29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

334. mál, nýskipan iðnfræðslu og tæknimenntunar

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör við þessari fsp. og ég fagna því að það er markvisst, kannske hægt en markvisst, unnið að þessum málum og lagasetningar er að vænta innan skamms.

Hér er á ferðinni mjög stórt og mikilvægt mál. Það er alveg óumdeild nauðsyn aukinnar tækni- og verkþekkingar í landinu og það er brýn nauðsyn til þess að hún verði sem allra fyrst sett í það horf sem má kallast kannske nútímalegt, en sem alla vega er í senn í samræmi við vilja þeirra, sem veita slíka menntun, og þeirra, sem hennar æskja, enda hlýtur það að vera þeirra beggja hagur og ekki síst verður það hagur þeirra sem ávaxtanna eiga að njóta af verk- og tæknimenntun. Það er þess vegna sem ég vildi vænta þess að við sæjum sem fyrst niðurstöður af starfi þeirrar n. sem nú vinnur og ljóst er raunar af svörum hæstv. ráðh. að svo muni verða og að við getum þá innan allt of langs tíma gengið skrefi lengra í átt til þeirrar nýskipunar sem ég mundi vilja meina að kæmi út sem niðurstaða af starfi n. þeirrar sem hér var verið að spyrjast fyrir um og ég mundi einnig vilja ætla að mundi best þjóna hagsmunum þjóðarheildarinnar í þessu máli.