29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

331. mál, bætur vegna snjóflóðs í Siglufirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Í meðferð Alþ. breyttist frv. um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs á þann veg, eins og fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda, að inn í það voru sett svo hljóðandi ákvæði í stað upphaflegrar 6. gr.:

„Stjórn Viðlagasjóðs er heimilt í samráði við stjórn Bjargráðasjóðs að bæta tjón, sem orðið hafa af náttúruhamförum eða verða annars staðar á landinu.“

Á fundi stjórnar Viðlagasjóðs 15. apríl voru mál þessi til umr. og eftirfarandi var þar bókað: „Stjórnin lýsir þeirri skoðun sinni í sambandi við 6. gr. l. um ráðstafanir vegna snjóflóða í Neskaupstað að því er varðar samskipti Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs um fyrirgreiðslu vegna tjóna af náttúruhamförum, að Bjargráðasjóður starfi á sama hátt og hingað til, en Viðlagasjóður gripi aðeins inn í við meiri háttar tjón af völdum náttúruhamfara í líkingu við þau sem sjóðurinn hefur fengist við í Vestmannaeyjum og Neskaupstað.“

Viðræður fóru síðan fram milli Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs um það hvernig best mundi staðið að verkaskiptingu milli sjóðanna vegna heimildarinnar í 6. gr. l. er ég gat um áðan. Á sameiginlegum fundi stjórna Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs, sem haldinn var þriðjudaginn 22. apríl s. l., var rætt um þessa verkaskiptingu sjóðanna varðandi fyrirgreiðslu til þeirra sem verða fyrir tjónum af völdum náttúruhamfara, svo sem eldgosa, snjófljóða, skriðufalla, vatnsflóða og óveðurs. Eftir allítarlegar umræður var það álit fundarmanna að eðlilegast væri að verkaskipting sjóðanna færi eftir tjónaorsökum, þannig að Viðlagasjóður bætti eftir sínum reglum öll tjón, hvar sem þau verða í landinu, af völdum eldgosa og snjóflóða, en Bjargráðasjóður veitti fyrirgreiðslu vegna tjóna af völdum annarra náttúruhamfara, svo sem hann hefur gert hingað til.

Hjá Bjargráðasjóði munu nú liggja óafgreiddar umsóknir 28 aðila, einstaklinga og fyrirtækja, um fyrirgreiðslu vegna tjóna af náttúruhamförum, aðallega af völdum snjóflóða og hvassviðra sem orðið hafa á tímabilinu des. 1974 til febr. 1975. Þá hefur Viðlagasjóði borist eitt erindi þar sem farið er fram á bætur á grundvelli 6. gr. nýsettra laga. Í 25 tilvikum af þeim 28, sem nefnd voru, hafa farið fram matsgerðir. Tjón skv. matsgerðum nema samtals 16 848 738 kr. Ómetin eru tjón í Hnífsdal, á Siglufirði og í Fáskrúðsfirði sem ætla má að nema muni verulegum fjárhæðum.

Ekki er unnt að svara því afdráttarlaust á þessu stigi hvernig afgreiðslu einstakra bótakrafna verði háttað, en viðræður fara fram milli Viðlagasjóðs og Bjargráðasjóðs um það og væntanlega þá á grundvelli sameiginlegrar stefnuyfirlýsingar stjórna þessara sjóða.

Nýlega hefur verið gengið frá reglugerð vegna tjónanna í Neskaupstað, en það mál sat í fyrirrúmi. Verður áfram samhliða afgreiðslu þessara einstöku umsókna um tjónabætur unnið að mótun reglna er nauðsynlegt er að setja í tengslum við 6. gr. l. um Viðlagasjóð.

Þá vil ég láta þess getið, eins og raunar hv. þm. er kunnugt, að á vegum trmrn. hefur verið unnið að því að semja lög um allsherjartryggingu gegn náttúruhamförum og hefur frv. um þau efni, þ. e. a. s. um viðlagatryggingu eða viðlagatryggingasjóð, verið lagt fram hér á Alþ. og með því mótaðar nýjar framtíðarreglur um viðbrögð við stórtjónum á borð við þau sem fallið hafa undir Viðlagasjóð til þessa.