifærslu sem hingað til hefur verið mjög harðlega gagnrýnd. Það er mín skoðun að bæði sjámenn og raunar útvegsmenn einnig hefðu frekar kosið að fyrri leiðin yrði valin, þ. e. a. s. að heimiluð yrði eðlileg fiskverðshækkun, m. a. í kjölfar þeirra gengisbreytinga sem gerðar hafa verið. Það er sú hin eðlilega leið. Það er sú leiðin sem báðir aðilarnir gætu notið góðs af. Það er sú leiðin sem mundi geta stuðlað að sem eðlilegustum útgerðarháttum. En ríkisstj. velur hins vegar síðari leiðina. Því hefur verið harðlega mótmælt, ekki opinberlega af sjómönnum, en hins vegar opinberlega af samtökum íslenskra útvegsmanna, eins og kom fram í viðtali við Kristján Ragnarsson, formana LÍÚ, í Morgunblaðinu sem hv. þm. Garðar Sigurðason vitnaði í áðan.

Það fer ekki á milli mála að menn óttast mjög áhrif þess millifærslukerfis sem nú er verið að byggja upp innan undirstöðuatvinnugreina þjóðar innar. Og það er ekki aðeins það sem verið er að gera með því að velja þessa millifærsluleið í staðinn fyrir leið fiskverðshækkunar. Það er ekki aðeins verið að velja á milli tveggja höfuðleiða til þess að leysa sama vandamál, heldur er einnig verið að leggja út á þá braut að láta sjómenn greiða stóran hluta af olíuverðshækkuninni til íslenskra fiskiskipa. Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir, vegna þess að ef millifærsluleiðin hefði ekki verið valin, þá hefði verið hægt að hækka fiskverð og þá hefðu sjómenn fengið kjarabót. Með því að velja millifærsluleiðina og hafna fiskverðshækkuninni er komið í veg fyrir það að sjómenn fái þá kjarabót sem þeir ella hefðu fengið, sem hlýtur að þýða það að sjómenn eru látnir borga töluverðan hluta af olíuverðshækkuninni til fiskiskipa. Það er sem sagt ekki aðeins um millifærslu að ræða innan atvinnufyrirtækjanna, það er einnig um að ræða tilfærslu á fé frá launþegum í þessari atvinnugrein og yfir til atvinnufyrirtækja.

Það má einnig deila um hvort þörf sé að ganga jafnlangt og gert er ráð fyrir í 2. gr. Í aths. með frv. er sagt að olíuverðshækkunin á árinu frá áramótum sé áætlað 1000 millj. kr. Í grg. með frv. er einnig sagt að síðasta fiskverðshækkun, sem gerð var í febrúarmánuði, hafi skilað útgerðinni í auknum tekjum um 900 millj. kr. Þá er einnig sagt í aths. með frv. að verði 2. gr. lögfest, þá muni hún skila Olíusjóði fiskiskipa í tekjur á ársgrundvelli 1450 millj. kr. Að þessum tölum athuguðum fæ ég ekki betur séð en þarna sé verið að setja meira fé og það töluvert meira fé inn í Olíusjóðinn heldur en ástæða er til að ætla að þurfi úr honum að greiða. Og er ástæða til þess að vera að byggja upp þarna einn sjóðinn enn sem hefur meira fé til ráðstöfunar en fyrirsjáanlegt er að hann þurfi á að halda? Það kann að vera að þetta sé ekki rétt skilið hjá mér, en svona kemur þetta þó fram í aths. með frv. Hafi ég farið rangt með þá óska ég vinsamlegast eftir því við hæstv. sjútvrh. að hann leiðrétti það og gefi þá frekari upplýsingar. Geri hann það ekki, þá er það að sjálfsögðu vegna þess að þarna er rétt með tölur farið.

Það má deila um þetta atriði, um það hvort verið sé að leggja óhófleg gjöld á sjómenn, hvort verið sé að millifæra óeðlilega mikið fé innan atvinnugreinarinnar vegna olíuverðshækkunarinnar. En hitt er líka vafasamt, eins og ég sagði hérna áðan, hvernig að er farið. Hér er verið að setja upp mikið sjóðakerfi sem aðeins hefur það verk að vinna að færa á milli vasa innan einnar og sömu atvinnugreinar. Það, sem í raun er verið að gera í 2. gr., er að verið er að setja mismunandi gengisskráningu á mismunandi útflutningsafurðir, vegna þess að mishátt útflutningsgjald á hinar einstöku afurðir hefur auðvitað sömu þýðingu og sömu afleiðingar eins og misjöfn gengisskráning fyrir misjafnar afurðir. Það er verið að skera kúfinn ofan af einum þætti til þess að fylla lægðina hjá öðrum, og það er hætt við því að slíkar aðfarir stuðli m. a. að því að það verði ekki lengur eins eftirsóknarvert og ella að velja þá framleiðslu innan sjávarútvegsins sem hagkvæmust er.

Þetta kerfi, kerfi millifærslna og tilfærslna, og hvers kyns fjármálalegar hókus-pókus aðferðir hafa lengi verið ær og kýr Framsfl. Þegar Framsfl. hefur verið í stjórn hafa yfirleitt ekki liðið mörg ár áður en hann er búinn að skapa slík millifærslubákn svo voldug að þau hafa verið á góðri leið með að kæfa eðlilegan atvinnurekstur í landinu því að eðli slíks millifærslubákns brýtur gersamlega í bága við öll viðtekin og eðlileg lögmál atvinnurekstrar. Þegar aðrir aðilar hafa getað losað atvinnulífið við þessar úreltu og fráleitu millifærsluaðferðir er eins og atvinnulífið í landinu varpi öndinni léttar. Á stuttum tíma verða þá miklar framfarir og æskilegar í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar eins og við höfum dæmi um. Það kemur því ekki á óvart þótt ríkisstj. með þátttöku Framsfl. leggi aftur inn á þessar brautir efnahagsstjórnunar sem allir frjálslyndir menn hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir að eru úreltar og reyndar mjög viðsjárverðar. En hitt þykja mér meiri tíðindi, að ráðh. Sjálfstfl., þess flokks sem a. m. k. hingað til hefur talið sig vera málsvara frjálshyggju og frjálslyndis og aðhyllast nútímalega stjórnunarhætti í efnahags- og fjármálum, skuli nú koma fram með mál eins og þetta, þar sem ráð er fyrir því gert að mynda víðfemt millifærslubákn innan undirstöðuatvinnugreinar landsmanna, þvert gegn vilja hagsmunasamtaka þessarar atvinnugreinar. Ég verð að segja það að mikið hefur breyst hjá þeim sjálfstæðismönnum síðan þeir á sínum tíma áttu þátt í því með Alþfl. að ryðja úr vegi því fráleita og úrelta hafta-, leyfa- og millifærslukerfi sem Framsfl. hafði komið á fót og lá eins og mara á íslensku atvinnulífi. En þetta eru áhrifin af sambúð þeirra sjálfstæðismanna við framsóknarmenn í ríkisstj. Veldur hver á heldur, og í þessu efni fer víst ekkert á milli mála, hver á heldur, enda virðist það ekki hafa farið fram hjá ýmsum áhrifaaðilum innan Sjálfstfl. ef marka má ýmis skrif í málgögnum flokksins nú að undanförnu.

Ég ætla svona rétt til áréttingar því, sem ég er nú að segja, að vitna í leiðara dagblaðsins Vísis frá 24. þ. m. þar sem að segir svo orðrétt, með leyfi forseta — titill forustugreinarinnar er: „Sorglegt stjórnarfrv.“ Forustugreinin hljóðar svo: „Stjfrv. um ráðstöfun gengishagnaðar, sem lagt var fram á þingi upphafi vikunnar, er alvarlegt spor stigið aftur á bak. Í því felst ekki neitt fráhvarf frá fargani millifærslusjóðanna sem almennt hefur verið fordæmt að undanförnu. Var þó í upphafi undirbúnings frv. boðað að reynt yrði að draga að minna eða meira leyti úr millifærslukerfinu. Sjómenn og útgerðarmenn tóku undir þá stefnu með því að leggja til að skipuð yrði sérstök n. til þess að undirbúa afnám þessa kerfis og að hún ljúki störfum fyrir næstu áramót. Þrátt fyrir gefin fyrirheit og stuðning sjávarútvegsins stefnir frv. í öfuga átt, að aukningu millifærslufargansins. Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir nýju og misjöfnu útflutningsgjaldi á sjávarafurðir. Mjöl og lýsi eiga að greiða 2%, saltfiskur 6% og aðrar sjávarafurðir 4%. Með þessari mismunun er verið að draga úr því að fiskiðnaðurinn leggi aukna áherslu á arðbærustu vinnsluna. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að tekjurnar af útflutningsgjaldinu verði notaðar til að greiða olíu fiskiskipaflotans enn meira niður en áður hefur verið. Samkvæmt frv. á útgerðin aðeins að greiða kr. 5.80 eða um 30% af kr. 20.20 raunverði olíulítrans. Með þessari niðurgreiðslu er verið að draga úr því að menn spari olíu í útgerðinni. Að baki þessa hörmulega frv. er langt samningaþóf milli ólíkra sjónarmiða svo að líklegt er að það nái fram að ganga. En það er afar sorglegt, að hið gerspillta millifærslufargan skuli vera aukið einmitt núna þegar allir málsaðilar hafa komið auga á ókosti þess.“

Hér lýkur tilvitnun í annað aðalmálgagn Sjálfstfl., dagblaðið Vísi, frá 24. þ. m.

Það fer ekkert á milli mála að stuðningsmenn Sjálfstfl. eru ekki ánægðir með þessi afrek hans. Það fer ekkert á milli mála að þeir telja að Sjálfstfl. sé að leggja út á mjög varhugaverða braut, flytja mjög hörmulegt frv., standa að sorglegu stjfrv., svo að vitnað sé aftur í orð dagblaðsins Vísis. Það hefur stundum verið sagt um Framsfl. að hann tyllti í hægri fót eða vinstri eftir því með hverjum hann ynni í það og það skiptið. En ég verð nú að segja eins og er að ef einhver sveiflast í skilningi sínum og stefnu í efnahagsmálum að þessu leytinu til, þá er það ekki Framsfl., heldur er það Sjálfstfl.