29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég held að það fari best á því að svara fsp. hv. 6. þm. Vestf. í einn lagi þótt hún sé í 4 töluliðum og vil ég gera það á þessa leið:

Sjónvarpið hefur kvikmyndað eða tekið á myndsegulband leikrit og leikritskafla af sviði Þjóðleikhússins og Iðnó. Slíkar upptökur af sviði eru mörgum tæknilegum örðugleikum háðar og eru alltaf lakari að gæðum en upptökur í sjónvarpssal. Nokkur leikrit hafa verið tekin í sjónvarpssal eftir að sýningum í leikhúsi hefur verið hætt. Leikrit sett á svið í leikhúsi eru ekki endilega gott sjónvarpsefni. Aðlögun leikhúsverka fyrir sjónvarpstöku getur verið allt að því jafnumfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni eins og ný sviðsetning mundi vera. Hefur verið talið að íslenskri leiklist sé betur þjónað af sjónvarpsins hálfu með sjálfstæðu framlagi þess, einkum að því er varðar flutning frumsaminna innlendra verka, eins og höfuðáhersla hefur verið lögð á, heldur en ef leikritaflutningur þess yrði aðeins bergmál af starfsemi leikhúsanna í höfuðborginni.

Sjónvarpið á ekki enn nauðsynlegan tækjabúnað til beinna útsendinga frá stöðum utan sjónvarpshússins. Ekki er kleift að taka upp fyrir sjónvarpið á almennri leiksýningu, m. a. vegna þeirrar miklu lýsingar sem sjónvarpsupptaka krefst. Varla er líklegt að starfsemi leikhúsa væri greiði gerður með því að útvarpa sérhverju leikriti, en ekki hefur verið reynt að semja um slíkt af ástæðum sem þegar hafa verið greindar.

Varðandi vilja menntmrh. að beita sér fyrir betri dagskrá að því er varðar leikrit, spurningu í 3. tölul., þá vil ég láta þetta koma fram: Í haust beitti ég mér fyrir því að rétta við þann fjárhagslega halla sem orðinn var á rekstri útvarpsins og nam 150 millj. kr. Ég minni á að verið er að ljúka við skoðun á rekstri útvarpsins með það fyrir augum að koma við meiri hagkvæmni og sparnaði heldur en til þessa. Í framhaldi af þessu vil ég segja það að ég vil beita mér fyrir því að útvarpinu og í þessu tilviki sjónvarpinu verði gert mögulegt að vanda enn betur dagskrá sína heldur en nú er, en það verður ekki gert að verulegu marki nema til komi meiri fjármunir. Jafnframt, eins og ég hef áður tekið fram í þessum ræðustól, hlýt ég að beita mér fyrir því að fjármagn verði útvegað til þess að treysta og ekki síst að ljúka við að koma sjónvarpinu áleiðis til allra landsmanna.