28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Það er mikið rétt sem fram hefur komið að það er mjög alvarlegt mál að það skuli dragast svo á langinn að samið verði um kaup og kjör á stærri togurunum, þannig að þeir geti haldið á ný til veiða. Og vissulega er það mál sem snýr að hæstv. ríkisstj., enda hefur það komið fram hjá hæstv. forsrh. að hún hefur þegar boðið fram aðstoð sína til þess að finna lausn þessa vandamáls.

Það eru liðnar nær 3 vikur síðan þetta verkfall hófst. Það er allt of langur tími, en ég minni á það að árið 1973 stóð verkfall á togurum í 6 vikur, þannig að við höfum dæmi hið næsta okkur frá því þegar önnur hæstv. ríkisstj. fór með stjórn að ekki virtist að sínu leyti ganga lipurlegar að finna lausnina þá og var enda leyst með þeim hætti að sett voru lög hér á hinu háa Alþ. þar sem yfirmenn á skipunum gerðu verkfall nokkurn veginn um leið og sá fyrir lausn undirmannaverkfalls og það verkfall yfirmanná var leyst með lögum á Alþ. og m. a. með þeim hætti sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. áðan, að yfirmenn skyldu njóta betri kjara ef fækkaði um undirmenn á skipunum.

Það hafa ýmsir haft það á orði að rekstur stærri togaranna hafi verið langtum óhagkvæmari en þeirra minni. En þar er um að tefla þá sem ekkert þekkja til mólanna. Mannaflakostnaður á stærri togurunum, togara sem er 610 tonn miðað við togara sem er 490 tonn, er eftir því meðalskipi, sem þjóðhagsstofnunin reiknar með, 10 millj. kr. hærri en á þeim minni. Þeir eru skyldir til að hafa 25 menn um borð meðan hinir hafa 15–16 menn og þó er það svo að kjör skipverja á minni togurunum eru allajafna ívið betri og er augljóst enda hvern kostnað það hlýtur að hafa í för með sér að hafa 9–10 mönnum fleira á skipi. Enn fremur hygg ég að sá samanburður, sem gerður er á rekstri minni og stærri togara, sé ekki réttur. Á ég þá sérstaklega við það að minni togararnir, sem gerðir eru yfirleitt álfarið út úti á landsbyggðinni í samvinnu við fiskvinnslufyrirtæki, þurfa ekki að standa undir eins mikilli greiðslubyrði við rekstur sinn í landi og stærri togararnir yfirleitt verða að gera alfarið.

Löndunarkostnaður hefur víða alfarið verið greiddur og bifreiðakostnaður í landi einnig. Geymslurými fyrir veiðarfæri og annað þess háttar hefur einnig verið annaðhvort án keypis eða með litlum kostnaði. Ég held að ýmsir þessir þættir hafi ekki verið reiknaðir inn í þetta dæmi þegar verið er að bera saman rekstur stærri togara og hina minni svokölluðu. Munurinn er ekki enda stór þar sem velflestir minni togararnir nálgast 600 tonn, en nokkrir af þeim, sem taldir eru með þeim stærri, rétt um 700 tonn. Má enda geta þess að sumir af hinum stærri togurum; sem nefndir eru, voru það hagkvæmir í innkaupum að þeir hljóta verulega að draga úr þeim heildarkostnaði sem talinn er að falli á hina stærri. En það er alveg ljóst mál, og það er rétt að hv. þm. Reykjavíkur athugi það, að hér er um það að tefla hvort haldið verði áfram að gera út stóra togara, hvort togaraútgerð verði stunduð héðan frá þessari borg og Hafnarfirði og Akureyri. Það er ekki sótt héðan með sama hætti og t. d. ísfirðingar sækja á sín mið á smærri togurum sem landa kassafiski. Togarar héðan verða ekki gerðir út með þeim hætti að þeir verði kallaðir inn á 6–7 daga fresti til löndunar eins og nauðsyn er með kassafiskiskipin. Þessu hefur því miður ekki verið nægjanlega framfylgt, að landa nógu ört úr skipum sem tíðka þessa aðferð með ís í kassa, þannig að stórskemmdir hafa af hlotist og munum við enda þreifa á því að til þess þarf að gripa harkalega að því sé framfylgt eins og norðmenn gera alfarið eftir lögum og mönnum er refsað ef út af bregður að skip landi á 6 daga fresti og þurfa sérstakar ástæður að liggja fyrir ef þeim leyfist að landa kassafiski á 7 daga fresti eða eftir það.

Um það er að tefla varðandi reksturinn á stærri togara hvort hér á að halda áfram í Reykjavík t. d. og á þessum stöðum, sem ég nefndi, að gera út togara eða ekki. Miklu lengri leið á mið þarf að sækja. Enn fremur er það rétt að við þurfum að hafa breytilegar stærðir og togskip sem geta sótt á fjarlæg mið. Og þó að bent sé á að að sumu leyti kunni að vera óeðlilegt að banna 700 tonna skuttogskipi að sækja sömu mið og 500 tonna skipi, þá er ekki einvörðungu um það að tefla að þau hafi misjafnlega afkastagetu sérstaklega á miðunum heldur þurfum við líka að hafa það í huga að beita flotanum misjafnlega vegna þolni veiðisvæðanna og veiðistofnanna og þau stærri verða þess vegna að hlíta því að verða að sækja dýpra og lengra þótt að öðru leyti sé ekki hægt að finna sanngirni sem mæli með því að lokuð séu hin svonefndu hefðbundnu mið fyrir hinum stærri. Þarf að hafa þetta í huga alveg sérstaklega.

Ég vil og tel ekki umhendis — þótt ýmsum þyki það viðkvæmnismál á stundum, þá þarf þm. a. m. k. ekki að þykja það héðan af — að nefna dæmi um þau launakjör sem eru á þessum skipum og það er á skipi sem eftir athugun verður að telja að sé í meðallagi. Hef ég tekið upp þessar tölur af beinum launum skipverja í rúma þrjá síðustu mánuði eða fram í marsmánuð, frá miðjum des. og fram til miðs mars, yfir háveturinn sem er oft erfiður sóknartími og þarf þess vegna ekki að gera ráð fyrir því að sá tími gefi meira í aðra hönd en aðrir tímar ársins yfirleitt þótt á því kunni að geta verið mismunur. Hér er einvörðungu um heimalandanir að tefla þar sem markaðir okkar, eins og í Þýskalandi, höfðu lokast þegar þessi dæmi eru tekin. Og það eru mánaðarlaun skipverja á því sem ég vil álíta að teljast verði meðalskip að afla þennan tíma:

1. stýrimaður 238 932 kr. — Ég vek athygli á því að þetta eru beinar launagreiðslur, þar fyrir utan er frítt fæði og ýmis önnur kjör eins og menn þekkja í sköttum og öðru. — 2. stýrimaður 188 275 kr., 1. vélstjóri 238 932 kr., 2. vélstjóri 190 839 kr., 3. vélstjóri 169 029 kr., loftskeytamaður 185 563 kr., bátsmaður og 1. matsveinn 138 907 kr., netamenn 130 295 kr. og hásetar, 2. matsveinn og smyrjarar 126 074 kr.

Þó að ég fari með þessar tölur hér þarf enginn að skilja þær á þann veg að ég sé að leggja dóm á hvort hér sé um sanngjörn launakjör að tefla eða ekki. Ég tel aðeins ástæðu til þess að upplýsa þetta, líka vegna þess að þegar menn eru að hvetja til þess að gengið sé hratt í samninga, þá þyrftu þeir helst að gera sér grein fyrir því hverjar eru þær kröfur sem gerðar eru af hálfu sjómannasamtakanna og hver eru þau kjör sem launþegarnir í þessu tilfelli njóta.

Ég hef kynnt mér launakröfur yfirmanna, vélstjóra og loftskeytamanna og stýrimanna, og ég verð að segja það að ef ætti að taka mark á þeim þá er þar um hrikalegar kröfur að tefla og sumar næsta óeðlilegar. Ég sé ekki ástæðu til að ég fari að rekja þær sérstaklega, en ég tek undir það og legg áherslu á það að reynt verði með öllum hætti að leysa úr þessum bráða vanda þar sem gífurlegur fjöldi fólks í landi á mikið undir þessari atvinnugrein, eins og bent hefur verið á og sem dæmin sanna. Ég held að hið háa Alþ. þyrfti að taka það til athugunar skjótlega hvort ekki þarf að gera lagabreytingu varðandi hin viðkvæmu, að ég ekki segi heilögu vökulög, hvort ekki sé að því komið að þau þurfi endurskoðunar við. Ég játa að þetta er viðkvæmt efni og má ekki gera þar á breytingu nema í góðu samkomulagi við skipshafnir og hagsmunasamtök skipverja. Ég hef ekki trú á að það leiði til farsældar að Alþ. eitt taki slíkar ákvarðanir heldur sé það viðbúið því, ef næðist um það samkomulag, að staðfesta það með lagasetningu. Það er talið að hin stærri skipin mundu geta verið rekin með 19 manns, það er talið af þeim sem best til þekkja óráðlegt að fækka um of, t. d. vélamönnum sem telja verður að hafi verið um of t. d. hjá hinum smærri togurum. Það þarf alltaf að gá að því að umönnun þessara miklu, dýru og flóknu tækja sé nægjanleg. En ef samkomulag næst um það að fækka mannskapnum um borð í togurunum, þar af leiðandi með aukinni vinnu og álagi á þá sem eftir stunda störfin, þá er sanngjarnt og eðlilegt að kaupgreiðslur, sem hingað til hafa gengið til skipverja, skiptist upp á milli þeirra sem eftir verða. Mikinn hag mundi útgerðin samt hafa af þessu þar sem sparaðist bæði fæði og tryggingarkostnaður og enn fleira. En ég hygg þó að þetta sé sanngjarnt án þess að ég vilji að mínu leyti vera að gefa neinar ráðleggingar í þessu efni. Ég vildi samt láta það koma fram að ég teldi það eðlilegt og sanngjarnt að skipverjar nytu við fækkun þeirrar beinu launagreiðslu sem ella gengur til allrar áhafnarinnar þar sem í augum liggur uppi að álagið hlýtur að verða þeim mun meira nokkurn veginn á þann mannskap sem áfram stundar störfin um borð.

Ég beini því til hæstv. ríkisstj. að hún beiti sér að sínu leyti sem hún má nú til þess að stuðla að og aðstoða við lausn á þessu mikla vandamáli. Ég tek undir það að ég þykist hafa nokkurn kunnugleika af því að ekki hafi verið af hálfu þeirra, sem eiga að stunda sættir í þessu, lögð eins mikil áhersla á viðræður aðila og ég teldi ríka ástæðu til. Vil ég þá beina því til þeirra, sem að því starfa, að leggja mikla áherslu á auknar viðræður aðilanna vegna þess að hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera sá aðilinn sem á lokastigi málsins kynni að geta rétt fram hjálparhönd til þess að greiða fyrir lokalausninni, en kalla má að mjög litlar viðræður hafi enn farið fram milli aðila um þetta til lausnar þessu mikla vandamáli.