26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3364 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þess máls, sem hér er nú til lokaafgreiðslu, var gerð grein fyrir afstöðu SF til þessa máls. Það var ítrekað við 2. umr. málsins og skal ég ekki fara mörgum orðum þar um frekar. En ég vil þó ítreka það að sú afstaða okkar til þessa máls nú byggist ekki á því að við séum alfarið andvígir slíkum atvinnurekstri sem hér er gert ráð fyrir, heldur byggist hún fyrst og fremst á því að þær kringumstæður í þjóðfélaginu og sá orkuskortur, sem ríkir í mörgum landshlutum, er að okkar áliti þess eðlis að það er ekki forsvaranlegt að festa þúsundir millj. kr. í atvinnurekstri hér á suðvesturhorni landsins á sama tíma og boðaður er stórkostlegur niðurskurður á opinberum framkvæmdum úti á landsbyggðinni. Þegar þetta mál var hér til 1. og 2. umr. var að vísu vitað um og var til meðferðar á þingi frv. það um efnahagsmál þar sem gert var ráð fyrir að ríkisstj. fengi heimild til þess að skera niður opinberar framkvæmdir um 3 500 millj. kr. Nú er þetta afgreitt mál hér á hv. Alþ. Hæstv. ríkisstj. hefur fengið slíka heimild í hendur sem hæstv. forsrh. boðaði hér fyrir nokkrum dögum að yrði notuð. Það er við þessar kringumstæður sem nú er til ætlast að hv. þdm. leggi blessun sína yfir það að setja a. m. k. 7–8 milljarða af hálfu ríkissjóðs til þess fyrirtækis sem hér er um fjallað, á sama tíma og þeir eru búnir að samþykkja niðurskurð á opinberum framkvæmdum, sem fyrst og fremst kemur til með að bitna á landsbyggðinni, upp á a. m. k. 3 500 millj. kr.

Það er ekki að ófyrirsynju að samviska sumra hv. stjórnarliða hér í hv. d. er óróleg. Það hefur komið fram við atkvgr. hér nú á þessum laugardagsmorgni og við þessa 3. umr. málsins að hann er margur stjórnarliðinn sem er rólegur að láta hafa sig til þess að staðfesta endanlega þessa ákvörðun hæstv. ríkisstj. ofan á það sem búið er að gera að því er varðar efnahagsmálin og niðurskurð úti á landsbyggðinni. Og ég er ekkert hissa á því þó að samviska hv. 9. landsk. þm. sé með órólegra móti undir þessum kringumstæðum. Ég hefði miklu frekar getað haldið að sú ræða, sem hv. 9. landsk. flutti hér áðan, hefði verið flutt af t. d. þm. Reykv. eða einhverjum slíkum heldur en að hún væri flutt af þm. Vestfjarðakjördæmis. Það fannst mér kórónan á það sköpunarverk sem hér virðist eiga að framkvæma nú á þessum morgni í þessari hv. deild.

Ég var satt að segja að vona það, eftir að ég heyrði upphafsorð á ræðu hv. 9. landsk. þm., að hún ætlaði sér að vera á móti þessu frv., að sjálfsögðu byggt á svipuðum röksemdum og afstöðu og ég hef tekið til málsins, þ. e. a. s. að með þessu er verið að dæma orkuskort yfir Vestfirði um nokkurra ára eða jafnvel nokkurra áratuga bil. Og mér finnst það satt að segja furðuleg yfirlýsing af þessum hv. þm. að segja það hér á Alþ. að með ákvörðun um stofnlínu til Vestfjarða sé líklega verið að byrja á öfugum enda á því að bæta úr þeim orkuskorti sem vestfirðingar hafa og koma til með að búa við um nokkur ár enn ef fram heldur sem horfir. Ég er ekki með þessu að fordæma að einu eða neinu leyti að farið sé út í smærri virkjanir. En smærri virkjanir, sem hægt væri að fara út í til þess að bæta orkuskort, sem nú þegar er fyrir hendi á Vestfjörðum, koma ekki til með að leysa þann vanda sem við er að glíma nú.

Fyrstu og aðalrökin, sem hv. 9. landsk. þm. taldi mæla með því að þetta fyrirtæki yrði reist, voru þau að við værum ekki tilbúin til að nýta orkuna í annað, til þess skorti bæði mannafla og fjármagn, og hvorki mannafla né fjármagn virðist mega leggja af mörkum til þess að bæta úr þeim orkuskorti sem t. d. vestfirðingar og aðrir landshlutar búa við og koma til með að búa við um nokkurra ára skeið. Úr þessum skorti má ekki bæta með því að setja fjármagn úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda. En það er réttlætanlegt að setja 7–8 milljarða úr ríkissjóði til framkvæmda sem þessara sem hér um ræðir, járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Þar skortir ekki fjármagnið til þess að verða við slíkum beiðnum eða ákvörðunum. Þetta finnst mér koma úr hörðustu átt af þessum hv. þm. sem á öðrum fremur kannske, — öðrum fremur, segi ég, og þá tala ég um þennan hv. þm. sem stjórnarliða, að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda, en ekki öfugt.

Það er rétt, sem þessi hv. þm. sagði, að það væri uggur í mörgu fólki úti á landsbyggðinni og hann ekki að ástæðulausu. Og hvað sem líður vonum þessa hv. þm. um það að þessi uggur reynist ástæðulaus þá held ég að ákvörðun sú, sem hér á nú að taka af stjórnarliðinu um byggingu þessarar verksmiðju, verði til þess að renna stoðum undir frekari ugg landsbyggðafólks heldur en eðlilegt mætti teljast. Ég er þeirrar skoðunar og það hefur margoft verið ítrekað hér að stefna núv. hæstv. ríkisstj. er þess eðlis í efnahagsmálum að það er verið að stiga til baka — stórt skref til baka — frá því sem var í tíð vinstri stjórnarinnar s. l. 3 ár, og þá á ég við þá alhliða uppbyggingu, þá byggðastefnu sem þá var í reynd. Nú standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd að búið er að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til niðurskurðar á opinberum framkvæmdum upp á a. m. k. 3 500 millj. kr., og felld var hér við atkvgr. í gær. till. þess efnis að heimila hæstv. ríkisstj. að taka lán til framkvæmda við stofnlínu. Með hliðsjón af því að a. m. k. ég hef heyrt um það raddir að fyrir liggi a. m. k. hugmyndir hjá sérfræðingum um að skera niður fjárveitingu, sem er á núgildandi fjárl. til stofnlínu sem á að leggja frá Mjólkárvirkjun til Breiðadals á Vestfjörðum, þá vil ég að þessu tilefni gefnu spyrja hæstv. iðnrh. — það hefði kannske verið eðlilegra að hæstv. fjmrh. hefði svarað slíku, en hann er ekki viðstaddur en ég vil eindregið óska eftir því við hæstv. iðnrh. að hann upplýsi það hér hvort slíkar hugmyndir eru uppi, og ef þær hugmyndir eru uppi, hvort hann ætlar sem ráðh. raforkumála að leggja blessun sína yfir slíkan niðurskurð. Ég spyr um þetta hér vegna þess að ég hef ástæðu til að ætla að það sé ekki rangt með farið að þessar hugmyndir séu uppi og slíkar tillögugerðir séu tilbúnar. Ef það væri, þá væri það til að kóróna enn frekar það sem gert hefur verið af hálfu núv. ríkisstj. í garð vestfirðinga í orkumálum. Og ég fer þess eindregið á leit við hæstv. iðnrh. að hann gefi hér og nú við lokaumr. þessa máls upplýsingar um það hvort slíkar hugmyndir séu uppi og hvort hann ætli að leggja blessun sína yfir slíkan niðurskurð. (Iðnrh.: Má ég heyra nánar um fsp.?) Það er fsp. um það hvort uppi séu hugmyndir um að skera niður fjárveitingu á núgildandi fjárl., sem er að upphæð 51.3 millj. kr., til stofnlínu úr Mjólkárvirkjun í Breiðadal á Vestfjörðum. Ég vil ekki slá föstu hvort hér er um réttar upplýsingar að ræða sem ég hef fengið, en ég óska þess eindregið að hæstv. iðnrh. upplýsi þetta mál hér áður en endanleg afstaða er tekin til þessa. (Gripið fram í.) Þú hefur ekki heyrt hennar getið. Gott og vel. En þá er hin spurningin hvort hæstv. ráðh. ætlar, ef slík hugmynd kemur fram, að leggja blessun sína yfir hana. Það er önnur spurningin, sem ég óska líka eftir að fá svar við. (Iðnrh.: Má ég svara því strax?) Gjörðu svo vel. (Iðnrh.: Ef þessi hugmynd kemur fram, þá er ég henni andvígur.)