28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3405 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

93. mál, iðnfræðsla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég harma það að sjálfsögðu að hv. menntmn. þessarar d. skyldi ekki sjá sér fært að mæla með samþykkt þessa frv., ekki síst vegna þess að ég var búinn að gera mér um það vonir að þetta mál fengi farsæla lausn nú á þessu þingi og kannske með hliðsjón af því líka að það kjördæmi, sem hér á í hlut, átti tvo fulltrúa í menntmn. þessarar d. og það jók fremur bjartsýni mína en hitt. Það er að sjálfsögðu ekkert við þessu að segja. Þetta er á þessu stigi endanleg niðurstaða n. og við því er ekkert að gera úr því sem komið er. En ég held að það væri rétt að það kæmi hér fram, að því hefur ekki verið mótmælt af neinum aðila, svo að mér sé um kunnugt, að sá skóli, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, Iðnskólinn á Patreksfirði, hefur gegnt það miklu og mikilvægu hlutverki í iðnfræðslunni um áratugaskeið að það var vissulega kominn til þess tími að hann fengi viðurkenningu af hálfu löggjafans eins og aðrir skólar, sem sumir hverjir hafa kannske starfað miklum mun skemur en þessi.

Það er sjálfsagt rétt, þó að ég sé ekki nægilega kunnugur til þess að fjalla þar um, það sem fram kom í framsöguræðu frsm. menntmn. og þess álits, sem hér liggur fyrir, að það getur verið álíka statt um fleiri skóla en þennan sem fyllilega væru þess verðir að skapa þeim möguleika til áframhaldandi starfa. Með hliðssjón af því hefði menntmn. auðvitað átt að breyta frv. í það form að taka þessa skóla einnig inn í frv., að byggja afstöðu sína á því að viðurkenna að þessi skóli hafi sinnt þessu verkefni mjög vel, en viðurkenning hans gæti þýtt að fleiri kæmu á eftir.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál. Það er að vissu leyti rétt sem kom fram hjá frsm. n. að hér er ekki verið að fella neinn endanlegan dóm yfir þessu máli. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. sjái svo um að þeirri endurskoðun á iðnfræðslu, sem er vitnað til í nál., sem ég veit þó ekki hversu lengi er búin að standa yfir, sennilega nokkurn tíma, verði hraðað, og með hliðsjón af því að allir virðast um það sammála hversu miklu og mikilvægu verkefni þessi skóli hefur gegnt og kemur til með að gegna og að það verði rennt stoðum undir hans starfsmöguleika, þá sjái fyrr en síðar ljós hér á Alþ. frv. þess efnis að iðnfræðslulöggjöfinni verði breytt á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil a. m. k. fyrir mitt leyti leyfa mér að vona að svo verði. Mér sýnist reyndar að það megi skoða þetta álit, sem er sameiginlegt af hálfu menntmn., sem slíkt að það sé a. m. k. ekki útilokað að niðurstaðan geti orðið eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég ítreka það að ég vonaði í upphafi þegar ég flutti þetta mál að það fengi jákvæðari undirtektir og yrði til lykta leitt á þessu þingi. En héðan af er ekkert við því að gera sennilega. En ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. geri gangskör að því að flýta endurskoðun laga um iðnfræðslu og að komið verði fram með frv. sem stefni í svipaða átt og það frv. sem hér er til umr.