29.04.1975
Sameinað þing: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

205. mál, fjölþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Þar sem 1. flm. till. þeirrar, sem hér er til umræðu, situr ekki lengur á þingi, þá fylgi ég málinu úr hlaði.

Í umr. hér á landi um hina hefðbundnu atvinnugrein okkar og útflutningsmál þeirra gleymist það stundum að það er fleiri kosta völ í sölumálum okkar íslendinga en að framleiða ýmiss konar vörur hér og flytja þær út til neyslu á erlendum mörkuðum. Það getur líka verið álitlegur atvinnuvegur að flytja eitthvað af hinum erlendu neytendum hingað til landsins með íslenskum samgöngutækjum, fá þá til að nema hér staðar um stund þannig að þeir neyti ýmiss konar þjónustu hér á landi sem er svo margvísleg að ekki skal upp talið. Ekki síst á erfiðleikatímum í sölu- og markaðsmálum og þegar þjóðarbúið hefur orðið fyrir áföllum á hinum alþjóðlegu viðskiptamörkuðum okkar er brýn þörf á því að leitað sé allra tiltækra ráða til að styrkja stöðu þess með því að auka fjölbreytni atvinnuveganna.

Í hinum vestræna heimi hefur engin atvinnugrein þróast jafnhratt á undanförnum árum og ferðamál og ferðaþjónusta í víðasta skilningi þess orðs: Nær þessi starfsemi yfir fjölmarga þætti samgöngumála, starfsemi hótela og veitingahúsa, sölu matvæla og til margvíslegrar þjónustu sem þessari atvinnugrein fylgir. Sá þáttur þessarar atvinnugreinar, sem e. t. v. hefur náð örari vexti en flestir aðrir þættir, er svokölluð ráðstefnuþjónusta og valda því margar ástæður. Jafnframt er ljóst að arðsemi þessarar greinar er meiri en annarra þátta ferðamálastarfsemi og skal það nokkru nánar skýrt.

Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á þessu máli, bæði af íslenskum og erlendum sérfræðingum, og liggja ýmsar upplýsingar fyrir í samgrn. Könnun þessara mála í heild, ákvarðanataka og mörkun heildarstefnu í ferðamálum tekur vafalaust nokkurn tíma. Hins vegar má koma ýmsum þáttum í framkvæmd með skipulegum aðgerðum og viljayfirlýsingum hins opinbera. En till. þessi er fram komin í von um að þeim þáttum verði þegar sinnt.

Það þarf ekki að eyða að því mörgum orðum að hvers kyns ráðstefnuhald hefur mjög aukist á undangengnum áratugum vegna vaxandi samskipta þjóða og bættra samgangna. Við athugun, sem gerð hefur verið á þessum málum, hefur komið í ljós að hartnær helmingur alþjóðlegra ráðstefna hefur verið með innan við 100 þátttakendur. Eru þetta athyglisverðar upplýsingar fyrir okkur sem höfum ekki tök á því að hýsa mjög stórar ráðstefnur. En þessu til viðbótar kemur í ljós að upp undir 40% af ráðstefnunum höfðu 100–500 þátttakendur. Þannig er ljóst að langmestur hluti ráðstefnanna er sóttur af færri en 600 gestum. Þar af leiðandi má ætla að íslendingar réðu nú við móttöku þátttakenda flestra þeirra alþjóðlegra ráðstefna sem haldnar eru.

Í grg. með þáltill. er rakið hve mikið fé má gera ráð fyrir að ráðstefnugestir skilji eftir, og er það samdóma álit sérfræðinga að lönd þan, sem hýsa ráðstefnur, fái meiri tekjur af hverjum þátttakenda en af hinum almenna ferðamanni.

Þá hefur einnig verið á það bent að unnt ætti að vera að lengja nokkuð ferðamannatímann og tryggja þannig gistihúsum og öðrum, sem við ferðamál fást, sæmilegar tekjur lengri tíma á ári hverju en verið hefur með því að leitast við að halda ráðstefnur á öðrum tímum en yfir hásumarið. Ljóst er einnig að lega landsins er með þeim hætti að vel hentar að hittast hér þegar ráðstefnugestir eru bæði frá Evrópulöndum og Ameríku. Og þótt veðrátta geti hér verið rysjótt að vetrarlagi, þá er loftslag hér þó ekki kaldara en í öðrum norðlægum löndum á veturna.

Flm. telja að ekki hafi nægilega verið unnið að því að reka áróður og kynningarstarfsemi þar sem á þessar staðreyndir væri bent, en eðlilegt verður að telja að íslensku sendiráðin annist slíka upplýsingastarfsemi samhliða því sem íslenskir þátttakendur í fjölþjóðlegum ráðstefnum beini athygli annarra þátttakenda að Íslandi og vinni að því að við fáum hingað til landa eðlilegan skerf af ráðstefnum sem haldnar eru á vegum opinberra aðila. En þar að auki ber að sjálfsögðu að keppa að því að einkaaðilar á sviði viðskipta og margháttaðrar félagsstarfsemi hafi aðgang að upplýsingum um þá aðstöðu, sem hér er þegar fyrir hendi til ráðstefnuhalds, og verði hvattir til að beina sjónum sínum að Íslandi þegar þeir skipuleggja slíka starfsemi.

Flutningur till. þessarar miðar að því að vekja athygli á mikilvægi þessa máls og ýta undir aðgerðir af hálfu hins opinbera og raunar líka einkaaðila, enda ekki óeðlilegt að ríkisstj. beinlínis fæli fulltrúum á hinum ýmsu fjölþjóðlegu ráðstefnum og í alþjóðasamtökum að beita sér fyrir því að ráðstefnur séu hér haldnar ekki síður en í öðrum þátttökulöndum. Er það von flm. að slík upplýsingastarfsemi geti borið verulegan árangur, en hún hefur lítinn sem engan kostnað í för með sér. En samhliða yrðu kannaðar aðrar leiðir til þess að efla þessa starfrækslu hérlendis.

Ég legg svo til að máli þessu verði vísað til hv. allshn.