25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

20. mál, upplýsingaskylda stjórnvalda

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Nokkrar setningar frá mér hafa orðið hæstv. ráðh. tilefni til langrar ræðu, svo að það er auðséð að þessar örfáu setningar mínar hafa einhvers staðar við einhver kaun komið, og ætlaði ég mér það þó ekki. Ég ætlaði ekki að fara að rifja upp þær umr. sem átt hafa sér stað um samband fjölmiðla og ríkisstj. í sambandi við landhelgismálið. En það get ég sagt hæstv. ráðh. og það geta aðrir blaðamenn staðfest að honum er mætavel kunnugt um það, hæstv. ráðh., að það var á tíma mjög slæm sambúð íslensku blaðanna og ríkisstj. út af landhelgismálinu og fréttaflutningi af því. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðh. sé svo gleyminn að hann sé búinn að gleyma því viðhorfi sem ríkti til þessa fréttaflutnings, ekki aðeins hjá mínu blaði, heldur t.d. hjá stærsta blaði landsins, Morgunblaðinu, og fleiri íslenskum fjölmiðlum. Mér er vel kunnugt um þær umr. sem fóru fram í blaðamannahópi um þetta. Mér er vel kunnugt um að til stóð að taka það mál fyrir á fundi í Blaðamannafélagi Íslands og samþykkja þar harðorðar vitur á ríkisstj. Ég ætla ekki að fara að rifja þetta mál upp núna, þetta mál er úr sögunni. Ég var aðeins að segja það hér áðan að ég vonaðist til þess að slíkt kæmi ekki fyrir aftur.

Hæstv. ráðh. beitti nokkuð ófögrum aðferðum til þess, eins og sagt er meðal almennings, að snúa mig niður. Hann segir hér uppi í ræðustól að hann hafi átt von á öðru heldur en því, að ég færi að ráðast að blaðafulltrúa Landhelgisgæslunnar og Landhelgisgæslunni sjálfri sem hafi verið að vinna það afrek núna réttilega að taka vestur-þýskan togara í landhelgi. Hann spurði: Af hverju er þm. með þennan tittlingaskít? Af hverju hleypur hann ekki heldur upp í ræðustól hér og rekur upp fagnaðaróp? Ég skal svara honum því.

Við þm. rekum ekki upp fagnaðaróp út af þessu máli, við vörpum öndinni léttar og segjum: „loksins“, og ég býst við að þjóðin geri það líka. Við segjum: „loksins“, vegna þess að við erum búin að bíða nokkuð lengi eftir því að svipaður atburður gerðist. Og við erum hvorki að ráðast að hæstv. ráðh. né Landhelgisgæslunni þó að við gagnrýnum það að íslendingar skuli fyrst fá fréttir af þessu mikilsverðasta hagsmunamáli sínu erlendis frá, en ekki frá íslenskum stjórnvöldum. Og ég vil benda hæstv. ráðh. á það að bæði hann og aðrir málsvarar íslendinga og Landhelgisgæslunnar í þessu máli hafa hvað eftir annað kvartað yfir því að erlend blöð og erlendar fréttastofur hafi fyrstar komið með fregnirnar og hafi þar rangfært og rangtúlkað íslenskan málstað. Ef það er rétt, hvernig stendur á því að ríkisstj. stendur sig ekki betur og sér um að fyrstu fregnir komi frá henni sjálfri,þannig að rétt sé með farið frá upphafi? Ég vil hreinlega vísa því á bug að tilraunir íslenskra blaðamanna til þess að veita almenningi sem fyrstar og sem bestar upplýsingar um þetta stærsta mál, sem þjóðin á, sé hægt að flokka undir togaranjósnir. Við erum engir togaranjósnarar, íslenskir blaðamenn. Og það er hrein óhæfa, þegar verið er að tala um tengsl íslenskra fjölmiðla og ríkisstj., að fara að tala um togaranjósnir og togaranjósnara í því sambandi. Það er engum manni sæmandi og ég veit, að hæstv. dómsmrh. gerir þetta kannske frekar óvart heldur en að tilætlun. Ég vísa því hreinlega á bug að tilraunir okkar til þess að upplýsa málin rétt og fljótt, eins og okkur er skylt að gera, standi í einhverju sambandi við togaranjósnir, við það að njósna um það hvar varðskipin séu á hverjum tíma og hvað þau séu að gera. Það á ekkert skylt við það. Ég vil jafnframt taka það skýrt fram og skýra hæstv. ráðh. frá því að það hefur gerst að lögreglumenn hafi haft samband við blöð og skýrt blöðunum frá því að þennan og þennan dag kl. þetta og þetta ætli þeir að handtaka afbrotamenn. Það hefur gerst, það er engin undantekning, það hefur komið fyrir, það er mér mætavel kunnugt um.

Ég er ekki að fara fram á það að varðskipin tilkynni okkur um það hvar þau verði á þessum og þessum tíma og hvenær þau ætli að taka þennan eða hinn landhelgisbrjótinn. Ég er að fara fram á að Landhelgisgæslan reyni að sjá svo til að íslendingar viti slíkar fregnir manna fyrstir og viti það frá ábyggilegum aðila, sem ég efast ekki um að Landhelgisgæslan og hæstv. yfirstjórnandi hennar, dómsmrh. sjálfur, eru. Ég vil heldur fá fregnir af þessu máli frá Landhelgisgæslunni og hæstv. dómsmrh., vegna þess að ég treysti þeim betur til þess að fara með satt og rétt mál en erlendum fréttastofum, og mér finnst það hrein óhæfa, að þegar ég er að biðja hæstv. ráðh. um að sjá svo til að ég geti fengið fréttirnar frá honum áður en ég fæ fréttirnar frá bresku fréttastofunum, þá fari hann að tala um togaranjósnir í því sambandi.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. frekar, enda eru þær komnar út í allsendis óskylt efni. En ég tek það fram enn og aftur að blöðin eiga skyldum að gegna við almenning í landinu. Þau eiga þeim skyldum að gegna við hann að upplýsa hann um gang mikilvægustu hagsmunamála þjóðarinnar, og það á ekki að torvelda þeim þetta starf. Það á ekki að torvelda þeim að geta sagt íslenskum almenningi hvað er að gerast á miðunum og það á ekki að taka þá áhættu að íslensk blöð vegna fréttaskorts verði að taka upp meira eða minna rangtúlkaðar fréttir úr erlendum fjölmiðlum. Hæstv. ráðh. hefur áður látið að því liggja að undir slíkum kringumstæðum eigi íslensku fjölmiðlarnir frekar að þegja heldur en að segja. Ég lýsi trausti mínu á honum að skýra rétt og satt frá og segi enn og aftur: Ég vil fá hans fregn af gangi málanna áður en ég les það í breskum blöðum eða heyri í bresku útvarpi.