29.04.1975
Sameinað þing: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

194. mál, aldarafmæli landnáms Íslendinga í Vesturheimi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Sakir þess að hv. 1. flm. þessarar till. á ekki nú sæti á þingi, hef ég tekið að mér að fylgja till. úr hlaði. Till. er flutt af einum þm. úr hverjum þingflokkanna og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem á þessu ári er þess minnst að öld er liðin frá því að íslenskir landnemar tóku sér varanlega bólfestu í Vesturheimi, ályktar Alþ. að beina því til ríkisstj. að nú þegar verði skipuð þriggja manna nefnd til að gera um það till. til hennar á hvern hátt minnst verði aldarafmælis landnámsins af íslendinga hálfu, svo og um aukin tengsl hins íslenska þjóðarbrots vestanhafs við heimalandið.“ Þál. þessi er m. a. fram komin í tilefni af hinum ríka áhuga er fram kemur hjá vestur-íslendingum til að viðhalda íslensku þjóðerni og menningu og sterkum vilja þeirra til að efla þjóðernisleg tengsl hins íslenska þjóðarbrots við heimalandið.“

Till. þessi ætti ekki að þurfa mikinn rökstuðning því að engum blandast hugur um það að íslenskt landnám í fjarlægri heimsálfu er merkur atburður bæði í sögu íslendinga og þeirrar þjóðar er flestir landnemarnir gerðust þegnar hjá, kanadamanna.

Frá upphafi hafa verið sterk þjóðernistengsl milli landnemanna og afkomenda þeirra við heimaþjóðina. Þessi tengsl hafa tekið á sig mismunandi form eftir hinum mismunandi tímum, en e. t. v. hefur sjaldan verið jafnmikið um gagnkvæmar heimsóknir og nú, á síðari tímum sakir bættra samgangna. En allar götur frá upphafi landnáms hefur ýmis íslensk menningarstarfsemi þróast vestanhafs, t. d. bóka- og blaðaútgáfa á ensku og íslensku, og skemmst er að minnast stofnunar kennaraembættis í íslensku við háskólann í Winnipeg.

Full ástæða er til þess að íslendingar sýni vestur-íslendingum bróðurhug á þeim tímamótum sem nú ganga í garð. Slíkt mundi efla tengslin enn meir. Kemur ýmislegt til greina sem nauðsynlegt er að fjallað verði um og gerðar till. um hið allra fyrsta. Vestur-íslendingar sýndu íslendingum mikinn sóma og ræktarsemi á þjóðhátíðinni á s. l. ári. Er því ekki annað sæmandi en íslendingar endurgjaldi þá ræktarsemi á tímamótaári þeirra.

Í till. okkar er ekki tekið fram sérataklega á hvern hátt íslendingar skuli sýna frændum sínum vestanhafs sína af þessu tilefni. Þar kemur vitaskuld margt til greina, t. d. á sviði lista, skólamála og söguritunar. Það hefur að vísu komið út stórt verk sem heitir Saga íslendinga í Vesturheimi og var það mikið átak á sínum tíma. En þrátt fyrir það eru í þeirri sögu ýmsar eyður sem stafa einfaldlega af því að undirstöðurannsóknir í sagnfræðinni vantaði til þess að unnt væri að gera sögunni þau skil sem vert væri. Slíkt sögulegt verk um þá miklu þjóðflutninga, sem áttu sér stað, er bæði nauðsyn og væri einnig mikið menningarlegt framlag fyrir bæði heimamenn og íslendinga vestanhafs. Mér er kunnugt um að tveir ungir fræðimenn eru nú að vinna að rannsókn af þessu tagi eða vísi að slíkri sögu á vegum Sagnfræðistofnunarinnar og hafa þeir tekið fyrir viss héruð eða vissar sýslur. Persónulega teldi ég mjög mikilvægt að þessu verki yrði haldið áfram og það gert myndarlega úr garði. Það má einnig minna á það að árið 1950 kom út bók sem heitir Vestan um haf. Þar var úrval úr því sem íslendingar vestanhafs höfðu ort á íslensku. Mætti hugsa sér að slík bók kæmi út endurbætt í tilefni þessa árs. Slíkt verkefni er að vísu meira á þágu íslendinga sjálfra en vestur-íslendinga, en í því fælist ótvíræð viðurkenning á menningarframlagi landa okkar vestanhafs.

Ef litið er til skólamálanna, þá er árleg fjárveiting á fjárlögum til eflingar menningarsambands við vestur-íslendinga. Hún er að vísu ekki stór sú upphæð, hún var 90 þús. kr. í ár. Þetta framlag hefur verið notað fyrst og fremst til þess að styrkja námsmann til dvalar við Háskóla Íslands og eitthvað af því fé hefur einnig runnið til Þjóðræknisfélagsins. Þá hefur Alþ. íslendinga veitt 470 þús. kr. styrk til útgáfu Lögbergs og Heimskringlu og er því fé vissulega vel varið. Ef farið væri inn á það svið að efla tengslin í skólamálum eða á sviði fræðimennsku, þá víl ég sérstaklega benda á að mjög viðeigandi væri að athugað yrði hvort unnt væri að koma á sérstökum tengslum í sambandi við Stofnun Árna Magnússonar, þá stofnun sem geymir handritin okkar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu lengri, en ég vil vekja athygli á því sem raunar liggur í augum uppi að það þarf að hraða afgreiðslu þessa máls. Vil ég því biðja þá nefnd, sem fær mál þetta til athugunar. að gera það. Ég legg til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.