30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3451 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. eru þessi tvö mál á dagskrá það nátengd að ég held að það geti ekki verið alvarlegt brot á þingsköpum að hafa þau undir í einu höggi og eiga þannig kost á því, að ná tveimur flugum í einu höggi. En fyrst og fremst ætla ég að tala um frv. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og breyt. á lögum í því sambandi.

Hér er sennilega um eðlilega og nauðsynlega breytingu að ræða, en ég vil aðeins vekja athygli á því að með þessari breytingu er farið inn á lánastarfsemi sem maður veit ekki hvað kann að kosta viðkomandi lántakendur þegar menn verða að neyðast til þess að taka þessi gengistryggðu lán. En eins og segir í 1. gr. er bankanum heimilt að lána bönkum, sparisjóðum, opinberum fjárfestingarsjóðum og ríkissjóði með þeim lánskjörum, að endurgreiðsla höfuðstóls og vaxta sé háð breytingum á gengi erlends gjaldeyris gagnvart íslenskri krónu. Ef við spyrnum ekki við fótum í gengisbreytingaæði okkar verður hér um mjög óvenjuleg lánskjör að ræða að mínu mati, því að það hefur skeð núna að við höfum breytt gengi íslensku krónunnar um 100% og það liðlega innan árs. Tvisvar sinnum hefur það núna hent mismunandi ríkisstj. á nokkurra ára bili þannig að ef við eigum að ætlast til þess að atvinnulífið eða einhverjir geti tekið slíkt fjármagn að láni, og tryggt með því móti eðli eða tilgang 1. gr., þá hljóta hér að vera á ferðinni slíkir okurvextir í framkvæmd að ýmsum mun blöskra. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu ef ég skil 1. gr. efnislega rétt.

Það var gert á sínum tíma að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var látinn taka á sig ákveðna gengistryggingu, eða Seðlabankinn réttara sagt gagnvart Verðjöfnunarsjóði, og var það mjög eðlileg kvöð. En þegar gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er komin svo langt niður að hún er komin niður fyrir núll eða orðin svo fá hundruð millj. kr. að ekki er hægt að framfylgja þeirri löggjöf sem gilti um Verðjöfnunarsjóðinn, þá er eðlilegt að reynt sé að móta aðra löggjöf er tryggi það að nokkur verðtrygging sé fyrir þennan sjóð, því að verkefni hans er þann veg háttað að óverjandi er annað en að hann sé gengistryggður.

Jafnframt þessu er ætlast til að ríkissjóður taki á sig kvaðir ef á þarf að halda, vissar skuldbindingar ef aðstæður gera það nauðsynlegt, og enn er ekkert vitað hversu háar tölur hér kann að verða um að ræða. Þetta er enn einn þátturinn í því sem Alþ. afgr. nú ótt og títt, að gefa út óútfylltar ávísanir eða réttara sagt víxla á ríkissjóð gagnvart verðbreytingu íslenskrar krónu.

Happdrættisfarganið er í algleymingi, ríkisskuldabréfaútboðin eru í algleymingi og stendur til að auka vegasjóðsfjármagnið með þessum hætti, og nú er hér enn ein silkihúfan á ferðinni, svo að vesalings ríkissjóður má nú fara að hugsa sig alvarlega um eða forsvarsmenn hans ef hægt er að senda endalaust útfylltar ávísanir sem hann á að standa skil á innan einhvers skamma tíma. Enginn veit hversu háar upphæðir hér er um að ræða, ekki nokkur maður. Ég viðurkenni að það er enn hægt að leitast við að koma með ný 1ög um vandamál verðtryggingar fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en ég vil aðeins veita vöngum yfir því hvort ekki gæti verið ákjósanlegri lausn fyrir hendi. Sennilega hafa þeir góðu sérfræðingar, sem mótuðu þetta frv., ekki fundið aðra lausn. En við stofnum hér til allverulegra skuldbindinga fyrir ríkissjóð ef við getum ekki fest gengi íslensku krónunnar betur en hefur tekist s. l. 7–8 ár. Ef okkur tækist það nú á Alþ. að hætta þessum gengisfellingaræfingum svona ótt og títt, þá er þessi löggjöf heilbrigð og eðlileg. En hún hlýtur að hafa mjög mikla hættu í för með sér ef gengið fellur jafnt og þétt, eins og skeð hefur á mörgum undanförnum árum, og ég veit ekki hvaða lánasjóður hefur tök á því að taka fjármagn með þeim kvöðum sem á verða lagðar samkv. 1. gr. og endurlána almenningi í landinu það og eiga það á hættu að gengið falli á einu ári allt að 100%. Það er engin smásveifla að eiga að ná því til baka aftur í jafngildiskrónum.

Hér er um geigvænlega þróun að ræða sem ég vildi aðeins vekja athygli á í sambandi við afgreiðslu þessa máls.