26.04.1975
Neðri deild: 74. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3342 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég mun greiða atkv. gegn þessari frvgr. vegna þess að ég tel það andstætt grundvallarhugsjónum þess flokks, sem ég er fulltrúi fyrir, að ríkinu sé í svo stórum stíl falið að annast áhættusaman atvinnurekstur eins og hér um ræðir. Í öðru lagi tel ég það rangt, eins og ástatt er um fjárhag íslenska ríkisins, að festa svo mikið af fé ríkisins í áhættusömum atvinnurekstri. Og í þriðja lagi tel ég það ranga meginreglu, sem þetta frv. byggist á, að það sé nauðsynlegt fyrir íslendinga að eiga a. m. k. helming í þessu fyrirtæki, en sú er ástæðan fyrir þessari fjármögnunargrein. Ég tel að öllu athuguðu og ekki síst með tilliti til óljósra og óhagstæðra ákvæða í aðalsamningnum, að okkur hefði verið hentara að eiga sem minnst í fyrirtækinu. Þess vegna greiði ég atkv. gegn þessari gr., en mun sitja hjá við lokaatkvgr. frv.