26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti: Ég tók þá ákvörðun við atkvgr. við 2. umr. málsins í dag að sitja hjá, þ. e. a. s. taka ekki þátt í atkvgr. Ég á sæti í iðnn. þessarar hv. d., en átti þar ekki samleið með félögum mínum. Ég gaf að vísu ekki út nál., en ég tel rétt, eins og á stendur, að segja nokkur orð við þessa umr.

Með þeirri ákvörðun, sem ég tók við atkvgr. við 2. umr. fyrr í dag, kom fram það meginviðhorf mitt til þessa máls að Alþ. hefði átt að taka sér lengri tíma til að fjalla um málið, og ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á þetta atriði vegna þeirra orða sem féllu nú af hálfu hæstv. iðnrh. Ég get ekki tekið undir þá skoðun sem kom fram hjá honum, að málið hefði verið fullathugað. Það er að vísu rétt að þetta mál hefur verið allmargar vikur til meðferðar í báðum þingdeildum. Frv. var útbýtt snemma í febr., eins og hæstv. ráðh. sagði, en hins vegar er hér um nokkuð óvenjulegt mál að ræða og stórmál af sérstöku tagi, það sérstöku að það sér tæplega nokkra hliðstæðu meðal mála sem lögð hafa verið fyrir Alþ. Það er því skoðun mín eftir sem áður, hvað sem hæstv. ráðh. hefur um það að segja — og ég reikna nú með að það kunni að vera fleiri hér í hv. d. sem hafa í rauninni sömu skoðun — það er skoðun mín að málinu sé hraðað allt um of og að mörg atriði hefði átt að kanna miklu betur. Það er satt að segja dálítið undarlegt, sem nú kom fram hjá hæstv. ráðh., en ég hef ekki heyrt áður opinberlega, að það sé búið að ákveða og panta hingað komu viðsemjenda okkar næstu daga til að undirrita þennan samning og þess vegna sé lögð þessi mikla áhersla á að hraða málinu.

Hæstv. forseti. Ég var forfallaður þegar málið var rætt efnislega við 2. umr. og kom því ekki við að gera nema mjög stutta grein fyrir atkvæði mínu nú í dag. Þess vegna ætla ég nú við síðustu umr. málsins að bæta nokkru við grg. mína við atkvgr. við 2. umr.

Þó að ég hafi tekið þá afstöðu til málsins sem ég gerði þýðir hún ekki að ég sé fyrir fram andvígur því að slík verksmiðja verði reist og rekin hér á landi. Ég hygg þvert á móti að slíkur verksmiðjurekstur kunni að eiga rétt á sér að vissu marki. En ég hefði kosið að þessu sérstaka máli væri ekki hraðað svo mjög sem meiri hl. iðnn. hefur lagt til og eins og hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. hafa lagt þunga á. Mér finnst að meðferð þessa máls hér á þinginu beri allt of mikinn keim af því að Alþ. standi frammi fyrir „gerðum hlut“, þ. e. a. s. Alþ. fær ekki tækifæri til að fjalla af gagnrýni um þá samninga sem viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hefur staðið að við hinn erlenda viðsemjanda. Ég álít að Alþ. hefði átt að fá tækifæri til að kanna betur hvort ekki væru möguleikar á því að koma fram breytingum á ýmsum atriðum samninganna sem fylgja þessu frv. Ég felli mig ekki við þá skoðun að á þessa samninga beri að líta nánast sem óumbreytilega. Ég held að flestum hljóti að finnast það of langt gengið að í máli sem þessu fái Alþ. ekki tækifæri til að fara rækilega ofan í saumana á þeim samningum sem allt málið hvílir á en að mínum dómi hefur ekki unnist tími til þess. Vera má að ég sé einn um þá skoðun. Kannske er það svo að ég þurfi lengri tíma til að botna í þessu máli en aðrir þm. En það segi ég með fullum sanni að ég tel mig persónulega ekki hafa áttað mig svo vel á málinu að ég treystist til þess að fara að leggja öðrum ráð um afstöðu til þess. Þess vegna m. a. hef ég kosið eins og sakir standa að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Ég vil benda á að þessi fyrirhugaða járnblendiverksmiðja ásamt öllu sem henni fylgir er eitt stærsta og fjárfrekasta fyrirtæki sem íslendingar hafa nokkru sinni ráðist í. Hér er einnig um að ræða nýjan iðnað í landinu sem íslendingar þekkja aðeins af afspurn og hafa alls enga reynslu af. Hér er verið að stofna til þess háttar samvinnu við erlent auðfélag að ekki á sér hliðstæðu í sögu landsins. Að vísu er gert ráð fyrir því að íslendingar ráði meiri hl. í félaginu, og ég vil vegna þeirra orða, sem hér féllu hjá hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, varðandi afstöðu flokka til slíks, endurtaka það sem kom fram í svari frá hæstv. dómsmrh., formanni Framsfl., að framsóknarmenn líta svo á og hafa ætíð gert að það beri í hvert sinn sem stofnað er til slíkrar stóriðju í samvinnu við útlendinga að sjá svo um að íslendingar eigi meiri hl. í félaginu. Þessu skilyrði, sem við framsóknarmenn höfum jafnan sett um þetta atriði, er fullnægt. En samt sem áður er það svo að við erum í þessu tilfelli í reynd stórkostlega háðir væntanlegum sameiganda um rekstur fyrirtækisins og afurðasölu. Öll þekking og reynsla er hjá hinum erlenda sameiganda og afurðasalan sýnist mér vera öll á hans höndum.

Arðsemi fyrirtækisins hefur verið reiknuð út eða metin, og sýnist það gróðavænlegt miðað við þær forsendur sem menn hafa gefið sér. En höfum við tryggingu fyrir því að þessi framleiðslugrein verði arðvænleg eftir skulum við segja 15–20 ár?

Það er gert ráð fyrir því að sameigandi okkar geti gengið úr félaginu eftir 15 ár og gert okkur þá skyldu að kaupa hlutabréf sín, og ég vil spyrja: Hefur þetta ákvæði verið skoðað þessa 2–3 mánuði sem málið hefur verið til umræðu hér á hv. Alþ.? Hvað felst yfirleitt í þessu ákvæði? Hefur það verið athugað af hv. Alþ. þessa 2–3 mánuði sem málið hefur verið hér til meðferðar? Ég vil spyrja: Verða íslendingar búnir að ná tökum á rekstri fyrirtækisins eftir 15 ár, og er víst að fyrirtækið verði þá arðvænlegt? Ég veit auðvitað að hæstv. iðnrh. kann svör við þessum spurningum, — svör sem hann telur fullnægjandi, en ég, sem er ófróður með öllu um þessi mál líkt eins og 212–215 þús. aðrir íslendingar, — ég hef enn ekki öðlast næga sannfæringu til að ráðleggja öðrum að trúa skilyrðislaust arðsemisútreikningum svokallaðrar viðræðunefndar um orkufrekan iðnað né heldur því hvað það merkir í raun að íslendingar fari að reka á eigin spýtur málmblendiverksmiðju eftir kannske 15 ár eða svo. Mín vegna má því hver og einn hafa á þessu atriði hverja þá skoðun sem honum sýnist. Að mínum dómi eru miklar líkur til þess að með þessu ákvæði séu íslendingar að taka á sig áhættu sem nauðsynlegt er að gefa betur gaum að og fá betri ráðgjöf um. Ég vil einnig bæta því við að það má vel vera að við höfum þarna ráðist í samvinnu við erlendan aðila sem mjög sé vafasamt að hafi verið skynsamlegt — ég á við að það hafi e. t. v. ekki verið að öllu leyti skynsamlegt að ráðast í slíka stóriðju sem þessa járnblendiverksmiðju. Að mínum dómi eru miklar líkur til þess að með þessu ákvæði séu íslendingar að taka á sig áhættu sem nauðsynlegt er að gera sér nánari grein fyrir og sérstaklega að fá um betri ráðgjöf. Þrátt fyrir það, sem hæstv. Iðnrh. var að segja hér áðan, hefur ekki unnist tími til að athuga þetta nógu vel og þá einnig hitt, hvort ekki sé möguleiki til þess að fella samningsákvæði niður eða breyta því okkur í hag þannig að tryggt verði að sameigandinn að verksmiðjunni geti ekki hlaupist frá skyldum sínum þegar verst gegnir fyrir okkur.

Því er ekki að leyna að arðsemi fyrirtækisins byggist að verulegu leyti á fríðindum sem því eru veitt umfram flest atvinnufyrirtæki í landinu, og þetta veit ég raunar að allir hljóta að gera sér ljóst. Þar nefni ég fyrst og fremst að nær allur innflutningur til uppbyggingar og rekstrar er undanþeginn tollum og söluskatti skv. 9. gr. frv. Nú verður því auðvitað svarað til að fordæmi séu fyrir slíkum fríðindum. Og vissulega er það rétt að fordæmin eru fyrir hendi. En það hefði verið fróðlegt að sjá arðsemisútreikninga þar sem þessum fríðindum væri sleppt, þ. e. a. s. að þetta fyrirtæki greiddi aðflutningsgjöld og söluskatt af fjárfestingarvörum og rekstrarvörum eins og iðnfyrirtækin í landinu verða yfirleitt að gera, þau iðnfyrirtæki sem íslenskir smákapítalistar eru að reyna að basla við að reka. Það hefði líka verið fróðlegt að fá athugun á því, hvers innlend iðnfyrirtæki í ýmsum greinum væru yfirleitt megnug í framleiðslu á útflutningsvörum ef þau nytu þeirra fríðinda sem stóriðjan nýtur og á að njóta. Hver veit nema við gætum þá farið að flytja út eitthvað af þeim vörum sem verið er að framleiða í landinu, segjum karlmannafatnað, sem fréttir herma að eigi að flytja út í nokkru magni, eða húsgögn og kannske sitthvað fleira.

Þá tel ég á skorta að með í arðsemisútreikningi séu teknar óhjákvæmilegar fylgiframkvæmdir, svo sem höfn, vegagerð, kaup á landi og raflínulögn. Allt kostar þetta verulega fjármuni og þó höfnin á Grundartanga sýnu mest. Kostnaðarverð hafnargerðarinnar er um 500 millj. kr. Það er viðurkennt og liggur ljóst fyrir að þessi hafnargerð stendur í beinu sambandi við byggingu járnblendiverksmiðjunnar, og það er sagt berum orðum að hafnaraðstaða á Grundartanga sé ein af forsendum þess að þarna sé yfirleitt mögulegt að hafa verksmiðjuna. Það hefur líka komið fram í meðferð málsins — það kom fram í iðnn. — að höfnin er ekki arðberandi fyrirtæki. Það er fyrirsjáanlegur hallarekstur á höfninni ef ekki koma til önnur viðskipti en þau sem stafa frá umsvifum verksmiðjunnar.

Nú kann að vera að höfnin verði einhvern tíma notuð af öðrum skipum en þeim sem flytja varning á vegum járnblendiverksmiðjunnar. Það kann að vera, segi ég. Ég skal ekki bera svo mjög brigður á að væntanleg Grundartangahöfn verði einhvern tíma almenn innflutningshöfn. Hins vegar fæ ég ekki séð að nein örugg vissa sé í því efni. Þess vegna blasir við hallarekstur á Grundartangahöfn um fyrirsjáanlega framtíð. Og hvar lendir sá halli? Hann leggst á eigendur hafnarinnar, þ. e. a. s. sveitarfélögin sem ætluð er eignaraðild að höfninni. Sem sagt, þetta atriði í sambandi við höfnina er veikur þáttur í þessu máli. Úr því að sérstök hafnargerð er nauðsynlegur þáttur í byggingu járnblendiverksmiðjunnar, þá hefði átt að gera það að ófrávíkjanlegu skilyrði að kostnaður við það verk hefði með einum eða öðrum hætti verið reiknaður með í heildarstofnkostnaði. Það var hugsanlegt að fara eins að og gert var í sambandi við gerð Straumsvíkurhafnar sem komið var upp vegna álversins þar syðra að járnblendiverksmiðjan greiddi hafnargerðarkostnaðinn á tilteknu árabili með sérstakri ákvörðun hafnargjalda. En eins og samningar liggja nú fyrir er augljós hallarekstur á þessari fyrirhuguðu og dýru höfn á Grundartanga.

Ég hef saknað þess í meðferð þessa máls að fullnægjandi grein væri gerð fyrir því hvernig allt þetta mál, þ. e. a. s. hlutafjárkaup í verksmiðjufélaginu, hafnargerðin, vegagerðin, raflínulögn o. s. frv., hvernig allt þetta á eftir að koma við ríkisbúskapinn eða fjárlög komandi ára. Hlutafjárframlag íslendinga verður nærri 2 milljarðar og höfnin kostar hálfan milljarð og önnur útgjöld koma einnig til. Þó að öll þessi stofnframlög verði fjármögnuð með lánsfé verður eigi að síður að greiða lánin og vexti af þeim. Hér er því verið að stofna til verulega aukinna ríkisútgjalda á næstu árum og áratugum. Þessar framkvæmdir í Hvalfirði varða því fjárlög svo að ekki verður undan vikist. Mér er ókunnugt um hvaða lántökur eru fyrirhugaðar í þessu sambandi, a. m. k. veit ég ekki með hvaða kjörum lánsfé fæst til stofnfjárframlaga ríkisins í þessu máli, og ég fæ ekki séð að það sé hægt að lá það nokkrum manni þó að hann hafi velt því fyrir sér hvaða áhrif svo miklar lántökur sem hér um ræðir hafi á möguleika íslendinga til lánsútvegunar vegna annarra atvinnugreina og framkvæmda. Er það alveg víst að þessar miklu lántökur skerði ekki lántökumöguleika í öðru sambandi? Þetta er eitt af óvissuatriðunum að mínum dómi og ein af ástæðum þess að ég vil ekki að sinni bera ábyrgð á samþykkt þessa frv. Þetta atriði hefur ekki verið skoðað þá 2–3 mánuði sem þetta hefur legið hér í frumvarpsformi fyrir hæstv. Alþingi.

Miklar umræður hafa orðið bæði innan og utan þings um mengunarhættu af járnblendiverksmiðjunni og önnur skaðvænleg áhrif á lífríki Hvalfjarðar og umhverfi verksmiðjunnar yfirleitt, þ. á m. um samfélagsleg áhrif. Þó að þessar umr. hafi í ýmsum tilfellum leitt til öfga í málflutningi, þá er ég sannfærður um að þær hafa sem heild orðið til gagns. Mér virðist nú ljóst orðið að með tiltækum mengunarvörnum sé hægt að bægja skaðlegri mengun frá svo að vel sé við unandi. En ég vil leggja á það áherslu að í því efni má ekkert spara. Án fyllstu mengunarvarna og hreinsunar úrgangsefna er verksmiðja af þessu tagi enginn aufúsugestur í umhverfi sínu né heldur áhrifalaus gagnvart andrúmslofti, jarðvegi, vötnum og sjó. Fyrir fram verður að vísu ekkert fullyrt um það, hvaða áhrif verksmiðjan kann að hafa á lífríki umhverfisins jafnvel þótt ítrustu varnaraðgerðum sé beitt gegn beinni mengun og þótt brottflutningi fastra úrgangsefna sé vel fyrir komið. En ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa hlýtt á ráð og heyrt skoðanir hinna hæfustu sérfræðinga á þessu sviði að í sambandi við mengun verði vörnum við komið og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það atriði.

Þær mótbárur, sem ég hef uppi í þessu máli, eru fyrst og fremst efnahagslegs eðlis og fjárhagslegs eðlis. Ég hef þegar drepið á ýmis slík atriði, en fleira mætti nefna þó að ég muni nú láta staðar numið í því að gera þessa stuttu grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég endurtek það að mér finnst of mikill hraði viðhafður um afgreiðslu málsins. Það hefur það í för með sér að ég er ekki við því búinn að greiða atkv. með málinu. Ég er ekki andvígur stóriðjuframkvæmdum að tilteknu marki og ef réttar forsendur eru fyrir hendi. En hvað þetta mál varðar finnst mér margt í því þurfi frekari skoðunar. Ég hef því ákveðið að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins og mun nú við lokaafgreiðslu hér við 3. umr. sitja hjá við atkvgr., nema eitthvað sérstakt verði til að breyta þeirri ákvörðun sem ég raunar á ekki von á að verði.