29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Okkur er vafalaust öllum ljóst að þessi þáttur, þ. e. flutningur leikverka í útvarpi og sjónvarpi, er ákaflega þýðingarmikill. Hann er hins vegar töluvert háður sérstaklega tveimur þáttum, báðum þýðingarmiklum: Annars vegar getu íslenskrar kvikmyndagerðar, kunnáttu íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Mér þykir vænt um að geta sagt frá því hér og ég vil láta það koma fram að ég hef í menntmrn. orðið áþreifanlega var við áhuga hjá því fólki sem nú er og oft af veikum mætti og við erfið skilyrði að starfa við kvikmyndagerð hér á landi. Það vill afla sér aukinnar þekkingar á þeim málum og það hefur verið reynt, þótt í smáu sé, af hálfu menntmrn. að styðja nokkuð við bakið á þessu fólki í þess viðleitni. Hins vegar er svo hinn stóri hlutur, peningarnir. Það kostar mikið að bæta hér um, því að þetta er nokkuð viðamikið dagskrárefni. Það eru auðvitað erfiðir tímar í fjármálunum nú, eins og allir vita og títt er um talað á Alþ. þessar vikur og mánuði vil ég segja því að þinghald og stjórnarathafnir hafa á þessum vetri mjög snúist um efnahagsmálin og þau vandræði sem þar steðja að þjóðinni. Hins vegar er á það að líta og ég held að hv. alþm. hljóti að vilja meta það mikils að þessi stofnun, útvarpið, er sú stofnun sem best þjónar öllu landinu, allri þjóðinni. Það er alveg óhætt að segja þetta umbúðalaust svo að hér má nokkru til kosta einmitt vegna þess.

Í sambandi við leikritaflutninginn, eins og hér hefur komið fram, koma þar til mörg fagleg og tæknileg atriði og það er einmitt mjög ákjósanlegt að saman fari og hjálpist að til að þoka þeim málum áleiðis áhugi manna eins og þeirra hv. þm. sem hér hafa talað um þessi mál annars vegar og svo hins vegar kunnátta og sérþekking starfsmanna útvarpsins.