29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og þó kannske sérstaklega að því er varðar 3. liðinn. Ég var raunar ekkert í vafa um að hann væri þannig þenkjandi, hæstv. ráðh., að hann mundi vera til þess reiðubúinn að beita sér fyrir lagfæringu þessara mála. Ég þakka honum það, hann tók það sérstaklega fram hér.

Varðandi aðra liði svarsins er það að segja að ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki eins miklum annmörkum háð og þar kom fram að taka upp leiksýningar á almennri sýningu eða t. d. á lokaæfingum. Ég er kannske ekki nógu kröfuharður, en mér fannst ekkert athugavert við það sem var sýnt s. l. laugardagskvöld og upp var tekið í tilefni af 26 ára afmæli Þjóðleikhússins, ýmis atriði úr verkum sem þar höfðu verið sýnd. Ég hygg að því fólki, sem ekki gefst kostur á að njóta slíks að staðaldri, eins og aðilum á því svæði sem við erum nú að tala um, mundi þykja mikill fengur í slíku af hálfu sjónvarpsins. Og einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að það muni frekar vera einhver önnur sjónarmið sem ráða bak við það að sjónvarpið hefur ekki sinnt þessu verkefni sem skyldi eða betur en raun ber vitni heldur en það séu nokkrir tæknilegir gallar á því að framkvæma slíkt. Ég a. m. k. er um það viss að fólk úti í dreifbýlinu mundi taka því með þökkum og virða það og meta ef sjónvarpið sinnti þessari skyldu sinni, sem ég tel vera, með því að gefa fólki kost á að nýta þessa möguleika þó að það yrði kannske ekki 100% uppfærsla eða sýning miðað við að sjá það hér á sviðinu. Ég dreg sem sagt í efa að það séu einhverjir annmarkar á slíku.

Hitt er sjálfsagt rétt hjá hæstv. ráðh., að ef sjónvarpið ætlar að setja upp leikhús eða sýningar á eigin vegum til þess að flytja sjónvarpsáhorfendum, þá kostar það auðvitað stórkostlega aukið fjármagn. Nægir t. d. að nefna hið margumtalaða og fræga verkefni Lénharð fógeta sem ekki er farið að sjá dagsins ljós enn, en að því að tjáð er á að kosta a. m. k. 20 millj. Ef sjónvarpið ætlar að fara út á þá braut eins og þar virðist hafa verið mörkuð, þá er enginn vafi á því að það kostar ekki tug millj., heldar hundruð millj. að sjá fyrir framkvæmdum af því tagi. Hitt er að ég tel ljóst eða a. m. k. hefur ekki verið fram á það sýnt að það sé ekki fært tæknilega séð að taka upp á leiksýningum til þess að sýna í sjónvarpi og miðla þannig landbyggðarfólki af þessum nægtabrunni þeirrar listar sem hér er flutt á höfuðborgarsvæðinu.