28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3388 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur vissulega hreyft hér ákaflega þýðingarmiklu máli, kannske ekki síst og kannske frekast fyrir okkur hér, í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri, Það má segja að í sjávarútvegi séu hinir stærri togarar grundvöllur þess að fiskiðnaðarfyrirtækin fái gengið á þessum stöðum, og því miður verð ég að taka undir það að ekki finnst mér að nóg hafi verið aðhafst í því að leysa þessa deilu af opinberri hálfu þótt hins vegar skuli ég viðurkenna fúslega að það skref var stigið í sambandi við lausn bátakjaradeilunnar sem auðvitað kemur togarasjómönnum jafnt að haldi og jafnt til góðs eins og þeim sem á bátunum eru og þ. á m. þeim sem eru á minni togurunum, sem starfa eftir bátakjarasamningunum, en það er brúttófrádrátturinn sem hækka hefur átt í 10% og svo sá tími sem menn þurfa að vera lögskráðir til þess að njóta þessa frádráttar eða úr sex mánuðum í fjóra mánuði. Þá má benda á það að í sambandi við þá lausn voru gefnar yfirlýsingar um að það mundi verða komið á móti með ýmsar lagfæringar til þeirra sem stunda veiðar á fjarlægum miðum. Og ég geri ráð fyrir því að það muni ekki vera fyrirstaða á því að þeir, sem selja erlendis, eins og togarar gera oft, muni geta fallið þar undir.

Hv. þm. Magnús Kjartansson spurði hvað ríkisstj. hefði gert og mundi gera. Það er kannske full ástæða til að spyrja hann hvort hann fengist ekki til að betrumbæta nokkuð það sem skeði í hans ráðherratíð og hann beitti sér fyrir ásamt flokksbræðrum sínum, en þar á ég við lög frá 1973. Þannig stendur á nú að þótt undirmenn vildu koma á móti útgerðarmönnum um fækkum háseta dettur engum heilvita manni í hug meðal þeirra að gera það búandi við þau lög sem þeir félagar beittu sér fyrir hér á Alþ. þegar þeir fengu fest í íslensk lög kröfur yfirmanna sem hafa það m. a. í för með sér að ef fækkar um háseta á skipunum skiptist það, sem þar verður til sparnaðar milli allra, þ. á m. yfirmanna. En hásetarnir, sem eftir eru, taka auðvitað á sig hina auknu vinnu, en það, sem á að skiptast milli áhafnar, fer til yfirmanna jafnt. Ef hins vegar fækkar um vélstjóra fer sá sparnaður aðeins til skipta á milli vélstjóra, ef um annan yfirmann, þá meðal yfirmanna. En það er aðeins ef undirmaðurinn á í hlut að þá skiptist það milli yfirmanna líka. Ef undirmenn á skipunum eða þeir, sem standa í þessum samningum fyrir þá, færu að semja um fækkun á hásetum, þá mundu þeir aldrei gera það nema fram hjá þessu yrði komist því að hin aukna vinna mun falla á þá og þá er auðvitað spurningin um það hvernig megi komast fram hjá þessu og þá um leið hvernig sé hægt að fækka á þessum stærri skipum þannig að þeir komist niður á sama flöt og er á minni togurunum sem hafa farið fram hjá vökulögunum með öllu, sem mér er enn óskiljanlegt af hverju sé því að þegar þau voru sett var enginn íslenskur togari yfir 600 brúttólestir að stærð. En hvað um það, þetta er orðin staðreynd og því verður örugglega ekki breytt á þeim skipum, þessu hlutaskiptafyrirkomulagi sem þar er eða bátafyrirkomulaginu.

Spurningin er sú: Er hægt að komast fram hjá þessu með einhverjum öðrum hætti á stærri togurunum án þess að aukin vinna háseta, sá sparnaður sem verður þar fyrir útgerðina, fari beint til yfirmannanna sem bæta ekki við neinu í sinni vinnu? Þetta er auðvitað hægt með því að breyta vökulögunum. Nú hefur verið horft á þau lög eins og heilaga kú frá fyrstu tíð, og vissulega ber að meta þau eins og þau voru og eru. En eftir að síðasta umbótin á þeim lögum hafði staðið um nokkurn tíma þurfti að setja inn ný og harðari ákvæði en voru upphaflega í þeirri betrumbót, og þar á ég við hvíldartímann 12 tíma á móti 12 tíma vinnu, vegna þess að skipstjórar misnotuðu þessi lög og því var alveg af tekið að þeir mættu vinna meira þó að þannig stæði á. Það er auðvitað hægt að setja inn í þessi lög nú ákvæði um að hásetum sé leyft að vinna yfirvinnu gegn auðvitað greiðslu sem samið verður um, og þá ætti auðvitað að taka fram líka í þeirri breyt. um hve marga tíma væri að ræða á viku hverri. Þetta er hægt og þá er hægt að komast fram hjá þessu vandræðaástandi. Ég hef ekki heyrt annað hjá undirmönnum sem ég hef talað við úr togaramannastétt og reyndar samninganefndarmönnum líka en að þeim finnist þetta mjög athugandi leið. Þetta er auðvitað verk þingsins ef ekki verða skaðaðar samningaviðræður með þessu og það ber auðvitað að kanna meðal sjómannanna sjálfra og samninganefndanna.

Þá er annað sem skekkir ákaflega rekstrarmynd þessara tveggja stærða á togurunum, hinna minni og hinna stærri, en það eru greiðslur til lífeyrissjóða sjómanna. Á stærri togurunum er borgað af öllum tekjum sjómannanna, bæði kaupinu og tryggingunni. En á minni togurunum njóta þeir bátakjaranna, þar er aðeins borgað af fastri upphæð sem í sjálfu sér er allt of lág í dag. Við höfum rætt um þetta í okkar hópi í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem er langstærsti samningsaðilinn í þessu erfiða máli, og ég held að það muni ekki verða fyrirstaða á því að semja þar um fasta upphæð og breyta þessu. En það þýðir ekki um leið að það verði samið um sömu upphæð og er á bátunum, því að sannleikurinn er sá að greiðslur stærri togaranna í þennan sjóð hafa borið uppi greiðslurnar sem þegar eru hafnar til bátasjómanna, og það eru allt of lágar upphæðir sem bátaflotinn kemst upp með að borga í þennan sjóð, þær greiðslur yrði þá að hækka um leið ef þessi leið yrði farin. Og af því að hæstv. forsrh, benti á að það þyrfti að taka lausaskuldir og breyta þeim í lengri lán hjá togurunum, þá fyndist mér jafnframt sjálfsagt að þessi sterki lífeyrissjóður kæmi jafnframt á móti útgerðinni, á móti stærri togurunum, og breytti þá jafnframt þeim skuldum, sem eru í sumum tilfellum orðnar mjög háar og tilfinnanlega háar bæði fyrir sjóðinn og útgerðina, í langtímalán. Ég sé ekkert þessu til fyrirstöðu ef þetta gæti orðið til einhverrar hjálpar við lausn þessa máls.

Við skulum ekki heldur gleyma því að þessir stærri togarar hafa líka búið við það að nær árlega hefur Alþ. gert ráðstafanir sem hafa haft það í för með sér að þessir togarar hafa verið hraktir af hefðbundnum miðum. Um leið og einkaréttur ákveðinna plássa hefur verið virtur til þess að stunda veiðar þar, þá hafa t. d. reykvískir sjómenn verið hraktir af þeim miðum þótt þeir hafi stundað þau áratugum saman, og þó sérstaklega þessir stærri togarar, um leið og náðarfaðmurinn hefur verið opnaður fyrir smærri togurunum sem nota nákvæmlega sömu veiðarfæri og eru í mörgum tilfellum alveg jafnstórvirk veiðitæki og hinir stærri togarar þótt náðarfaðmurinn hafi verið opnaður á heimamiðum og alveg upp að ystu landhelgi, aðeins ef þeir voru skrásettir annars staðar en í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri. Og þetta hefur Alþ. líka gert.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta en ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að þetta er orðið alvarlegt mál vegna atvinnuástandsins á þessum stöðum, ekki aðeins þeirra sem á skipunum eru, heldur og þeirra sem hafa unnið hér í fiskvinnslufyrirtækjum. Og það er ekki lítið atriði jafnvel fyrir okkur hér í Reykjavík sem sumir vilja vera Íáta að sé einhver kaupsýslubyggð, — það er ekki orðið lítið atriði fyrir okkur hér í Reykjavík eða þjóðarbúið í heild það sem kemur hér til lands af fiski og er verkað í höfuðborginni sjálfri. Og ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að benda Magnúsi Kjartanssyni á að það, að hásetar á togurunum séu að mótmæla efnahagsstefnu ríkisstj. með því að hafa farið í verkfall núna er ekki rétt. Þeir eru hreinlega að berjast fyrir því að geta lifað af sínum launum.