26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það má segja að það sé heldur betur reisn yfir Alþingi íslendinga þessa stundina. Ég man ekki til þess þann tíma sem ég hef setið á þingi að nokkurn tíma væri talið svo mikið í húfi að haldinn væri fundur um hádegi á laugardegi. Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á því að löggjafarsamkoma þessarar sjálfstæðu, metnaðarfullu þjóðar situr hér á fundi núna? Ástæðan til þess er sú að 3 eða 4 forstjórar auðfyrirtækis vestur í New York eru búnir að panta sér far með flugvél til Íslands og það á að afgreiða það mál, sem hér er til umr., endilega hreint til þess að þeir þurfi ekki að hringja í Flugfélagsskrifstofuna í New York og segja að þeir verði því miður að fresta ferðinni hingað. Til þessa sitjum við hér að við sýnum ekki þessum 3 eða 4 forstjórum bandarísks auðfyrirtækis þá ósvífni að þeir þurfi að afpanta miðana, farseðlana til Íslands. Ég vona, hv. þm., að þetta dæmi verði tilefni til þess að þið hugleiðið hvers vænta má um reisn íslendinga í viðskiptum við þetta fyrirtæki þegar forstjórarnir telja kannske að þeir yrðu að fórna enn meira en því að fresta um 2–3 daga að koma hingað upp. Ég segi: Guð hjálpi okkur með þennan vesaldóm allan saman, þessa lágkúru stjórnvalda í viðskiptum við útlendinga. Ég held að sjaldan hafi sóma íslendinga, sóma Alþingis íslendinga verið eins hastarlega misboðið og núna.

En ástæðan til þess að ég lét skrá mig á mælendaskrána var sú að ég ætlaði að beina til hæstv. samgrh. fyrirspurn sem hv. þm. Magnús Kjartansson er þegar búinn að beina til hans. Ég ætlaði að þýfga hann um þá yfirlýsingu sem hv. þm. Ingólfur Jónsson sagði að hann mundi gefa varðandi fjármögnun Grundartangahafnar og það með hvernig ætti að .tryggja einhverjar tekjur af þeirri höfn í framtíðinni.

Það er nú þannig með hæstv. samgrh., sem uppi í Borgarfirði beitti sér í vetur af mikilli karlmennsku og dugnaði og krafti fyrir þessari verksmiðju, að hann hefur ekki komið mjög mikið við sögu í umr. hér á þingi. Það má segja um hann svipað og stundum var sagt um Viktoríu drottningu þegar hún lét ekki sjá sig á mannamótum: „Her Majesty was conspicuously absent“— en það þýðir að drottningin hafi verið „áberandi fjarverandi“. Það hefur ekki verið tækifæri í þessum umr. að beina einu né neinu til hæstv. samgrh. því hann hefur verið „conspicuously absent“. Hann hefur að vísu verið fjarverandi af annarri ástæðu en Viktoría drottning. Hún var fjarverandi til þess að láta í ljós litla hrifningu á því sem til stóð á samkomunum, en hæstv. ráðh. hefur hins vegar veigrað sér við að láta sjá sig á þessum fundum að mínum dómi vegna þess að hann veit að hann á svo erfitt með að gera hvort tveggja í senn, að tala samkv. þeirri línu sem ríkir innan ríkisstj. varðandi þessa verksmiðju og um leið að geta sér gott orð meðal borgfirðinga. Hann veit eins vel og ég, að allur þorri borgfirðinga, eða a. m. k. þeir sem í sveitum búa, er andvígur þessari verksmiðju. Þetta sýna samþykktir þeirra, margítrekaðar samþykktir þeirra og kröfur um t. d. það að fullkomnar rannsóknir fari fram á lífríki Hvalfjarðar og öðru nágrenni verksmiðjunnar, áður en hafist verði handa við byggingu hennar, og þó ekki síður kröfur um það að rannsókn fari fram á því hvaða áhrif þessi verksmiðja muni hafa á mannlífið þar efra. Það hefur nú kannske ekki verið rætt eins og skyldi hvaða áhrif þetta hefur á mannlíf þar efra. Ég er ekki í neinum vafa um það að þarna sviptist til allt mannlíf. Og það mannlíf, sem ég þekki þar efra og hæstv. samgrh. þekkir líka, það er gott mannlíf. Það getur vel verið að það verði fleiri krónur í sveitarsjóðum ýmsum eftir þetta einhvern tíma. En hitt er ég sannfærður um, að það verður ekki meiri mannleg hamingja. Mannleg hamingja verður nefnilega ekki mæld í krónum, hvað sem menn segja, ekki einu sinni í dollurum.

Þetta er atriði sem hefði þurft að athuga líka áður en ráðist yrði í að byggja þessa verksmiðju. Mengunarmálin hafa náttúrlega verið mikið til umræðu hér í sambandi við frv., eins og annars staðar, og hafðar uppi miklar fullyrðingar um það að þetta verði allt í besta lagi. Ég sýndi fram á það í ræðu sem ég flutti strax við 1. umr. um þetta mál að auðhringurinn Union Carbide er einna verst þokkaður allra auðhringa í heimi hvað snertir mengunarmál. Hann hefur hvað eftir annað í heimalandi sínu sniðgengið lög og reglugerðir, hann hefur meira að segja skellt hurðum á eftirlitsmenn ríkisins þegar þeir hafa komið til að líta eftir því að framfylgt væri mengunarvarnarreglum. Það eru ribbaldar og ofríkismenn sem ráða þessum hring. Þetta sagði ég við 1. umr. og ítreka hér. Hér er við þess háttar fólk að eiga, og jafnvel þó að tæknin sé e. t. v. nógu fullkomin til þess að fyrirbyggja mengun eða halda henni í „lágmarki“, eins og oft er sagt hér, hvað sem það nú táknar, — jafnvel þó að tæknin sé orðin svo fullkomin, þá segi ég það alveg eins og er að ég er næstum því sannfærður um það að þegar eitthvað kemur fyrir í þessari verksmiðju, eitthvað bilar, þannig að það er ekki hægt að framfylgja reglunum um mengun nema með svo og svo miklum tilkostnaði, þá gerist það sama og gerst hefur víða um lönd þar sem hefur verið við þessa auðhringa að etja að þeir segja: „Þetta er svo dýrt, þetta er svo kostnaðarsamt. Við höfum ekki ráð á að laga þetta, eins og þið krefjist. Við verðum að hætta rekstri verksmiðjunnar.“ Og það er rekið upp ramakvein af þeim sem búa í nágrenninu, af þeim sem hafa atvinnu við verksmiðjuna og tekjur, rekið upp ramakvein: „Nei, endilega hreint áfram með reksturinn,“ — „þrátt fyrir það að mengunarvarnirnar séu kannske allar meira og minna úr lagi farnar.“ Ég skýt þessu aðeins inn hér til umsagnar í sambandi við mengunarhliðina.

En af því að það er komið að lokum þessa máls, endanlegri afgreiðslu hér á Alþ., þá vil ég segja fáein orð um viðhorf mitt til málsins frá byrjun.

Ég var frá byrjun andvígur þessu máli og fór ekki dult með það. Kosningar á Vesturlandi í vor, a. m. k. í þeim byggðarlögum, sem næst liggja verksmiðjunni, snerust að miklu leyti um þetta mál. Þá héldu allir þar efra, eða mjög margir og áreiðanlega allir frambjóðendur hinna flokkanna að landið lægi þannig að sá, sem væri á móti þessari verksmiðju, væri ekkert annað að gera heldur en tapa atkv., vísasta leiðin til þess að tæta atkv. af mönnum væri sú, að sýna í þessu sambandi fram á svokallað ábyrgðarleysi gagnvart efnahag fólks þar efra og atvinnulífi.

Þetta fór nú öðruvísi. Sá flokkur, sem stóð gegn verksmiðjunni, stórjók fylgi sitt. Og þá fer að renna upp ljós fyrir mönnum. Þá fer að renna upp það ljós fyrir mönnum að almenningur sé kannske ekki eins hrifinn af þessu og stjórnmálamennirnir. Og ég hygg að þetta ljós hafi líka runnið upp fyrir mönnum víðar en í Borgarfirði, það sé kannske fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum mörgu og margvíslegu fyrirvörum sem menn gera hér nú í dag. Þessir fyrirvarar margir eru án efa gerðir vegna þess að menn hafa fundið andann gegn þessari verksmiðju úti meðal fólksins. Hann hefur verið að magnast æ meir. Hann dugar hins vegar ekki til að fyrirbyggja þetta óheillaverk, þetta óhappaverk, sem til stendur að vinna hér á Alþ. í dag með endanlegri samþykkt þessa máls. En ég vænti þess, ég treysti því að þetta hafi orðið holl lexía þrátt fyrir allt og í framtíðinni muni stjórnvöld ekki leyfa sér jafnmikla ósvífni og þau hafa leyft sér gagnvart almenningi í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég vænti þess að þegar upp koma skyld mál í framtíðinni, hvort heldur er að því er varðar mengunarhliðar þeirra eða annað slíkt, að þá muni stjórnvöld hafa vit á því að hlusta betur eftir því hvað fólkið hefur að segja.