30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3447 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Oddar Ólafsson; Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa lagt þetta frv. fram. Ég tel að það sé mjög mikil nauðsyn á þeim lögum, sem hér um ræðir, og reyndar kannske merkilegt að það skuli ekki vera fyrr fram komið, svo vel sem við erum tryggðir fyrir öllu mögulegu og svo lengi sem náttúruhamfarir hafa verið þekktar í þessu landi.

Það er aðeins vegna eins atriðis sem ég kvaddi mér hljóðs, og það er að ég sakna þess að hér skuli ekki í upptalningu 4. gr. vera getið um fárviðri eða ofviðri. Að vísu er talið í skýringum að það hafi ekki þótt fært að gera þetta vegna þess að það sé erfitt að skilgreina ofviðri.

En ég álít að með þeirri hættu veðurfarsþjónustu sem nú er orðin, og fjölgun veðurathugunarstöðva eigi ekki að vera lengur nein vandkvæði á því að vita hvort um venjulegt rok er að ræða eða hvort um fárviðri eða ofviðri er að ræða. Þau hafa iðulega valdið miklu tjóni hér á landi þannig að ég held að það verði nú að athuga frekar hvort þetta atriði ætti ekki að koma inn í þetta frv. Ég segi svo, eins og síðasti ræðumaður, að ég fæ þetta mál til meðferðar í n. og vil aðeins lýsa ánægju minni og þakklæti yfir að það er fram komið.