29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3419 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmasson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan, varaformaður útvarpsráðs að ég hygg. Hann sagði að það hefði verið ákveðið vegna mikils tilkostnaðar við Lénharð fógeta að sýna ekki fleiri slík verkefni á næstunni. Ég fagna hins vegar að sjálfsögðu þeirri ákvörðun útvarpsráðs að sýna 6–7 leikrit á ári á næstu árum. En manni verður hugsað til fjármögnunar á slíku fyrirtæki ef það á að gerast í svipuðu formi og t. d. Lénharður fógeti, ef hinir tæknilegu örðugleikar koma í veg fyrir að það sé gert frá leikhúsunum beint. Og þá hljóta menn að spyrja, með hverjum hætti útvarpsráð ætli að sjá svo til að þessari samþykkt verði framfylgt. En ég fagna því að sjálfsögðu að þetta eigi að gerast og einnig því að það muni verða 3–4 verk tekin upp á næstunni og sýnd, hafi ég skilið rétt.

Ég tek einnig undir það að mjög væri æskilegt að það væri meira um það af hálfu a. m. k. Þjóðleikhússins að sinna landsbyggðarfólki með þeim hætti að koma með leiksýningar út á land og fara í leikferðalög. Þetta hefur því miður verið í allmikilli lægð að undanförnu. En vonandi stendur það einnig til bóta eins og hitt, ef marka má orð hv. 11. þm. Reykv., varaformanns útvarpsráðs, að því er varðar leikritaflutning í sjónvarpi.